Þriðjudagur 25. mars 2025
Síða 2111

Fagna opnun veiðisvæða

Mynd úr safni

Sam­tök drag­nóta­manna fagna opn­un veiðisvæða fyr­ir drag­nót á norðan­verðu land­inu. Ekki eru all­ir á eitt sátt­ir um þessa opn­un eft­ir að svæðin höfðu verið lokuð í nokk­ur ár og hafa orðið deil­ur síðustu daga milli hags­munaaðila.

Í til­kynn­ingu frá Sam­tök­um drag­nóta­manna seg­ir að hafa beri í huga að um­rædd­ar lok­an­ir hafi ekki byggst á mál­efna­leg­um sjón­ar­miðum varðandi um­hverf­isáhrif veiðanna eða vernd líf­rík­is, sbr. fyrirliggj­andi skýrsl­ur og álit Haf­rann­sókna­stofn­un­ar um efnið. Ekki held­ur hvað varði skipt­ingu veiðisvæða milli veiðarfæra enda henti það botn­lag sem drag­nót­in nýt­ir síður veiðum með krók­um.

Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar hafa sagt að engin fiskifræðileg rök séu fyrir banninu.

smari@bb.is

Gámaþjónustan bauð lægst í sorphirðu

Tvö fyrirtæki buðu í sorphirðu og -förgun í Ísafjarðarbæ á árunum 2018-20121. Gámaþjónusta Vestfjarða ehf. og Kubbur ehf. skiluðu inn tveimur tilboðum hvort. Annars vegar hefðbundnu tilboði og hinsvegar frávikstilboði þar sem ekki er gert ráð fyrir söfnun lífræns úrgangs og moltugerð. Tilboð Gámaþjónustunnar voru talsvert lægri eða sem hér segir:

Gámaþjónusta Vestfjarða ehf.                             358.301.352 kr.

Gámaþjónusta Vestfjarða, frávikstilboð                322.496.552 kr.

Kubbur ehf.                                                       423.650.536 kr.

Kubbur ehf. frávikstilboð                                     375.990.536 kr.

Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 473.807.200 kr.

smari@bb.is

Togarar stranda í nóvember 1912

Crusader H 5. Mynd: Handels & Söfart museets.dk

Nóvemberveðrin hafa oft verið skæð og fengum við að kenna á einu slíku á sunnudaginn. Þann 6. nóvember 1912 gerði mikið ofsaveður á Vestfjörðum og olli talsverðum usla. Nokkrir togarar leituðu skjóls í Önundarfirði og lágu þar við akkeri meðan veðrið gekk yfir. Þrír breskir togarar slitnuðu upp og ráku á land í firðinum. Tveir komust á flot í næsta flóði en sá þriðji, Hulltogarinn Crusader H 5, sat fastur rétt innan við Flateyri. Togarinn var dreginn á flot af björgunarskipinu Geir, talsvert skemmdur en lappað var upp á hann til bráðabirgða á Flateyri og síðan dró Geir hann til Reykjavíkur.

Um þennan tíðindamikla sólarhring má lesa á bloggsíðu Þórhalls S. Gjöveraa, þar er líka birtur kafli úr bókinni Þrautgóðir á raunastund X bindi um þennan atburð. Þar segir svo:

Fyrstu daga nóvembermánaðar árið 1912 var ríkjandi norðan og norðaustan hvassviðri við Vestfirði. Leituðu þá margir erlendir togarar í var inn á firðina þar. 6 nóvember gerði ofsaveður á þessum slóðum, sem stóð aðeins í nokkrar klukkustundir. Slitnuðu þá sex erlendir togarar upp og rak þá í strand. Þrír þessara togara strönduðu við Önundarfjörð. Náði einn þeirra sér strax á flot aftur og sigldi þá til hafs. Annar komst á flot á næsta flóði, en nokkrar skemmdir höfðu orðið á honum svo hann var ósjálfbjarga. Þriðji togarinn sat fastur á strandstað sínum, en skipshöfnin komst í land á björgunarbátnum. Tveir breskir togarar strönduðu við Patreksfjörð.
Áhafnir þeirra komust hjálparlaust í land þegar óveðrinu tók að slota. Sjötti togarinn strandaði svo við Ísafjörð. Var sá þýskur. Dvaldi áhöfn hans um borð næsta sólarhring, en fór þá í land, þar sem útlit var á að veður versnaði aftur. Björgunarskipið Geir var sent frá Reykjavík til þess að aðstoða togaranna. Kom það vestur 9. nóvember. Dró Geir fyrst út togarana sem strandað höfðu við Patreksfjörð, síðan togarann sem enn var fastur í Önundarfirði og loks togarann sem strandaði við Ísafjörð.

Með færslu Þórhalls fylgja allgóðar myndir af Crusader á strandstað í Önundarfirði.

bryndis@bb.is

Segir niðurskurðinn aðför að störfum háskólamenntaðra

Bæjarráð Vesturbyggðar mótmælir harðlega fyrirhuguðum niðurskurði á framlögum til Náttúrustofu Vestfjarða.Í  fjárlagafrumvarpi sem var lagt fram í haust áður en Alþingi var slitið er lagt til að skera niður fjárframlög til stofunnar um 10,1 milljón króna sem eru um þriðjungur af framlagi ríkisins til stofunnar.

Í bókun bæjarráðs segir að þessi fyrirhugaða skerðing er algjörlega á skjön við þá stefnu sem boðuð var í Vestfjarðaskýrslunni sem og með fyrirhugaðri stofnun Vestfjarðastofu að byggja upp rannsóknaraðstöðu og fjölga háskólamenntuðum starfsmönnum á landsbyggðinni.

„Þessi fyrirhugaði niðurskurður kemur sérstaklega hart niður á sunnanverðum Vestfjörðum og mun hafa áhrif á uppbyggingu stuðningsgreina við vaxandi fiskeldi í sjókvíum í landshlutanum. Bæjarráð Vesturbyggð skorar á þingmenn kjördæmisins að hrinda þessari aðför að störfum háskólamenntaðra starfsmanna á landsbyggðinni og felur bæjarstjóra að fylgja málinu eftir.“

smari@bb.is

Pósturinn fækkar dreifingardögum

Pósturinn hyggst fækka dreifingardögum bréfpósts í þéttbýli frá og með 1. febrúar. Í dag er svokallaður A-póstur borinn út daglega en eftir 1. febrúar verður öllum almennum bréfum dreift á næstu þremur virku dögum eftir póstlagningu sem er sama fyrirkomulag og er í gildi með B-póst. Á vef Póstsins segir að bréfum hafi fækkað mjög á undanförnum árum eða  um 52% frá árinu 2007 og heil 7% það sem af er þessu ári. Í reglugerð um póstþjónustu er kveðið á um heimild til þess að fækka dreifingardögum ef eftirspurn almennings og fyrirtækja á þjónustunni hafi minnkað verulega og er ekki í samræmi við framboð hennar. Á síðasta ári var hætt að bera póst út daglega í dreifbýli og verður því tíðni bréfadreifingar hin sama um allt land þegar breytingin tekur gildi 1. febrúar næstkomandi.

Í tilkynningu frá Póstinum er bent á að um 70% af bréfapósti B-póstur. Pökkum verður áfram dreift alla virka daga en mikill vöxtur er í pakkasendingum hér á landi samhliða aukinni netverslun.

smari@bb.is

Óvenju hlýtt í október

Það eru spennandi og flott verkefni sem íbúar Bolungarvíkur geta valið á milli næstu daga. Mynd: SJS.

Tíðarfar var hagstætt í október. Óvenju hlýtt var og hiti vel yfir meðallagi í öllum landshlutum. Fremur þurrt var á vestanverðu landinu en úrkomumeira á Austfjörðum og Suðausturlandi. Vindur var hægur. Þetta kemur fram í veðurfarsyfirliti Veðurstofunnar. Meðalhiti í Bolungarvík mældist 6,5 stig, 3,0 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 og 2,3 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Reykjavík mældist meðalhiti 6,9 stig sem 2,5 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 og 1,8 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 6,1 stig, 3,1 stigi ofan meðallags 1961 til 1990 og 2,4 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi og á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 6,7 stig.

Október var óvenju hlýr á öllu landinu, þó ekki eins hlýr og október í fyrra. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest í Svartárkoti, +2,6 stig. Hitavikin voru einna minnst á Suðurlandi. Kaldast var í Skaftafelli þar sem hiti var +0.8 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.

Úrkoma var fremur lítil í október, sér í lagi á vestanverðu landinu sem er nokkuð óvenjulegt miðað við hlýindin. Úrkomumest var á Austfjörðum og á Suðausturlandi.

Fyrstu tíu mánuðir ársins hafa verið hlýir á landinu. Febrúar, maí, september og október voru sérlega hlýir.

smari@bb.is

Notkunin í ár 1% af því sem áður var

Leirtau í stað einnota plastmála

Merkjanleg áhrif eru af átaki til að draga úr plastnotkun sem ráðist var í hjá Samskipum í byrjun árs. Það sem af er ári nema innkaup fyrirtækisins á plastmálum innan við 1% af meðalinnkaupum síðustu tveggja ára.

Í tilkynningu kemur fram að árið 2015 voru keypt inn 95.400 plastmál hjá Samskipum og á síðasta ári voru þau 107.600 talsins. Það sem af er þessu ári hafa hins vegar einungis verið keypt 1.000 plastmál hjá Samskipum.

Í febrúar á þessu ári var hafið stórátak hjá fyrirtækinu með það að markmiði að draga úr plastnotkun vegna drykkjarfanga. Plastmál sem áður voru notuð undir kaffi og vatn voru gerð útlæg og í staðinn notast við glös og bolla úr gleri. Þá hefur innkaupum á vatni, kolsýrðu eða hreinu, í flöskum líka verið hætt og fólk hvatt til þess að drekka frekar kranavatn.

„Áður en við réðumst í þetta töldum við að þetta gæti orðið erfitt, en svo reyndist þetta bara ekkert mál og gekk ótrúlega vel,“ segir Bára Mjöll Ágústsdóttir, forstöðumaður mannauðsdeildar Samskipa. „Fólk fagnaði þessari breytingu og fannst hún vera sjálfsögð. Það hefur verið heilmikil vakning í þjóðfélaginu varðandi plastnotkun, þannig að þegar upp var staðið þá fannst starfsfólki þetta vera afar eðlileg og tímabær ákvörðun.“

Aðgerðin er hluti af stefnu Samskipa í átt til aukinnar samfélagsábyrgðar; með minni úrgangi, aukinni endurvinnslu og minna kolefnisspori. Félagið hefur sett sér markmið í þessum efnum og er eitt þeirra íslensku fyrirtækja sem á sínum tíma skrifaði undir yfirlýsingu um aðgerðir í loftslagsmálum.

smari@bb.is

Söngveisla í Hömrum

Mynd: mbl.is / Golli

Tónlistarfélag Ísafjarðar stendur fyrir sannkallaðri söngveislu í Hömrum sunnudaginn 19. nóvember. Ein skærasta stjarnan á íslenska sönghimninum, Elmar Gilbertsson, ætlar að syngja ljóðasöngva og aríur og meðleikari hans á píanó er Helga Bryndís Magnúsdóttir. Elmar Gilbertsson útskrifaðist frá Söngskóla Sigurðar Demetz vorið 2007. Eftir það lá leiðin til Amsterdam í Hollandi þar sem hann lagði stund á mastersnám í óperusöng við Tónlistarháskólann í Amsterdam og Konunglega tónlistarháskólann í Haag.  Kennarar hans þar voru Jón Þorsteinsson og Peter Nilson.  Eftir námið var Elmar tekin inn í Óperustúdíó Hollensku óperunnar þar sem hann starfaði í tvö ár. Hann fékk fastráðningu og síðar gestaráðningu hjá óperunni í borginni Maastricht. Elmar hefur á sínum stutta ferli sungið og túlkað allnokkrar af persónum óperubókmenntanna.

Má þar meðal annars nefna Tamino í Töfraflautunni, Don Ottavio í Don Giovanni, Ferrando í Cosí fan tutte, Alfred í Leðurblökunni, Elvino í La Sonnambula, Nerone í Krýningu Poppeu og Kúdrjás í Katja Kabanova eftir Janáček. Elmar hefur á síðustu árum komið víða fram í óperuhúsum og tónleikasölum í Evrópu og meðal næstu verkefna hans verður óperuhátíðin Festival d´Aix en Provence í Suður-Frakklandi þar sem hann mun syngja í Töfraflautu Mozarts, Leðurblakan eftir Strauss í Maastricht-óperunni og uppsetning á Katja Kabanova eftir Janáček í Toulon-óperunni í Frakklandi.

Helga Bryndís Magnúsdóttir.

Helga Bryndís Magnúsdóttir hóf tónlistarnám við Tónlistarskólann í Vestmannaeyjum. Síðar nam hún við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan prófi sem einleikari og píanókennari árið 1987. Aðalkennari hennar þar, var Jónas Ingimundarson píanóleikari. Framhaldsnám stundaði Helga Bryndís hjá Leonid Brumberg í Vínarborg, Liisu Pohjola og Tuiju Hakkila í Helsinki. Eftir að námi lauk hefur hún tekið virkan þátt í tónlistarlífinu á Íslandi bæði sem einleikari og í kammermúsik ýmiskonar og þá ekki hvað minnst með söngvurum.

smari@bb.is

Sigga ljósa

Mynd: Björgunarsveitin Björg

Björgunarsveitin Björg á Suðureyri vígði nýja björgunbát sveitarinnar á laugardaginn og gaf honum nafn við hátíðlega athöfn. Báturinn fékk nafnið Sigga Ljósa í höfuð Sigríðar Jónsdóttur ljósmóður.

Á facebooksíðu Bjargar kemur fram að Sigríður Jónsdóttir, Sigga Ljósa eins og húna var kölluð fæddist 7. október 1889 að Stað í Grunnavík. Hún lauk ljósmæðraprófi 1929 fertug að aldri og var eldri en gengur og gerist með nýútskrifaðar ljósmæður. Sama ár fluttist hún til Suðureyrar ásamt manni sínum, Ásgeiri Jónssyni vélstjóra frá Ísafirði. Með þeim fluttu fjögur börn Ásgeirs, en Sigríður ól aldrei börn.

Sigríður fór oft að vitja sængurkvenna þegar veður voru slæm og aðstæður erfiðar. Í bókinni Íslenskar ljósmæður sem kom út árið 1964 talar hún um að hafa farið fyrir Gölt að vetri til eftir að það var róið með hana yfir fjörð og gekk hún svo fjöruna og þurfti að sæta lagi í briminu. Í annarri ferð á leið til Galtarvita að taka á móti barni lenti hún í skriðuföllum en sakaði ekki. Það gekk því á ýmsu í hennar starfi.

Í Súgfirðingarbók segir Guðsteinn Þengilsson um Sigríði ,,Ég á mikið að þakka samstarf hinnar öldnu og reyndu ljósmóður Súgfirðinga, Sigríði Jónsdóttur. Henni fylgdi slík gæfa, að aldrei hlekktist neitt verulega á við fæðingar, sem hún var nærri. Sú rósemi sem hún ávalt sýndi í verkaði sérstaklega vel, bæði á lækni og sængurkonu. Á henni sást aldrei fum eða fát, heldur vann hún ákveðið og með því öryggi sem aðeins fæst af langri reynslu“

Sigríður var ljósmóðir Súgfirðinga í 34 ár og á þeim tíma tók hún á móti næstum 400 börnum og tók meðal annars á móti börnum barna sem hún hefði tekið á móti. Súgfirskar konur héldu mikið upp á Sigríði og færðu henni gjafir á 25 ára starfsafmæli hennar og einnig á sjötugsafmæli hennar.

Hús það sem hún bjó lengst í, í þorpinu er jafnan nefnt Ljósukot en Sigríður lést 1970

Báturinn „Sigga Ljósa“ er af gerðinni Atlantic 75 og kemur frá Breska sjóbjörgunarfélaginu RNLI. Með tilkomu þessa báts er nú búið að þétta net sjóbjörgunarbáta á norðanverðum Vestfjörðum svo að sómi er að. Báturinn er 7,5 m á lengd, 2,64 á breidd og búinn tveimur 90hp mótorum og gengur ca34 mílur við bestu aðstæður.

bryndis@bb.is

9,8 milljarða halli í október

Útflutningsverðmæti sjávarafurða hefur lækkað um tæplega fimmtung.

Sam­kvæmt bráðabirgðatöl­um fyr­ir októ­ber 2017 nam verðmæti vöru­út­flutn­ings 49,7 millj­örðum króna og verðmæti vöru­inn­flutn­ings 59,6 millj­örðum króna. Vöru­viðskipt­in í októ­ber voru því óhag­stæð um 9,8 millj­arða króna. Hag­stof­an birti þess­ar töl­ur í dag.

Fyrstu níu mánuði ársins var 136 milljarða króna halli á vöru­viðskipt­um við út­lönd sem gerir 46,1 milljarð króna meiri halla en á sama tíma árið áður. Iðnaðarvörur voru 54,7 prósent alls útflutnings og var verðmæti þeirra 0,5 prósent lægra en á sama tíma árið áður. Útflutningur á lyfjum og lækningatækjum dróst saman en útflutningur á áli jókst. Sjávarafurðir voru prósent alls vöruútflutnings og var verðmæti þeirra 18,5 prósent lægra en á sama tíma árið áður. Mestur samdráttur var í útflutningi á frystum flökum og ferskum fiski.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir