Sunnudagur 11. maí 2025
Heim Blogg Síða 2112

Bæjarráð samþykkir móttöku flóttamanna

Velferðarsvið Ísafjarðarbæjar hefur fengið staðfestingu velferðarráðuneytisins um að bænum bjóðist að taka á móti flóttamönnum frá Sýrlandi. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkti í gær tillögu Gísla Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra um að bærinn bjóðist til að taka má móti fólkinu sem verða eitthvað á þriðja tug talsins. Móttaka flóttafólksins verði unnin í samstarfi sveitarfélaganna á norðanverðum Vestfjörðum eins og kostur er.

Koma flóttafólksins gæti orðið í lok janúar eða í febrúar 2018, samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu. Velferðarsvið Ísafjarðarbæjar hefur gert ráðuneytinu ljóst að bærinn ráði vel við þetta verkefni, enda liggur fyrir að hægt verður að finna húsnæði.

smari@bb.is

Auglýsing

Áfram gert ráð fyrir niðurskurði í nýju fjárlagafrumvarpi

Bjarni, líkt og forveri hans í fjármálaráðuneytinu, vill skera niður fjárframlög til Náttúrustofu Vestfjarða.

Í nýju fjárlagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra er áfram lagt til að framlag ríkissjóðs til Náttúrustofu Vestfjarða verði skorið niður um ríflega þriðjung á næsta ári – úr 28,7 milljónum króna í 17,7 milljónir króna. Ljóst að er niðurskurðurinn veldur verulegum búsifjum í rekstri Náttúrustofunnar og þarf jafnvel að grípa til fækkunar stöðugilda. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar bókaði um fyrirhugaðan niðurskurð og í bókuninni er ríkisvalið hvatt til að efla starfsemi Náttúrustofu Vestfjarða með auknum fjárveitingum og „slást með þeim hætti í lið með Vestfirðingum sem telja gífurlega mikilvægt að mikill kraftur verði settur í rannsóknir á strandsvæðum Íslands.“

Bæjarráð óskar jafnframt eftir því að sveitarfélög á Íslandi fái þann lýðræðislega rétt að taka að sér skipulag á strandsvæðum.

Í bókuninni segir:

„Hafrannsóknir á mikilvægum fiskistofnum við Ísland hafa leitt til sívaxandi þekkingar á þessum mikilvægu auðlindum, þó vissulega þurfi einnig að efla þær rannsóknir enda er fjölmargt sem rannsaka þarf betur. Rannsóknir á strandsvæðum Íslands, þar sem m.a. er að finna uppvaxtarsvæði mikilvægra fiskistofna og mikil tækifæri til uppbyggingar í fiskeldi og annarri matvæla- og líftækniframleiðslu, eru þó varla fugl né fiskur. Í ljósi mikilvægis strandsvæða fyrir okkur Íslendinga er kominn tími til að þjóðin hætti að vera eftirbátur annarra þjóða í rannsóknum og skipulagi strandsvæða.

Strandsvæðin eru Vestfirðingum einkar mikilvæg, enda þriðjungur strandlengju Íslands á Vestfjörðum.“

smari@bb.is

Auglýsing

Gera gagn fyrir Fannar

Fannar Freyr Þorbergsson.

Þann 19.október lenti ungur Ísfirðingur, Fannar Freyr Þorbergsson, í alvarlegu bílslysi í Álftafirði. Í slysinu hlaut hann skaða á mænu og framundan er löng og ströng endurhæfing. Fannar er baráttujaxl og er þegar búinn að ná skjótari bata en læknar gerðu ráð fyrir.

Það því miður alkunna að það er dýrt að slasast og vera veikur á Íslandi og þjálfarar og starfsfólk Studio Dan á Ísafirði ætla að leita til nærsamfélagsins til að leggja sitt af mörkum og gefa Fannari Frey góða jólagjöf sem vonandi léttir aðeins undir í baráttunni sem bíður hans.

Á Þorláksmessu kl. 10:00-11:45 verður blásið til viðburðarins „Gerum gagn“.

Gerum gagn er stöðvaæfingagleði sem verður til húsa í Studio Dan og kostar kr. 2.000 að vera með og rennur upphæðin sem inn kemur óskipt til Fannars. Greiða þarf með seðlum svo hægt sé að afhenda upphæðina sem safnast í lok viðburðar.

Örlítið um Gerum gagn:

  • Það þarf ekki að eiga kort í Studioinu til að vera með
  • Verð kr. 2000 á mann en frjáls framlög að sjálfsögðu vel þegin
  • Æfingunum er stillt upp þannig að allir geta verið með, óháð aldri, líkamsástandi eða öðru
  • Studio Dan verður skipt upp í 6 stöðvar
  • Unnið í 10 mín á hverri stöð
  • 8-10 manns á hverri stöð
  • Stöðvarnar innihalda meðal annars:
  • Spinning
  • Hreyfingu á þrektækjum
  • Lóða og tækjaæfingar
  • Liðleika og kviðæfingar
  • Lotuþjálfun

Vilji fólk mæta í hópum er það sjálfsagt mál og bent á að tilvalið væri að mæta í fatnaði sem einkennir hópinn. Þeir sem vilja leggja málefninu lið en ekki taka þátt í hreyfingunni geta að sjálfsögðu litið við í Studionu, heilsað upp á hópinn og stutt við átakið. Fyrir fyrirtæki og þá sem ekki komast til að vera með á laugardaginn er bent á að einnig er hægt að leggja inn á reikning Fannars: 0556-14-602586-091089-3199.

smari@bb.is

Auglýsing

Hádegissteinninn verður sprengdur

Hádegissteinninn vegur tugi tonna og ekki að spyrja að hættunni sem myndast ef hann hrynur ofan í byggðina.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að Hádegissteinninn í Hnífsdal verði sprengdur. Steinninn er talinn valda hættu fyrir byggðina í Hnífsdal og óttast sérfræðingar að hann geti farið af stað og runnið niður hlíðina og á byggðina. Það er mat sérfræðinga að heppilegra sé að fjarlægja steininn með sprengingum en að festa hann niður með víravirki. Framkvæmdasýslu ríkisins hefur verið falið að ná samningum við lægstbjóðanda í verkið sem er Kubbur ehf., en fyrirtækið bauð fjórar milljónir króna í brjóta steininn niður með sprengingum.

smari@bb.is

Auglýsing

Ríkisstjórnin tryggi fjármagn til rækjurannsókna

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hvetur ríkisstjórn Íslands til að tryggja Hafrannsóknarstofnun fjármagn til að efla rækjurannsóknir við Ísland og Ísafjarðardjúp sérstaklega til að skilja megi til hlýtar ástæður lítillar nýliðunar. Umrædd atvinnugrein skiptir miklu máli fyrir samfélagið við Djúp og því mikilvægt að vandað sé til verka með það að markmiði að hægt sé að stunda sjálfbærar veiðar í atvinnuskyni. Þetta kemur fram í ályktun sem bæjarstjórn samþykkti fyrir helgi. Engar rækjuveiðar verða stundaðar í Ísafjarðardjúpi í vetur samkvæmt ráðleggingum Hafrannsóknastofnunar að loknum haustrannsóknum.

Í ályktuninni er bent á að rækjuveiðar og vinnsla hafa verið stundaðar við Ísafjarðardjúp frá árinu 1935 og skipta samfélagið miklu máli. Árlegur rækjuafli úr Ísafjarðardjúpi hefur iðulega verið á bilinu 1700-2500 tonn og farið upp í 3000 tonn. Það er því grafalvarlegt mál fyrir samfélagið hér að ákveðið hafi verið að rækjuveiðar verði bannaðar í Ísafjarðardjúpi og Arnarfirði, vertíðina 2017-2018.

Síðast þegar rækjuveiðar voru bannaðar í Ísafjarðardjúpi stóð það bann í 9 ár. Í ályktunni er minnt á að Arnarfjörður og Ísafjarðardjúp eru síðustu tvö innfjarðarækjusvæðin sem nýtt eru við Ísland, af átta skilgreindum innfjarðarækjustofnum við landið. „Alger friðun á hinum svæðunum sex, í hartnær tvo áratugi, hefur engum árangri skilað í uppbyggingu rækjustofnanna en er hinsvegar á góðri leið með að gera út af við atvinnugreinina á viðkomandi svæðum,“ segir í ályktuninni sem var samþykkt samhljóða.

smari@bb.is

Auglýsing

Bæjarfulltrúar hækka launin

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti að fastar mánaðarlegar greiðslur til bæjarfulltrúa hækki um 23,5 prósent og greiðslur fyrir funardarsetur hækki um 8,5 prósent. Í afgreiðslu bæjarstjórnar segir að hækkunin sé í samræmi við breytingu á launavísitölu.

Enn fremur var samþykkt að greiðslur til bæjarfulltrúa verði ekki lengur tengdar þingfararkaupi. Greiðslur verði miðaðar við fasta fjárhæð sem skuli endurreiknuð 1. janúar ár hvert í samræmi við launavísitölu. Launavísitalan í október 2017, verður notuð sem grunngildi útreikninganna.

Föst laun bæjarfulltrúar eru 66 þúsund kr. á mánuði og fá þeir greitt 33 þúsund kr. fyrir hvern bæjarstjórnarfund og 16.500 kr. fyrir nefndarfundi.

smari@bb.is

Auglýsing

Góður gangur fyrir jólafrí

Í síðustu viku voru grafnir 70,8 m í Dýrafjarðargöngum. Heildarlengd ganganna í lok viku 50 var 812,0 m sem er 15,3% af heildarlengd ganganna. Grafið var í gegnum þrennskonar efni seinni part vikunnar. Í vinstri hlið ganganna er berggangur sem hefur fylgt gangamönnum í um 40 m. Neðst í sniðinu er karginn á leiðinni upp og svo þar fyrir ofan er basaltið sem grafið hefur verið í síðustu vikurnar. Sem fyrr þá dropar vatn úr loftinu og veggjum.

Efni úr göngunum er keyrt í vegfyllingu sem er komin um 500 m frá enda fyrirhugaðs vegskála. Enn á þó eftir að hækka veginn töluvert.

Á annarri myndinni er stafn ganganna með öllum þremur berggerðunum. Hin myndin sýnir slóðagerð sitt hvoru megin við svæði þar sem lífrænt efni verður tekið upp áður en efni í vegfyllingu er komið fyrir.

Gangamenn Suðurverks og Metrostav fara í jólafrí á morgun og koma aftur til starfa þann 3. janúar. Flestir starfsmenn Metrostav eru frá Tékklandi.

smari@bb.is

Auglýsing

Skammvinn hlýindi

Ausandi rigning á sunnanverðum Vestfjörðum í dag.

Það verður stíf sunnan og suðvestanátt á Vestfjörðum næsta sólarhringinn. Talsverð rigning verður á sunnanverðum Vestfjörðum en minna annars staðar. Síðdegis er spáð sunna 5-13 m/s og hiti verður 3 til 8 stig. Snýst í suðvestan 13-18 m/s í nótt með skúrum eða éljum, en 15-20 m/s síðdegis á morgun með éljagangi og hita 0 til 3 stig.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir hlýtt loft leikur um landið og rignir víða talsvert þegar líður á daginn, jafn vel úrhelli undir Eyjafjöllum, í Mýrdal og Öræfum í kvöld. Hlýindin standa þó stutt yfir, því á morgun kólnar talsvert með útsynningi, skúrum eða éljum. Tölvuspár fyrir vikuna gera ráð fyrir að hlýni um tíma á föstudag, en kólni síðan yfir jólahelgina.

Það er hálka eða hálkublettir á vegum á norðanverðum Vestfjörðum en á sunnanverðum fjörðunum og á Innstrandavegi er víða flughálka. Þæfingsfærð er norður í Árneshrepp. Ófært er yfir Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði.

smari@bb.is

Auglýsing

Ríkisstjórnin hlusti á borgarafundinn

Frá borgarafundinum í í september.

Stjórn Samfylkingarinnar á Samfylkingarinnar á norðanverðum Vestfjörðum leggur áherslu á að ný ríkisstjórn setji raforkumál á Vestfjörðum, vegagerð í Gufudalssveit á oddinn ásamt því að stuðla að laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Þetta kemur fram í ályktun stjórnar Samfylkingarfélagsins. Í ályktuninni bent á að það er mjög mikilvægt fyrir landsbyggðina, eins og landið allt, að hafa góða og gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu sem er öllum opin. Í ályktuninni segir:

„Til þess að landið geti virkað sem ein heild þarf að efla atvinnulífið á landsbyggðinni og finna leiðir til að efla svæði í sátt við náttúruna. Í september 2017 var haldinn borgarafundur  á Ísafirði þar sem kallað var eftir úrbótum í þremur málefnum á Vestfjörðum. Þau eru í fyrsta lagi, vegagerð í Gufudalssveit,  í öðru lagi raforkumál á Vestfjörðum og þriðja lagi, hvort leyfa skuli laxeldi í Ísafjarðardjúpi.

Aðalfundur Samfylkingarinnar á norðanverðum Vestfjörðum tekur heils hugar undir þær ályktanir er settar voru fram á fundinum og hvetur nýja ríkisstjórn til að setja þessi atriði í forgang sem fyrst og þar með sýna að þeir hafi í hyggju að halda uppi blómlegri byggð og  efla atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum.“

Á aðalfundinum var Magnús Bjarnason kjörinn nýr formaður félagsins og tekur hann við af Línu Björgu Tryggvadóttur.

smari@bb.is

Auglýsing

Ný reglugerð um drónaflug

Fyrir helgi öðlaðist reglugerð um fjarstýrð loftför – dróna – gildi á Íslandi. Þótt ýmiss ákvæði loftferðarlaga taki og hafi tekið á þessum þætti flugumferðar er þetta í fyrsta skipti sem sérstaklega er kveðið á um notkun dróna í reglugerð. Markmiðið er að tryggja flugöryggi og öryggi og réttindi fólks. Nýjungar frá fyrri reglum felast m.a. í að tryggja nægjanlega fjarlægð frá fólki, dýrum og mannvirkjum eða eignum.

Segja má að með reglugerðinni skiptist notkun dróna í tvo flokka. Annarsvegar tómstundaflug þar sem ekki þarf að leita sérstaks leyfis hjá Samgöngustofu. Hinsvegar eru reglur um notkun dróna í atvinnuskyni, þ.m.t. rannsókna, sem þarf að skrá hjá þjónustuveri Samgöngustofu. Nánar er kveðið á um undanþágur í reglugerðinni.

Notendur eru hvattir til að kynna sér reglugerðina og fræðsluefni sem nálgast má hér. Samgöngustofa hefur útbúið veggspjald um meginatriði hennar og er það hér meðfylgjandi. Verður því dreift til helstu söluaðila dróna á Íslandi og ætlast er til að þeim sé dreift áfram til kaupenda.

smari@bb.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir