Þriðjudagur 22. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2113

Vegurinn verður lokaður í vetur!

Berþór Ólason og Sigurður Páll Jónsson

„Ferjan Baldur er oft kölluð brúin yfir til Vestfjarða.“ segir á heimasíðu Sæferða, rekstaraðila Breiðafjarðarferjunnar.  Sú ótrúlega staða er nú uppi að önnur af tveimur samgönguleiðum á milli sunnanverðra Vestfjarða og Vesturlands er lokuð um ótilgreindan tíma.  Fyrsta frétt gaf til kynna að lokunin myndi vara í nokkra daga.  Önnur fréttatilkynningin frá Sæferðum gaf til kynna að viðgerð á skipinu tæki 3-4 vikur og í gær barst þriðja tilkynningin, en þar var sagt frá því að viðgerð muni taka 7 vikur hið minnsta og siglingar ekki hefjast aftur fyrr en á nýju ári!

Lokað í 3 mánuði?

Því miður er hér að líkindum um óraunhæfar væntingar að ræða, miðað við umfang bilunar og þann tíma sem tekið hefur að leysa sambærileg vandamál áður.  Þó að þeir sem hér skrifa séu ekki sérfræðingar í skipavélum (annar þó meiri en hinn), þá má af samtölum við þá sem til þekkja ætla að líklegra sé að stoppið vari nær þremur mánuðum en 7 vikum!

Leiguskip er eina lausnin

Þessi staða er fullkomlega ótæk.  Ef vegasamgöngur væru með forsvaranlegum hætti á leiðinni væri hugsanlegt að almenningur og atvinnulíf á sunnanverðum Vestfjörðum og ferðaþjónustan við Breiðafjörð gæti lifað með þessu, en eins og staðan er, þá er enginn kostur annar í stöðunni en að Sæferðir gangi til þess verks, undanbragðalaust, að fá leigt skip sem getur sinnt verkefninu á meðan Baldur er í viðgerð.

Bergþór Ólason

Sigurður Páll Jónsson

Höfundar eru þingmenn Miðflokksins í Norðvestur kjördæmi

Auglýsing
Auglýsing

Versta norðanhríðin í áraraðir

Mögu­lega þarf að fara allt aft­ur í fe­brú­ar­mánuð árið 1999 til að finna jafn­lang­an og leiðin­leg­an kafla með norðan­hríðum og gekk yfir landið frá miðviku­degi síðustu viku og fram á helg­ina. Rætt er við Einar Sveinbjörnsson veðurfræðing í Morgunblaðinu í dag. Hann bendir á að frá kvöldi 18. febrúar 1999 og fram á aðfararnótt 22. febrúar, eða fyrir tæpum 19 árum, hafi geisað stórhríð um norðanvert landið og verið því sem næst samfelld í þrjá til fjóra sólarhringa.

„Aðdrag­and­inn að hríðarbyln­um var reynd­ar nokk­ur ann­ar en nú. Þá var nær­göng­ul lægð fyr­ir norðan land, en nú ein­kennd­ist byl­ur­inn frek­ar af háum þrýst­ingi. Og margt gekk á. Til dæm­is kyngdi niður mikl­um snjó svo sem á Ak­ur­eyri, hús voru rýmd á Sigluf­irði, í Bol­ung­ar­vík. Snjóflóð féll úr Tinda­stóli og raf­magns­leysi var í Skagaf­irði. Veg­ir voru lokaðir meira og minna í nokkra daga líkt og nú,“ seg­ir Ein­ar.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

„Svo fór hann að hlæja.“

Konur sem starfa eða hafa starfað innan sviðslista og kvikmyndagerðar á Íslandi hafa nú líkt og konur í stjórnmálum birt undirskriftalista og sögur af kynferðislegri áreitni og ofbeldi í sínum störfum og er er fyrirsögnin tekin úr eftirfarandi sögu:

Ég var að leika í sýningu og varð hrifin af ljósamanninum. Við byrjuðum að hittast og ég vildi fara rólega og bíða með kynlíf þangað til við þekktumst betur. Kvöld eitt missti hann þolinmæðina og nauðgaði mér. Ég mætti ósofin og í áfalli á æfingu daginn eftir. Ég skalf og titraði við tilhugsunina um að hann vofði hátt yfir höfðinu á mér, að elta mig með eltiljósi. Mér fannst ég fangelsuð. Í hádeginu gat ég ekkert borðað, og þá sagði aðalleikarinn hátt og hæðnislega yfir borðið, svo allir heyrðu: Æ æ, mölvaði ljósamaðurinn í þér hjartað? Svo fór hann að hlæja.

Sögurnar fjalla ekki eingöngu um kynferðislega áreitni og ofbeldi heldur þann sjúka valdastrúktúr sem mætir konum og heldur þeim niðri. Þær virðast hafa minna vægi og vald og að hafna valdameiri karlmanni getur eyðilagt starfsferilinn

Ég gegni ábyrgðarstöðu innan kvikmyndabransans og hef hvorki tölur né yfirlit um öll þau skipti sem mér hefur verið mismunað vegna kynferðis míns gegnum tíðina. 

Ég hef setið á fundum þar sem hugmyndir mínar hafa verið þaggaðar og svo endurteknar af karlmanni skömmu síðar og þá á þær hlustað. Ég hef barist í óteljandi skipti fyrir því að jafnhæf kona sé ráðin frekar en karl og sjaldan á það hlustað. Ég hef endalaust reynt að hafa áhrif á að konur hafi ásýnd til jafns við karla í þeim verkefnum sem ég hef tengst og baráttan oft verið erfið og engu skilað, eins og að berja höfðinu við stein. Í kringum mig hefur launaleynd viðgengist lengi og þegar ég hef samið við karlkyns yfirmenn hef ég alltaf verið beðin um trúnað um þær tölur og ef ég hef brotið hann, hef ég komist að því að það var vegna þess að ég var með lægri laun en karl í áþekku starfi. Ég hef rekið mig á það að karlkynskollegar mínir hafa mun meira svigrúm til orða, athafna og mistaka án þess að vera hengdir fyrir það en konur. Ég hef ekki enga yfirsýn yfir hversu oft karlkyns yfirmaður í kringum mig hefur misbeitt valdi sínu. Ég man ekkert hversu oft ég hef fengið óviðeigandi, kynferðislegar og niðurlægjandi athugasemdir, sem eru augljóslega bara til þess að slá mig út af laginu og halda mér á mínum stað, í óörygginu. Magnið af þessu rugli er slíkt að ég hef enga yfirsýn lengur, en ég lít samt á mig sem “heppna” því mér hefur ekki verið nauðgað eða ráðist á mig líkamlega. En ansi oft andlega. Og það hefur áhrif til lengri tíma. En ég hef líka átt marga, marga, samstarfsmenn sem hafa komið fram af sjálfsagðri virðingu og réttlæti. Þeir eru bara ekki til umræðu akkúrat núna, þó þeir séu nauðsynlegur hluti af umræðunni til framtíðar.

Hér er hægt að nálgast undirskriftalistann og gefum þeim orðið:

Kynferðisofbeldi, áreitni og kynbundin mismunun á sér stað í sviðslista- og kvikmyndageiranum, rétt eins og annars staðar í samfélaginu.

Þá gerir smæð bransans og takmarkaður fjöldi hlutverka/tækifæra aðstæður erfiðari. Óþarfi er að taka fram að allir karlar gerast ekki sekir um áreitni eða mismunun – en hins vegar verða nær allar konur fyrir því á starfsferli sínum og það er algerlega óásættanlegt.

Við krefjumst þess að karlkyns samverkamenn okkar taki ábyrgð; að yfirvöld, leikhús og framleiðslufyrirtæki taki af festu á málinu og komi sér upp verkferlum og viðbragðsáætlun.

Við eigum ekki að þurfa að þegja lengur né leiða ástandið hjá okkur.

Við verðskuldum að okkur sé trúað og sýndur stuðningur. Fyrst og fremst á misréttinu að linna.

Við krefjumst þess að fá að vinna vinnuna okkar án áreitni, ofbeldis eða mismununar.

Við stöndum saman og höfum hátt.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Hlýnar næstu daga

Hláka framundan.

Í dag er spáð hægri vestanátt á Vestfjörðum og hita í kringum frostmark og á morgun verður áframhaldandi vestanátt og hlýnar í veðri. Á fimmtudag er spáð hvassri suðvestanátt, um og yfir 20 m/s, á Vestfjörðum með súld eða rigningu. Í hugleiðingum veðurfræðings segir að eftir bjarta og kalda nótt með talsverðu frosti, einkum inn til landsins, lítur út fyrir að þykkni upp og fari að hlýna. Á morgun er spáð vestanátt og súld með köflum, en stöku éljum fyrir norðan og hita yfirleitt ofan frostmarks. Bætir síðan áfram í vind og vætu þegar líður að helgi og hlýnar enn.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Lýðháskóli næsta haust

Félag um stofnun Lýðháskóla á Flateyri auglýsir nú eftir framkvæmdastjóra en hingað til hefur öll vinna við uppbyggingu og þróun skólans verið unnin af rúmlega 30 manna hópi sjálfboðaliða úr hópi heimamanna, listafólks, sérfræðinga og skólafólks, en gert er ráð fyrir að framkvæmdastjóri taki til starfa hinn 15. febrúar nk, og stýri undirbúningi og þróun skólans sem vonir standa til að geti hafið starfsemi næsta haust. Stjórn félagsins hefur óskað eftir fundi með þingmönnum kjördæmisins um leið og þing kemur saman til að kynna þeim málið og ósk félagsins um kennsluframlag til skólastarfs með sambærilegum hætti og almennt gerist meðal framhalds- og háskóla.

 

Runólfur Ágústsson stjórnarformaður félags um lýðháskóla segir námsskrár að mestu tilbúnar, öll aðstaða er fyrir hendi og til stendur til þess að fara af stað með inntöku 60 nemenda strax næsta haust. Einnig vinni félagið að því að fjármagna sérstaklega kostnað við stofnun skólans, m.a. með stuðningi fyrirtækja og velunnara.

 

Runólfur telur samfélagsleg áhrif á Flateyri yrðu afar jákvæð með 60 nýjum íbúum í plássið á besta aldri auk þeirra starfa sem skólinn myndi skapa með beinum hætti en um er að ræða 2-4 föst stöðugildi auk 10-20 verkefnaráðinna kennara í hlutastörfum þar sem ávallt yrði leitast við að nýta staðbundna þekkingu. Einnig myndu börn nemenda (og starfsfólks) styrkja verulega starfsemi leik- og grunnskóla staðarins.

  • Markhópurinn er ungt fólk sem lokið hefur framhaldsskólaprófi án þess að vita hvað það vill, ásamt eldra fólki, 25-35 ára sem hætti framhaldsskólanámi á sínum tíma en vill koma aftur til náms og finna sína fjöl.
  • Fjölmennur hópur íslenskra ungmenna stundar í dag nám við lýðháskóla erlendis, aðallega í Danmörku og vinsældir lýðháskóla fara mjög vaxandi.
  • Starfsemi skólans getur sparað hinu opinbera umtalsverða fjármuni og komið í veg fyrir sóun í menntakerfinu þar sem stór hópur hefur árlega nám innan hins hefðbundna skólakerfis, án þess að vita í sjálfu sér hvert skuli stefna, og hverfur síðan frá slíku námi eftir mikinn tilkostnað, bæði persónulegan og samfélagslegan.
  • Ekki verður áhersla á gráður eða einingar, heldur að gera það sem eitt sinn var kallað „að koma fólki til manns“, nám þar sem fólk lærir að gera hluti með kennara með því að framkvæma þá.
  • Búið er að þróa þrjár námslínur út frá greiningu á styrkleikum staðarins, kvikmyndavinnu (vegna mikils fjölda kvikmyndagerðarfólks sem á hús á staðnum og dvelur þar), tónlistarsköpun (vegna sterkrar tónlistarhefðar á Vestfjörðum) og umhverfis/sjálfbærnisnáms, þar sem áherslan er á að lifa af og með náttúrunni. Þar kenna heimamenn veiðar, harðfiskverkun, grjóthleðslu, björgunarstörf, fjallaskíðamennsku o.fl.
  • Félagið nýtur stuðnings heimamanna. Á stofnfundinn í febrúar sl. mættu 120 manns.
  • Öll aðstaða til skólahalds og húsnæði fyrir nemendur yfir vetrarmánuðina er til staðar á Flateyri, vannýtt í dag.
  • Formlegt samstarf er við Fræðslumiðstöð Vestfjarða um málið og  sömuleiðis verður leitað samstarfs við Háskólasetur Vestfjarða og Menntaskólann á Ísafirði.

Umsóknafrestur um starf framkvæmdastjóra rennur út hinn 15. desember næstkomandi, starfsstöð hans er á Flateyri og segir Runólfur að búseta á atvinnusvæði Ísafjarðarbæjar sé skilyrði.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Vísindadagar í Menntaskólanum á Ísafirði

Menntaskólinn á Ísafirði.

Dagana 29. – 30. nóvember verða Vísindadagar haldnir í Menntaskólanum á Ísafirði. Hefðbundið skólastarf verður þá brotið upp m.a. með kynningum og sýningum nemenda á því fjölbreytta starfi sem farið hefur fram í skólanum.

Boðið verður uppá stuttmyndir sem nemendur hafa gert og byggðar eru á hinu stórskemmtilega kvæði Þrymskviðu og skáldsögunni Bjarna – Dísu, tölvuleiki sem nemendur hafa forritað sjálfir, Vestfjarðakort sem sýnir framtíðarsýn nemenda á möguleikum sem snúa að endurnýjanlegri orku, rannsókn á áhrifum hreyfingar á skammtímaminni, kynningarmyndbönd og  kynningar á verkefnum nemenda í námsgreinum. Nemendafélagið mun einnig verða með sérstakt framlag vegna daganna. Verknámshúsið verður opið þar sem hægt er að sjá nemendur vinna verkefni en þeir sáu m.a. um að hanna og smíða sérstök viskuljós í tilefni af vísindadögunum.

Vakin er sérstök athygli á skemmtilegum fyrirlestrum nokkurra vísindamanna sem segja frá viðfangsefnum sínum sem öll tengjast meira og minna Vestfjörðum. Þá verður einnig skype fundur með hinum eina sanna Ævari vísindamanni.

Dagskránni lýkur með verðlaunaafhendingu á fimmtudeginum. Allir íbúar skólasamfélagsins eru sérstaklega velkomnir í skólann á meðan á vísindadögum stendur. Dagskrána má sjá í heild á heimasíðu skólans

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Vilja afleysingaskip í fjarveru Baldurs

Breiðafjarðarferjan Baldur.

Ekki er víst hvort að Breiðafjarðarferjan Baldur siglir meir á þessu ári, en bilun kom upp í aðalvél skipsins í síðustu viku. Sérfræðingar hafa metið bilunina svo veigamikla að senda þarf vél skipsins á verkstæði Reykjavík. Á vef Samtaka atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum segir að ekki verði unað við þessa stöðu og að afleysingaskip verði að koma í fjarveru Baldurs. Farþegaskipið Særún hefur siglt út í Flatey en Særún er ekki bílaferja og hefur því ekki siglt milli Stykkishólms og Brjánslækjar.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Brýnt að fá nýtt rannsóknarskip

Bjarni Sæmundsson RE við bryggju á Ísafirði.

Félag skipstjórnarmanna, áður Farmanna og fiskimannasamband Íslands, skorar á sjávarútvegsráðherra að beita sér innan ríkisstjórnarinnar fyrir smíði nýs rannsóknarskips. Rannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson sem smíðaður var árið 1970 uppfylli ekki lengur þær kröfur sem gera verði til slíkra skipa. Þetta kemur fram í ályktun frá þingi félagsins sem haldið var í lok síðustu viku.

Í ályktuninni segir jafnframt að þing félagsins telji brýnna en nokkru sinni að stórauka veiðarfæra-, haf- og fiskirannsóknir. Aukin þekking á þessum sviðum sé grunnforsenda fyrir betri nýtingu á auðlindum hafsins.

Í haust kom upp umfangsmikil bilun í skipinu og þurfti að leigja skip til að fara í rannsóknarleiðangur í hans stað.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Búið að grafa 11,1 prósent af göngunum

Í síðustu viku voru grafnir 60,6 m í Dýrafjarðargöngum. Heildarlengd ganganna í lok viku 47 var 589,9 m sem er 11,1% af heildarlengd ganganna. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni var farið í gegnum nokkuð blautt svæði í vikunni en að öðru leyti voru göngin nokkuð þurr og bergið var að springa þokkalega.

Fyrri part vikunnar var efni keyrt í vegfyllingu og nýi vegurinn tengdur við eldri þjóðveg.  Eftir það var öllu efni keyrt á haugsvæði.

Á meðfylgjandi mynd er verið að þvo berg áður en steypu er sprautað á það og svo er verið að hlaða sprengiefni. Vegna vatns sem kemur úr borholum er notast við plaströr sem eru fyllt með sprengiefni. Rörunum er stungið í holurnar og svo er sett lítil dýnamítstúpa með hvellettu í endann til að koma sprengingunni af stað.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

1.335 tonn til Ísafjarðarbæjar

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur afgreitt umsókn Ísafjarðarbæjar um byggðakvóta á yfirstandandi fiskveiðiári. Niðurstaða ráðuneytisins er að 1.335 þorskígildistonn koma í hlut sveitarfélagsins og skptist kvótinn eftir byggðakjörnum Ísafjarðarbæjar. Mest fer til Flateyrar, eða 300 tonn. Til Þingeyrar fara 281 tonn og 222 tonn til Hnífsdals. Suðureyri fær 192 tonn og Ísafjörður fær 140 tonn.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir