Fimmtudagur 17. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2110

Tónleikaveislur í desember

Það þarf enginn að þjást af söngskorti í desember enda mikil andans upplyfting að hlýða á fallegan söng. Hefð er fyrir því að tónlistarfólk standi fyrir tónleikum í aðdraganda jóla og desember árið 2017 er þar engin undantekning.

Karlakórinn Ernir ríður á vaðið með jólatónleikum í Félagsheimilinu í Bolungarvík í kvöld og hefjast tónleikarnir klukkan 8:00. Á morgun syngja þeir Ernismenn í Ísafjarðarkirkju og á mánudaginn þenja þeir raddböndin í Félagsheimilinu á Þingeyri.

Þann 6. desember verða styrktartónleikar Helga Guðsteins í Skjaldborg en nánar má lesa um þá hér.

Stórsöngvarinn Eyþór Ingi heldur tónleika í Ísafjarðarkirkju þriðjudaginn 5. desember og verður Sunnukórinn honum til halds og trausts. Fimmtudaginn 14. desember verður Eyþór Ingi í Patreksfjarðarkirkju og nýtur þar aðstoðar Kirkjukórs Patreksfjarðar.

Þann 9. desember kl. 17:00 stígur Kvennakórinn á stokk með íslensk jólalög undir stjórn Bjarneyjar Ingibjargar og undirleik Kristínar Hörpu. Einsöngvari er Sigrún Pálmadóttir.

Og 14. desember mæta Ragnheiður Gröndal, Svavar Knútur og Kristjana Stefáns í Edinborgarhúsið með tónleika sem þau kalla  „Eitthvað fallegt“ og rennur hluti ágóðans til góðgerðarmála

 

Auglýsing

„Minn tími mun koma“

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG í Norðvesturkjördæmi, styður ríkisstjórnarsamstarfið og ráðherralista VG sem Katrín Jakobsdóttir formaður VG lagði fram á þingflokksfundi í morgun. Katrín kom mörgum á óvart með því að leita utan þingflokksins og leggja til Guðmund Inga Guðbrandsson, framkvæmdastjóra Landverndar, sem umhverfisráðherra. Margir höfðu spáð því að Lilja Rafney settist á ráðherrastól.

„Við fáum þarna góðan einstakling inn í umhverfisráðuneytið. Ég hefði algerlega við tilbúin að taka að mér ráðuneyti, líkt og fleiri í þingflokknum. Það var hins vegar niðurstaðan að þetta væri gott fyrir okkur sem heild að breikka hópinn og fá þarna inn mann sem hefur starfað lengi með Landvernd og þekkir þennan geira vel. Þetta er öflugur liðsauki,“ segir Lilja Rafney  í samtali við Vísi.

Hún segist hvorki vera svekkt né sár með að fá ekki ráðherraembætti. „Ég tek við þeim verkefnum sem koma hverju sinni. Minn tími mun koma svo ég endurtaki orð góðrar konu. Það veit enginn hvað verður gert síðar á kjörtímabilinu í þessum efnum.“

smari@bb.is

Auglýsing

Arctic fær starfsleyfi fyrir 4.000 tonna fiskeldi

Frá kvíum Arctic Sea Farm í Dýrafirði.

Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir Arctic Sea Farm hf. til framleiðslu á allt að 4.000 tonnum á ári af laxi eða regnbogasilungi í sjókvíum í Dýrafirði. Þetta kemur fram á vef Umhverfisstofnunar. Þar segir að starfsleyfi Umhverfisstofnunar taki á mengunarþætti eldisins á grunni reglugerðar um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.

Starfsleyfið gerir ítarlegar kröfur um takmörkun á mengun og eftirlit og mælingar á starfstíma. Með starfsleyfinu er dregið úr þeim áhrifum sem mengun vegna eldisins veldur á botni fjarðarins með því að hvíla svæði milli kynslóða. Með þeim hætti nær botninn að jafna sig á milli eldislota. Gerðar eru mælingar til að meta ástandið.

Nálgast má ítarlegri upplýsingar um veitingu leyfisins á vef Umhverfisstofnunar.

smari@bb.is

Auglýsing

Syngja á þremur aðventutónleikum

Næstu daga verður mikið um dýrðir hjá Karlakórnum Erni þegar kórinn syngur á þremur aðventutónleikum. Kórinn ríður á vaðið í kvöld með tónleikum í Félagsheimilinu í Bolungarvík kl. 20. Annaðkvöld verða þeir í Ísafjarðarkirkju og hefjast tónleikarnir kl. 19:30 og mánudag heldur kórinn til Þingeyrar og syngur í Félagsheimilinu og hefjast tónleikarnir kl. 20:30.

Stjórnandi Ernis er Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir og gestir og meðsöngvarar er söngnemar í Tónlistarskóla Ísafjarðar. Um undirleik sjá Pétur Ernir Svavarsson á píanó, Kristín Harpa Jónsdóttir á harmónikku og píanó og Jóngunnar Biering Margeirsson á bassa.

smari@bb.is

Auglýsing

Tveir ráðherrar úr Norðvesturkjördæmi

Mynd: mbl.is

Rétt fyrir hádegi tilkynntu flokkarnir um ráðherra í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdótttur. Tveir ráðherrar koma úr Norðvesturkjördæmi. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir (D) heldur áfram sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Ásmundur Einar Daðason (B) verður félagsmálaráðherra.

Að öðru leyti verður ríkisstjórnin svo skipuð:

Katrín Jakobsdóttir verður forsætisráðherra og Svandís Svavars­dótt­ir, þing­flokks­formaður VG, tekur við embætti heil­brigðisráðherra. Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son, fram­kvæmda­stjóri Land­vernd­ar sem ekki er á þingi, mun gegna embætti um­hverf­is­ráðherra.

Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks, vík­ur úr for­sæt­is­ráðuneyt­inu og yfir í fjármálaráðuneytið, þar sem hann hef­ur setið áður. Sig­ríður Á. And­er­sen gegn­ir áfram embætti dóms­málaráðherra og Guðlaug­ur Þór Þórðar­son sit­ur áfram á stóli ut­an­rík­is­ráðherra. Kristján Þór Júlí­us­son vík­ur þá úr embætti mennta­málaráðherra og fær­ist yfir í at­vinnu- og ný­sköp­un­ar­ráðuneytið, þar sem hann mun gegna embætti sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra.

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son, formaður Fram­sókn­ar­flokks, mun gegna embætti sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­aráðherra auk þess að vera sam­starfs­ráðherra Norður­landa. Lilja Al­freðsdótt­ir, vara­formaður flokks­ins og fyrr­ver­andi ut­an­rík­is­ráðherra, verður mennta­málaráðherra.

smari@bb.is

Auglýsing

Hafísinn nálgast landið

Haf­ís­inn á Græn­lands­sundi hef­ur verið að læðast nær landi und­an­farna daga, og var í gær­kvöldi rúm­ar 23 sjó­míl­ur norðan við Horn. Gervi­tungla­mynd­ir benda til þess að mjög mikið hafi mynd­ast af nýj­um ís und­an­farið, og að nokkuð sé um borga­rís­jaka í sam­floti með rekís­n­um, að því er seg­ir í til­kynn­ingu frá eld­fjalla­fræði- og nátt­úru­vár­hóp Há­skóla Íslands.

Seg­ir þar að Veður­stof­an spái áfram suðvest­læg­um átt­um sem færa muni ís­inn aust­ar og nær landi.

„Sam­kvæmt Land­helg­is­gæslu Íslands, og skip­um sem voru á svæðinu í gær, er erfitt að sjá ís­inn í skiparat­sjám og því get­ur hann verið mjög vara­sam­ur, að minnsta kosti fyr­ir minni báta.“

smari@bb.is

Auglýsing

Allhvasst norðvestan til

Hlýr loft­massi hef­ur nú færst aft­ur yfir landið. Enn sem komið er hef­ur vind­ur ekki náð sér á strik og því sit­ur kalda loftið, sem réði ríkj­um í byrj­un vik­unn­ar, sums staðar enn eft­ir. Því mæl­ist frost nú í morg­uns­árið í upp­sveit­um á Suður­landi og sums staðar á Suðaust­ur­landi að því er seg­ir í hug­leiðing­um vakt­haf­andi Veður­fræðings á Veður­stofu Íslands.

Sam­kvæmt spá mun þetta þó breyt­ast í dag, því allsstaðar mun verða næg­ur vind­ur til að blanda hlýja loft­mass­an­um við þann kalda.

Vind­átt­in í dag verður suðvest­læg, 8-18 m/​s, og mesti vind­hraðinn verður á Norðvest­ur­landi, en all­hvass vind­ur verður á þeim slóðum. Einnig get­ur orðið nokkuð byljótt í Eyjaf­irði við þess­ar aðstæður. Loftið yfir land­inu er þá ekki bara hlýtt, held­ur er það líka rakt og því má bú­ast við þung­búnu veðri með þokusúld eða rign­ing­ar­sudda. Hiti verður á bil­inu 3 til 10 stig, hlýj­ast aust­an­lands.

Í landátt­inni aust­an­lands verður þó þurrt að kalla. Sum­ir veg­ir eru vænt­an­lega enn hálir, en hlý­ind­in í dag þýða þó að hálku­lík­ur fara ört minnk­andi.

smari@bb.is

Auglýsing

Æfingin öllum til sóma

Flugslysaæfing Isavia sem var haldin á Ísafjarðarflugvelli í október gekk mjög vel í flesta ef ekki alla staði og var viðbragðsaðilum og öðrum sem tóku þátt í æfingunni til sóma. Þetta kemur fram í lokaskýrslu Isavia um æfinguna. Um 170 manns tóku þátt í æfingunni. Í handriti æfingarinnar var miðað við að erlend leiguflugvél af gerðinni SAAB 340 kæmi inn til lendingar á braut 26 í mjög byljóttum vindi. Rétt fyrir lendingu lendir hún í niðurstreymisvindi og skellur til jarðar örskammt frá brautarenda. Vélin brotnar í nokkra hluta og eldar koma upp í hluta af brakinu. Áætlað er að um borð séu í kring um 40 farþegar og áhöfn.

Isavia heldur flugslysaæfingar á fjögurra ára fresti á áætlunarflugvöllum á landinu. Tilgangurinn með æfingunum er að gera viðbragðseiningar hæfari til þess að bregðast við hópslysi.

smari@bb.is

Auglýsing

Bleikar og bláar heyrúllur skiluðu 1,2 milljónum

Söfnunarátakið „Bleikar og bláar heyrúllur“ sem bændur, dreifingaraðilar og framleiðandi heyrúlluplasts standa að, skilaði 1,2 milljónum króna til Krabbameinsfélagsins í ár. Á síðasta ári slógu „Bleikar heyrúllur“ í gegn og var ætlað að vekja athygli á árvekni um brjóstakrabbamein. Í sumar bættust bláar heyrúllur við og skreyttu tún bænda víða um land með það að markmiði að minna á árvekni um blöðruhálskrabbamein.

Sænski framleiðandinn Trioplast, innlendir dreifingaraðilar og bændur, lögðu samtals fram andvirði þriggja evra af hverri seldri bleikri eða blárri plastrúllu sem hver dugir á 26 bleikar heyrúllur á túni ef vafið er sexfalt. Afraksturinn rennur til Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins og rannsókna á brjóstakrabbameini og blöðruhálskirtilskrabbameini sem eru algengustu krabbamein kvenna og karla.

Hugmyndin að átakinu er komin frá viðskiptavini Trioplast á Nýja Sjálandi og í framhaldinu tryggði fyrirtækið að bleiki liturinn stæðist ítrustu kröfur bænda. Nú hafa bleiku heyrúllurnar einnig hafið innreið sína í Noregi, Svíþjóð, Þýskalandi, Sviss, Bretlandi og Írlandi, auk fleiri landa, og vekja alls staðar mikla athygli.

smari@bb.is

Auglýsing

Bætur sóttar án kostnaðar

Það hefur færst í vöxt að lögmenn bjóði fram þjónustu sína við að sækja staðlaðar skaðabætur vegna seinkunar á millilandaflugi eða aflýsingar á flugi. Þóknun fyrir þjónustuna er yfirleitt hlutfall af þeim skaðabótum sem neytandinn á rétt á. Að gefnu tilefni vilja Neytendasamtökin benda á að neytendur geta sótt slíkar bætur sér að kostnaðarlausu.

Neytendasamtökin aðstoða félagsmenn við að leita réttar síns og sjá um milligöngu þegar þess er þörf. Slík þjónusta er innifalin í árgjaldi samtakanna auk margþættrar annarrar þjónustu.

Evrópska neytendaaðstoðin (ENA) aðstoðar neytendur þvert yfir landamæri. Lendi neytandi, búsettur á Íslandi, í því að flugi hans er seinkað eða aflýst af völdum flugfélags í Evrópu getur hann leitað til ENA sér að kostnaðarlausu. Það sama gildir um neytendur búsetta innan Evrópusambandsins sem vilja sækja rétt sinn gagnvart flugfélagi sem starfar á Íslandi.

Samgöngustofa tekur við kvörtunum frá flugfarþegum og leysir úr ágreiningi svo sem vegna seinkana í flugi. Það er neytendum að kostnaðarlausu að senda mál til Samgöngustofu.

Neytendasamtökin ítreka að neytendur ættu alltaf að byrja á því að sækja rétt sinn til seljanda. Oft ganga þau samskipti snuðrulaust fyrir sig og neytandinn fær úrbætur með lítilli fyrirhöfn. Gangi slíkt ekki er öllum heimilt að leita til Neytendasamtakanna og fá ráðleggingar.

smari@bb.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir