Fimmtudagur 8. maí 2025
Heim Blogg Síða 2110

25 viðburðir á tæpum þremur mánuðum

Frá húsakynnum Blábankans.

Blábankinn á Þingeyri opnaði þann 20. september og hefur því starfað í tæpa þrjá mánuði. Mikil þátttaka hefur verið í starfinu, bæði frá heimafólki og gestum í Dýrafirði. Frá opnun hafa verið haldnir 25 viðburðir í eða á vegum Blábankans, allt frá námskeiðum til funda, kynninga, tónleika og sýninga. Þátttakendur hafa verið um 300, auk þess sem á annað hundrað mættu á opnunina sjálfa.

Blábankinn er tilraunaverkefni á Þingeyri sem miðar að því að leggja grunn að félags- og efnahagslegri nýsköpun. Hægt er að fylgjast með framgangi verkefnisins á Facebook hópnum Blábankinn á Þingeyri en einnig er starfrækt enskumælandi Facebook síða The Blue Bank.

Tækni, lýðræði og gervigreind

Innan veggja Blábankans fer fram verkstjórn á tveimur nýsköpunarverkefnum undir merkjum Karolina Fund. Annarsvegar verkefni stutt af Tækniþróunarsjóði sem miðar að því að nýta gervigreind við fjármálatækni og hinsvegar rafrænt lýðræðisverkefni að frumkvæði finnskra stjórnvalda. Sérfræðingar á sviði vélnáms, forritunar og markaðssetningar hafa dvalið í Blábankanum við þessi verkefni.

Stafræn framleiðsla og japönsk byggðarþróun

Arkítektinn Yasuaki Tanago hefur undanfarið unnið verkefni sem lítur að því að nýta reynslu japana af byggðarmálum dreyfðari byggða á Þingeyri. Þá hefur FabLab á Ísafirði unnið með Blábankanum við að setja upp sköpunarsmiðju og m.a. staðið á kynningu á þrívíddarprentun.

Þjónusta

Blábankinn hefur gert samstarfssamninga við Landsbankann, Ísafjarðarbæ, Bókasafnið Ísafirði og VerkVest um aukna þjónustu við íbúa Dýrafjarðar sem framkvæmd er af starfsfólki Blábankans. Þá veitir Blábankinn almenna tölvuaðstoð tvisvar í viku.

smari@bb.is

Auglýsing

Hugum að jólaljósum og rafmagnsöryggi

Framundan er hátíð ljóss og friðar. Að mörgu þarf að hyggja og eitt af því er að huga vel að jólaljósum, skreytingum og rafmagnsöryggi. Rafmagn er stórvirkur brennuvargur og á hverju ári verða eldsvoðar, sem eiga upptök sín í rafbúnaði.

Atriði sem vert er að hafa í huga:

  • Látum aldrei loga á ljósunum á jólatrénu.
  • yfir nótt eða þegar við erum að heiman.
  • Hendum gömlum jólaljósum sem eru úr sér gengin.
  • Notum ætíð ljósaperur af réttri gerð, stærð og styrkleika.
  • Gætum þess að brennanleg efni séu ekki nálægt jólaljósum.
  • Óvarinn rafbúnaður getur valdið raflosti.
  • Vörum okkur á óvönduðum jólaljósum.
  • Inniljós má aldrei nota utandyra.
  • Förum eftir leiðbeiningum um uppsetningu og notkun.
  • Látum logandi kerti aldrei standa ofan á raftæki.
  • Góður siður er að skipta um rafhlöður í reykskynjurum fyrir hver jól.

Mannvirkjastofnun hefur nýlega birt gagnlegar upplýsingar um jólaljós og rafmagnsöryggi og á vef sínum ráðleggur Orkubú Vestfjarða viðskiptavinum sínum og landsmönnum öllum að kynna sér vel þessar leiðbeiningar.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Fimleikasýning í Bolungarvík

Nú virðist fimleikaíþróttin vera ryðja sér til rúms hér á norðanverðum Vestfjörðum. Í vetur og í fyrra hafa verið fimleikaæfingar á Flateyri og í vor var stofnuð fimleikadeild hjá UMFB í Bolungarvík. Þar var haldið prufunámskeið sem vakti mikla lukku og í kjölfarið var deildin stofnuð. Það er Laddawan Dagbjartsson íþróttakennari sem þjálfar deildina með dyggri aðstoð dætra sinna, Lilju og Marín, Pálínu Jóhannsdóttur formanns og foreldra.

Iðkendur eru 40-50 og koma frá Ísafirði og Bolungarvík.

Allir eru launalausir við deildina og fara öll æfingagjöld í tækjakaup en þegar hefur verið fjárfest í lofttrampólíndýnu sem er væntanleg en það er fjárfesting upp á 650.000. Að sögn Pálínu mun dýnan breyta aðstöðu iðkenda gríðarlega. Hún segir mikinn áhuga hjá börnunum og metnaður Laddawan mikill en hún sé einstök og drífandi í starfinu öllu.

Á sunnudaginn kl. 12:00 er sýning hjá fimleikadeildinni þar sem sýndur verður boogie-,  barbie-,  og up-town funk fimleikadans ásamt allskonar hoppum og heljarstökkum. Sýningin verður í íþróttahúsinu Árbær, þar verður enginn aðgangseyrir en deildin tekur glöð við styrkjum til tækjakaupa ef einhverjir vilja styðja við nýja íþróttagrein.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Glæpasögur á Bryggjukaffi

Í kvöld kl. 20:30 verða nokkrar glæpasögur kynntar en hefð er fyrir því á aðventunni að koma saman og kynna sér jólabækurnar. Bækurnar sem kynntar verða í kvöld af valinkunnum Önfirðingum eru:

Mistur eftir Ragnar Jónasson
Gatið eftir Yrsu Sigurðardóttir
Refurinn eftir Sólveigu Pálsdóttur
Myrkrið veit eftir Arnald Indriðason
Vályndi eftir Friðriku Benónýsdóttur

Og fyrir þá sem vilja heyra annað en af ránum og morðum verður Ásta eftir Jón Kalmann á borðum líka.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Samstarf Háskólaseturs og Fræðslumiðstöðvar

Háskólasetrið er til húsa í Vestra.

Háskólasetrið sem heldur utan um öll fjarpróf á háskólastigi á Vestfjörðum en Fræðslumiðstöðin sér um framkvæmd þeirra á sunnanverðum Vestfjörðum og á Ströndum. Háskólanemar geta því tekið prófin nær sínu heimili.

Á sunnanverðum Vestfjörðum eru prófin tekin í Þekkingarsetrinu Skor og þar er fundarsalnum breytt í próftökustofu á prófatíma og þetta árið eru skráð yfir 40 jólapróf og yfir 20 próftakar úr 8 skólum. Í Skor er það Eva Dögg Jóhannesdóttir sem heldur um stýrið.

Á Hólmavík eru prófin tekin í Þróunarsetrinu undir yfirsjón Ingibjargar Benediktsdóttur verkefnastjóra FRMST og þar eru þetta árið skráð 16 próf, 7 próftakar úr 4  skólum.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Engar fjárfestingar hjá Hafrannsóknarstofnun

Bjarni Sæmundsson. Mynd: Guðmundur St. Valdimarsson

Hafrannsóknarstofnun fær 165 milljóna tímabundið framlag úr ríkissjóði til aukinna hafrannsókna, samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi. Ekki er samt gert ráð fyrir neinum fjárfestingum í málaflokknum, þetta kemur fram á vefnum fiskifrettir.

„Í nýju fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur fyrir árið 2018, sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti í morgun, er ekki gert ráð fyrir neinum fjárfestingum til Hafrannsóknastofnunar né annarra rannsókna, þróunar og nýsköpunar í sjávarútvegi. Stofnunin fær hins vegar 165 milljóna tímabundið framlag til aukinna hafrannsókna.“

Hafrannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson er kominn til ára sinna segir á vefnum og vísað er í orð Sigurðar Guðjónsson forstjóra stofnunarinnar en hann telur endurnýjun áríðandi enda er skipið er orðið hálfrar aldar gamalt.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Byggja atvinnuhúsnæði í óleyfi

Fyrirtæki Walvis ehf á Flateyri fékk á dögunum stöðuleyfi fyrir tvo gáma á lóðinni Hafnarbakki 3 þar sem vinnsluhús fyrirtækisins stendur.  Fljótlega hófust svo framkvæmdir við byggingu 250 fm húss fyrir saltfiskvinnslu. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er þakið lagt ofan á gámana og þeir nýttir sem veggur. Framkvæmdin var tilkynnt til Ísafjarðarbæjar enda ekki sótt um leyfi til Skipulags- og mannvirkjanefndar sveitarfélagsins eins og lög gera ráð fyrir.

Fyrirtækið skilaði þá inn uppdráttum vegna framkvæmdanna og byggingarleyfisumsókn sem tekin var fyrir á afgreiðslufundi byggingafulltrúa 8. desember en umsókninni var hafnað á þeim forsendum að stækkunin samræmis ekki skilmálum gildandi deiliskipulags og uppfyllir ekki skilyrði byggingareglugerðar 112/2016, greinar 9.6.11, 9.6.13 og 9.6.16

Grein 9.6.11 fjallar um brunahólfun, 9.6.13 fjallar um brunamótstöðu hurða, hlera og glugga og 9.6.16 fjallar um vörn gegn útbreiðslu elds frá lægra liggjandi þaki.

Ekki virðast gerðar athugasemdir við notkun gáma sem vegg og aðspurður segir Axel R. Överby skipulags- og byggingafulltrúi Ísafjarðarbæjar að þessi byggingarmáti gæti samrýmst lögum. Byggingin yrði alltaf að uppfylla kröfur byggingareglugerðar hvað varðar burðarþol, eldvarnir og brunahólfun og löggiltur burðarþolshönnuður verður að ábyrgjast burðarþol.

Stöðuleyfi fyrir gáma eru gefin út til eins árs í senn en myndu í þessu tilfelli verða teiknuð inn í burðarvirki hússins og partur af húsinu sjálfu, segir Axel og þurfi þar af leiðandi ekki lengur stöðuleyfi.

„Það er ekkert í byggingareglugerðinni sem heimilar skýli til bráðabirgða, í þessu tilfelli þarf að uppfylla skilyrði skipulags- og byggingareglugerðar eins og um fullgilda byggingarleyfisumsókn sé að ræða. Þá er ekki gefinn afsláttur á kröfum brunavarna, minnugur atburða um síðustu helgi.“ Segir Axel að lokum.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Sala eigna í fjárlagafrumvarpi

Heimild í fjárlögum til að selja Eyrarveg 8 á Flateyri

Í fjáralagafrumvarpi því sem nú liggur fyrir að afgreiða á alþingi er óskað eftir heimildum til að selja gamalt prestshús í Sauðlauksdal og íbúðarhús í Austmannsdal, hvoru tveggja í Vesturbyggð. Sömuleiðis er óskað heimildar til að selja eða ganga til samning við Vesturbyggð um ráðstöfum á flugstöð á Patreksfirði. Þetta kemur fram á blaðsíðu 14 í fjárlagafrumvarpinu.

Ennfremur skal selja eignarhlut ríkisins í fasteigninni Eyrarvegur 8, Flateyri, og kaupa eða leigja annað hentugra húsnæði fyrir heilsugæslusel og að selja eignarhlut ríkisins í fasteigninni Höfðastígur 15 og 17, Bolungarvík, og kaupa eða leigja annað hentugra húsnæði fyrir heilsugæslusel. Einnig skal selja eignarhlut ríkisins í fasteigninni Miðstræti 19, Bolungarvík. Þetta kemur fram á blaðsíðu 15 í frumvarpinu.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Útvarp í Bolungarvíkurgöngum

Frá undirritun samnings Leiðar ehf. og Vegagerðarinnar um uppsetningu þessa búnaðar þann 5. desember. Guðmundur Rafn Kristjánsson, Jónas Guðmundsson, Gísli Eiríksson og Örn Smári Gíslason.

Í dag, föstudaginn 15. desember  um kl. 14.00, verður formlega tekinn í notkun búnaður til útsendinga útvarps í Bolungarvíkurgöngum. Fram til þessa hafa engar útvarpsútsendingar náðst í veggöngum hérlendis, öðrum en Hvalfjarðargöngum og nú hinum nýju Norðfjarðargöngum og verður að teljast tímabært að bæta þar úr, en Bolungarvíkurgöng hafa til þess verið næstfjölförnustu veggöng hérlendis á eftir Hvalfjarðargöngum.

Það er Samgöngufélagið sem stendur að þessari framkvæmd, en Leið ehf. ásamt fleiri aðilum annast fjármögnun. Búnaðurinn ásamt uppsetningu kostar um 8,5 m.kr.

Gert er ráð fyrir að með þessum nýja búnaði verði unnt að ná útsendingum Rásar 1, Rásar 2 og Bylgjunnar en mögulega má fjölga rásum með tiltölulega litlum tilkostnaði. Þá er búnaðurinn búinn svokölluðu yfirkalli þannig að komast má með tilkynningar inn í allar útsendingar útvarps í göngunum ef vá ber að dyrum.

Mælst er til þess að þeir sem vilja vera viðstaddir mæti saman á bílum eftir því sem kostur er þar sem erfitt er að leggja nema fáum bílum í útskotum, en gert er ráð fyrir að þetta
verði í tæknirými D, sem er skammt fyrir innan munnann Ísafjarðarmegin  og taki ekki langan tíma.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Frumkvöðullinn Kári í Sjávarfangi

Hann er girnilegur sushi bakkinn hans Kára

Ekki aðeins hefur Kári í Sjávarfangi sýnt frumkvæði í umhverfismálum og hvatt viðskipavini sína til að mæta með sín eigin ílát undir gómsætan fiskinn sem eru á boðstólnum í Sjávarfangi heldur hefur hann nú föndrað þetta girnilega Sushi sem verður í boði í dag.

Þar að auki er hin árlega skata klár fyrir þá sem vanir eru að snæða þann sérkennilega mat á Þorláksmessu.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir