Síða 2113

Langódýrasta húsnæðið á Vestfjörðum

Íslandsbanki hefur gefið út skýrslu um íslenskan íbúðamarkað og þar kemur fram að húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu er fjórfalt hærra en á Vestfjörðum og er sögulegur munur á milli ódýrasta landsvæðisins og dýrasta, verðmunur á þessum landssvæðum hefur aldrei verið meiri en nú.

Bankinn spáir 20% hækkun íbúðaverðs á þessu ári en 12% á næsta ári og 5% á árinu 2019 og að í lok árs 2019 verði komið jafnvægi í framboð og eftirspurn íbúðahúsnæðis.

Í skýrslunni kemur ennfremur fram að skuldir heimila sem hlutfall af ráðstöfunartekjum hafi ekki verið lægra frá aldamótum. Veðsetningarhlutfall var 42% um síðustu áramót og hefur helmingast frá 2010, bæði hafa skuldir lækkað og hækkun íbúðaverð leiðir af sér lækkandi veðsetningarhlutfall.

Eigendaskipti íbúða eru tíðust á Suðurlandi og á Suðurnesjum þar sem ein af hverjum níu íbúðum á svæðinu var seld á árinu 2016 að meðaltali. Eigandi skipti íbúða eru fátíðust á Norðurlandi vestra, Austurlandi og á Vestfjörðum.

Nafnverð íbúða hefur hækkað hraðar en byggingarkostnaður á öllum landsvæðum, og er því hagkvæmara að byggja í öllum landshlutum en var árið 2010.

Hérlendis hefur íbúðaverð hækkað umfram laun að undanförnu og því má segja að erfiðara sé, miðað við laun, að kaupa íbúð á Íslandi um þessar mundir en að meðaltali í sögulegu samhengi. Þessi þróun hefur einnig átt sér stað í 14 öðrum aðildarþjóðum efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD og í tilfelli 12 þeirra er ójafnvægi í íbúðaverðs- og launaþróunar meira en hér.

Líkt og komið hefur fram er íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu mun hærra en á öðrum landsvæðum. Hins vegar er munur á launum á milli landsvæða óverulegur. Það gefur til kynna að íbúðareigendur sambærilegra eigna á landsbyggðinni ráðstafi að öðru óbreyttu minni hluta af launum sínum bæði til þess að kaupa og reka húsnæði.

bryndis@bb.is

Raforkuöryggi og orkuframleiðsla í Vísindaporti

Háskólasetrið er til húsa í Vestra.

Vísindaport vikunnar í Háskólasetri Vestfjarða verður helgað málefni, sem er ofarlega á baugi í samfélagsumræðu á Vestfjörðum um þessar mundir. Elías Jónatansson, orkubússtjóri, mun flytja erindi um raforkukerfið í fjórðungnum og hvernig samspil er á milli raforkuframleiðslu, flutnings, dreifingar, varaafls og orkuöryggis.

Framleiðsla, flutningur og dreifing eru þeir þrír þættir sem þurfa að vera til staðar til að uppfylla væntingar og eftirspurn neytanda eftir raforku þegar og þar sem hennar er þörf.  Hver og einn þessara þátta getur brugðist sem kemur þá fram í straumleysi hjá notendum.  Hægt er að hanna raforkukerfið með þeim hætti að engin ein eining þess geti valdið straumleysi hjá notendum og er þá talað um að kerfið uppfylli N-1 kröfu.  Ein leið til að uppfylla slíka kröfu er svokölluð hringtenging, en hún er ekki nægjanleg ein og sér ef aflið er ekki til staðar.

Elías Jónatansson er fæddur og uppalinn í Bolungarvík.  Hann er vélaverkfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og er með MSc gráðu í iðnaðarverkfræði frá Oregon State University í Bandaríkjunum.  Elías hefur starfað hjá framleiðslufyrirtækjum, aðallega í tengslum við sjávarútveg, en starfaði einnig sem bæjarstjóri í Bolungarvík í átta ár.  Elías gegnir nú starfi orkubússtjóra hjá Orkubúi Vestfjarða.

Vísindaportið stendur frá 12.10-13.00 í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða. Það er öllum opið en erindi vikunnar fer fram á íslensku.

bryndis@bb.is

Nálægð við fiskimið og gjöful fuglabjörg einkennandi

Lundar í Látrabjargi.

Matur er stór hluti af ímynd þjóða og speglar náttúruna, söguna og tíðarandann. Matarferðaþjónusta er hratt vaxandi angi innan ferðaþjónustunnar og ljóst að mikil tækifæri í matvælaframleiðslu eru samfara stórauknum fjölda erlendra ferðamanna. Á litlu og fámennu landi eins og Íslandi má finna svæðisbundin einkenni í matargerð og -hefðum, þó svo að í fylling tímas hafi þau að stóru leyti máðst út.

Verkefnið Matarauður Íslands heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og er megin tilgangur þess að auka ásókn í íslenskar matvörur og efla jákvæða ímynd þeirra og  með því að styrkja verkefni sem stuðla að eflingu matarferðaþjónustu og annarra atvinnutækifæra í tengslum við matarauðinn okkar um land allt. Á vefsíðu Matarauðs má forvitnast um matarhefðir landshlutanna og þar segir í stuttu máli um mat og matargerð á Vestfjörðum að nálægð við gjöful fiskimið og lítið undirlendi til landbúnaðar hafi mótað hefðirnar. í sögulegu ljósi er fiskmeti einkennandi á Vestfjörðum og sem og nálægð við stærstu fuglabjörg landsins.

smari@bb.is

Bæjarins besta 25. tbl. 34 árgangur

25. tbl. 34. árgangur.
25. tbl. 34. árgangur.

Aðgerðalítið vetrarveður

Heldur hefur veðurguðinn róast frá helginni og spámaður Veðurstofunnar spáir hægri breytilegri átt á Vestfjörðum og yfirleitt þurru. Gengur í norðaustan 5-13 seint annað kvöld með éljum, einkum norðantil. Frost 0 til 5 stig.

Fyrir landið allt hljómar þetta svona: Norðvestan 10-18 m/s A-til, hvassast við ströndina, en breytileg átt 3-8 V-lands. Él fyrir norðan og norðaustan, annars bjart með köflum og líkur á stöku éljum S- og SV-til.
Gengur í norðvestan 18-25 A-ast á morgun og áframhaldandi él NA- og SV-lands, en snjókoma um landið N-vert annað kvöld, annars þurrt. Hiti um og undir frostmarki.

bryndis@bb.is

Segja veiðigjöld vera landsbyggðarskatt

Löndun á Ísafirði.

Veiðigjald yf­ir­stand­andi fisk­veiðiárs grund­vall­ast á rekstr­ar­ár­inu 2015, sem var hag­stætt ár í sjáv­ar­út­vegi. Nú, þegar greiða á gjaldið, horf­ir allt öðru­vísi við og rekstr­ar­skil­yrði eru verri en árið 2015. Þannig hef­ur gengi krón­unn­ar styrkst veru­lega frá þeim tíma og dágóð hækk­un hef­ur orðið á kostnaði, sem til fell­ur í ís­lensk­um krón­um, svo ein­stak­ir aug­ljós­ir áhrifaþætt­ir séu nefnd­ir, seg­ir meðal ann­ars á vefsíðu Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi. Samtökin segja veiðigjaldið vera landsbyggðarskatt.

Á meðfylgj­andi mynd sem er fenginn af vef SFS má sjá að 21% af álögðu veiðigjaldi árið 2015 lagðist á sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki á höfuðborg­ar­svæðinu, en 79% hins álagða gjalds lögðust hins veg­ar á sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki á lands­byggðinni.

smari@bb.is

Akstur á snævi þakinni jörð

Mynd: Einar Kjartansson

Nú þegar vetur er genginn í garð bendir Umhverfisstofnun á reglur sem gilda um akstur á snævi þakinni jörð. Í lögum um náttúruvernd er kveðið á um bann við akstri á vélknúnum ökutækjum utan vega. Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum og snævi þakinni jörð utan vega utan þéttbýlis svo fremi jörð sé frosin eða snjóþekjan traust og augljóst að ekki sé hætta á náttúruspjöllum.

Akstur utan vega á snævi þakinni jörð er einungis heimill ef jörð er frosin og með nægilega þykkum og traustum snjó svo tryggt sé að náttúran verði ekki fyrir skaða og að það trufli ekki dýralíf.

Umhverfisstofnun bendir á að ef einhver vafi leikur á hvort umræddar aðstæður til aksturs séu til staðar, skal náttúran ávallt njóta vafans.

smari@bb.is

Mótmælir niðurskurði harðlega

Starfsmenn Náttúrustofunnar við rannsóknir á Látrabjargi.

Bæjarráð Bolungarvíkurkaupstaðar mótmælir harðlega fyrirhugum niðurskurði á framlögum til Náttúrustofu Vestfjarða sem fram kemur í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram á Alþingi í haust. Í frumvarpi Benedikts Jóhannessonar fráfarandi fjármálaráðherra er lagður til 10,1 milljóna kr. niðurskurður á framlagi ríkisins til stofunnar. Það er rúmlega þriðjungs niðurskurður á framlagi ríkisins. Forstöðumaður Náttúrustofunnar hefur sagt að gangi niðurskurðurinn eftir gæti eitt starf við stofunna verið í hættu. Ekki er ljóst hver verða afdrif fjárlagafrumvarpsins þegar ný ríkisstjórn tekur við völdum en í ályktun bæjarráðs Bolungarvíkurkaupstaðar segir að verði niðurskurðurinn að veruleika sé það aðför að Náttúrustofunni og störfum háskólamenntaðra á Vestfjörðum.

„Nær hefði verið að standa við gefin fyrirheit um fjármagn til gróðurkortagerða á Vestfjörðum eins og áður hafði verið samþykkt. Eðlileg þróun væri að starfsemi stofnunarinnar yrði efld til að búa í haginn fyrir fyrirhugaða uppbyggingu fiskeldis á Vestfjörðum. Afar mikilvægt er að hér á svæðinu byggist upp þekking á rannsóknum í fiskeldi til að styrkja innviði greinarinnar og efla þekkingu á lífríki Vestfjarða,“ segir í ályktuninni.

Bæjarráð skorar á þingmenn kjördæmisins, umhverfisráðherra og Alþingi til að beita sér fyrir því að hætt verði við fyrirhugaðan niðurskurð og þvert á móti verði framlög til Náttúrustofunnar aukin.

smari@bb.is

Söfnunarátak UN Women

UN Women á Íslandi hefur söfnunarátak fyrir konur og stúlkur á flótta frá Sýrlandi. Eliza Reid, forsetafrú Íslands og  Eva María Jónsdóttir, verndari UN Women á Íslandi heimsóttu griðastaði UN Women í Zaatari flóttamannabúðunum í Jórdaníu. Á griðastöðunum eru konur öruggar, fá atvinnutækifæri, menntun og daggæslu fyrir börn sín. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá samtökunum. Ennfremur segir að konur og stúlkur í Zaatari flóttamannabúðunum búi við grimman veruleika. Flestar konur í búðunum eru margra barna mæður sem sárlega þurfa vernd, öryggi og stuðning til að koma undir sig fótunum á ný.

Til að styrkja átakið er sent SMS í númerið 1900 með textanum KONUR, þá dragast 1.490 krónur af símareikningnum.

UN Women benda á neðangreindar staðreyndir:

  • 1 af hverjum 3 konum í Zaatari búðunum hefur verið gift á barnsaldri
  • Konur og stúlkur í Zaatari eru berskjaldaðar fyrir ofbeldi
  • Fimmta hver kona í Zaatari búðunum er fyrirvinna fjölskyldunnar
  • Atvinnutækifæri fyrir konur í Zaatari eru sárafá

Um 80 þúsund Sýrlendingar dvelja í Zaatari eftir að hafa flúið stríðsátök og ofbeldi í heimalandi sínu. Búðirnar eru þær næststærstu í heiminum og jafnframt eru þær fjórða fjölmennasta borg Jórdaníu.

Konur og börn eru um 80% íbúa í Zaatari og eiga erfitt uppdráttar í búðunum. Það er staðreynd að konur og stúlkur á flótta eiga í meiri hættu á að verða fyrir kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi. Flestar konur í Zaatari hafa orðið fyrir skelfilegum áföllum; misst börn sín, maka og ástvini og glíma við áfallastreituröskun, þunglyndi og einangrun. Margar þeirra eru ekkjur og einstæðar mæður.

Til að sporna við ofbeldinu, aukningu barnahjónabanda og fátækt í flóttamannabúðunum starfrækir UN Women þrjá griðastaði fyrir konur og stúlkur. Þar eru konur og stúlkur óhultar fyrir ofbeldi, fá atvinnutækifæri, menntun og börnin daggæslu, þar fá konur einnig sálrænan stuðning eftir áföll og ofbeldi. Þökk sé griðastöðum UN Women geta konur lifað með reisn og virðingu í erfiðum aðstæðum.

Aðsóknin í griðastaði UN Women er gríðarleg og eru hundruð kvenna eru á biðlista eftir að komast að. Til að byggja upp griðastaði UN Women þarf aukið fjármagn og þess vegna þurfa konur og stúlkur í Zaatari á þinni hjálp að halda!

Alvogen er bakhjarl herferðar UN Women á Íslandi og gerði samtökunum kleift að heimsækja griðastaði UN Women í Zaatari flóttamannabúðunum.

bryndis@bb.is

Hagspá: Of gott til að vera satt?

Mikil umsvif eru í byggingariðnaði á suðvesturhorninu.

Greiningardeild Arion banka kynnti í morgun nýja hagspá fyrir árin 2016-2019. Í spánni er reiknað með 4,2% hagvexti í ár en að svo taki að hægja á og að hagvöxtur verði milli tvö og þrjú prósent til 2020, sem er nær því sem stenst til lengdar. Greiningardeildin spyr hvort að horfurnar séu of góðar til að vera sannar.

Einkaneysla mun draga vagninn út spátímann, en einnig verður nokkur fjárfesting. Ferðaþjónusta mun áfram vaxa en hægar en áður og sterk króna og mikill kaupmáttur mun styðja við áframhaldandi innflutningsvöxt

Að mati greiningardeildarinnar er nauðsynlegt að fjárfesta af auknum krafti í innviðum. Arðgreiðslur úr bönkunum geta hjálpað ríkinu við fjármögnun slíkra verkefna en þær draga um leið úr getu ríkisins til að greiða niður skuldir. Skoða þarf fleiri leiðir til fjármögnunar, skilgreina hlutverk einkaaðila og hvaða verkefni fjármagna má með notendagjöldum.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir