Föstudagur 18. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2113

Lýðháskóli næsta haust

Félag um stofnun Lýðháskóla á Flateyri auglýsir nú eftir framkvæmdastjóra en hingað til hefur öll vinna við uppbyggingu og þróun skólans verið unnin af rúmlega 30 manna hópi sjálfboðaliða úr hópi heimamanna, listafólks, sérfræðinga og skólafólks, en gert er ráð fyrir að framkvæmdastjóri taki til starfa hinn 15. febrúar nk, og stýri undirbúningi og þróun skólans sem vonir standa til að geti hafið starfsemi næsta haust. Stjórn félagsins hefur óskað eftir fundi með þingmönnum kjördæmisins um leið og þing kemur saman til að kynna þeim málið og ósk félagsins um kennsluframlag til skólastarfs með sambærilegum hætti og almennt gerist meðal framhalds- og háskóla.

 

Runólfur Ágústsson stjórnarformaður félags um lýðháskóla segir námsskrár að mestu tilbúnar, öll aðstaða er fyrir hendi og til stendur til þess að fara af stað með inntöku 60 nemenda strax næsta haust. Einnig vinni félagið að því að fjármagna sérstaklega kostnað við stofnun skólans, m.a. með stuðningi fyrirtækja og velunnara.

 

Runólfur telur samfélagsleg áhrif á Flateyri yrðu afar jákvæð með 60 nýjum íbúum í plássið á besta aldri auk þeirra starfa sem skólinn myndi skapa með beinum hætti en um er að ræða 2-4 föst stöðugildi auk 10-20 verkefnaráðinna kennara í hlutastörfum þar sem ávallt yrði leitast við að nýta staðbundna þekkingu. Einnig myndu börn nemenda (og starfsfólks) styrkja verulega starfsemi leik- og grunnskóla staðarins.

  • Markhópurinn er ungt fólk sem lokið hefur framhaldsskólaprófi án þess að vita hvað það vill, ásamt eldra fólki, 25-35 ára sem hætti framhaldsskólanámi á sínum tíma en vill koma aftur til náms og finna sína fjöl.
  • Fjölmennur hópur íslenskra ungmenna stundar í dag nám við lýðháskóla erlendis, aðallega í Danmörku og vinsældir lýðháskóla fara mjög vaxandi.
  • Starfsemi skólans getur sparað hinu opinbera umtalsverða fjármuni og komið í veg fyrir sóun í menntakerfinu þar sem stór hópur hefur árlega nám innan hins hefðbundna skólakerfis, án þess að vita í sjálfu sér hvert skuli stefna, og hverfur síðan frá slíku námi eftir mikinn tilkostnað, bæði persónulegan og samfélagslegan.
  • Ekki verður áhersla á gráður eða einingar, heldur að gera það sem eitt sinn var kallað „að koma fólki til manns“, nám þar sem fólk lærir að gera hluti með kennara með því að framkvæma þá.
  • Búið er að þróa þrjár námslínur út frá greiningu á styrkleikum staðarins, kvikmyndavinnu (vegna mikils fjölda kvikmyndagerðarfólks sem á hús á staðnum og dvelur þar), tónlistarsköpun (vegna sterkrar tónlistarhefðar á Vestfjörðum) og umhverfis/sjálfbærnisnáms, þar sem áherslan er á að lifa af og með náttúrunni. Þar kenna heimamenn veiðar, harðfiskverkun, grjóthleðslu, björgunarstörf, fjallaskíðamennsku o.fl.
  • Félagið nýtur stuðnings heimamanna. Á stofnfundinn í febrúar sl. mættu 120 manns.
  • Öll aðstaða til skólahalds og húsnæði fyrir nemendur yfir vetrarmánuðina er til staðar á Flateyri, vannýtt í dag.
  • Formlegt samstarf er við Fræðslumiðstöð Vestfjarða um málið og  sömuleiðis verður leitað samstarfs við Háskólasetur Vestfjarða og Menntaskólann á Ísafirði.

Umsóknafrestur um starf framkvæmdastjóra rennur út hinn 15. desember næstkomandi, starfsstöð hans er á Flateyri og segir Runólfur að búseta á atvinnusvæði Ísafjarðarbæjar sé skilyrði.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Vísindadagar í Menntaskólanum á Ísafirði

Menntaskólinn á Ísafirði.

Dagana 29. – 30. nóvember verða Vísindadagar haldnir í Menntaskólanum á Ísafirði. Hefðbundið skólastarf verður þá brotið upp m.a. með kynningum og sýningum nemenda á því fjölbreytta starfi sem farið hefur fram í skólanum.

Boðið verður uppá stuttmyndir sem nemendur hafa gert og byggðar eru á hinu stórskemmtilega kvæði Þrymskviðu og skáldsögunni Bjarna – Dísu, tölvuleiki sem nemendur hafa forritað sjálfir, Vestfjarðakort sem sýnir framtíðarsýn nemenda á möguleikum sem snúa að endurnýjanlegri orku, rannsókn á áhrifum hreyfingar á skammtímaminni, kynningarmyndbönd og  kynningar á verkefnum nemenda í námsgreinum. Nemendafélagið mun einnig verða með sérstakt framlag vegna daganna. Verknámshúsið verður opið þar sem hægt er að sjá nemendur vinna verkefni en þeir sáu m.a. um að hanna og smíða sérstök viskuljós í tilefni af vísindadögunum.

Vakin er sérstök athygli á skemmtilegum fyrirlestrum nokkurra vísindamanna sem segja frá viðfangsefnum sínum sem öll tengjast meira og minna Vestfjörðum. Þá verður einnig skype fundur með hinum eina sanna Ævari vísindamanni.

Dagskránni lýkur með verðlaunaafhendingu á fimmtudeginum. Allir íbúar skólasamfélagsins eru sérstaklega velkomnir í skólann á meðan á vísindadögum stendur. Dagskrána má sjá í heild á heimasíðu skólans

bryndis@bb.is

Auglýsing

Vilja afleysingaskip í fjarveru Baldurs

Breiðafjarðarferjan Baldur.

Ekki er víst hvort að Breiðafjarðarferjan Baldur siglir meir á þessu ári, en bilun kom upp í aðalvél skipsins í síðustu viku. Sérfræðingar hafa metið bilunina svo veigamikla að senda þarf vél skipsins á verkstæði Reykjavík. Á vef Samtaka atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum segir að ekki verði unað við þessa stöðu og að afleysingaskip verði að koma í fjarveru Baldurs. Farþegaskipið Særún hefur siglt út í Flatey en Særún er ekki bílaferja og hefur því ekki siglt milli Stykkishólms og Brjánslækjar.

smari@bb.is

Auglýsing

Brýnt að fá nýtt rannsóknarskip

Bjarni Sæmundsson RE við bryggju á Ísafirði.

Félag skipstjórnarmanna, áður Farmanna og fiskimannasamband Íslands, skorar á sjávarútvegsráðherra að beita sér innan ríkisstjórnarinnar fyrir smíði nýs rannsóknarskips. Rannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson sem smíðaður var árið 1970 uppfylli ekki lengur þær kröfur sem gera verði til slíkra skipa. Þetta kemur fram í ályktun frá þingi félagsins sem haldið var í lok síðustu viku.

Í ályktuninni segir jafnframt að þing félagsins telji brýnna en nokkru sinni að stórauka veiðarfæra-, haf- og fiskirannsóknir. Aukin þekking á þessum sviðum sé grunnforsenda fyrir betri nýtingu á auðlindum hafsins.

Í haust kom upp umfangsmikil bilun í skipinu og þurfti að leigja skip til að fara í rannsóknarleiðangur í hans stað.

smari@bb.is

Auglýsing

Búið að grafa 11,1 prósent af göngunum

Í síðustu viku voru grafnir 60,6 m í Dýrafjarðargöngum. Heildarlengd ganganna í lok viku 47 var 589,9 m sem er 11,1% af heildarlengd ganganna. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni var farið í gegnum nokkuð blautt svæði í vikunni en að öðru leyti voru göngin nokkuð þurr og bergið var að springa þokkalega.

Fyrri part vikunnar var efni keyrt í vegfyllingu og nýi vegurinn tengdur við eldri þjóðveg.  Eftir það var öllu efni keyrt á haugsvæði.

Á meðfylgjandi mynd er verið að þvo berg áður en steypu er sprautað á það og svo er verið að hlaða sprengiefni. Vegna vatns sem kemur úr borholum er notast við plaströr sem eru fyllt með sprengiefni. Rörunum er stungið í holurnar og svo er sett lítil dýnamítstúpa með hvellettu í endann til að koma sprengingunni af stað.

smari@bb.is

Auglýsing

1.335 tonn til Ísafjarðarbæjar

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur afgreitt umsókn Ísafjarðarbæjar um byggðakvóta á yfirstandandi fiskveiðiári. Niðurstaða ráðuneytisins er að 1.335 þorskígildistonn koma í hlut sveitarfélagsins og skptist kvótinn eftir byggðakjörnum Ísafjarðarbæjar. Mest fer til Flateyrar, eða 300 tonn. Til Þingeyrar fara 281 tonn og 222 tonn til Hnífsdals. Suðureyri fær 192 tonn og Ísafjörður fær 140 tonn.

smari@bb.is

Auglýsing

Fært norður í Árneshrepp

Í morgun byrjaði Vegagerðin að moka veginn norður í Árneshrepp. Vegurinn hefur veruð ófær síðan frá því í norðanhvellinum í síðustu viku. Á fréttavefnum Litlahjalla segir að um talsverðan mokstur er um að ræða og tvö snjóflóð féllu úr Kjörvogshlíðinni. Vegurinn er orðinn fær en verið er að moka útaf ruðningum. Flutningabíll frá Strandafrakt fór norður í dag til sækja ull á bæjum.

smari@bb.is

Auglýsing

Sænsk kvikmyndaveisla

Karin Franz Körlof og Sverrir Guðnason í hlutverkum sínum í Den allvarsamma leken.

Sænska sendiráðið býður Ísfirðingum í bíó á morgun og verða sendar tvær myndir. Håkan Juholt sendiherra mætir á svæðið með glögg og með því. Á Facebooksíðu viðburðarins er kosið milli mynda, en tvær af þremur eftirfarandi myndum koma til greina.

  • Hundraåringen som klev ut genom fönstret och försvann (2013)
  • Odödliga (2015)
  • Den allvarsamma leken (2016)

Sýningartímar verða kl. 18:00 og 20:30.

Þess má geta að Sverrir Guðnason leikur aðalhlutverk í Den allvarsamma leken, en Sverrir rekur ættir sínar vestur á firði, til Ögurvíkur í Ísafjarðardjúpi móðurlegg og til Súgandafjarðar í föðurlegg. Hann er barnabarn Sverris Hermannssonar fyrrv. ráðherra og bankastjóra og faðir hans er Guðni Jóhannesson orkumálastjóri frá Botni í Súgandafirði.

smari@bb.is

Auglýsing

Fiskeldi er helsta tækifæri til vaxtar í íslenskum sjávarútvegi

Runólfur Geir Benediktsson forstöðumaður Sjávarútvegsteymis Íslandsbanka segir að eitt helsta tækifæri Íslands til vaxtar í sjávarútvegi sé á sviði fiskeldis. „Í Færeyjum og Noregi er fiskeldi orðið jafn umfangsmikið eða stærra en fiskveiðar. Hérlendis telur fiskeldi aðeins um 5% af útflutningsverðmætum fiskveiða“, segir hann í viðtali við Morgunblaðið, ViðskiptaMoggann í tilefni af því að bankinn gaf á dögunum út skýrslu um íslenskan sjávarútveg.

Runólfur Geir bendir á að í fyrra hafi verið metár í íslensku fiskeldi og framleiðslan nam 15 þúsund tonnum. Áætlanir gera ráð fyrir að framleiðslan verði 20 þúsund tonn í ár. Til samanburðar framleiða Færeyingar um 70 þúsund tonn og Norðmenn um 1,4 milljónir tonna.

Fiskeldi er síður en svo óumdeild atvinnugrein og hagsmunaaðilar hafa tekist hart á. Runólfur segir að atvinnuvegurinn sé að fara í gegnum vissa byrjunarörðugleika. „Það er því mikilvægt að ræða hann vel. Að því sögðu er vert að vekja athygli á að sitt sýnist hverjum um helstu atvinnuvegi landsins á borð við stóriðju, landbúnað og ferðaþjónustu.

Nú er stóra spurningin hvað við viljum að gert verði með fiskeldi hérlendis. Öflugustu fiskeldisfyrirtæki landsins eru að nálgast hámark þeirra leyfa sem þeim var úthlutað. Nú verður að taka ákvörðun um hvort það eigi að leyfa þeim að stækka, verða hagkvæmari og skila meiri útflutningsverðmætum“, segir Runólfur Geir.

smari@bb.is

Auglýsing

Styrktartónleikar fyrir Helga Guðstein

Þann 6. desember verða haldnir styrktartónleikar fyrir Helga Guðstein sem er aðeins 7 ára gamall en berst nú við hvítblæði. Hann greindist í apríl með bráða eitilfrumuhvítblæði og þá hófst 130 vikna ströng lyfjameðferð. Foreldrar Helga og systkini hafa nú flust búferlum frá Akureyri og suður enda þarf Helgi að mæta annan hvern dag í blóðprufur og tvisvar í mánuði er lyfjakúr. Fjölskyldan má ekki búa lengra en í 45 mínútna fjarlægð frá Barnaspítala Hringsins.

Nú eru tæpar 100 vikur eftir af meðferðinni og vinir fjölskyldunnar vilja létta undir með þeim fjárhagslega og eru tónleikarnir haldnir í Skjaldborg á Patreksfirði enda er móðir Helga Guðsteins Patreksfirðingur í marga ættliði. Í tilkynningu þeirra kemur fram að landslið tónlistarmanna á sunnanverðum Vestfjörðum muna koma fram á tónleikunum en kynnir verður Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri.

Fyrir þá sem vilja leggja fjölskyldunni lið má leggja inn á reikning 0153-05-060278, knt. 111154-6199

bryndis@bb.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir