Þriðjudagur 8. apríl 2025
Síða 2111

Hóls- og Eyrarhreppur verður lokahnykkurinn

Bolungarvík. Mynd: SJS.

Frá því um aldamót hefur útgáfufélag Búnaðarsambands Vestfjarða staðið fyrir merkri bókaútgáfu þar sem fjallað er um sveitir og byggðir í hverri sýslu á sambandssvæðinu. Ábúendatöl á jörðum ná aftur til 1900 og myndir af húsakosti jarðanna og ábúendum á ýmsum tímum. Útgáfan hefur mælst vel fyrir og sala gengið vel enda hefur verið vandað til verka. Með stuðningi sveitarfélaga hefur Búnaðarsambandið komist skuldlaust frá útgáfunni. Eina svæðið sem er eftir í ritröðinni eru hinir fornu hreppar, Hólshreppur í Bolungarvík og Eyrarhreppur í Skutulsfirði. Stefnt er að útgáfu þeirrar bókar seint á næsta ári. Ritstjóri verður Björgvin Bjarnason.

Búnaðarsambandið hefur farið þess á leit við bæjarráð Ísafjarðarbæjar er útgáfan veðri styrkt um 750 þúsund krónur en gert er ráð fyrir að upplag bókarinnar veðri 700 eintök og útsöluverð 8.900 krónur. Í afgreiðslu bæjarráðs er lagt til að sambandið sæki formlega um styrk til menningarmála.

smari@bb.is

Útflutningsverðmæti eykst á næstu árum

Gangi spá fyrir árið 2017 eftir munu útflutningsverðmæti sjávarafurða nema 210-220 milljörðum króna, en það samsvarar ríflega 7 prósent samdrætti milli ára. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka um íslenskan sjávarútveg. Þrátt fyrir minna verðmæti sjávaraafurða árin hafa aflabrögð verið betri. Heildarafli fyrstu 9 mánuði ársins 2017 nemur 915 þús. tonnum og er um 64 þús. tonnum meiri en fyrstu 9 mánuðir ársins 2016. Þessi aukning á árinu skýrist einna helst af auknum loðnuveiðum. Skýrsluhöfundar spá ríflega 4% aukningu útflutningsverðmætis sjávarafurða ári fyrir tilstilli veikari krónu, hærra heimsmarkaðsverðs og aukins kvóta. Aukningin verður öllu hóflegri árið 2019, eða tæplega 1%, gangi spáin eftir.

Smari@bb.is

Sigur í báðum leikjum

Meistaraflokkur karla í blaki

Meistaraflokkar Vestra í blaki fengu Hamar frá Hveragerði í heimsókn á helginni  og seint verður hægt að segja að gestrisnin hafi verið í hávegum höfð. Kvennaliðin áttust við kl. 11:00 á laugardag og marði Vestri sigur í 5 hrinu leik, Vestri tapaði fyrstu og þriðju hrinu og landaði svo sigrinum í oddahrinu. Kvennaliðið hefur nú unnið fjóra leiki en tapað þremur.

Meistaraflokkur kvenna í blaki

Karlaliðið lagði Hamar svo sannfærandi að gestirnir sáu aldrei til sólar og þar með náði Vestri sínum fyrsta sigri og vonandi sama sigurtaktinum og liðið náði í fyrra. Nýr leikmaður Vestra Mateuz Klóska var sannarlega betri en enginn og þeir bræður Eydal, Birkir og Kári eru ansi liprir í móttökunni. Þjálfari liðsins Tihomir Paunovski er meiddur og í hans stað spilaði Hafsteinn Már Sigurðsson upp af stakri snilld.

Þess má geta að í karlaliðinu voru feðgar, Sigurður Hreinsson og Hafsteinn sonur hans, og tvenn pör bræðra, þeir Sigurður og Kjartan Kristinssynir og Birkir og Kári Eydal. Og í kvennaliði Vestra voru mæðgurnar Petra Dröfn og Sóldís Björt frá Suðureyri.

bryndis@bb.is

4,5 prósent hækkun á 12 mánuðum

Vísitala byggingarkostnaðar reiknuð um miðjan nóvember 2017 er 136,1 stig.(desember 2009=100) og hækkar um 0,3% frá fyrri mánuði. Innlent efni hækkaði um 0,3% (áhrif á vísitölu 0,1%) og innflutt efni hækkaði um 0,8% (0,2%). Á síðustu tólf mánuðum hefur vísitala byggingarkostnaðar hækkað um 4,5%. Vísitalan var sett í 100 stig í desember 2009 og hefur því hækkað um 36,1 prósent á átta árum.

smari@bb.is

Íbúakönnun í desember eða janúar

Tillaga Kanon arkitekta hreppti fyrstu verðlaun í hugmyndasamkeppninni.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að ganga til samninga við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um gerð íbúakönnunar vegna málefna Sundhallar Ísafjarðar. Á síðasta ári var blásið til hugmyndasamkeppni vegna endurbóta og stækkunar Sundhallarinnar og var tillaga Kanon arkitekta ehf. hlutskörpust. Ljóst að er að kostnaður við framkvæmdir hleypur á hundruðum milljónum króna. Samkvæmt upplýsingum frá Gísla Halldóri Halldórssyni bæjarstjóra gæti könnunin farið fram um miðjan desember ef undirbúningur gengur, annars yrði hún fljótlega eftir áramót.

Allir kosningabærir íbúar sveitarfélagsins eiga kost á að taka þátt í könnuninni sem verður gerð á netinu. Ísafjarðarbær gerir ráð fyrir að kostnaður við könnunina nemi um tveimur milljónum króna.

smari@bb.is

Met slegið í Dýrafjarðargöngum

Nýtt met var slegið í vikunni þegar grafnir voru 75,2 m á einni viku og að auki fór lengd ganganna yfir 500 m markið. Heildarlengd ganganna í lok viku 46 var 529,3 m sem er 10,0% af heildarlengd ganganna.

Bergið var að springa vel og göng nokkuð þurr á þeim kafla sem unnið var á þessa vikuna.

Efni úr göngum var að miklu leyti keyrt í vegfyllingu sem nær nú 360 m út frá fyrirhuguðum enda  gangamunna, hins vegar á enn eftir að hækka veginn um nokkra metra.

bryndis@bb.is

 

Vilja skoða styttingu grunnskólanáms

Samtök atvinnulífsins (SA) segja tímabært að skoða styttingu grunnskólans af alvöru um eitt ár. Þetta kemur fram í nýrri greiningu á vef samtakanna. Þar segir að verðmæt tækifæri kunni að felast í styttingu grunnskólanáms og að gæðum í skólastarfi hafi að einhverju leyti hrakað. Í greiningu SA segir að með vandaðri framkvæmd og að vel athuguðu máli kynni stytting grunnskólanáms að bæta gæði náms, koma til móts við nýliðunarvanda í kennarastétt, bæta starfskjör þeirra og starfsaðstæður og veita skólum aukið svigrúm til að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda.

Þá telur SA að stytting grunnskólanáms um eitt ár gæti mildað áhrif kennaraskorts og ekki þyrfti að koma til uppsagna sökum þess að margir kennarar eru nálægt lífeyristökualdri.

Samtökin telja að stytting grunnskólanáms væri hægt að hækka laun kennara umtalsvert án aukins kostnaðar fyrir hið opinbera. Sem dæm er nefnt í greiningunni að grunnlaun umsjónarkennara með 5 ára starfsreynslu gætu hækkað úr kr. 516.846 á mánuði í kr. 568.530.

smari@bb.is

Samningur um Náttúrustofuna verði framlengdur

Refur rannsakaður á Náttúrustofunni.

Í árslok renna út samningar umhverfis- og auðlindaráðuneytisins við sveitarfélögin um rekstur náttúrustofa. Hafinn er undirbúningur að endurskoðun samninganna þar sem meðal annars er ætlunin að fara yfir verkefni náttúrustofa í ljósi af reynslu af starfsemi þeirra og hver þau eiga að vera til framtíðar.

Í bréfi ráðuneytisins til sveitarfélaga á Vestfjörðum er lagt til að samningur um rekstur Náttúrstofu Vestfjarða verði framlengdur um eitt ár þar sem ekki gefst tími til að endurskoða samninginn fyrir árslok.

Málefni Náttúrustofu Vestfjarða hafa verið í brennidepli síðustu vikur en í fjárlagafrumvarpi Benedikts Jóhannessonar fráfarandi fjármálaráðherra er gert ráð fyrir að framlög ríkisins til stofunnar verði skorin niður um þriðjung. Fjárlögin komu ekki til afgreiðslu þingsins þar sem ríkisstjórnin féll skömmu eftir að frumvarpið var lagt fram og alls óvíst hver afdrif frumvarpsins verða.

smari@bb.is

„Viljum vera fremst í fiskeldi“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

„Fisk­eldið hef­ur líka komið mjög sterkt inn á þessu ári, og gam­an að fylgj­ast með upp­bygg­ingu at­vinnu­grein­ar­inn­ar. Sam­hliða vexti fisk­eld­is­ins hef­ur verið unnið að mót­un stefnu sem miðar að því að grein­in dafni í sátt við þjóðina, líf­ríki og nátt­úru og virðast lang­flest­ir meðvitaðir um mik­il­vægi þess að byggja fisk­eldið upp á var­kár­an og skyn­sam­leg­an máta. Við vilj­um auðvitað verða fremst í fisk­eldi líka, og get­um orðið það ef við ger­um hlut­ina rétt.“ Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra í viðtali í Morgunblaðinu. Í viðtalinu fer hún yfir þetta tæpa ár sem hún hefur verið í ráðuneytinu en allar líkur eru á að hún hverfi úr ríkisstjórn innan skamms og setjist í stjórnarandstöðu.

Meðal þeirra verk­efna sem Þor­gerður er ánægð með að hafa komið af stað er stofn­un stýri­hóps sem vann til­lög­ur um end­ur­skoðun al­menna byggðakvóta­kerf­is­ins.

„Sér­tæki byggðakvót­inn er á könnu Byggðastofn­un­ar en al­menni byggðakvót­inn hjá ráðuneyt­inu. Mjög áhuga­verðar hug­mynd­ir komu út úr starfi stýri­hóps­ins og von­andi verður þeim fylgt eft­ir,“ seg­ir hún.

„Meg­in­inn­takið er það að færa meira vald yfir byggðakvót­an­um yfir til sveit­ar­fé­lag­anna svo að þau sjálf – en ekki miðstýrt vald í Reykja­vík – ákveði hvernig kvót­an­um verður best ráðstafað. Sum myndu vilja láta kvót­ann ganga beint til ákveðinna út­gerða, en á öðrum stöðum gæti orðið ofan á að selja kvót­ann og nota ágóðann til annarr­ar upp­bygg­ing­ar.“

smari@bb.is

Ákærðir fyrir brot á ákvæðum Hornstrandafriðlandsins

Mynd af mönnunum í Hornvík í fyrra.

Þrír menn hafa verið ákærðir af embætti lög­reglu­stjór­ans á Vest­fjörðum fyr­ir að hafa í fyrra brotið gegn lög­um um nátt­úru­vernd og aug­lýs­ingu um friðland á Horn­strönd­um með því að hafa laug­ar­dag­inn 28. maí í fyrra komið í friðlandið og dvalið þar í viku­tíma án þess að til­kynna Um­hverf­is­stofn­un um ferðalag sitt. Frá þessu er greint á mbl.is.

Málið komst í hámæli í fyrra er starfsfólk Borea Adventures kom að mönnunum í Hornvík þar sem þeir voru með skotvopn og ýmsan veiðibúnað, en meðferð skotvopna er bönnuð í friðlandinu.

Greint var frá því í janú­ar að fallið hafi verið frá ákæru gegn mönn­un­um, en þá hafði verið ákveðið að beita þá sekt­armeðferð. Karl Ingi Vil­bergs­son, hjá lög­regl­unni á Vest­fjörðum, staðfest­ir í sam­tali við mbl.is að menn­irn­ir hafi hins veg­ar neitað að skrifa und­ir slíka sekt­armeðferð og því hafi verið ákært í mál­inu. Það er aft­ur á móti ekki ákært fyr­ir veiði í friðland­inu.

Í síðustu viku féll sýknudóm­ur í Héraðsdómi Vest­fjarða í meiðyrðamáli þar sem GJÁ útgerð ehf, ferðaþjónustufyrirtækið sem flutti menn­ina og veiðibúnað þeirra til Horn­vík­ur, hafði höfðað á hendur  Rúnari Óla Karlssyni hjá Borea Adventures vegna ummæla hans í fjölmiðlum um atburðina í Hornvík í fyrra.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir