Síða 2111

Tap í Borgarnesi

Barátta í Borgarnesinu í gær.

Vestri beið lægri hlut fyrir Skallagrími í Borgarnesi í gær, 106 : 96, þegar liðin mættust í 1. deilda karla í körfuknattleik. Nebojsa Knezevic var atkvæðamestur Vestramanna, skoraði 37 stig og tók 12 fráköst. Eyjólfur Ásberg Halldórsson var bestur maður Borgnesinganna, skoraði 22 stig, tók fráköst og gaf 10 stoðsendingar.

Skalla­grím­ur er á toppi deild­ar­inn­ar með 14 stig, hef­ur unnið sjö af fyrstu átta leikj­um sín­um, en Vestri er í þriðja sæt­inu með 10 stig. Breiðablik er í öðru sæti með 12 stig og á leik til góða gegn Snæfelli á sunnu­dag.

Smari@bb.is

Svalur nóvember

Nú er nóv­em­ber­mánuður hálfnaður og hef­ur hann verið frem­ur sval­ur, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um Trausta Jóns­son­ar veður­fræðings. Meðal­hiti í Reykja­vík er +1,5 stig, -0,5 neðan meðallags 1961-1990, en -2,3 stig­um neðan meðallags síðustu tíu ár. Nóv­em­ber hef­ur þó tvisvar á öld­inni byrjað kald­ari í Reykja­vík en nú, árin 2005 og 2010. Hlýj­ast var árið 2011. Á langa sam­an­b­urðarlist­an­um er mánuður­inn nú rétt neðan við miðju, í 78. sæti af 142. Fyrri hluti nóv­em­ber var hlýj­ast­ur árið 1945 (8,2 stig), en kald­ast­ur 1969 (-2,6 stig). Meðalhiti var undir meðallagi á öllum veðurstöðvum landsins, minnst í Seley, -0,8 stig, en mest í Veiðivatnahrauni, -3,9 stig.

Trausti skrifar að hita er spáð undir meðallagi næstu daga „svo það verður trúlega þungur róður fyrir mánuðinn að ná meðallagi hvað hita varðar.“

smari@bb.is

Ársrit Sögufélags Ísfirðinga komið út

Út er komið 55. ársrit Sögufélags Vestfirðinga og kennir þar ýmissa grasa. Í inngangi ritstjóranna kemur fram að ársritið spanni að þessu sinni tvö ár, 2016-2017 en því miður hafi ársritið ekki staðið fyllilega undir nafni. Fyrsta ársritið kom út árið 1956, fyrir sextíu og einu ári.

Ritstjórar eru þeir Jón Þ. Þór og Veturliði Óskarsson.

Kristján Pálsson fjallar um sögu Hnífsdals frá landnámi til 19. aldar, um Þórólf Brækir og hugsanlegan misskilning um Skálavík og Hnífsdal. Þar má líka lesa um átök Sólveigar Guðmundsdóttur og Björns hirðstjóra, deilur Magnúsar Prúða í Ögri og Árna Gíslasonar lögmanns og um fyrsta ættlegg Hnífsdalsættar. Heilsufar og trúarlíf Hnífsdælinga er líka líst og haft eftir Eggerti og Bjarna. Greinin í ársritinu er hluti af meistararitgerð Kristjáns í sagnfræði við Háskóla Íslands.

Bragi Bergsson fjallar um Simsongarð og um líf og störf Martinusar Simson en hann hóf ræktun garðsins árið 1926.

Sigurður Pétursson fjallar um Þjóðminningarhátíð Ísfirðinga en í lok 19. aldar tóku Reykvíkingar að halda Þjóðminningardag þann 2. ágúst og tóku fleiri landsmenn það upp, þar á meðal Ísfirðingar. Sá dagur „týndist“ þegar 17. júní var að hátíðisdegi.

Birt er bréf um skólamál í Ísafjarðarsýslu sem sent var blaðinu Norðanfari árið 1881, bréfritari lýsir þar skoðun sinni á barnaskólum og hvetur frekar til að byggðir sem verði upp unglingaskólar.

Að lokum er í ritinu minningargrein um Karl Olgeirsson sem birtist í Vesturlandi í febrúar 1956.

Sögufélagið var stofnað árið 1953 og er tilgangur félagsins meðal annars að safna, varðveita og kynna hverskonar fróðleik um Ísafjarðarsýslu að fornu og nýju, um héraðið og kynna íbúa þess og gefa út rit um þetta efni, ásamt annarri útgáfustarfsemi. Formaður félagins er Guðfinna M. Hreiðarsdóttir.

bryndis@bb.is

Minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa

Sunnudaginn 19. nóvember verður þeirra minnst sem látist hafa í umferðarslysum á Íslandi. Efnt verður til þessarar athafnar í sjötta sinn og er hliðstæð athöfn víða um heim að tilhlutan Sameinuðu þjóðanna sem hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessari minningu.

Um það bil 4.000 einstaklingar láta lífið og hundruð þúsunda slasast í umferðinni í heiminum á degi hverjum. Enn fleiri þurfa að takast á við áföll, sorgir og eftirsjá af völdum þessa. Segja má að allir upplifi með einum eða öðrum hætti afleiðingar umferðarslysa. Vart er til sá einstaklingur sem þekkir ekki einhvern sem lent hefur í  alvarlegu slysi í umferðinni.

Athöfn verður við þyrlupall bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi í Reykjavík sem hefst klukkan 11. Þar mun forseti Íslands flytja ávarp og meðal þeirra sem taka til máls er Þórir Guðmundsson, lögreglumaður á Ísafirði. Þórir missti Þóreyju tvíburasystur sína í banaslysi á Hnífadalsvegi árið 2006.

Þann 1. nóvember 2017 höfðu alls 1.545 manns látist í umferðinni á Íslandi frá því að skipt var yfir í hægri umferð 26. maí 1968. Að meðaltali hefur umferðarslysum fækkað mikið undanfarna áratugi, sérstaklega banaslysum. Árin 2007-2016 létust að jafnaði 12,3 á hverju ári í umferðinni. Næstu 10 ár þar á undan (1997-2006) létust að jafnaði 24,4 á ári. Því má ætla að með betri bílum, betri vegum og betri hegðun ökumanna hafi tekist að bjarga um 12 mannslífum á hverju ári síðustu 10 árin.

Mikil áhersla hefur verið lögð á fræðslu og leiðbeiningar sem m.a. hefur leitt til breytts viðhorfs til áhættuhegðunar eins og hraðaksturs og ölvunaraksturs. Nýrri tækni fylgja nýjar áskoranir og er farsímanotkun við akstur áhættuhegðun sem hefur stórlega aukist á undanförnum árum og hefur mikil áhrif á hegðun ökumanna og veldur það hvað mestum áhyggjum í umferðaröryggismálum heimsins í dag. Samgöngustofa hefur á undanförnum árum staðið fyrir herferðum gegn farsímanotkun undir stýri sem hefur verið sérstaklega beint að ungu fólki. Á þessu ári hefur verið veitt aukið fjármagn í þessa baráttu og eru í því sambandi ýmiss verkefni nú þegar í framkvæmd og í undirbúningi. Ökumenn eru hvattir til þess að ,,gera ekki neitt“ þegar síminn kallar á athygli þegar þeir eru að keyra.

smari@bb.is

Vigdís Grímsdóttir hlýtur Jónasarverðlaunin

Vigdís í kennslustofunni í Finnbogastaðaskóla. Mynd: mbl.is / Golli

Vigdís Grímsdóttir hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu. Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarráðherra afhenti verðlaunin í menningarhúsinu Bergi á Dalvík. Í umsögn dómnefndar segir að Vigdís hafi haft mótandi áhrif á samtíð og menningu Íslendinga. Með rödd sinni, stundum ögrandi og tilfinningaþrunginni, stundum mildri og sefandi, hafi hún hrifið fólk með sér og fengið til að takast á við krefjandi spurningar um manneskjuna og þá veröld sem við lifum og hrærumst í. Hún knúi okkur til að líta í eigin barm eins og hún gerir sjálf í skáldævisögunni Dísusögu þar sem hún hlífir sér hvergi. Þá segir að Vígdís hafi, hvar sem hún er stödd: á Kleppsvegi, í Norðurfirði eða Trékyllisvík, hreyft við lesendum, ekki aðeins hér heima, heldur víða um lönd, með sínum seiðmagnaða frásagnarmáta.

Vigdís hefur síðustu ár verið með annan fótinn í Árneshreppi og setið þar við skriftir og einnig sinnt kennslu við Finnbogastaðaskóla.

smari@bb.is

Veiðibann gríðarlegt áfall

Halldór Sigurðsson ÍS.

Bann við rækjuveiðum í Ísafjarðardjúpi er gríðarlegt áfall fyrir byggðirnar við Djúp. Hafrannsóknastofnun hefur lagt til algjört bann við rækjuveiðum í vetur, bæði í Djúpinu og í Arnarfirði. Gunnar Torfason gerir út rækjubátinn Halldór Sigurðsson ÍS. Hann segir tíðindi dagsins gríðarlegt áfall fyrir útgerðir, sjómenn og landverkafólk. „Það eru um 15 sjómenn sem hafa starfað við rækjuveiðar á veturna og það verður ekkert fyrir þá að gera. Þetta er ekki síður áfall fyrir rækjuverksmiðjuna Kampa og starfsfólkið þar sem hefur verið að þreyja þorrann með rækju úr Djúpinu,“ segir Gunnar.

Rækjusjómenn eru ekki á eitt sáttir með verklag Hafrannsóknastofnunar þegar kemur að rækjurannsókninni. „Við höfum gagnrýnt að það hefur verið tekið svokölluð hálf-rannsókn síðustu ár og sú rannsókn miðar frekar að því að kanna hvað er mikið af fiski í Djúpinu frekar en að kanna hvað er mikið af rækju. Það hefur ekki verið farið á þekktar rækjuslóðir í Hestfirði og út af Óshlíðarvita,“ segir Gunnar.

Síðustu ár hefur verið farið í febrúarrannsókn þar sem ástand rækjustofnsins er kannað og hafa heimabátarnir verið notaðir í þá rannsókn. Gunnar gerir ráð fyrir að Hafrannsóknastofnun geri þessa rannsókn. „Febrúarrannsóknin mun vonandi leiða í ljós að það sé frekari rækju að finna,“ segir Gunnar.

smari@bb.is

Toppslagur í fyrstu deildinni

Meistaraflokkur Vestra sem hóf keppnistímabilið.

Vestramenn eiga erfiðan útileik fyrir höndum í kvöld þegar þeir mæta Skallagrími í Borgarnesi. Skallagrímur er í öðru sæti deildarinnar með 12 stig og Vestri í þriðja sæti með 10 stig. Hafa ber í huga að Vestri hefur leikið einum leik færra. Bæði lið hafa tapað einum leik. Breiðablik er í efsta sæti deildarinnar með 12 stig líkt og Skallagrímur en Breiðablik hafði betur í leik við Skallagrím og það skilar þeim efsta sæti. Að sama skapi mun sigur í kvöld fleyta Vestra í annað sætið með jafn mörg stig og Skallagrímur en eini tapleikur Vestra til þessa var á móti Breiðabliki og því dugar sigur ekki til að ná toppsætinu.

Í gær var greint frá að Ásgeir Angantýsson er genginn til liðs við Vestra og verður spennandi að sjá hvort hann spilar í kvöld.

Leikurinn hefst kl. 19.15.

smari@bb.is

Ágúst genginn í Vestra

Ágúst í leik með KFÍ.

Fram­herj­inn Ágúst Ang­an­týs­son er geng­inn í raðir Vestra á ný og mun leika með liðinu í 1. deild­inni í körfuknatt­leik í vet­ur. Ágúst er frá Þing­eyri og lék með KFÍ, forvera Vestra, tíma­bilið 2013-2014. Hann var um tíma hjá KR og varð bikar­meist­ari með Stjörn­unni árið 2015. Ágúst lék 25 leiki með Stjörn­unni á síðasta tíma­bili og skoraði tæp sex stig að meðaltali og tók að jafnaði tæp fjög­ur frá­köst í leik.

smari@bb.is

Taupokavæða sunnanverða Vestfirði

Í gær hófu verslanir  á sunnanverðum Vestfjörðum að bjóða upp á margnota poka til láns í sínum verslunum. Verkefnið er hluti af alþjóðlegu verkefni sem hefur verið nefnt Boomerang og gengur út á að minnka plastpokanotkun  í heiminum. Nú geta viðskiptavinir fengið poka að láni í stað þess að kaupa plastpoka. Margir eiga sína eigin poka og koma með þá að heiman  og er það best. Ef taupokinn gleymist heima er hægt að fá lánaðan taupoka  í stað þess að kaupa plastpoka.

Boomerang er alþjóðlegt verkefni þannig að það má skila pokunum aftur hér á landi  á merktri Boomerang pokastöð og  erlendis.

Þær verslanir sem eru með í þessu verkefni eru:

  • Fjölval
  • Albína
  • Gillagrill
  • Hjá Jóhönnu
  • Vegamót
  • Logi
  • Vöruafgreiðslan
  • Lyfja
  • Pósthúsið
  • Bókasafnið

Lauslega er áætlað að þessar verslanir selji um 70.000 plastpoka á ári. Miðað við 500 heimili þá eru það 140 pokar á hvert heimili.

Það er styrkur hópur sem stendur að þessu verkefni og hefur útbúið pokana úr efni sem er var fáanlegt á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal. Búið er að útbúa rúmlega 500 poka fyrir svæðið og það verður síðan að koma í ljós hversu marga þarf í viðbót. Þessir hópar hittast áfram til þess að sauma poka ef vantar. Hóparnir hafa hist í Húsinu á Patreksfirði, Vindheimum í Tálknafirði og Læk á Bíldudal.

smari@bb.is

Engar rækjuveiðar í vetur

Hafrannsóknastofnun leggur til við sjávarútvegsráðherra að rækjuveiðar verði bannaðar í Ísafjarðardjúpi og í Arnarfirði í vetur. Samkvæmt stofnmælingum Hafrannsóknastofnunar í haust mældust rækjustofnarnir undir skilgreindum varúðarmörkum. Vísitala veiðistofns rækju í Arnarfirði var í sögulegu lágmarki og vísitala veiðistofns rækju í Ísafjarðardjúpi hefur farið lækkandi frá árinu 2012. Lítið var af þorski í fjörðunum en magn ýsu var svipað og haustið 2016.

Mælingar Hafrannsóknastofnunar benda til að stofnarnir verði í lágmarki næstu árin. Veiðibann var í gildi í Ísafjarðardjúpi árin 2003-2010 og í Arnarfirði árin 2005 og 2006.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir