Síða 2113

Mótmælir niðurskurði harðlega

Starfsmenn Náttúrustofunnar við rannsóknir á Látrabjargi.

Bæjarráð Bolungarvíkurkaupstaðar mótmælir harðlega fyrirhugum niðurskurði á framlögum til Náttúrustofu Vestfjarða sem fram kemur í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram á Alþingi í haust. Í frumvarpi Benedikts Jóhannessonar fráfarandi fjármálaráðherra er lagður til 10,1 milljóna kr. niðurskurður á framlagi ríkisins til stofunnar. Það er rúmlega þriðjungs niðurskurður á framlagi ríkisins. Forstöðumaður Náttúrustofunnar hefur sagt að gangi niðurskurðurinn eftir gæti eitt starf við stofunna verið í hættu. Ekki er ljóst hver verða afdrif fjárlagafrumvarpsins þegar ný ríkisstjórn tekur við völdum en í ályktun bæjarráðs Bolungarvíkurkaupstaðar segir að verði niðurskurðurinn að veruleika sé það aðför að Náttúrustofunni og störfum háskólamenntaðra á Vestfjörðum.

„Nær hefði verið að standa við gefin fyrirheit um fjármagn til gróðurkortagerða á Vestfjörðum eins og áður hafði verið samþykkt. Eðlileg þróun væri að starfsemi stofnunarinnar yrði efld til að búa í haginn fyrir fyrirhugaða uppbyggingu fiskeldis á Vestfjörðum. Afar mikilvægt er að hér á svæðinu byggist upp þekking á rannsóknum í fiskeldi til að styrkja innviði greinarinnar og efla þekkingu á lífríki Vestfjarða,“ segir í ályktuninni.

Bæjarráð skorar á þingmenn kjördæmisins, umhverfisráðherra og Alþingi til að beita sér fyrir því að hætt verði við fyrirhugaðan niðurskurð og þvert á móti verði framlög til Náttúrustofunnar aukin.

smari@bb.is

Söfnunarátak UN Women

UN Women á Íslandi hefur söfnunarátak fyrir konur og stúlkur á flótta frá Sýrlandi. Eliza Reid, forsetafrú Íslands og  Eva María Jónsdóttir, verndari UN Women á Íslandi heimsóttu griðastaði UN Women í Zaatari flóttamannabúðunum í Jórdaníu. Á griðastöðunum eru konur öruggar, fá atvinnutækifæri, menntun og daggæslu fyrir börn sín. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá samtökunum. Ennfremur segir að konur og stúlkur í Zaatari flóttamannabúðunum búi við grimman veruleika. Flestar konur í búðunum eru margra barna mæður sem sárlega þurfa vernd, öryggi og stuðning til að koma undir sig fótunum á ný.

Til að styrkja átakið er sent SMS í númerið 1900 með textanum KONUR, þá dragast 1.490 krónur af símareikningnum.

UN Women benda á neðangreindar staðreyndir:

  • 1 af hverjum 3 konum í Zaatari búðunum hefur verið gift á barnsaldri
  • Konur og stúlkur í Zaatari eru berskjaldaðar fyrir ofbeldi
  • Fimmta hver kona í Zaatari búðunum er fyrirvinna fjölskyldunnar
  • Atvinnutækifæri fyrir konur í Zaatari eru sárafá

Um 80 þúsund Sýrlendingar dvelja í Zaatari eftir að hafa flúið stríðsátök og ofbeldi í heimalandi sínu. Búðirnar eru þær næststærstu í heiminum og jafnframt eru þær fjórða fjölmennasta borg Jórdaníu.

Konur og börn eru um 80% íbúa í Zaatari og eiga erfitt uppdráttar í búðunum. Það er staðreynd að konur og stúlkur á flótta eiga í meiri hættu á að verða fyrir kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi. Flestar konur í Zaatari hafa orðið fyrir skelfilegum áföllum; misst börn sín, maka og ástvini og glíma við áfallastreituröskun, þunglyndi og einangrun. Margar þeirra eru ekkjur og einstæðar mæður.

Til að sporna við ofbeldinu, aukningu barnahjónabanda og fátækt í flóttamannabúðunum starfrækir UN Women þrjá griðastaði fyrir konur og stúlkur. Þar eru konur og stúlkur óhultar fyrir ofbeldi, fá atvinnutækifæri, menntun og börnin daggæslu, þar fá konur einnig sálrænan stuðning eftir áföll og ofbeldi. Þökk sé griðastöðum UN Women geta konur lifað með reisn og virðingu í erfiðum aðstæðum.

Aðsóknin í griðastaði UN Women er gríðarleg og eru hundruð kvenna eru á biðlista eftir að komast að. Til að byggja upp griðastaði UN Women þarf aukið fjármagn og þess vegna þurfa konur og stúlkur í Zaatari á þinni hjálp að halda!

Alvogen er bakhjarl herferðar UN Women á Íslandi og gerði samtökunum kleift að heimsækja griðastaði UN Women í Zaatari flóttamannabúðunum.

bryndis@bb.is

Hagspá: Of gott til að vera satt?

Mikil umsvif eru í byggingariðnaði á suðvesturhorninu.

Greiningardeild Arion banka kynnti í morgun nýja hagspá fyrir árin 2016-2019. Í spánni er reiknað með 4,2% hagvexti í ár en að svo taki að hægja á og að hagvöxtur verði milli tvö og þrjú prósent til 2020, sem er nær því sem stenst til lengdar. Greiningardeildin spyr hvort að horfurnar séu of góðar til að vera sannar.

Einkaneysla mun draga vagninn út spátímann, en einnig verður nokkur fjárfesting. Ferðaþjónusta mun áfram vaxa en hægar en áður og sterk króna og mikill kaupmáttur mun styðja við áframhaldandi innflutningsvöxt

Að mati greiningardeildarinnar er nauðsynlegt að fjárfesta af auknum krafti í innviðum. Arðgreiðslur úr bönkunum geta hjálpað ríkinu við fjármögnun slíkra verkefna en þær draga um leið úr getu ríkisins til að greiða niður skuldir. Skoða þarf fleiri leiðir til fjármögnunar, skilgreina hlutverk einkaaðila og hvaða verkefni fjármagna má með notendagjöldum.

smari@bb.is

Eldum rétt á Ísafirði og í Bolungarvík

„Ein helsta ástæða fyrir að við opnum fyrir þessa tvo bæi á undan stærri bæjarfélögum á landsbyggðinni er þrýstingur bæjarbúa í gegnum Facebook síðuna Eldum Rétt á Vestfirði og urðum við að láta undan og opnuðum fyrir pantanir 11 í morgun og verður opið fyrir pantanir til miðnættis.“  Segir talsmaður Eldum rétt fyrirtækisins og í dag er hægt að skrá pöntun á matarsendingu sem kemur vestur í næstu viku. Þjónusta fyrirtækisins felst í því að bjóða hráefni í fyrirfram ákveðnar máltíðir ásamt leiðbeiningum um eldun og allt er sent heim að dyrum. Hægt er að velja um nokkra matseðla og magn miðað við 2, 3 eða fjóra, hráefnið er valið og nákvæmlega vigtað svo lítið ætti að fara til spillis.

bryndis@bb.is

Halla Signý í ársleyfi

Halla Signý Kristjánsdóttir, 7. þingmaður NV kjördæmis.

Halla Signý Kristjánsdóttir, fjármálastjóri Bolungarvíkurkaupstaðar og nýkjörin þingmaður Framsóknarflokksins, hefur fengið ársleyfi frá störfum. Ósk um ársleyfi var tekin fyrir á fundi bæjarráðs Bolungarvíkur í gær. Ásamt því að samþykkja beiðnina þakkar bæjarráð Höllu Signýju fyrir vel unnin störf í þágu sveitarfélagsins og óskar henni jafnframt til hamingju með kjör á Alþingi Íslendinga og velfarnaðar á þessum mikilvæga vettvangi.

Bæjarstjóra hefur verið falið að undirbúa drög að auglýsingu um starf fjármála- og skrifstofustjóra.

smari@bb.is

Vestfirðir fegurstir

Ketildalir í Arnarfirði. Mynd: Mats Wibe Lund.

Vísir fékk vel valinn hóp álitsgjafa til að velja fallegasta stað landsins. Margir álitsgjafanna áttu í erfiðleikum með að gera upp hug sinn á meðan aðrir þurftu varla að hugsa sig um. Vestfirðir heilluðu flesta álitsgjafanna, en Ásbyrgi, ein helsta perla Norðurlands, fylgir fast á hæla fjarðanna og í þriðja sæti kom hinn stórbrotni foss Dynjandi í Arnarfirði.

Þetta höfðu álitsgjafarnir að segja um Vestfirði:

„Náttúran, tenging við sjóinn, fjölbreytileikinn, mannlífið, tiltölulega ósnortið.“

„Ótrúlega fallegt að fljúga þar yfir og sjá fjöllin.“

„Að keyra eitthvað af þessum vegum og uppá heiði og sjá yfir alla firðina. Það er engu líkt.“

„Vestfirðir eru fallegasta svæði Íslands. Fjöllin umvefjandi fögur, hlý en einnig ógnvekjandi með sínu grjóthruni og snjóflóðum. Þar að auki hafið allt um kring. Þessi blanda er engu lík.“

„Það er erfitt að velja einhvern einn stað eða bæjarfélag á Vestfjörðum þegar kemur að fegurðarsamkeppni en landshlutinn er ein stór náttúruperla með sínu tignarlegu fjöllum og fjörðum. Suðureyri stal reyndar hjarta mínu í sumar svo ég nefni þann stað framar öðrum. Mögnuð orka þar!“

„Ég var orðin fullorðin þegar ég kom fyrst á Vestfirði og það var ást við fyrstu sýn. Náttúrufegurðin hvert sem litið er, fangar mann gjörsamlega. Rauðasandur, Látrabjarg, Skor, Þingeyri, Flateyri, Ísafjörður, hver staðurinn öðrum fallegri, umvefjandi náttúran og krafturinn.“

Um Dynjanda sögðu þeir:

„Dynjandi er alveg ótrúlegur foss, hann er hár, vatnsmikill, tignarlegur, ógurlegur, margbreytilegur og guðdómlega fallegur. Ég hef aldrei komið að Dynjanda án þess að fyllast auðmýkt gagnvart náttúrunni. Þess vegna skil ég ekki að hann sé ekki umsetinn af ferðamönnum, innlendum sem erlendum. En það er eins og lega hans, á útnára Íslands, Vestfjarðakjálkanum, geri það að verkum að fáir gefa sér tíma til að skoða hann náið. Það eru mikil mistök því þessi foss hefur vinningin margfalt yfir Gullfoss, Dettifoss og hvað þeir heita nú allir.“

„Þegar þú kemur að Dynjanda kemur þú að honum neðan frá, þú horfir sem sagt upp fossinn en ekki niður hann. En það sem Dynjandi býður upp á sem fæstir aðrir fossar gera er margbreytilega aðkomu því frá botninum getur þú unnið þig upp. Það eru um það bil 5 stallar sem auðvelt er að færa sig upp á fótgangandi og frá hverjum þeirra sérðu fossinn í algjörlega nýju ljósi. Það er eins og þú sért að skoða nýjan foss í hvert sinn. Stundum er hann ógurlegur, stundum mildur, stundum bjartur og stundum dimmur. Ég þreytist ekki á að skoða þennan foss. Algjört draumagull.“

„Flottasti foss á Íslandi. Hér fattar maður hve lítill maður í raun er. Magnaður staður.“

„Þvílík orka, þvílík fegurð, þvílík stærð!“

smari@bb.is

Verulegir annmarkar á kosningu kjörnefndar

Patreksfjarðarkirkja.

Biskup Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu að verulegir annmarkar hafi verið á kosningu kjörnefndar Patreksfjarðarprestakalls sem hafði til meðferðar umsóknir um stöðu sóknarprests. Í ljós hefur komið að fjórir fulltrúar af ellefu hafi ekki verið kosnir á almennum safnaðarfundum eins og starfsreglur kveða á um heldur hafi þeir verið tilnefndir á sóknarnefndarfundum. Biskup álítur að þessi annmarki í meðferð málsins kunni geta ógilt skipun sóknarprests. Þess vegna hefur biskup ákveðið að auglýsa embætti sóknarprests í Patreksfjarðarprestakalli að nýju.

Á vef Vestfjarðaprófastsdæmis segir að kjörnefnd Patreksfjarðarprestkalls hafi komið saman til fundar fimmtudaginn 26. október. Eftir að hafa farið yfir umsóknir og skýrslu matsnefndar og rætt við umsækjendurna tvo var kosið. Niðurstöður kjörsins og fundargerð voru send biskupi í tölvupósti.

Búist hafði verið við að biskup myndi afgreiða málið föstudaginn 27. október og þá yrði kunngjört hver yrði skipaður næsti sóknarprestur á Patreksfirði. Það gerðist ekki meðal annars vegna þess að upp kom vafi um hvort allir kjörnefndarfulltrúar væru réttilega kosnir. Þessi vafi er tilkominn vegna kærumála í Dómkirkjusókninni í Reykjavík. Í starfsreglum, sem Kirkjuþing samþykkti, er kveðið á um að fulltrúar í kjörnefnd skuli kosnir á aðalsafnaðarfundi eða almennum safnaðarfundi. Svo virðist sem það sé ekki lögmætt að velja fulltrúa í kjörnefnd á fundi sóknarnefndar.

smari@bb.is

Litlar breytingar fram á sunnudag

Það verður norðaustanátt 8-13 m/s með éljum á Vestfjörðum í dag ,en minnkandi norðanátt í kvöld og styttir upp. Hæg breytileg átt og yfirleitt þurrt á morgun. Hiti um og undir frostmarki en frost 0 til 5 stig á morgun. Í hugleiðingum veðurfræðings er bent á að 983 mb lægð fer yfir landið í dag. Hún býður upp á breytilega átt og lítilsháttar ringingu á sunnanverðu landinu en snjókomu fyrir norðan. Í kvöld fer hún norðaustur af landinu og dýpkar heldur, þá snýst í norðanátt og hvessir austantil í 15-20 m/s. Áfram ofankoma og vægt frost norðanlands en léttir til fyrir sunnan með hita 1 til 6 stig.

Á morgun kólnar heldur og frystir víða sunnanlands. Ákveðin norðvestanátt austanlands og snjóar áfram með köflum þar, en léttskýjað og stöku skúr eða él á landinu sunnan- og vestanverðu.

Útlit er fyrir að veður af svipuðum toga haldist fram á sunnudag, en þá snýst í sunnanátt og fer að rigna á láglendi en snjóa til fjalla um landið sunnanvert en von á bjartviðri á Norðausturlandi.

smari@bb.is

 

Fengu fræðslu um femínisma og kynjafræði

Hanna Björg á sal skólans þar sem hún hélt fyrirlestur um jafnréttismálin fyrir nemendur. Mynd: Emil Emilsson

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, kennari í kynjafræði við Borgarholtsskóla, hélt skemmtilegan og fróðlegan fyrirlestur fyrir nemendur um feminisma og kynjafræði á sal Menntaskólans á Ísafirði í síðustu viku. Hún hélt síðan námskeið fyrir starfsfólk skólans um þessi sömu fræði síðar um daginn.

Fjallað var um jafnréttishugtakið út frá víðu sjónarhorni þ.á.m. valdamisvægi á milli hópa, hæfnina til að setja sig í spor annarra, mikilvægi góðra fyrirmynda og einnig þess að virðing verði borin fyrir öllum, staðalmyndir, kynverund, kynjaskekkjur, uppeldi og mótun, klám og klámvæðingu og síðast en ekki síst áhrif kynlífsvæðingarinnar á kynin. Sköpuðust miklar, gefandi og skemmtilegar umræður meðal nemenda og starfsfólks skólans.

 

Boðar til fundar um verndaráætlun Hornstrandafriðlandsins

Hornbjarg.

Umhverfisstofnun hvetur landeigendur, hagsmunaaðila og aðra sem hafa áhuga á Hornstrandafriðlandinu að kynna sér gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Hornstrandafriðlandið. Stofnunin heldur fund um áætlunina á Ísafirði í næstu viku. Markmið fundarins er að upplýsa íbúa, hagsmunaaðila og landeigendur um gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Hornstrandafriðlandið og kalla eftir skoðunum heimamanna um þau málefni sem fjallað verður um í áætluninni. Stjórnunar- og verndaráætlunin er samkvæmt lögum um náttúruvernd en í þeim segir meðal annars:

„Í stjórnunar- og verndaráætlun skal m.a. fjallað um landnýtingu, landvörslu, vöktun, uppbyggingu, fræðslu og miðlun upplýsinga, verndaraðgerðir og aðgengi ferðamanna, þar á meðal aðgengi fatlaðs fólks. Ef ekki hafa verið settar sérstakar reglur um umferð manna og dvöl á viðkomandi svæði í auglýsingu um friðlýsingu er heimilt að setja slíkar reglur í stjórnunar- og verndaráætlun svo og reglur um önnur atriði.“

Fundurinn verður í Háskólasetrinu á Ísafirði á miðvikudag eftir viku kl. 17-19.

Jafnframt verður fundur fyrir landeigendur haldinn í Reykjavík þann 23. nóvember.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir