Þriðjudagur 22. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2111

Hafísinn nálgast landið

Haf­ís­inn á Græn­lands­sundi hef­ur verið að læðast nær landi und­an­farna daga, og var í gær­kvöldi rúm­ar 23 sjó­míl­ur norðan við Horn. Gervi­tungla­mynd­ir benda til þess að mjög mikið hafi mynd­ast af nýj­um ís und­an­farið, og að nokkuð sé um borga­rís­jaka í sam­floti með rekís­n­um, að því er seg­ir í til­kynn­ingu frá eld­fjalla­fræði- og nátt­úru­vár­hóp Há­skóla Íslands.

Seg­ir þar að Veður­stof­an spái áfram suðvest­læg­um átt­um sem færa muni ís­inn aust­ar og nær landi.

„Sam­kvæmt Land­helg­is­gæslu Íslands, og skip­um sem voru á svæðinu í gær, er erfitt að sjá ís­inn í skiparat­sjám og því get­ur hann verið mjög vara­sam­ur, að minnsta kosti fyr­ir minni báta.“

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Allhvasst norðvestan til

Hlýr loft­massi hef­ur nú færst aft­ur yfir landið. Enn sem komið er hef­ur vind­ur ekki náð sér á strik og því sit­ur kalda loftið, sem réði ríkj­um í byrj­un vik­unn­ar, sums staðar enn eft­ir. Því mæl­ist frost nú í morg­uns­árið í upp­sveit­um á Suður­landi og sums staðar á Suðaust­ur­landi að því er seg­ir í hug­leiðing­um vakt­haf­andi Veður­fræðings á Veður­stofu Íslands.

Sam­kvæmt spá mun þetta þó breyt­ast í dag, því allsstaðar mun verða næg­ur vind­ur til að blanda hlýja loft­mass­an­um við þann kalda.

Vind­átt­in í dag verður suðvest­læg, 8-18 m/​s, og mesti vind­hraðinn verður á Norðvest­ur­landi, en all­hvass vind­ur verður á þeim slóðum. Einnig get­ur orðið nokkuð byljótt í Eyjaf­irði við þess­ar aðstæður. Loftið yfir land­inu er þá ekki bara hlýtt, held­ur er það líka rakt og því má bú­ast við þung­búnu veðri með þokusúld eða rign­ing­ar­sudda. Hiti verður á bil­inu 3 til 10 stig, hlýj­ast aust­an­lands.

Í landátt­inni aust­an­lands verður þó þurrt að kalla. Sum­ir veg­ir eru vænt­an­lega enn hálir, en hlý­ind­in í dag þýða þó að hálku­lík­ur fara ört minnk­andi.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Æfingin öllum til sóma

Flugslysaæfing Isavia sem var haldin á Ísafjarðarflugvelli í október gekk mjög vel í flesta ef ekki alla staði og var viðbragðsaðilum og öðrum sem tóku þátt í æfingunni til sóma. Þetta kemur fram í lokaskýrslu Isavia um æfinguna. Um 170 manns tóku þátt í æfingunni. Í handriti æfingarinnar var miðað við að erlend leiguflugvél af gerðinni SAAB 340 kæmi inn til lendingar á braut 26 í mjög byljóttum vindi. Rétt fyrir lendingu lendir hún í niðurstreymisvindi og skellur til jarðar örskammt frá brautarenda. Vélin brotnar í nokkra hluta og eldar koma upp í hluta af brakinu. Áætlað er að um borð séu í kring um 40 farþegar og áhöfn.

Isavia heldur flugslysaæfingar á fjögurra ára fresti á áætlunarflugvöllum á landinu. Tilgangurinn með æfingunum er að gera viðbragðseiningar hæfari til þess að bregðast við hópslysi.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Bleikar og bláar heyrúllur skiluðu 1,2 milljónum

Söfnunarátakið „Bleikar og bláar heyrúllur“ sem bændur, dreifingaraðilar og framleiðandi heyrúlluplasts standa að, skilaði 1,2 milljónum króna til Krabbameinsfélagsins í ár. Á síðasta ári slógu „Bleikar heyrúllur“ í gegn og var ætlað að vekja athygli á árvekni um brjóstakrabbamein. Í sumar bættust bláar heyrúllur við og skreyttu tún bænda víða um land með það að markmiði að minna á árvekni um blöðruhálskrabbamein.

Sænski framleiðandinn Trioplast, innlendir dreifingaraðilar og bændur, lögðu samtals fram andvirði þriggja evra af hverri seldri bleikri eða blárri plastrúllu sem hver dugir á 26 bleikar heyrúllur á túni ef vafið er sexfalt. Afraksturinn rennur til Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins og rannsókna á brjóstakrabbameini og blöðruhálskirtilskrabbameini sem eru algengustu krabbamein kvenna og karla.

Hugmyndin að átakinu er komin frá viðskiptavini Trioplast á Nýja Sjálandi og í framhaldinu tryggði fyrirtækið að bleiki liturinn stæðist ítrustu kröfur bænda. Nú hafa bleiku heyrúllurnar einnig hafið innreið sína í Noregi, Svíþjóð, Þýskalandi, Sviss, Bretlandi og Írlandi, auk fleiri landa, og vekja alls staðar mikla athygli.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Bætur sóttar án kostnaðar

Það hefur færst í vöxt að lögmenn bjóði fram þjónustu sína við að sækja staðlaðar skaðabætur vegna seinkunar á millilandaflugi eða aflýsingar á flugi. Þóknun fyrir þjónustuna er yfirleitt hlutfall af þeim skaðabótum sem neytandinn á rétt á. Að gefnu tilefni vilja Neytendasamtökin benda á að neytendur geta sótt slíkar bætur sér að kostnaðarlausu.

Neytendasamtökin aðstoða félagsmenn við að leita réttar síns og sjá um milligöngu þegar þess er þörf. Slík þjónusta er innifalin í árgjaldi samtakanna auk margþættrar annarrar þjónustu.

Evrópska neytendaaðstoðin (ENA) aðstoðar neytendur þvert yfir landamæri. Lendi neytandi, búsettur á Íslandi, í því að flugi hans er seinkað eða aflýst af völdum flugfélags í Evrópu getur hann leitað til ENA sér að kostnaðarlausu. Það sama gildir um neytendur búsetta innan Evrópusambandsins sem vilja sækja rétt sinn gagnvart flugfélagi sem starfar á Íslandi.

Samgöngustofa tekur við kvörtunum frá flugfarþegum og leysir úr ágreiningi svo sem vegna seinkana í flugi. Það er neytendum að kostnaðarlausu að senda mál til Samgöngustofu.

Neytendasamtökin ítreka að neytendur ættu alltaf að byrja á því að sækja rétt sinn til seljanda. Oft ganga þau samskipti snuðrulaust fyrir sig og neytandinn fær úrbætur með lítilli fyrirhöfn. Gangi slíkt ekki er öllum heimilt að leita til Neytendasamtakanna og fá ráðleggingar.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Gáfu 5 ára deildinni gönguskíði

Íþróttagarparnir Gullrillur eru ekki bara afrekskonur í íþróttum, þær eru líka samfélagslega þenkjandi konur og hafa nú keypt 21 par af gönguskíðum fyrir 5 ára börn. 17 pör fara á Tanga, 5 ára deild leikskólabarna á Ísafirði og 4 pör fara á leikskólann Grænagarð á Flateyri. Fyrir skíðunum söfnuðu Gullrillur með sushi gerð og dugði afraksturinn fyrir 16 pörum en fyrirtæki á svæðinu hafa bætt við svo hægt væri að kaupa fleiri.

Skíðin voru afhent með pompi og pragt á sjúkrahústúninu í hádeginu í dag og voru krakkarnir alveg til í tuskið. Grunnurinn er lagður fyrir landsliðsfólk framtíðarinnar.

Hér má lesa um fjáröflun sportkvendana í apríl.

Auglýsing
Auglýsing

Staðinn verði vörður um skurðlæknisþjónustu

Bæjarstjórn Bolungarvíkur krefst þess að heilbrigðisráðherra, stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, í samstarfi við fjármálaráðuneyti taki höndum saman og standi vörð um skurðlæknisþjónustu á Vestfjörðum. Þetta kemur fram í ályktun bæjarstjórnar og tilefni hennar voru fregnir um að enginn skurðlæknir yrði starfandi við Heilbrigðisstofnuna í desember. Úr því rættist í dag líkt og greint var frá á bb.is. Ekki hefur tekist að ráða skurðlækni í fullt starf og er staðan mönnuð með afleysingalæknum sem koma vestur í skemmri tíma.

Í ályktun bæjarstjórnar er bent á að til  lengri  tíma  geti  skapast  sú  hætta,  ef  ekki  er  starfandi  skurðlæknir  á stofnuninni, að fjárframlög til hennar skerðist og að endingu verði lagt til að ekki sé forsenda til þess að halda úti skurðstofu á Heilbrigðisstofnuninni.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Heilræði til Alþingis og ríkisstjórnar

Þingeyrarakademían tekur sterklega undir með þeim sem segja að  gera eigi eldra fólki mögulegt að halda heimili eins lengi og það óskar og getur. Það er öllum til heilla. En til þess þarf vel skipulagða heimilishjálp sem dugar. Þar á enginn að vera útundan.

Segjum sem svo, að 500 manns yrðu ráðnir í fullt starf til að styðja við aldraða á heimilum þeirra vítt og breytt um landið, í viðbót við þá starfsmenn sem fyrir eru. Ef reiknað væri með 10 milljónum kr. á hvern starfsmann í launum og launatengdum gjöldum á ári, mundi það þýða 5 milljarða útgjöld. Hluti af þessum fjármunum skilar sér aftur strax í ríkis-og sveitarsjóði með sköttum.

Það liggur í augum uppi að með þessu móti þarf færri biðsali fyrir gamla fólkið.  Það kostar mikla fjármuni að reisa okkar góðu elli-og hjúkrunarheimili. Þá er rekstrarkosnaðurinn eftir sem oft er erfiðasti hjallinn. Tillaga okkar mun spara ríki og sveitarfélögum stórfé og allir ánægðir. Ekki síst þeir sem þurfa að deila herbergi með bláókunnugu fólki. Það er heitasta ósk margra að geta verið sem lengst í eigin híbýlum á ævikvöldinu. Það er ekkert annað en heilbrigð skynsemi að verða við þeirri ósk. Hlustum á starfsfólk Landsspítalans og landlækni og framkvæmum þetta eins og menn!

Hvað er Þingeyrarakademían?

Þingeyrarakademían er stór hópur spekinga á öllum aldri sem stundar morgunsund og heita pottinn á Þingeyri. Þar eru ýmiskonar innanlands- og heimsvandamál rædd og jafnvel leyst.    Þingeyrarakademían kemur til dyranna eins og hún er klædd.

Auglýsing
Auglýsing

Of dýrt að fá afleysingaskip

Ekki kemur til greina að fá afleysingaskip fyrir ferjuna Baldur vegna kostnaðar að sögn Gunnlaugs Grettissonar framkvæmdastjóra Sæferða. Bilun kom upp í aðavél Baldurs í síðustu viku og líklegt að viðgerð ljúki ekki fyrr en eftir áramót. Á vef RÚV er haft eftir Gunnlaugi að styrkur Vegagerðarinnar standi ekki undir kostnaði við afleysingaskip, sem hefði líkega verið 2,5 milljónir kr. á dag. Gunnlaugur bendir á að tilfelli Herjólfs séu annarsskonar þar sem Herjólfur er í eigu ríkisins. Þegar Herjólfur fer í slipp þá útvegar Vegagerðin eða ríkið varaskip. Gunnlaugur segir að samkvæmt samningi Sæferða við Vegagerðina beri ekki að taka skip á leigu sem kostar þrisvar til fjórum sinnum meira í dagsiglingu en fyrirtækið fær fyrir siglingu Baldurs.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Hreint loft til framtíðar

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur gefið út fyrstu almennu áætlunina um loftgæði fyrir Ísland og ber hún heitið Hreint loft til framtíðar.  Áætlunin gildir fyrir árin 2018 – 2029 og er meginmarkmið hennar að stuðla að loftgæðum og heilnæmu umhverfi.

Loftgæðaáætlunin tekur til þeirra þátta er varða loftgæði utandyra. Í henni koma fram mælanleg markmið, upplýsingar um loftgæði og tímaáætlun, aðgerðir og stefnumörkun til að bæta loftgæði. Við vinnslu áætlunarinnar var tekið mið af Landsáætlun um loftgæði, sem var gefin út af Umhverfisstofnun árið 2010 og skýrslunni Hreint loft, betri heilsa – Umfjöllun um loftgæði og heilsufar á Íslandi ásamt tillögum til úrbóta, sem var gefin út af velferðarráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti í apríl 2013.

Í áætluninni er stefnt að því að fækka árlegum ótímabærum dauðsföllum af völdum loftmengunar á Íslandi, fækka árlega fjölda daga þar sem svifryk fer yfir skilgreind heilsufarsmörk af völdum umferðar úr 7-20 skiptum niður í engin skipti fyrir árslok 2029 og að ársmeðaltal brennisteinsvetnis verði áfram undir skilgreindum mörkum.

Áætlun um loftgæði er sett í samræmi við breytingar sem gerðar voru á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir 2013 vegna innleiðingar á evróputilskipun 2008/50/EB um gæði andrúmslofts og hreinna loft í Evrópu.

Á vef stjórnarráðsins segir að þess sé vænst að áætlunin stuðli að heilnæmu umhverfi og bættu heilbrigði í landinu þar sem stjórnvöld, atvinnulífið og almenningur verði samstíga í að viðhalda hreinu lofti.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir