Síða 2113

Veruleg skerðing á óbyggðum víðernum

Fossinn Drynjandi í Hvalá.

At­huga­semd­ir bár­ust frá sex­tán aðilum og um­sagn­ir frá ell­efu stofn­un­um og sveit­ar­fé­lög­um vegna breytinga á skipulagi Árneshrepps. Skipulagsbreytingarnar snúa fyrst og fremst að gerð vinnu­vega um hið fyr­ir­hugaða virkj­un­ar­svæði á Hvalárvirkjunar á Óeigs­fjarðar­heiði, efn­is­nám­um og upp­setn­ingu vinnu­búða. Veg­irn­ir eru hugsaðir til frek­ari rann­sókna á svæðinu.

Landvernd er meðal þeirra sem gerir athugasemdir við aðalskipulagsbreytingar í Árneshreppi og segir að þær uppfylli ekki skilyrði náttúruverndarlaga þar sem engir almannahagsmunir krefjast röskurnar á náttúruverðmætum.

Fyr­ir­hugað virkj­un­ar­svæði er 265,5 fer­kíló­metr­ar, auk helg­un­ar­svæðis raflínu og Ófeigs­fjarðar­veg­ar. Vinnu­veg­irn­ir yrðu sam­tals 25 kíló­metr­ar að lengd. Þeir yrðu lagðir frá Ófeigs­fjarðar­vegi sunn­an Hvalár að Neðra Hvalár­vatni og þaðan að Neðra-Ey­vind­ar­fjarðar­vatni ann­ars veg­ar og ánni Rjúk­anda hins veg­ar. Þá er gert ráð fyr­ir nýj­um efnis­töku­svæðum í tengsl­um við veg­ina. Tvö yrðu á lág­lendi við Hvalárósa og eitt vest­an meg­in við Neðra-Hvalár­vatn, þ.e. uppi á Ófeigs­fjarðar­heiðinni. Sam­kvæmt skipu­lagstil­lög­un­um nú er einnig gert ráð fyr­ir tíma­bundn­um starfs­manna­búðum fyr­ir þrjá­tíu manns.

Í umsögn Umhverfisstofnunar er einnig vísað í náttúrverndarlög og stofnunin bendir á að óbyggð víðerni inn­an Árnes­hrepps á Strönd­um myndu skerðast veru­lega eða um allt að 180 fer­kíló­metra við gerð vinnu­vega og efn­is­náma um fyr­ir­hugað virkj­ana­svæði Hvalár­virkj­un­ar. Skerðing víðerna myndi aukast um 40-60 km² kæmi til upp­bygg­ing­ar virkj­un­ar­inn­ar. Samkvæmt náttúrverndarlögum á að standa vörð um óbyggð víðerni en þeim fer fækkandi og Umhverfisstofnun segir að þar með ætti verðmæti þeirra svæða sem eft­ir eru að aukast í sam­ræmi við það og rík­ari áhersla að vera á lögð á vernd þeirra.

Lestrarfélagið fyrr og nú

Bókasafnið í gamla barnaskólanum að Sæbóli í Aðalvík.

Í Vísindaporti föstudagsins í Háskólasetri Vestfjarða verður fjallað um lestrarfélög í Sléttuhreppi fyrr og nú. Andrea Harðardóttir sagnfræðingur og Jóna Benediktsdóttir, skólastjóri Grunnskólans á Ísafirði, flytja erindið saman en þær eru báðar ættaðar frá Horni í Sléttuhreppi og hafa dvalist þar mikið í gegnum tíðina.

Undir lok 19. aldar var lestrarfélag stofnað í Sléttuhreppi. Starfsemin virðist hafa lognast út af fljótlega en upp úr aldamótunum 1900 var það endureist og starfaði á meðan að hreppurinn var í byggð. Sumarið 2016 var sett upp bókasafn í Gamla barnaskólanum að Sæbóli í Aðalvík. Tilgangurinn með því var m.a. sá að endurvekja starfssemi gamla lestrarfélagsins að einhverju leyti. Í erindinu verður sagt frá því því hvernig sú hugmynd kom upp að endurreisa lestrarfélagið og hvert markmiðið með því sé.

Jóna Benediktsdóttir er aðstoðarskólastjóri Grunnskólans á Ísafirði en starfar í vetur sem skólastjóri. Hún er ættuð frá Horni í Sléttuhreppi en eiginmaður hennar, Henrý Bæringsson frá Sæbóli í Aðalvík.  Á sumrin dvelja þau iðulega á Sæbóli eða á Horni í sumarhúsum fjölskyldna sinna.

Andrea S. Harðardóttir er sagnfræðingur og sögukennari við Menntaskólann á Ísafirði. Hún er ættuð frá Horni í Sléttuhreppi og dvelur þar reglulega á sumrin í sumarhúsi fjölskyldunnar.

Vísindaportið stendur frá 12.10-13.00 í kaffistofu Háskólaseturs og eru allir velkomnir.

Oftast strikað yfir nafn Ásmundar Einars

Ásmundur Einar Daðason

Ásmund­ur Ein­ar Daðason, odd­viti Fram­sókn­ar­flokks­ins í Norðvest­ur­kjör­dæmi, var oft­ast strikaður út í þing­kosn­ing­un­um á laug­ar­dag­inn miðað við þrjá efstu fram­bjóðend­ur eða sam­tals 105 sinn­um. Þetta kem­ur fram í upp­lýs­ing­um frá yfir­kjör­stjórn kjör­dæm­is­ins. Næst­ur kem­ur Guðjón S. Brjáns­son, odd­viti Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, með 48 út­strik­an­ir.

Bjarni Jóns­son, annar maður á lista Vinstri­hreyf­ing­ar­inn­ar – græns fram­boðs, kem­ur þar næst með 40 út­strik­an­ir og síðan Lilja Raf­ney Magnús­dótt­ir, odd­viti VG, með 39 út­strik­an­ir. Haraldur Benediktsson, oddviti Sjálfstæðislflokksins, var strikaður út 35 sinnum.

Stefán Vagn Stef­áns­son, þriðji maður á lista Fram­sókn­ar­flokks­ins var strikaður 19 sinn­um út, Rún­ar Gísla­son, þriðji maður á lista VG, 17 sinn­um og sama á við um Teit Björn Ein­ars­son, þriðja mann á lista Sjálf­stæðis­flokks­ins.

 

Fimmtán strikuðu yfir nafn Höllu Sig­nýj­ar Kristjáns­dótt­ur, sem var önn­ur á lista Fram­sókn­ar­flokks­ins, og sama á við um Bergþór Ólason, odd­vita Miðflokks­ins. Nafn Þór­dís­ar Kol­brún­ar Reykjfjörð Gylfa­dótt­ur, sem var önn­ur á lista Sjálf­stæðis­flokks­ins, var strikað út 14 sinn­um.

Fjór­ir strikuðu út nafn Sig­urðar Páls Jóns­son­ar, ann­ars manns á lista Miðflokks­ins, og jafn­marg­ir nafn Örnu Láru Jóns­dótt­ur, sem var önn­ur á lista Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. Þá strikuðu þrír út nafn Jón­ínu Bjarg­ar Magnús­dótt­ur, sem var þriðja á lista sama flokks.

Andri Rúnar í sænska boltann

Andri Rúnar með markakóngsverðlaunin sem hann fékk í sumar eftir markametið góða.

Bolvíski knattspyrnumaðurinn Andri Rúnar Bjarnason er að öllum líkindum á leið til sænska B-deildarliðsins Helsingborgar frá Grindavík. Andri Rúnar átti hreint stórkostlegt tímabil í sumar og markakóngur Pepsí-deildarinnar og var valinn besti maður deildarinnar. Hann segir í samtali við Vísi að viðræður séu á lokastigi en samningur hans við Grindvíkinga er að renna út. „Það er mjög líklegt. Viðræður við þá eru á lokastigi. Hvað varðar fótboltafræðin finnst mér þetta mest spennandi kosturinn sem er í boði,“ segir Andri Rúnar við Vísi.

Helsinborg er í sjötta sæti sænsku B-deildarinnar þegar að ein umferð er eftir.

Súgfirðingar drjúgir á Airwaves

Það er orðið árlegur viðburður að Súðfirðingar troði upp á Iceland Airwaves og þá jafnvel fleiri en einn og fleiri en tveir. Í vikunni sögðum við frá Between Mountains sem sigraði Músíktilraunir í byrjun árs og spilar á Airwaves þessa dagana. Hljómsveitin Rythmatik er sömuleiðis með tónleika á hátíðinni og er það sennilega í þriðja sinn sem þeir eru þar á dagskrá. Rythmatik sigraði Músíktilraunir árið 2015. Hljómsveitirnar eru tengdar nánum böndum eins og flestir vita. Rythmatikliðarnir Hrafnkell Hugi og Valgeir Skorri Vernaharðssynir eru bræður Kötlu Vigdísar sem er annar helmingur Between Mountains tvíeykisins.

 

Dagskrá Rythmatik á Iceland Airwaves

Miðvikudagur 1. nóvember

15:30 Viking Brewery Reykjavík (Ægisgarður)

Fimmtudagur 2. Nóvember
17:30 American Bar
19:15 Dillon

Fösturdagur 3. nóvember

17:15 Hitt Húsið
19:00 Drukkstofa Óðins
Laugardagur 4. nóvember
20:30 Hard Rock Café (ON VENUE)

Vestfirðingum fjölgar

Í lok september var íbúafjöldi á Vestfjörðum 6.990 og hafði fjölgað um 80 manns frá sama tíma fyrir ári. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu Íslands. Mesta fjölgunin var í Ísafjarðarbæ eða um 70 manns og í lok þriðja ársfjórðungs bjuggu 3.690 manns í sveitarfélaginu. Mest fækkaði í Strandabyggð þar sem íbúatalan fór úr 480 í 450 á einu ári.

Frá þriðja ársfjórðungi 2016 til loka sama ársfjórðungs 2017 fjölgaði íbúum í Bolungarvík, Ísafjarðarbæ, Súðavíkurhreppi og Reykhólahreppi en fækkaði í Strandabyggð og Árneshreppi. Íbúafjöldinn stóð í stað í Vesturbyggð, Kaldrananeshreppi og Tálknafjarðarhreppi.

Alls bjuggu 346.750 manns á Íslandi, 176.590 karl­ar og 170.160 kon­ur, í lok sept­em­ber Á höfuðborg­ar­svæðinu bjuggu 221.480 manns en 125.270 utan þess. Í lok þriðja árs­fjórðungs bjuggu 36.690 er­lend­ir rík­is­borg­ar­ar á Íslandi. Flest­ir þeirra eru Pól­verj­ar.

Misvísandi niðurstöður

Það er ekki hægt að segja að könnun bb.is á vilja kjósenda fyrir kosningar hafi að öllu leyti gengið upp, en hugsanlega gefið vísbendingar um hvar hugur kjósenda í Vestfjarðarhluta kjördæmisins lægi. Lesendur bb.is reiknuðu með meira tapi Sjálfstæðisflokksins en raun varð en fylgi Framsóknarflokks og Vinstri grænna var nákvæmlega niðurstaða kosninga, 18% til Framsóknarflokks og 18% til VG. Lesendur bb.is voru bjartsýnni fyrir hönd Bjartrar Framtíðar og Pírata en raun varð á en höfðu enga trú á að Miðflokkurinn væri málið í kjördæminu. Viðreisn og Samfylking voru nokkurn veginn á pari en Flokkur fólksins heldur stærri að lesendur gerðu ráð fyrir.

En, svona könnun er nú meira til gamans gerð og hefur engar fræðilegar undirstöður.

Aflaverðmætið lækkar um 11,7 prósent

Afla­verðmæti ís­lenskra skila í júlí var rúm­lega 8,3 millj­arðar króna sem er 11,7% minna en í júlí á síðasta ári sam­kvæmt töl­um Hag­stof­unn­ar. Fiskafli var rúm 73 þúsund tonn sem er 3% meira en í júlí 2016.

Verðmæti botn­fiskafl­ans í júlí nam tæp­lega 5,1 millj­arði króna sem er 12% sam­drátt­ur sam­an­borið við júlí 2016. Verðmæti þorskafl­ans dróst sam­an um 5,5% og nam 3,1 millj­arði þrátt fyr­ir 22% aukn­ingu í afla­magni.

Afla­verðmæti upp­sjáv­ar­teg­unda nam rúm­lega 1,6 millj­arði sam­an­borið við 2,3 millj­arða í júlí í fyrra en verðmæti flat­fiska jókst um tæp 23% á milli ára og var tæp­lega 1,2 millj­arður króna í júlí. Verðmæti skel- og krabba­dýra jókst einnig og nam 405 millj­ón­um sam­an­borið við 358 millj­ón­ir í júlí í fyrra.

Á 12 mánaða tíma­bili, frá ág­úst 2016 til júlí 2017 nam afla­verðmæti ís­lenskra skipa 111,5 millj­örðum króna, sem er 18,8% sam­drátt­ur miðað við sama tíma­bil í fyrra.

30 daga skilorð fyrir innbrot

Tveir karlmenn og ein kona hafa verið dæmd í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi hvert fyrir sig fyrir þjófnað. Þau voru dæmd fyrir að hafa brotist inn á veitingastaðinn Simbahöllina á Þingeyri. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur kemur fram að þau stálu meðal annars 10-15 flöskum af léttu og sterku áfengi, 50 flöskum af bjór, 4 pökkum af te, Philips hljómflutningstækjum, tveimur farsímum ásamt skiptimynt allt að 40 þúsund krónum. Þau játuðu brot sitt skýlaust.

Nýtt viðvörunarkerfi

Veðurstofan tók í dag í notkun nýtt viðvörunarkerfi. Með nýju kerfi er leitast við að auka þjónustu við almenning og hagsmunaaðila. Helstu breytingar í útgáfu viðvarana verða þær að nýja kerfið tekur meira tillit til aðstæðna hverju sinni. Stakir veðurfarsþröskuldar verða úr sögunni, en það eru viðmið sem Veðurstofan hefur notað, svo sem 20 m/s fyrir vind og 100 mm úrkoma á 24 klst. Þau víkja nú fyrir viðmiðum sem taka tillit til árstíðar og aðstæðna í hverju tilviki fyrir sig. Viðvörunarkerfið byggist á alþjóðlegum staðli sem kallast CAP (Common Alerting Protocol) og er stafrænt snið fyrir miðlun neyðartilkynninga og viðvarana um náttúruvá. Útgefin skeyti eru á þekktu, stöðluðu formi sem gerir alla miðlun viðvarana samræmda yfir mismundandi samskiptaleiðir og miðla. Hvert CAP skeyti inniheldur upplýsingar um þá náttúruvá sem varað er við, landshluta sem viðvörunin nær til, gildistíma og mat á því hversu mikil áhrif umrædd vá getur haft á samfélagið. Fyrsta útgáfa kerfisins nær eingöngu til viðvarana vegna veðurs, en áætlað er að innan örfárra ára muni kerfið ná til allrar náttúruvár sem Veðurstofan vaktar.

Viðvaranirnar verða í litum; gulum, appelsínugulum og rauðum lit í samræmi við alvarleika væntanlegs veðurs. Litirnir eru að erlendri fyrirmynd og hafa fjölmargar evrópskar veðurstofur r tekið þá í notkun. Rauðar viðvaranir eru hæsta stig og boða mikil samfélagsleg áhrif af veðri; gular viðvaranir eru lægsta stig þar sem annað hvort samfélagsleg áhrif eru takmörkuð þó miklar líkur séu á veðrinu, eða minni líkur á áhrifum mikils veðurs lengra fram í tíman.

Viðvörunarlitur ákvarðast af mati sérfræðinga á væntanlegum áhrifum veðursins og líkum á því að spáin gangi eftir. Samfélagsleg áhrif geta verið mismunandi, s.s. truflanir á samgöngum, eignatjón, skemmdir á mannvirkjum og líkur á slysum, jafnvel mannskaða. Viðbragðsaðilar verða hafðir með í ráðum um útgáfu viðvarana á efri stigum og má þar nefna Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og Vegagerðina. Veðurfræðingar gefa frekari lýsingu á atburðinum í texta sem fylgir viðvöruninni. Áhrifatafla mun fylgja útgefinni viðvörun á vef Veðurstofunnar.

Viðvaranir Veðurstofunnar verða birtar á vefjum stofnunarinnar. Viðvaranaskeyti verður hægt að nálgast í gegnum vefþjónustu Veðurstofunnar fyrir birtingu á öðrum miðlum og fréttaveitum

Nýjustu fréttir