Þriðjudagur 22. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2112

Skuldahlutfall í sögulegu lágmarki

Fjárhagur Bolungarvíkur hefur farið ört batnandi.

Fyrri umræða um fjárhagsáætlun Bolungarvíkurkaupstaðar fyrir næsta ár fór fram á fundi bæjarstjórnar í gær. Gert er ráð fyrir 24 milljóna króna rekstrarafgangi og veltufé frá rekstri er 136 milljónir króna. Skuldahlutfall bæjarins fer niður í sögulegt lágmark eða 110 prósent. Ekki eru nema örfá ár síðan skuldahlutfall sveitarfélagsins var yfir 150 prósentum, sem er yfir leyfilegu viðmiði sveitarstjórnarlaga.

Á næsta ári verður framkvæmt fyrir 150 milljónir króna og liggur fyrir að stærsta einstaka framkvæmdin verður fyrsti áfangi stækkunar leikskólans Glaðheima.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Sumarhús gjörónýtt eftir eldsvoða

Mynd: Strandir.is

Mannlaust sumarhús í Bjarnarfirði í Kaldrananeshreppi, milli Drangsness og Hólmavíkur, eyðilagðist í eldi í gærkvöldi. Húsið, sem er gamall sveitabær sem breytt hefur verið í sumarhús, er gjörónýtt.

Slökkviliðsmenn úr slökkviliðum Strandabyggðar og Kaldrananeshrepps taka þátt í slökkvistarfinu og hafa við það notið aðstoðar heimamanna. Á vef RÚV segir að slökkvistarf hafi gengið nokkuð vel en aðstæður nokkuð erfiðar. Til dæmis þurfti að brjóta leið niður að nálægri á til að komast í vatn, og var það gert með aðstoð heimamanns á sérútbúinni dráttarvél. Brjóta þurfti niður hluta þaks og veggja til að komast að síðustu glæðunum og slökkva þær.

Eldsupptök eru ókunn en lögregla hefur nú tekið við vettvangi og mun leiða rannsókn á þeim.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Rannsóknaþing á Ísafirði

Stjórnsýsluhúsið á Ísafirði.

Fimmtudaginn 7. desember fer fram stutt rannsóknaþing í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði þar sem vísinda- og rannsóknafólk á Vestfjörðum kemur saman. Þingið er opið jafnt þeim sem starfa innan stofnana sem þeim sem vinna sjálfstætt. Dagskráin hefst kl. 14 og stendur fram eftir degi.

Til stóð að halda tveggja daga rannsóknaþing á Patreksfirði í haust en tekin var ákvörðun um að fresta því þar sem tímasetningin þótti ekki henta þegar á reyndi. Þess í stað var ákveðið að halda styttra þing á Ísfirði í desember þar sem vísinda- og rannsóknafólk mun stilla saman strengi sína og leggja drög að viðameira rannsóknaþingi vorið 2018.

Háskólasetur Vestfjarða hlaut hvatningarstyrk úr Sóknaráætlun Vestfjarða til að skipuleggja Rannsóknaþing Vestfjarða. Markmið þingsins voru m.a. þau að gefa öllum rannsóknastofnunum og sjálfstætt starfandi rannsóknafólki tækifæri til að bera saman bækur sínar og vinna markvisst að því að þróa samstarfsverkefni. Einnig var þingið hugsað sem vettvangur til að kynna almenningi og fyrirtækjum það fjölbreytta starf sem unnið er á sviði rannsókna og vísinda á Vestfjörðum. Ekki gefst svigrúm til slíkra kynninga að þessu sinni og bíða þær stærra þings.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Hvessir af suðvestri á morgun

Veðurstofan spáir vestlægri eða breytilegri átt, 3-10 m/s og súld eða rigningu með köflum á Vesturlandi og sums staðar slyddu á norðvestanverðu landinu, en annars bjart með köflum. Suðvestan 10-18 og víða rigning á morgun, hvassast norðvestan til, en þurrt að kalla Suðausturlandi. Hlýnar í veðri, hiti víða 0 til 5 stig síðdegis, en frost 0 til 5 stig fyrir austan, 3 til 8 stig á morgun.

Hiti fer heldur hækkandi fram að helgi og gæti náð 10 stigum á Suðausturlandi á morgun.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Kynna tvær leiðir í Gufudalssveit

Hjallaháls í Gufudalssveit er erfður farartálmi, sér í lagi að vetrarlagi.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur samþykkt að kynna vinnslutillögu vegna aðalskipulagsbreytinga sem nýr Vestfjarðavegur nr. 60 krefst, í daglegu tali kallað vegagerð í Teigsskógi. Í vinnslutillögunni er ekki búið að gera upp á milli leiða, það er Þ-H leið um Teigsskóg og D-leið í jarðgöngum undir Hjallaháls. Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps, segir að skipulagsbreytingin sé nú á skrefi tvö af þremur. „Þriðja skrefið er svo tillagan sjálf og þá verðum við að taka ákvörðun um hvaða leið við viljum,“ segir hún. Að sögn Ingibjargar Birnu vonast hún til að endanleg tillaga verði afgreidd á sveitarstjórnarfundi 14. desember. „Það gæti hins vegar gerst að við verðum ekki búin að fá öll gögn í hús og ákvörðunin frestist fram í janúar.“

Aðspurð hvort málið sé umdeilt innan sveitarstjórnar segir Ingibjörg Birna frekar orða þannig ekki séu allir sammála. „Aftur á móti held ég að allir séu sammála um að taka ákvörðun út frá þeim gögnum sem liggja fyrir,“ segir hún.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Óbreytt útsvar

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt tillögu Gísla Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra um að útsvarsprósenta í fjárhagsáætlun næsta árs verði óbreytt, eða 14,52 prósent. Samkvæmt tekjustofnalögum getur útsvarsprósentan hæst verið 14,52 prósent en lægst 12,44 prósent. Á yfirstandandi ári innheimta öll sveitarfélög á Vestfjörðum hæsta leyfilega útsvar með einni undantekningu sem er Súðavíkurhreppur þar sem útsvarið er 14,48 prósent.

Í þremur sveitarfélögum er innheimt lágmarksútsvar; í Skorradalshreppi, í Ásahreppi og í Grímsnes- og Grafsneshreppi.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Vegagerðin tryggi eðlilegar samgöngur

Sveitarstjórn Reykhólahrepps gerir þá skýru kröfu til Vegagerðarinnar að hún tryggi eðlilegar samgöngur og þjónustu við íbúa Flateyjar á meðan á viðgerð á flóabátnum Baldri stendur yfir. Þetta kemur fram í ályktun sveitarstjórnar. Þar segir að ekki sé boðlegt að íbúar í eynni búi við samgönguleysi svo vikum skipti.  Eins og staðan er í dag, er ekki útlit fyrir að neinn aðili sinni samgöngum á milli lands og eyju í desember. Út frá þörfum íbúanna almennt, ekki síst vegna öryggis og heilsu er það algjörlega óásættanlegt og óboðlegt.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Árneshreppur í New York Post

Batman horfir yfir síldarverksmiðjuna í Djúpuvík.

Í ferðablaði New York Post er ítarleg umfjöllun um Árneshrepp á Ströndum. Tilefni umfjöllunarinnar er frumsýning Hollywoodmyndarinnar Justice League sem var tekin upp að hluta í hreppnum, fyrst og fremst í Djúpuvík. Kvikmyndin skartar súperstjörnunni Ben Affleck í hlutverki Batman en í myndinni er litríkt gallerý ofurhetja og nægir að nefna auk Batmans þau Súperman, Ofurkonuna og Hvell-Geira.

Djúpu­vík m.a. lýst sem ein­hverju af öðrum heimi. Þar seg­ir að svæðið hafi fljótt heillað leik­stjór­ann og fram­leiðand­ann sem tökustaður. „Hér er eng­in þörf fyr­ir tækni­brell­ur, bara gam­aldags kvik­mynda­töku til að ná hinu nátt­úru­lega um­hverfi,“ er m.a. haft eft­ir fram­leiðand­an­um Jim Rowe um tök­urn­ar á Íslandi.

Í grein New York Post er þess getið að íbú­ar Árnes­hrepps séu um fimm­tíu og sagt frá sögu síld­ar­æv­in­týr­is­ins í Djúpu­vík. Útitök­urn­ar voru tekn­ar á staðnum en inni­tök­urn­ar voru tekn­ar í kvik­mynda­veri í Bretlandi þar sem búið var að endurgera verksmiðjuna að ákveðnu leyti.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Mikill hafís norður af landinu

Heilmikil hafísmyndun hefur átt sér stað fyrir norðan land og ísinn færist hratt austur. Í morgun var jaðarinn 28 sjómílur norður af Horni, og náði austur á 21°V Það er líklegt að ísinn færist austar og nær landi næstu daga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá eldfjallafræði- og náttúrvárhóps Háskóla Íslands. Hér að ofan má sjá haf­ís­inn á SENT­INEL-1 rat­sjár­mynd frá Evr­ópsku geim­ferðastofn­un­inni. Með fylg­ir viðvör­un um að gervi­tungla­mynd­ir geti ekki greint all­an haf­ís og að aðstæður geti breyst hratt. Ef vel er gáð má sjá ótal skip að veiðum rétt sunnan við ísjaðarinn, sem litla hvíta punkta.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Bræðraborg hættir

Kaffihúsið Bræðraborg á Ísafirði er að syngja sitt síðasta og lokar endanlega á Þorláksmessu. „Eftir mörg skemmtileg og dásamleg ár fyrir framan kaffivél Bræðraborgar, er komið að því að ljúka þessu ævintýri og loka kaffihúsinu,“ segir á Facebooksíðu Bræðraborgar.

„Við viljum þakka öllum vinum okkar fyrir góð og skemmtileg viðskipti og allar þær hressu stundir sem við höfum átt saman á kaffihúsinu,“ segir ennfremur. Bræðraborg er í eigu ferðaþjónustufyrirtækisins Borea Adventures.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir