Miðvikudagur 16. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2109

Bolungarvík á toppnum

Hvað er spunnið í opinbera vefi er könnun sem hefur verið framkvæmd annað hvert ár frá 2005. Niðurstöður í könnuninni 2017 voru kynntar á UT-deginum í gær á Grand hóteli í Reykjavík og óhætt að segja að Bolungarvíkurkaupstaður deili toppnum í könnunni með öðrum stofnunum. Vefur Bolungarvíkkaupstaðar skorar 90 stig í könnuninni en 35 stofnanir skora 90 stig eða hærra af 239 stofnunum.

Af sveitarfélögum fá 13 félög 90 stig eða hærra. Hin sveitarfélögin 12 eru:

  • Akureyri
  • Dalvíkurbyggð
  • Fjarðabyggð
  • Fljótsdalshérað
  • Garðabær
  • Hornafjörður
  • Kópavogsbær
  • Reykjanesbær
  • Reykjavíkurborg
  • Seltjarnarneskaupstaður
  • Skagafjörður
  • Ölfus

Vefur Ísafjarðarbæjar skoraði ekki hátt í könnuninni og fékk 65 stig og vefur Vesturbyggðar fékk 78 stig.

smari@bb.is

Auglýsing

99 ár frá fullveldinu

Fólk safnaðist saman við Stjórnarráðið þann 1. desember 1918 þegar Ísland varð frjálst og fullvalda ríki.

Í dag, 1. desember, minnist íslenska þjóðin að 99 ára eru frá fullveldi Íslands. Þann 1. desember 1918, tóku gildi milli Íslands og Danmerkur Sambandslögin, sem voru lög um það hvernig Ísland stóð í sambandi sínu við Danmörku. Í þeim kom meðal annars fram viðurkenning Danmerkur á því að Ísland væri fullvalda og frjálst ríki. Dagurinn varð smám saman að almennum þjóðhátíðardegi fram að lýðveldistíma og var Íslenski fáninn dreginn að húni í fyrsta sinn sem fullgildur þjóðfáni þennan dag.

Þrátt fyrir að áralangri baráttu hafi verið lokið með fullveldi landsins var lítið um hátíðahöld þegar haldið var upp á fullveldisdaginn í fyrsta sinn árið 1918, enda veturinn með eindæmum harður og oftast kallaður frostaveturinn mikli. Katla gaus einnig frá 12. október til 4. nóvember og seint í október barst drepsótt sú sem kölluð var spánska veikin til landsins og létust hundruð manna. Loks brast á nýtt kuldakast þegar veikin stóð sem hæst og ekki þótti ráðlegt að hafa langa útisamkomu við þessar aðstæður.

Á næsta ári verða 100 ár frá fullveldi landsins og Alþingi samþykkti í fyrra halda upp á aldarafmælið með víðtækum hætti.

smari@bb.is

Auglýsing

Hinsegin L

Jólaskilti í Geirseyrarmúla

Jólaskilti Vesturbyggðar í Geirseyrarmúla fauk í illviðri í fyrra en hefur nú verið endurreist bæjarbúum nú til sérstakrar gleði. Ekki bara vegna þess að jólaandanum líkar ljósadýrðin heldur urðu framkvæmdaraðilum á örlítil mistök og brosa vegfarendur út í annað þegar litið er upp í hlíðina.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Hörkuslagur á Torfnesinu

Meistaraflokkur Vestra á síðasta keppnistímabili en liðið hefur tekið nokkrum breytingum.

Vestri tekur á móti Breiðabliki í 1. deild karla í kvöld og fer leikurinn fram á heimavelli Vestra. Að vanda hefst klukkan 19:15. Þetta er jafnframt síðasti heimaleikur liðsins á þessu ári og um leið síðasti leikurinn á gamla parketinu á Torfnesi en strax í næstu viku verður hafist handa við að endurnýja gólfið.

Það má gera ráð fyrir að hart verði barist því Blikar sitja í öðru sæti deildarinna og Vestramenn í því fjórða. Liðin mættust snemma í haust í Kópavogi og þá höfðu Blikar betur. Vestri er þó enn ósigraður á heimavelli ætla strákarnir að sjálfsögðu að halda því þannig. Til að það sé tryggt þarf þó góðan stuðning áhorfenda og hvetjum við alla til að mæta á Jakann og styðja strákana.

smari@bb.is

Auglýsing

Kaldasti nóvember síðan 1996

Nóv­em­ber sem nú er að kveðja hef­ur verið kald­ur, sá kald­asti síðan 1996 en þá var mun kald­ara en nú. Þetta seg­ir Trausti Jóns­son veður­fræðing­ur á vefsíðu sinni. Hins veg­ar má segja á mánuður­inn kveðji með nokkr­um hlý­ind­um. Meðal­hiti var rétt ofan frost­marks í Reykja­vík í mánuðinum og um -1,5 stig á Ak­ur­eyri. Úrkoma í Reykja­vík var í rúmu meðallagi, en tals­vert ofan þess á Ak­ur­eyri eða um 40 pró­sent. Snjór var með meira móti norðan­lands og aust­an og einnig á stöku stað á Vest­ur­landi, seg­ir Trausti.

Nóv­em­ber sker sig nokkuð úr öðrum mánuðum árs­ins, sem flest­ir hafa verið hlý­ir.

smari@bb.is

Auglýsing

Snjóflóð féll á varnargarðinn á Flateyri

Starfsmaður Snjóflóðasetursins skoðar aðstæður.

Við könnun ummerkja um snjóflóð sem féllu í snjóflóðahrinu á Vestfjörðum í síðustu viku kom í ljós að nokkuð stórt flóð hefur fallið úr Innra-Bæjargili á ytri væng varnargarðsins ofan Flateyrar. Flóðið sveigði á leiðigarðinum og rann langleiðina niður með honum. Á vef Snjóflóðaseturs Veðurstofunnar segir að líkt og í mörgum öðrum flóðum í þessari snjóflóðahrinu þá var neðri hluti tungunnar ekki efnismikill. Líklega var flóðið mjög loftblandað eins og gjarnan er þegar snjórinn sem fer af stað er þurr og kaldur og flóðið hrífur ekki með sér mikinn snjó á leið sinni niður fjallshlíðina. Slík flóð skilja ekki eftir sig efnismikla tungu en geta farið hratt yfir og eyðileggingarmátturinn verið mikill. Flóðið úr Bæjargili reif með sér grjót, m.a. nokkra stóra hnullunga, og braut greinar. Ummerki um flóðið má sjá á garðinum og vantaði um 4 m upp á garðtoppinn þar sem það náði hæst. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær flóðið féll en líklega var það um miðja síðustu viku.

Brotnar trjágreinar á varnargarðinum.

smari@bb.is

Auglýsing

Tónleikaveislur í desember

Það þarf enginn að þjást af söngskorti í desember enda mikil andans upplyfting að hlýða á fallegan söng. Hefð er fyrir því að tónlistarfólk standi fyrir tónleikum í aðdraganda jóla og desember árið 2017 er þar engin undantekning.

Karlakórinn Ernir ríður á vaðið með jólatónleikum í Félagsheimilinu í Bolungarvík í kvöld og hefjast tónleikarnir klukkan 8:00. Á morgun syngja þeir Ernismenn í Ísafjarðarkirkju og á mánudaginn þenja þeir raddböndin í Félagsheimilinu á Þingeyri.

Þann 6. desember verða styrktartónleikar Helga Guðsteins í Skjaldborg en nánar má lesa um þá hér.

Stórsöngvarinn Eyþór Ingi heldur tónleika í Ísafjarðarkirkju þriðjudaginn 5. desember og verður Sunnukórinn honum til halds og trausts. Fimmtudaginn 14. desember verður Eyþór Ingi í Patreksfjarðarkirkju og nýtur þar aðstoðar Kirkjukórs Patreksfjarðar.

Þann 9. desember kl. 17:00 stígur Kvennakórinn á stokk með íslensk jólalög undir stjórn Bjarneyjar Ingibjargar og undirleik Kristínar Hörpu. Einsöngvari er Sigrún Pálmadóttir.

Og 14. desember mæta Ragnheiður Gröndal, Svavar Knútur og Kristjana Stefáns í Edinborgarhúsið með tónleika sem þau kalla  „Eitthvað fallegt“ og rennur hluti ágóðans til góðgerðarmála

 

Auglýsing

„Minn tími mun koma“

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG í Norðvesturkjördæmi, styður ríkisstjórnarsamstarfið og ráðherralista VG sem Katrín Jakobsdóttir formaður VG lagði fram á þingflokksfundi í morgun. Katrín kom mörgum á óvart með því að leita utan þingflokksins og leggja til Guðmund Inga Guðbrandsson, framkvæmdastjóra Landverndar, sem umhverfisráðherra. Margir höfðu spáð því að Lilja Rafney settist á ráðherrastól.

„Við fáum þarna góðan einstakling inn í umhverfisráðuneytið. Ég hefði algerlega við tilbúin að taka að mér ráðuneyti, líkt og fleiri í þingflokknum. Það var hins vegar niðurstaðan að þetta væri gott fyrir okkur sem heild að breikka hópinn og fá þarna inn mann sem hefur starfað lengi með Landvernd og þekkir þennan geira vel. Þetta er öflugur liðsauki,“ segir Lilja Rafney  í samtali við Vísi.

Hún segist hvorki vera svekkt né sár með að fá ekki ráðherraembætti. „Ég tek við þeim verkefnum sem koma hverju sinni. Minn tími mun koma svo ég endurtaki orð góðrar konu. Það veit enginn hvað verður gert síðar á kjörtímabilinu í þessum efnum.“

smari@bb.is

Auglýsing

Arctic fær starfsleyfi fyrir 4.000 tonna fiskeldi

Frá kvíum Arctic Sea Farm í Dýrafirði.

Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir Arctic Sea Farm hf. til framleiðslu á allt að 4.000 tonnum á ári af laxi eða regnbogasilungi í sjókvíum í Dýrafirði. Þetta kemur fram á vef Umhverfisstofnunar. Þar segir að starfsleyfi Umhverfisstofnunar taki á mengunarþætti eldisins á grunni reglugerðar um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.

Starfsleyfið gerir ítarlegar kröfur um takmörkun á mengun og eftirlit og mælingar á starfstíma. Með starfsleyfinu er dregið úr þeim áhrifum sem mengun vegna eldisins veldur á botni fjarðarins með því að hvíla svæði milli kynslóða. Með þeim hætti nær botninn að jafna sig á milli eldislota. Gerðar eru mælingar til að meta ástandið.

Nálgast má ítarlegri upplýsingar um veitingu leyfisins á vef Umhverfisstofnunar.

smari@bb.is

Auglýsing

Syngja á þremur aðventutónleikum

Næstu daga verður mikið um dýrðir hjá Karlakórnum Erni þegar kórinn syngur á þremur aðventutónleikum. Kórinn ríður á vaðið í kvöld með tónleikum í Félagsheimilinu í Bolungarvík kl. 20. Annaðkvöld verða þeir í Ísafjarðarkirkju og hefjast tónleikarnir kl. 19:30 og mánudag heldur kórinn til Þingeyrar og syngur í Félagsheimilinu og hefjast tónleikarnir kl. 20:30.

Stjórnandi Ernis er Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir og gestir og meðsöngvarar er söngnemar í Tónlistarskóla Ísafjarðar. Um undirleik sjá Pétur Ernir Svavarsson á píanó, Kristín Harpa Jónsdóttir á harmónikku og píanó og Jóngunnar Biering Margeirsson á bassa.

smari@bb.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir