Laugardagur 19. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2112

Kynna tvær leiðir í Gufudalssveit

Hjallaháls í Gufudalssveit er erfður farartálmi, sér í lagi að vetrarlagi.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur samþykkt að kynna vinnslutillögu vegna aðalskipulagsbreytinga sem nýr Vestfjarðavegur nr. 60 krefst, í daglegu tali kallað vegagerð í Teigsskógi. Í vinnslutillögunni er ekki búið að gera upp á milli leiða, það er Þ-H leið um Teigsskóg og D-leið í jarðgöngum undir Hjallaháls. Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps, segir að skipulagsbreytingin sé nú á skrefi tvö af þremur. „Þriðja skrefið er svo tillagan sjálf og þá verðum við að taka ákvörðun um hvaða leið við viljum,“ segir hún. Að sögn Ingibjargar Birnu vonast hún til að endanleg tillaga verði afgreidd á sveitarstjórnarfundi 14. desember. „Það gæti hins vegar gerst að við verðum ekki búin að fá öll gögn í hús og ákvörðunin frestist fram í janúar.“

Aðspurð hvort málið sé umdeilt innan sveitarstjórnar segir Ingibjörg Birna frekar orða þannig ekki séu allir sammála. „Aftur á móti held ég að allir séu sammála um að taka ákvörðun út frá þeim gögnum sem liggja fyrir,“ segir hún.

smari@bb.is

Auglýsing

Óbreytt útsvar

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt tillögu Gísla Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra um að útsvarsprósenta í fjárhagsáætlun næsta árs verði óbreytt, eða 14,52 prósent. Samkvæmt tekjustofnalögum getur útsvarsprósentan hæst verið 14,52 prósent en lægst 12,44 prósent. Á yfirstandandi ári innheimta öll sveitarfélög á Vestfjörðum hæsta leyfilega útsvar með einni undantekningu sem er Súðavíkurhreppur þar sem útsvarið er 14,48 prósent.

Í þremur sveitarfélögum er innheimt lágmarksútsvar; í Skorradalshreppi, í Ásahreppi og í Grímsnes- og Grafsneshreppi.

smari@bb.is

Auglýsing

Vegagerðin tryggi eðlilegar samgöngur

Sveitarstjórn Reykhólahrepps gerir þá skýru kröfu til Vegagerðarinnar að hún tryggi eðlilegar samgöngur og þjónustu við íbúa Flateyjar á meðan á viðgerð á flóabátnum Baldri stendur yfir. Þetta kemur fram í ályktun sveitarstjórnar. Þar segir að ekki sé boðlegt að íbúar í eynni búi við samgönguleysi svo vikum skipti.  Eins og staðan er í dag, er ekki útlit fyrir að neinn aðili sinni samgöngum á milli lands og eyju í desember. Út frá þörfum íbúanna almennt, ekki síst vegna öryggis og heilsu er það algjörlega óásættanlegt og óboðlegt.

smari@bb.is

Auglýsing

Árneshreppur í New York Post

Batman horfir yfir síldarverksmiðjuna í Djúpuvík.

Í ferðablaði New York Post er ítarleg umfjöllun um Árneshrepp á Ströndum. Tilefni umfjöllunarinnar er frumsýning Hollywoodmyndarinnar Justice League sem var tekin upp að hluta í hreppnum, fyrst og fremst í Djúpuvík. Kvikmyndin skartar súperstjörnunni Ben Affleck í hlutverki Batman en í myndinni er litríkt gallerý ofurhetja og nægir að nefna auk Batmans þau Súperman, Ofurkonuna og Hvell-Geira.

Djúpu­vík m.a. lýst sem ein­hverju af öðrum heimi. Þar seg­ir að svæðið hafi fljótt heillað leik­stjór­ann og fram­leiðand­ann sem tökustaður. „Hér er eng­in þörf fyr­ir tækni­brell­ur, bara gam­aldags kvik­mynda­töku til að ná hinu nátt­úru­lega um­hverfi,“ er m.a. haft eft­ir fram­leiðand­an­um Jim Rowe um tök­urn­ar á Íslandi.

Í grein New York Post er þess getið að íbú­ar Árnes­hrepps séu um fimm­tíu og sagt frá sögu síld­ar­æv­in­týr­is­ins í Djúpu­vík. Útitök­urn­ar voru tekn­ar á staðnum en inni­tök­urn­ar voru tekn­ar í kvik­mynda­veri í Bretlandi þar sem búið var að endurgera verksmiðjuna að ákveðnu leyti.

smari@bb.is

Auglýsing

Mikill hafís norður af landinu

Heilmikil hafísmyndun hefur átt sér stað fyrir norðan land og ísinn færist hratt austur. Í morgun var jaðarinn 28 sjómílur norður af Horni, og náði austur á 21°V Það er líklegt að ísinn færist austar og nær landi næstu daga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá eldfjallafræði- og náttúrvárhóps Háskóla Íslands. Hér að ofan má sjá haf­ís­inn á SENT­INEL-1 rat­sjár­mynd frá Evr­ópsku geim­ferðastofn­un­inni. Með fylg­ir viðvör­un um að gervi­tungla­mynd­ir geti ekki greint all­an haf­ís og að aðstæður geti breyst hratt. Ef vel er gáð má sjá ótal skip að veiðum rétt sunnan við ísjaðarinn, sem litla hvíta punkta.

smari@bb.is

Auglýsing

Bræðraborg hættir

Kaffihúsið Bræðraborg á Ísafirði er að syngja sitt síðasta og lokar endanlega á Þorláksmessu. „Eftir mörg skemmtileg og dásamleg ár fyrir framan kaffivél Bræðraborgar, er komið að því að ljúka þessu ævintýri og loka kaffihúsinu,“ segir á Facebooksíðu Bræðraborgar.

„Við viljum þakka öllum vinum okkar fyrir góð og skemmtileg viðskipti og allar þær hressu stundir sem við höfum átt saman á kaffihúsinu,“ segir ennfremur. Bræðraborg er í eigu ferðaþjónustufyrirtækisins Borea Adventures.

smari@bb.is

Auglýsing

Vegurinn verður lokaður í vetur!

Berþór Ólason og Sigurður Páll Jónsson

„Ferjan Baldur er oft kölluð brúin yfir til Vestfjarða.“ segir á heimasíðu Sæferða, rekstaraðila Breiðafjarðarferjunnar.  Sú ótrúlega staða er nú uppi að önnur af tveimur samgönguleiðum á milli sunnanverðra Vestfjarða og Vesturlands er lokuð um ótilgreindan tíma.  Fyrsta frétt gaf til kynna að lokunin myndi vara í nokkra daga.  Önnur fréttatilkynningin frá Sæferðum gaf til kynna að viðgerð á skipinu tæki 3-4 vikur og í gær barst þriðja tilkynningin, en þar var sagt frá því að viðgerð muni taka 7 vikur hið minnsta og siglingar ekki hefjast aftur fyrr en á nýju ári!

Lokað í 3 mánuði?

Því miður er hér að líkindum um óraunhæfar væntingar að ræða, miðað við umfang bilunar og þann tíma sem tekið hefur að leysa sambærileg vandamál áður.  Þó að þeir sem hér skrifa séu ekki sérfræðingar í skipavélum (annar þó meiri en hinn), þá má af samtölum við þá sem til þekkja ætla að líklegra sé að stoppið vari nær þremur mánuðum en 7 vikum!

Leiguskip er eina lausnin

Þessi staða er fullkomlega ótæk.  Ef vegasamgöngur væru með forsvaranlegum hætti á leiðinni væri hugsanlegt að almenningur og atvinnulíf á sunnanverðum Vestfjörðum og ferðaþjónustan við Breiðafjörð gæti lifað með þessu, en eins og staðan er, þá er enginn kostur annar í stöðunni en að Sæferðir gangi til þess verks, undanbragðalaust, að fá leigt skip sem getur sinnt verkefninu á meðan Baldur er í viðgerð.

Bergþór Ólason

Sigurður Páll Jónsson

Höfundar eru þingmenn Miðflokksins í Norðvestur kjördæmi

Auglýsing

Versta norðanhríðin í áraraðir

Mögu­lega þarf að fara allt aft­ur í fe­brú­ar­mánuð árið 1999 til að finna jafn­lang­an og leiðin­leg­an kafla með norðan­hríðum og gekk yfir landið frá miðviku­degi síðustu viku og fram á helg­ina. Rætt er við Einar Sveinbjörnsson veðurfræðing í Morgunblaðinu í dag. Hann bendir á að frá kvöldi 18. febrúar 1999 og fram á aðfararnótt 22. febrúar, eða fyrir tæpum 19 árum, hafi geisað stórhríð um norðanvert landið og verið því sem næst samfelld í þrjá til fjóra sólarhringa.

„Aðdrag­and­inn að hríðarbyln­um var reynd­ar nokk­ur ann­ar en nú. Þá var nær­göng­ul lægð fyr­ir norðan land, en nú ein­kennd­ist byl­ur­inn frek­ar af háum þrýst­ingi. Og margt gekk á. Til dæm­is kyngdi niður mikl­um snjó svo sem á Ak­ur­eyri, hús voru rýmd á Sigluf­irði, í Bol­ung­ar­vík. Snjóflóð féll úr Tinda­stóli og raf­magns­leysi var í Skagaf­irði. Veg­ir voru lokaðir meira og minna í nokkra daga líkt og nú,“ seg­ir Ein­ar.

smari@bb.is

Auglýsing

„Svo fór hann að hlæja.“

Konur sem starfa eða hafa starfað innan sviðslista og kvikmyndagerðar á Íslandi hafa nú líkt og konur í stjórnmálum birt undirskriftalista og sögur af kynferðislegri áreitni og ofbeldi í sínum störfum og er er fyrirsögnin tekin úr eftirfarandi sögu:

Ég var að leika í sýningu og varð hrifin af ljósamanninum. Við byrjuðum að hittast og ég vildi fara rólega og bíða með kynlíf þangað til við þekktumst betur. Kvöld eitt missti hann þolinmæðina og nauðgaði mér. Ég mætti ósofin og í áfalli á æfingu daginn eftir. Ég skalf og titraði við tilhugsunina um að hann vofði hátt yfir höfðinu á mér, að elta mig með eltiljósi. Mér fannst ég fangelsuð. Í hádeginu gat ég ekkert borðað, og þá sagði aðalleikarinn hátt og hæðnislega yfir borðið, svo allir heyrðu: Æ æ, mölvaði ljósamaðurinn í þér hjartað? Svo fór hann að hlæja.

Sögurnar fjalla ekki eingöngu um kynferðislega áreitni og ofbeldi heldur þann sjúka valdastrúktúr sem mætir konum og heldur þeim niðri. Þær virðast hafa minna vægi og vald og að hafna valdameiri karlmanni getur eyðilagt starfsferilinn

Ég gegni ábyrgðarstöðu innan kvikmyndabransans og hef hvorki tölur né yfirlit um öll þau skipti sem mér hefur verið mismunað vegna kynferðis míns gegnum tíðina. 

Ég hef setið á fundum þar sem hugmyndir mínar hafa verið þaggaðar og svo endurteknar af karlmanni skömmu síðar og þá á þær hlustað. Ég hef barist í óteljandi skipti fyrir því að jafnhæf kona sé ráðin frekar en karl og sjaldan á það hlustað. Ég hef endalaust reynt að hafa áhrif á að konur hafi ásýnd til jafns við karla í þeim verkefnum sem ég hef tengst og baráttan oft verið erfið og engu skilað, eins og að berja höfðinu við stein. Í kringum mig hefur launaleynd viðgengist lengi og þegar ég hef samið við karlkyns yfirmenn hef ég alltaf verið beðin um trúnað um þær tölur og ef ég hef brotið hann, hef ég komist að því að það var vegna þess að ég var með lægri laun en karl í áþekku starfi. Ég hef rekið mig á það að karlkynskollegar mínir hafa mun meira svigrúm til orða, athafna og mistaka án þess að vera hengdir fyrir það en konur. Ég hef ekki enga yfirsýn yfir hversu oft karlkyns yfirmaður í kringum mig hefur misbeitt valdi sínu. Ég man ekkert hversu oft ég hef fengið óviðeigandi, kynferðislegar og niðurlægjandi athugasemdir, sem eru augljóslega bara til þess að slá mig út af laginu og halda mér á mínum stað, í óörygginu. Magnið af þessu rugli er slíkt að ég hef enga yfirsýn lengur, en ég lít samt á mig sem “heppna” því mér hefur ekki verið nauðgað eða ráðist á mig líkamlega. En ansi oft andlega. Og það hefur áhrif til lengri tíma. En ég hef líka átt marga, marga, samstarfsmenn sem hafa komið fram af sjálfsagðri virðingu og réttlæti. Þeir eru bara ekki til umræðu akkúrat núna, þó þeir séu nauðsynlegur hluti af umræðunni til framtíðar.

Hér er hægt að nálgast undirskriftalistann og gefum þeim orðið:

Kynferðisofbeldi, áreitni og kynbundin mismunun á sér stað í sviðslista- og kvikmyndageiranum, rétt eins og annars staðar í samfélaginu.

Þá gerir smæð bransans og takmarkaður fjöldi hlutverka/tækifæra aðstæður erfiðari. Óþarfi er að taka fram að allir karlar gerast ekki sekir um áreitni eða mismunun – en hins vegar verða nær allar konur fyrir því á starfsferli sínum og það er algerlega óásættanlegt.

Við krefjumst þess að karlkyns samverkamenn okkar taki ábyrgð; að yfirvöld, leikhús og framleiðslufyrirtæki taki af festu á málinu og komi sér upp verkferlum og viðbragðsáætlun.

Við eigum ekki að þurfa að þegja lengur né leiða ástandið hjá okkur.

Við verðskuldum að okkur sé trúað og sýndur stuðningur. Fyrst og fremst á misréttinu að linna.

Við krefjumst þess að fá að vinna vinnuna okkar án áreitni, ofbeldis eða mismununar.

Við stöndum saman og höfum hátt.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Hlýnar næstu daga

Hláka framundan.

Í dag er spáð hægri vestanátt á Vestfjörðum og hita í kringum frostmark og á morgun verður áframhaldandi vestanátt og hlýnar í veðri. Á fimmtudag er spáð hvassri suðvestanátt, um og yfir 20 m/s, á Vestfjörðum með súld eða rigningu. Í hugleiðingum veðurfræðings segir að eftir bjarta og kalda nótt með talsverðu frosti, einkum inn til landsins, lítur út fyrir að þykkni upp og fari að hlýna. Á morgun er spáð vestanátt og súld með köflum, en stöku éljum fyrir norðan og hita yfirleitt ofan frostmarks. Bætir síðan áfram í vind og vætu þegar líður að helgi og hlýnar enn.

smari@bb.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir