Þriðjudagur 8. apríl 2025
Síða 2110

Stofnfundur Vestfjarðastofu

Um nokkurt skeið hefur staðið yfir undirbúningur að stofnun Vestfjarðastofu ses (sjálfseignarstofnun). Vestfjarðastofa mun taka að sér að reka og þróa áfram þau verkefni sem Fjórðungssamband Vestfirðinga og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða hafa sinnt hingað til.

Miðað er við að Vestfjarðastofa verði sjálfseignarstofnun í eigu sveitarfélaga, fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka á Vestfjörðum og víðar. Tilgangur Vestfjarðastofu verður að vinna að hagsmunamálum íbúa, sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja á Vestfjörðum og veita margháttaða ráðgjöf og þjónustu tengda atvinnulífi, byggðaþróun og menningu á Vestfjörðum.

Stofnfundur Vestfjarðastofu verður haldinn þann 1. desember kl. 13 í Edinborgarhúsinu á Ísafirði.

Dagskrá stofnfundar:

  1. Stefnumótun Vestfjarðastofu kynnt
  2. Stofnskrá kynning og samþykkt
  3. Fjárhags- og starfsáætlun
  4. Kosningar
  5. Kjör stjórnar
  6. Kjör endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis
  7. Kjör starfsháttanefndar
  8. Ákvörðun um þóknun stjórnar
  9. Önnur mál

 

smari@bb.is

Standardar og frumsamið í heimilislegum búning

Ef tónelskir eru á höttunum eftir ástkærum sönglögum, djassskotnum íslenskum standördum og frumsömdu efni, allt í léttum og heimilislegum búning, þá geta þeir gert margt vitlausara en að festa sér diskinn Randalín sem systkinin Elín og Halldór Smárabörn gáfu út á dögunum. Diskurinn er gefinn út til að heiðra minningu móðurömmu þeirra, Elínar Þorbjarnardóttir, en 100 ár voru frá fæðingu hennar þann 16. nóvember.

„Við systkinin höfum spilað og sungið saman síðan við munum eftir okkur og alltaf langað til að gefa út plötu með okkar eftirlætis lögum. Það er svo foreldrum okkar, Helgu Friðriksdóttur og Smára Haraldssyni, að þakka að þetta hefur nú orðið að veruleika. Þau vildu gera eitthvað til að heiðra minningu móður sinnar og tengdamóður, Elínar Þorbjarnardóttur, ömmu okkar, sem hefði orðið 100 ára 16. nóvember 2017. Platan er því helguð minningu ömmu Elínar sem alltaf studdi við bakið á okkur í lífi og list, eins og reyndar foreldrar okkar báðir,“ segir í kynningu.

Elín Smáradóttir útskrifaðist með bakkalárgráðu í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands 2001 og með mastersgráðu í Drama and Performance Studies frá University College Dublin árið 2006. Elín var auk þess búsett í Vínarborg í nokkur ár og fór hún þá í söngtíma hjá Rannveigu Bragadóttur prófessor við Tónlistarháskólann í Vín og einnig til djasssöngkonunnar Evu-Mariu Valenta. Elín starfar sem sýningarstjóri í Þjóðleikhúsinu. Hún er gift Júlíusi Karli Einarssyni verslunarmanni og óperusöngvara og eiga þau tvær dætur, Valfríði Helgu og Áslaugu Brynhildi.

Halldór Smárason starfar sem tónskáld og píanóleikari. Hann lauk bakkalárgráðu frá Listaháskóla Íslands vorið 2012 og mastersnámi í tónsmíðum við Manhattan School of Music vorið 2014, þá sem Fulbright-styrkþegi. Halldór hefur unnið með mörgum þekktum listamönnum og hópum á borð við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Ensemble intercontemporain og Útvarpshljómsveitum Parísar og Stuttgart. Halldór hefur komið margoft fram við hin ýmsu tilefni, ýmist einn eða með öðrum, og leikið inn á hljómdiska. Halldór er trúlofaður Thelmu Lind Guðmundsdóttur og eiga þau soninn Óliver Mugg.

Elín og Halldór eru bæði fædd og uppalin á Ísafirði. Þau eru bæði stúdentar frá Menntaskólanum á Ísafirði og stunduðu bæði nám við Tónlistarskóla Ísafjarðar.

Platan er sannkallað samvinnuverkefni Ísfirðinga og Bolvíkinga. Á trommur spilar Kristinn Gauti Einarsson frá Bolungarvík og bassann plokkar sveitungi Kristins, Valdimar Olgeirsson. Upptökum stjórnaði Ísfirðingurinn Kristján Sigmundur Einarsson.

smari@bb.is

Baldur siglir ekkert í vikunni

Breiðafjarðarferjan Baldur.

Vegagerðin hefur ákveðið að lengja þjónustutímann á milli Brjánslækjar og Reykhóla til kl 20 á meðan ferjan Breiðafjarðarferjan Baldur er frá vegna bilunar. Aðalvél Baldurs bilaði á sunnudag og hafa ferðir yfir Baldurs yfir Breiðafjörð fallið niður síðan þá. Samkvæmt upplýsingum frá Sæferðum í dag liggur ekki fyrir hve langan tíma tekur að komast fyrir bilunina en ljóst að ferjan siglir ekkert í þessari viku.

smari@bb.is

Snjóflóð féll á veginn um Hvilftarströnd

Búið er að loka Flateyrarvegi eftir að snjóflóð féll á veginn um Hvilftarströnd laust eftir hádegi. Sökum lélegs skyggnis er ekki hægt að meta aðstæður í fjallshlíðum og verður veginum haldið lokuðum á meðan svo er. Þá er orðið þungfært til Suðureyrar og Guðmundur R. Björgvinsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Ísafirði, segir að dregið hafi verið úr mokstri á Súgandafjarðarvegi vegna mikillar ofankomu og skafrennings.

smari@bb.is

Súðavíkurhlíðin í biðstöðu

Veginum um Súðavíkurhlíð var lokað í gærkvöldi vegna snjóflóðahættu en vitað er að eitt snjófljóð féll á veginn í gær. Lítið sem ekkert skyggni hefur gert starfsmönnum Vegagerðarinnar ókleift að meta aðstæður. Guðmundur R. Björginsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Ísafirði, segir að veginum um Súðavíkurhlíð verði haldið lokaðum á meðan ekki er hægt að meta aðstæður.

Óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi á norðanverðum Vestfjörðum. Á vef Veðurstofunnar segir að snjórinn sem hefur fallið síðasta sólarhringinn sé óstöðugur eins og er og áfram er spáð éljagangi og hvössum vindi. Einkum er hætta á óstöðugum snjó í lægðum og giljum ofarlega í fjöllum og hlémegin við  norðanáttina.

smari@bb.is

Skúraröðin verður seld

Ástand skúranna er slæmt.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur ákveðið að auglýsa skúraröðina við Fjarðastræti á Ísafirði til sölu. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir að skúrarnir verði rifnir og byggður nýr klasi á 2-5 hæðum þar sem íbúðarturnar rísa upp úr lægri byggingum sem hýsa verslun/þjónustu og bílageymslur að norðanverðu.

Í minnisblaði Brynjars Þórs Jónassonar, sviðsstjórna umhverfis- og eignasviðs, til bæjarráðs er lagt til að skúrarnir verði seldir með kvöðum um niðurrif og upphaf framkvæmda innan ákveðins frests.

smari@bb.is

Bolvíkingar þurfa að taka sér tak

Bolungarvík kom illa út úr könnun Samgöngustofu og Landsbjargar á öryggi barna í bílum. Ísfirðingar voru aftur á móti til fyrirmyndar. Könnunin var gerð við 56 leikskóla í 29 þéttbýliskjörnum víða um land og var búnaður hjá 2.060 börnum kannaður. Sambærilegar kannanir hafa verið gerðar undanfarin 32 ár. Í Bolungarvík voru 83% barna í réttum öryggisbúnaði, fjögur prósent barna voru einungis í bílbelti og 13 prósent í engum öryggisbúnaði. Á Ísafirði voru 100 prósent barna í réttum búnaði.

Samgöngustofa og Landsbjörg benda á að þegar valinn er öryggisbúnaður er mikilvægt að gefa sér góðan tíma, skoða heimasíður og kynna sér úrval verslana. Búnaðurinn þarf bæði að passa barninu og bílnum. Hægt er að fá upplýsingar á heimasíðum framleiðenda um hvort búnaðurinn passi í tiltekinn bíl eða í bæklingi sem fylgir honum. Þegar öryggisbúnaður er festur í bíl er nauðsynlegt að það sé gert á réttan hátt. Þótt barn sé í öryggisbúnaði getur það slasast alvarlega eða látið lífið í slysi ef búnaðurinn er ekki rétt festur. Því er mikilvægt að lesa vandlega allar leiðbeiningar sem fylgja bílnum og barnabílstólnum.

smari@bb.is

Vetrarríki á Vestfjörðum

Þrír bílar fóru útaf á Hvilftarströndinni í morgun

Það hefur snjóað mikið á Vestfjörðum. Ófært er á Steingrímsfjarðarheiði og yfir Þröskulda. Vegurinn um Súðavíkurhlíð var lokað í gærkvöldi vegna snjóflóðahættu. Óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi á norðanverðum Vestfjörðum.

Á Hvilftarströnd fóru þrír bílar útaf veginum í morgun og þurftu aðstoð björgunarsveita. Hér má sjá myndband af björgunasveitarmönnum að störfum.

Veðurstofan spáir áframhaldandi norðanátt í dag, 18-23 m/s og snjókomu. Í athugasemd veðurfræðings segir að útlit er fyrir hvassa norðanátt næstu daga með snjókomu eða éljum norðan- og austanlands, en varasömum vindstrengjum á sunnanverðu landinu. Fólk sem hyggur á ferðalög er hvatt til að fylgjast vel með veðurspám og kanna aðstæður á vegum hjá Vegagerðinni áður en lagt er af stað. Útlit er fyrir að veðrið gangi niður svo um munar á laugardag, fyrst um landið vestanvert.

smari@bb.is

Hóls- og Eyrarhreppur verður lokahnykkurinn

Bolungarvík. Mynd: SJS.

Frá því um aldamót hefur útgáfufélag Búnaðarsambands Vestfjarða staðið fyrir merkri bókaútgáfu þar sem fjallað er um sveitir og byggðir í hverri sýslu á sambandssvæðinu. Ábúendatöl á jörðum ná aftur til 1900 og myndir af húsakosti jarðanna og ábúendum á ýmsum tímum. Útgáfan hefur mælst vel fyrir og sala gengið vel enda hefur verið vandað til verka. Með stuðningi sveitarfélaga hefur Búnaðarsambandið komist skuldlaust frá útgáfunni. Eina svæðið sem er eftir í ritröðinni eru hinir fornu hreppar, Hólshreppur í Bolungarvík og Eyrarhreppur í Skutulsfirði. Stefnt er að útgáfu þeirrar bókar seint á næsta ári. Ritstjóri verður Björgvin Bjarnason.

Búnaðarsambandið hefur farið þess á leit við bæjarráð Ísafjarðarbæjar er útgáfan veðri styrkt um 750 þúsund krónur en gert er ráð fyrir að upplag bókarinnar veðri 700 eintök og útsöluverð 8.900 krónur. Í afgreiðslu bæjarráðs er lagt til að sambandið sæki formlega um styrk til menningarmála.

smari@bb.is

Útflutningsverðmæti eykst á næstu árum

Gangi spá fyrir árið 2017 eftir munu útflutningsverðmæti sjávarafurða nema 210-220 milljörðum króna, en það samsvarar ríflega 7 prósent samdrætti milli ára. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka um íslenskan sjávarútveg. Þrátt fyrir minna verðmæti sjávaraafurða árin hafa aflabrögð verið betri. Heildarafli fyrstu 9 mánuði ársins 2017 nemur 915 þús. tonnum og er um 64 þús. tonnum meiri en fyrstu 9 mánuðir ársins 2016. Þessi aukning á árinu skýrist einna helst af auknum loðnuveiðum. Skýrsluhöfundar spá ríflega 4% aukningu útflutningsverðmætis sjávarafurða ári fyrir tilstilli veikari krónu, hærra heimsmarkaðsverðs og aukins kvóta. Aukningin verður öllu hóflegri árið 2019, eða tæplega 1%, gangi spáin eftir.

Smari@bb.is

Nýjustu fréttir