Síða 2112

Greina stöðu uppbyggingar í Vesturbyggð

Undanfarið ár hefur Vesturbyggð unnið að undirbúningi fyrir verkefni sem ætlað er að kortleggja stöðu atvinnumála í sveitarfélaginu og hvernig hægt er til framtíðar að skapa aðstöðu fyrir þau fyrirtæki sem hafa vaxið hratt og hafa hug á að efla sig enn frekar innan sveitarfélagsins. Með auknu fiskeldi, ferðaþjónustu og aukningu í öðrum atvinnugreinum hefur orðið viðsnúningur í atvinnumálum í Vesturbyggð. Þetta hefur einnig gert það að verkum að nokkurskonar vaxtaverkir hafa orðið m.t.t innviða eins og á hafnarsvæðum, á fasteignamarkaði svo dæmi séu nefnd.

Nú er þessi vinna hafin og nefnist verkefnið „Greining á uppbyggingu innviða, aðstöðusköpunar og uppbyggingar þjónustu í Vesturbyggð“. Verkefnið er unnið af verkfræðistofunni EFLU í samstarfi við Vesturbyggð.

Verkefnið var stuttlega kynnt á íbúafundi á Bíldudal þann 19. september. Nú er fyrsta skref verkefnisins að hefjast og mun verða opinn fundur með fyrirtækjum sem þjónusta t.d fiskeldi, ferðaþjónustu og aðrar stærri atvinnugreinar innan Vesturbyggðar.

Fundur fyrir fyrirtæki í fiskeldi og skyldum atvinnugreinum verður haldinn  miðvikudaginn 8. nóvember klukkan 15-16:30 í félagsheimilinu á Patreksfirði.

Fundur fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu og skyldum atvinnugreinum verður haldinn fimmtudaginn 9. nóvember klukkan 17-18:30 í félagsheimilinu á Patreksfirði.

Á fundinum verða nokkra spurningar lagðar fram og verður fundarmönnum skipt í hópa 4-8 manns. Einn hópstjóri verður í hverjum hóp, fulltrúi frá verkfræðistofunni EFLU eða Vesturbyggð, og mun hann leiða umræðuna og rita fundargerð.

Samvinna, félagslíf og gleði Súðvíkinga

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps hefur ákveðið að kalla til íbúaþings í sveitarfélaginu helgina 17. – 19. nóvember. Hugmyndin er að flétta saman helgardagskrá þar sem „samvinna, félagslíf, gleði, sameiginlegar og andstæðar hugmyndir og ástríða fyrir sveitarfélaginu er blandað saman eina helgi í nóvember,“ eins og segir á heimasíðu Súðavíkurhrepps. Útkoman er á að vera sameiginleg framtíðarsýn, gildi og markmið Súðvíkinga inn í framtíðina.

Dagskráin verður gróflega á þessa leið:

Á föstudeginum verður Pizzuhlaðborð á Jóni Indíafara kl. 18. Barnadiskótek í skólanum kl. 20 undir stjórn unglingana í félagsmiðstöðinni.

Sjálft þingið fer fram í Samkomuhúsinu í Súðavík laugardaginn 18. nóv. og sunnudaginn 19. nóv.

Sigurborg Kr. Hannesdóttir heldur utan framkvæmd og vinnu þingsins. Sigurborg er sérfræðingur í íbúalýðræði og aðkomu íbúa að vinnu og mótun sveitarfélaga. Sigurborg hefur haldið íbúaþing um land allt og er einn helsti sérfræðingur sveitarfélaga í þessum málaflokki.

Laugardagskvöldið verður síðan helgað gleði, sögum, söng og mat.

Kótilettu- og sagna kvöld verður í Samkomuhúsinu kl. 18. Sagnakvöld er upphaflega skoskur siður þar sem menn og konur stíga á stokk, undir skálaglaum gesta, og segja dauðlegar og ódauðlegar sögur.

Verð fyrir mat 2500 kr.

Kvöldinu verður síðan snúið upp í dansleik með stórhljómsveit Árna Þorgilssonar.

Styrkir menningar- og ferðamálaráðs í Bolungarvík

Menningar- og ferðamálaráð Bolungarvíkurkaupstaðar auglýsir eftir styrkumsóknum. Samkvæmt úthlutunarreglum er tilgangur styrkjanna er að efla menningu og ferðaþjónustu í Bolungarvík og geta umsækjendur verið einstaklingar, fyrirtæki, félagasamtök og stofnanir. Að öllu jöfnu er styrkirnir ekki hærri en 100.000 kr. og getur ekki verið hærri en sem nemur helmingi kostnaðar við verkefnið. Úthlutað er úr sjóðnum fjórum sinnum ári.

Nýjar 360° götu­mynd­ir

Sólskinsdagur þegar ja.is bíllinn heimsótti Ísafjörði í sumar.

Hægt er að skoða nýj­ar 360° götu­mynd­ir af nær öll­um sveita­fé­lög­um lands­ins á korta­vef Já.is. Tekn­ar voru ríf­lega fimm millj­ón­ir mynda í sum­ar á sér­út­bún­um Toyota Yar­is Hybrid bíl en verk­efnið var unnið í sam­starfi við Toyota á Íslandi.

Í fréttatil­kynn­ing­u er haft eft­ir Mar­gréti Gunn­laugs­dótt­ur hjá Já.is að mik­il­vægt sé að end­ur­nýja mynd­irn­ar reglu­lega til að sýna sem rétt­asta mynd af göt­um lands­ins. „Í ár tók­um við ákvörðun um að end­ur­nýja all­an mynda­grunn­inn okk­ar og keyra um allt land. Þá hef­ur tækn­inni einnig fleygt fram og nýr tækja­búnaður var tek­in í notk­un. Jafn­framt er nú hægt að skoða mynd­irn­ar í nýju viðmóti. Þegar við mynduðum fyrst árið 2013 fylgdi Google í kjöl­farið og myndaði götu­mynd­ir.Þessi upp­færsla á korta­vef Já býður því upp á fleiri og nýrri mynd­ir.“

Í sam­ræmi við per­sónu­vernd­ar­lög eru and­lit og bíl­núm­er skyggð á mynd­un­um. Jafn­framt birt­ast ein­göngu 360° mynd­ir við heim­il­is­fang þeirra sem hafa gefið upp­lýst samþykki en hægt er að gefa samþykki fyr­ir birt­ingu mynd­ar á skran­ing­ar.ja.is . Korta­vef­ur­inn var sett­ur í loftið fyr­ir fjór­um árum síðan og hef­ur notk­un­in auk­ist ár frá ári. Mánaðarleg­ir not­end­ur nú eru um 240 þúsund.

Segir það eignarupptöku að stöðva Hvalárvirkjun

Ós Hvalár í Ófeigsfirði. Mynd: Mats Wibe Lund. Myndin tengist fréttinni ekki.

Kristinn Pétursson, fyrrv. þingmaður og verkefnissstjóri fyrirhugaðrar Austurgilsvirkjunar í Ísafjarðardjúpi, skrifar mikla stuðningsyfirlýsingu við Hvalárvirkjun á Facebooksíðu sína. Hann bendir á að talað hefur verið um að virkja Hvalá í áratugi, eða frá því fyrir 1950. Hann segir einnig að þeir sem standa fyrir verkefninu í dag hafa kostað til milljarða í undirbúning og rannsóknir. „Hver ætlar að borga þá milljarða, ef fara á í eignarupptöku á verkefni sem búið er að leyfa? Já það er eignarupptaka að ætla að eyðileggja verkefnið núna. Þá þarf einhver að borga. Hver?“ spyr Kristinn.

Kristinn Pétursson.

Kristinn nefnir einnig að virkjunin sé í nýtingarflokki rammaáætlunar og landeigendur hafi gert skriflega samninga við Vesturverk ehf. um nýtingu vatnsréttinda. Hann telur það vera eignarupptöku ef verkefnið verður stöðvað núna.

Hann telur að Hvalárvirkjun verði lyftistöng fyrir ferðaþjónustu á Ströndum. „Ferðamannaiðnaður á Vestfjörðum á betri sóknarfæri strax þegar virkjunin kemst á framkvæmdastig. Þá kemur fljótlega sumarvegur yfir Ófeigsfjarðarheiði þar sem háspennustrengur yrði lagður í vegkanti þjónustuvegar við háspennustrenginn. Ferðamenn geta þá ekið þann veg „hringinn“ – frá Ströndum í Djúp og öfugt,“ skrifar Kristinn.

Honum finnst vera kominn tími til að mótmælendur á höfuðborgarsvæðinu fari að íhuga hvort það sé ekki „óviðeigandi dónaskapur að ástunda sífellt ýktan áróður í fjölmiðlum um áhrif Hvalárvirkjunar. „Mér finnst það eðlilegir mannasiðir að láta fólkið á Ströndum í friði með sín áform.“

Upp hafa komið hugmyndir um að stofna þjóðgarð á Ströndum í stað virkjunar. Kristinn segir að næg svæði séu á Vestfjörðum fyrir þjóðgarð norðan Árneshrepps ef landeigendur og Ísafjarðarbær vilja það. „Aðgengi að þeim þjóðgarði yrði auðveldara með virkjun Hvalár og kominn sumarvegur milli Stranda og Djúps og hægt að „aka hringinn“. Án Hvalárvirkjunar komast fáir á svæðið nema þá nokkrir „sérútbúnir fjallagarpar“. Almenningur kemst aldrei á þetta svæði, nema það verði virkjað og það komi sumarvegur með lagningu háspennustrengs í vegkanta á sumarvegi milli Stranda og Djúps,“ skrifar Kristinn.

50 milljónir til úthlutunar

Aldrei fór ég suður tónlistarhátiðin er dæmi um menningarverkefni sem hefur notið góðs af uppbyggingarsjóðnum.

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í uppbyggingarsjóð Vestfjarða. Úr sjóðnum eru veittir styrkir til atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna, menningarverkefna og stofn- og rekstrarstyrkir til menningarstofnana. Til úthlutunar árið 2018 eru um 50 milljónir króna og er gert ráð fyrir einni úthlutun. Tekið hefur verið í notkun nýtt rafrænt umsóknarkerfi sem nú er að mestu samræmt fyrir landið allt. Umsóknarfrestur er til miðnættis 21. nóvember.

Við ákvörðun um úthlutun verður sérstaklega litið til verkefna sem uppfylla eitt eða fleiri eftirfarandi skilyrða:

  • Verkefni sem efla nýsköpun og atvinnuþróun á svæðinu
  • Verkefni sem stuðla að vöru- og gæðaþróun í starfandi fyrirtækjum
  • Verkefni sem mynda atvinnutækifæri og auka fagmennsku á sviði lista og menningar
  • Verkefni sem efla samstarf, ýmist á milli svæða, listgreina, fyrirtækja eða rannsóknaraðila
  • Verkefni sem styðja við uppbyggingu og eflingu menningartengdrar ferðaþjónustu
  • Verkefni sem skapa störf fyrir háskólamenntaðar konur og ungt fólk á svæðinu
  • Atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefni sem eru gjaldeyrisskapandi
  • Atvinnuþróunarverkefni sem eru á sviði líftækni

Uppbyggingarsjóður er hluti af sóknaráætlun Vestfjarða og í umsjón Fjórðungssambands Vestfirðinga. Hann veitir styrki til menningar, atvinnuþróunar og nýsköpunar. Uppbyggingarsjóður varð til með samningi ríkis og Fjórðungssambands Vestfirðinga um Sóknaráætlun Vestfjarða 2015-2019 sem undirritaður var 10. febrúar 2015.

Minna atvinnuleysi á landsbyggðinni

Alls eru 4.500 án at­vinnu á Íslandi og mæld­ist at­vinnu­leysi 2,2% á þriðja árs­fjórðungi sam­kvæmt nýjum tölum Hag­stofu Íslands. Atvinnuleysi er minna á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Á þriðja árs­fjórðungi 2017 voru að jafnaði 198.600 manns á aldr­in­um 16–74 ára á vinnu­markaði. Af þeim voru 194.300 starf­andi og 4.300 án vinnu og í at­vinnu­leit. At­vinnuþátt­taka var 82%, hlut­fall starf­andi 80,2% og at­vinnu­leysi 2,2%. Fjöldi starf­andi stóð í stað frá þriðja árs­fjórðungi 2016 og hlut­fall starf­andi af mann­fjölda lækkaði um 2,1 pró­sentu­stig, seg­ir í frétt Hag­stofu Íslands.

Á sama tíma fækkaði at­vinnu­laus­um um 900 manns og hlut­fall at­vinnu­lausra af vinnu­afli lækkaði um 0,5 pró­sentu­stig. At­vinnu­laus­ar kon­ur voru 2.300 og var at­vinnu­leysi á meðal kvenna 2,5%. At­vinnu­laus­ir karl­ar voru 2.000 eða 1,9%. At­vinnu­leysi var 2,5% á höfuðborg­ar­svæðinu og 1,5% utan þess.

Samgöngufélagið gefur skilti

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri í Vesturbyggð og Jónas Guðmundsson með skiltið góða.

Bílafloti landsmanna rafvæðist hraðar en nokkurn óraði fyrir þó að rafmagnsbílar séu enn í miklum minnihluta. Rafmagnsbílarnir verða langdrægari með hverju árinu og hægt en bítandi byggist upp net hleðslustöðva á landinu. Fyrr á árinu fékk Vesturbyggð hleðslustöð að gjöf frá Orkusölunni og er stöðin staðsett fyrir utan íþróttamiðstöðina Bröttuhlíð á Patreksfirði. Í vikunni kom Jónas Guðmundsson sýslumaður færandi hendi með skilti til að merkja stöðina, en skiltið er gjöf frá Samgöngufélaginu sem Jónas er í forsvari fyrir.

Hamarsmenn koma í heimsókn

Meistaraflokkur Vestra. Mynd: Ágúst Atlason.

Vestri mætir Hamri í 1. deild karla á heimavelli á morgun föstudaginn. Hamarsmenn eru með öflugt lið og voru nálægt því að tryggja sér sæti í úrvalsdeild á síðasta tímabili. Vestramenn eru enn taplausir á heimavelli og eru staðráðnir í verja þann árangur með kjafti og klóm gegn Hamri. Þetta verður síðasti heimaleikurinn í bili og næsti leikur verður ekki fyrr en 1. desember og upplagt fyrir stuðningsmenn Vestra að fjölmenna og styðja við bakið á strákunum sem eiga það svo sannarlega skilið eftir góða byrjun í deildinni.

Leikurinn hefst kl. 19.15 og að vanda verður fírað upp í grillinu fyrir leik og boðið upp á hina annáluðu hamborgara.

Gul viðvörun á Ströndum

Viðvörunarkerfið á vef Veðurstofunnar.

Gul viðvör­un er í gildi á Ströndum og Norðvesturlandi fram undir kvöld, en þar er hvöss sunnanátt með vind­hviðum yfir 30 m/​s við fjöll. Líkt og greint var frá í gær hef­ur Veður­stof­an tekið upp lita­kort með veðurviðvörunum og eru viðvaranirnar í gulum, appelsínugulum og rauðum lit í samræmi við alvarleika veðurs. Viðvörunarlitur ákvarðast af mati sérfræðinga á væntanlegum áhrifum veðursins og líkum á því að spáin gangi eftir. Samfélagsleg áhrif geta verið mismunandi, s.s. truflanir á samgöngum, eignatjón, skemmdir á mannvirkjum og líkur á slysum, jafnvel mannskaða.

Annars staða á Vestfjörðum verður hægari suðvestanátt í dag, 8-15 m/s með skúrum og hægir í kvöld. Hiti 1 til 8 stig.

Nýjustu fréttir