Síða 2109

Forvitnileg dagskrá á Opinni bók

Á laugardaginn er komið að árlegum stórviðburði í ísfirsku menningarlífi. Bókmenntavakan Opin bók hefur verið haldin í Edinborgarhúsinu í fjölda ára en þangað koma rithöfundar sem eru að setja sig í gírinn fyrir jólabókaflóðið og lesa úr verkum sínum. Dagskráin hefst kl. 16 og að vanda verður boðið upp á kaffi og smákökur undir lestrinum.

Þeir höfundar sem koma fram að þessu sinni eru:

Vilborg Davíðsdóttir, sem les úr bókinni Blóðug jörð sem er þriðja bók hennar um landnámskonuna Auði djúpúðgu.

Adolf Smári Unnarsson sem les úr fyrstu skáldsögu sinni, Um lífsspeki Abba og Tolteka (eða líf mitt sem Olof Palme).

Kristín Eiríksdóttir sem upp úr bókinni Elín, ýmislegt, en bókin kemur út á allra næstu dögum .

Ómar Valgeir Jónsson les upp úr sögunni Vitavörðurinn sem fjallar um atburði á Galtavita.

Þórarinn Leifsson les upp úr bókinni Kaldakol.

———————————————–

Um lífsspeki Abba og Tolteka (eða líf mitt sem Olof Palme) er fyrsta skáldsaga hins 24 ára gamla höfundar, Adolfs Smára, sem er orðheppinn og naskur.

Hér er sagt frá Reykjavík dagsins í dag og tímalausum vangaveltum um lífið og tilveruna. „Það var einhvers staðar nálægt Núðluskálinni, á meðan hún talaði um ómstríð tónbil Jóns Leifs, að ég tók eftir litlu kúlunni á nefi hennar, hún var með Baskanef. Hugsunin hvarf þó jafnfljótt og hún fæddist þegar ég tók eftir tönnum hennar en þær voru alveg hræðilega skakkar, það var einsog hver þeirra ætti sér sjálfstætt líf, líkt og þær væru algerlega ósammála um hvaða stefnu ætti að taka. Ég hafði aldrei áður séð svona heillandi tanngarð, svona fallega óskipulagðan, svona útumallt.“

———————————————–

 

Blóðug jörð eftir Vilborgu Davíðsdóttur

Vilborg Davíðsdóttir lýkur hér þríleiknum um konuna sem á engan sinn líka í landnámssögu Íslands með sjálfstæðri sögu um siglinguna yfir hafið. Fyrri bækurnar tvær, Auður og Vígroði, hlutu fádæmagóðar viðtökur lesenda og gagnrýnenda og var sú fyrri tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Árið er 883. Veldi norrænna manna á Bretlandseyjum riðar til falls eftir dauða Ólafs hvíta Dyflinnarkonungs og Þorsteinn rauður berst við að halda velli á Katanesi þar sem innfæddir gerast æ herskárri. Lífið er hverfult og enginn veit Urðar hug. Á augabragði stendur Auður Ketilsdóttir ein uppi, umkringd óvinum, ábyrg fyrir lífi ungra sonarbarna. Stefnan er tekin til eylandsins á enda veraldar þar sem ár og vötn eru sögð iða af fiski, jökulhettur ber við himin og sjálf jörðin spýr eldi. Á suðurströnd Íslands hafa þrælar gert uppreisn og goldið grimmilega fyrir. Nýja landið er vígt blóði. Einn kemst lífs úr þeim hildarleik: maður sem á harma að hefna á ætt Dyflinnarkonungs.

———————————————–

Kaldakol eftir Þórarinn Leifsson

Katla Rán sinnir metnaðarlausu starfi á auglýsingastofu þegar gamall félagi hringir og býður henni vinnu fyrir svimandi laun. Fyrir dyrum stendur stærsta Íslandskynning allra tíma á Tempelhof-flugvelli í Berlín. Nokkrum dögum síðar búa almannavarnir sig undir að rýma landið. Kaldakol er gráglettinn frásögn af örlögum smáþjóðar á hjara veraldar. Þórarinn Leifsson er þekktur fyrir hugmyndaríkar bækur sem komið hafa út á

ýmsum tungumálum en einnig húmoríska pistla úr Stundinni sem varpa oftar en ekki skörpu ljósi á land og þjóð.

———————————————–

Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur

Elín býr til leikmuni og gervi fyrir kvikmyndir og leikhús og þó hún sé komin yfir sjötugt lifir hún enn fyrir vinnuna. Hún býr ein og veit ekki af fortíðinni sem leynist í kössum úti í bæ. Dag einn birtast þeir á stofugólfinu hennar. Þegar Elín fer að vinna við sýningu á nýju leikriti eftir unga vonarstjörnu, Ellen Álfsdóttur, vitjar fortíðin hennar á ný. Leiðir þeirra tveggja hafa áður legið saman við hræðilegar kringumstæður, þó að önnur muni ekki eftir því og hin sé í þann veginn að gleyma því. Elín, ýmislegt er margslungin og listavel ofin saga um mæður og dætur, ofbeldi og áföll, vald og gleymsku. Kristín Eiríksdóttir hefur áður sýnt, í Doris deyr og Hvítfeld, hversu slyng hún er að flétta magnaðar sögur sem grípa lesandann föstum tökum og sitja lengi í honum eftir lesturinn.

Kristín Eiríksdóttir er fædd í Reykjavík árið 1981. Hún lauk B.A. prófi frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2005. Fyrsta ljóðabók Kristínar, Kjötbærinn, kom út árið 2004. Áður höfðu ljóð hennar birst í tímaritum og dagblöðum. Á eftir fylgdu svo ljóðabækurnar Húðlit Auðnin árið 2006 og Annarskonar sæla árið 2008. Árið 2010 kom út smásagnasafnið Doris deyr og haustið 2012 sendi hún frá sér sína fyrstu skáldsögu, Hvítfeld – fjölskyldusaga. Hún hefur einnig skrifað tvö leikrit: Karma fyrir fugla ásamt Kari Ósk Grétudóttur ( 2013) og Skríddu (2013). Auk þess að sinna ritstörfum og þýðingum hefur Kristín tekið þátt í samsýningum og sett upp gjörninga í samstarfi við Ingibjörgu Magnadóttur, bæði hér heima og erlendis. Sögur hennar og ljóð hafa verið þýdd yfir á dönsku, þýsku og ensku.

———————————————–

Vitavörðurinn eftir Valgeir Ómar Jónsson

Laust eftir miðnætti aðfaranótt 9. júní 1941 stóðu fjórir alvopnaðir breskir hermenn við vitavarðarhúsið á Galtarvita. Erindi þeirra var að handtaka vitavörðinn Þorberg Þorbergsson og flytja í fangelsi í Bretlandi. Áður en þeir gætu haldið frá landi með stríðsfangann varð hann sjálfur að gera við bát hermannanna sem brotnað hafði í fjörunni. Sök vitavarðarins var að hafa skotið skjólshúsi yfir þýskan flóttamann. Ferðin til Bretlands var fyrsta utanför Þorbergs og honum minnisstæð. Í bókinni rekur Valgeir Ómar Jónsson sonarsonur Þorbergs sögu afa síns og samferðamanna hans og framvindu þessa sérstæða máls. Vitavörðurinn er lifandi og raunsönn frásögn af árekstrum íslenskrar gestrisni við Breska heimsveldið.

smari@bb.is

Aflinn jókst um 40 prósent

Fiskafli ís­lenskra skipa í októ­ber var 114.258 tonn, eða 40 prósent meiri afli en í októ­ber 2016. Aukn­ing­in er að mestu til­kom­in vegna meiri síld­arafla en alls veidd­ust tæp 59 þúsund tonn af síld sam­an­borið við rúm 32 þúsund tonn í októ­ber 2016.

Þetta kem­ur fram í frétt á vef Hagstofunnar. Þar kemur fram að botn­fiskafl­inn hafi verið rúm 42 þúsund tonn og auk­ist um 5 prósent, sem megi að mestu rekja til meiri karfa­afla. Afli flat­fisk­teg­unda var 1.816 tonn sem er 12 prósent meiri en í októ­ber 2016.

Skel- og krabba­dýra­afli var þá 1.153 tonn sam­an­borið við 716 tonn í fyrra. Heild­arafli á 12 mánaða tíma­bili frá nóv­em­ber 2016 til októ­ber 2017 var tæp 1.166 þúsund tonn sem er 8 prósent aukn­ing miðað við sama tíma­bil ári fyrr.

Verðmæti afla í októ­ber metið á föstu verðlagi var 16,5 prósent meira en í októ­ber 2016.

smari@bb.is

Óbreyttir vextir

Mynd: mbl.is

Stýrivextir verða óbreyttir samkvæmt ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans sem kynnt var í morgun. Stýrivextir verða því áfram 4,25 prósent. Sam­kvæmt nýrri þjóðhags­spá Seðlabank­ans sem birt er í nóv­em­ber­hefti Pen­inga­mála hæg­ir tölu­vert á hag­vexti í ár og meira en bank­inn spáði í ág­úst. Spáð er 3,7% hag­vexti í ár en í fyrra var hann 7,4%. Fer þar sam­an hæg­ari vöxt­ur út­flutn­ings, eft­ir hraðan vöxt und­an­far­in ár, um leið og nokkuð bæt­ir í vöxt inn­flutn­ings.

Útlit er fyrir að verðbólga verði við 2,5 prósenta verðbólgumarkmið Seðlabankans um mitt næsta ár og verði það næstu árin. Það yrði nokkuð meiri verðbólga en hefur mælst síðustu þrjú árin. Undanfarið hafa miklar hækkanir húsnæðisverðs drifið verðbólguna áfram en verðhjöðnun verið ef húsnæðisverð er skilið frá mælingunni. Þar sem dregið hefur úr verðhækkun á húsnæði er það talið stuðla að minni verðbólgu ef sú þróun heldur áfram. Á móti kemur að áhrif hás gengis sem hafa haldið aftur af verðbólgu fjara út.

smari@bb.is

Búið að gera við sæstrenginn

Hvítanes í Skötufirði.

Rafmagn komst á bæinn Hvítanes í Skötufirði rétt eftir kl. 17 í gær. Þá hafði verið rafmagnslaust frá því á mánudagsmorgun. Fljótlega kom í ljós að bilun var í sæstreng í Skötufirði og var sendur bátur frá Ísafirði til að finna bilunina og gera við strenginn og eftir að bilunin fannst tók ekki langan tíma að koma rafmagni á Hvítanes. Viðgerðarmenn komu bæði frá Ísafirði og frá Hólmavík.

smari@bb.is

Uppruni sýkinga óljós

Mikilvægt að fullelda alifuglakjöt.

Á síðasta misseri hefur tilfellum af listeríu og salmonellu í fólki fjölgað á Íslandi. Í tilkynningu frá Matvælastofnun segir að uppruni sýkinganna er enn óljós og er unnið að því að rekja upprunann í samvinnu við sóttvarnalækni.

Brýnt er fyrir neytendum að verjast smiti með réttri meðhöndlun matvæla og kynna sér hvaða matvæli fólk í áhættuhópum ætti að vera vakandi fyrir, til að lágmarka áhættu með tilliti til listeriu.  Í áhættuhóp eru aldraðir, barnshafandi konur, ung börn og fólk með skert ónæmiskerfi. Einstaklingar úr áhættuhóp ættu að varast að borða, reyktan og grafin fisk,  hráan fisk, hrátt kjöt, ósoðin og/eða lítið hitaðan mat.

Matvælastofnun vill benda neytendum á að þrátt fyrir fyrirbyggjandi aðgerðir og öflugt eftirlit er aldrei hægt að koma fyllilega í veg fyrir salmónelluí kjöti. Neytendur þurfa því ætíð að hafa hugfast að hrátt kjöt geti verið mengað af sjúkdómsvaldandi örverum. Ávallt ber því að meðhöndla hrátt kjöt m.t.t. þessa og gæta fyllsta hreinlætis við matreiðslu, koma í veg fyrir krosssmit úr hráu kjöti í matvæli sem tilbúin eru til neyslu og huga að því að kjötið sé nægilega vel eldað/hitað, sér í lagi svína- og alifuglakjöt.

smari@bb.is

Hverfisráðið fær ærslabelg

Hverfisráð efri- og neðribæjar á Ísafirði hefur fengið samþykkt tillögu um að settur verði upp svokallaður ærslabelgur á Eyrartúni, í nágrenni við gamla sjúkrahúsið. Ærslabelgur er uppblásin dýna sem yngstu kynslóðunum þykir einkar gaman að ærslast á. Í fyrra var settur upp ærslabelgur í Bolungarvík og hefur hann mælst vel fyrir. Í kostnaðarmati sem bæjarráð lét vinna kemur fram að kostnaðurinn nemur um 2,7 milljónum króna og hefur bæjarráð samþykkt tillögu hverfisráðsins.

smari@bb.is

Þjónusta sem má ekki tefla í tvísýnu

Stúdíó Dan.

Ísafjarðarbær mun kaupa rekstur líkamsræktarstöðvarinnar Stúdíó Dan, en eigendur hafa ákveðið að hætta rekstri fljótlega á næsta ári. Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri segir líkamsræktarstöð sé svo mikilvæg þjónusta í sveitarfélaginu að ekki megi tefla henni í tvísýnu og því hafi bærinn ákveðið aðkomu sína. Að sögn Gísla Halldórs er ekki búið að ákveða hvort að reksturinn verði á hendi bæjarins eða hvort auglýst verði eftir rekstaraðila og/eða reksturinn boðinn út. Hann vill ekki gefa upp kaupverð fyrr en að endanlegur kaupsamningur liggur fyrir.

Bærinn ætlar einnig að leigja húsnæðið sem líkamsræktarstöðin er til húsa en Gísli Halldór segi að um tólf mánaða leigusamning sé að ræða. Hann segir að bærinn stefnir að varanlegri lausn í húsnæðismálum líkamsræktarstöðvar og eru ýmsir kostir til skoðunar.

Gísli Halldór segir að hann hafi ekki orðið var við annað en einhugur ríki hjá bæjarfulltrúum um að bærinn beiti sér til að tryggja rekstur líkamsræktarstöðvar í sveitarfélaginu.

smari@bb.is

Between Mountains heilla David Fricke

Þekktasti núlifandi tónlistarblaðamaður veraldar er án vafa David Fricke. Hann hefur setið í ritstjórn Rolling Stone tímaritsins um árabil og verið nær árlegur gestur á Iceland Airwaves og þar var hann einmitt um þarsíðustu helgi. Á vef Rolling Stone í dag birtir Fricke það sem helst heillaði hann á tónlistarhátíðinni og nefndi til sögunnar sjö nöfn. Eitt þeirra er vestfirski dúettinn Between Mountains en hann skipa þær Katla Vigdís Vernharðsdóttir og Ásrós Helga Guðmundsdóttir frá Dýrafirði. „Hafa ekkert gefið út – ennþá. Það mun örugglega breytast fljótlega,“ skrifar Fricke. Between Mountains sigraði Músíktilraunir í vor og Fricke bendir lesendum Rolling Stone á þýðingu verðlaunanna og til marks um af hvaða kaliberi Músiktilraunir eru minnist Fricke á að fyrir sjö árum unnu Of Monsters and Men keppnina.

Tónlist Between Mountains lýsir Fricke sem blöndu af sykursætri bjartsýni og ástsjúkum blús. „Dúettinn semur um það sem þær þekkja,“ skrifar Fricke.

smari@bb.is

Gáfu bekk til minningar um foreldra og bróður

Gísli Halldór þakkar Sigurði fyrir gjöfina.

Ísafjarðarbæ barst í dag góð gjöf er Sigurður Ólafsson afhenti Gísla Halldóri Halldórssyni bæjarstjóra bekk til minningar um foreldra hans og bróður. Bekkurinn er gefinn til minningar um hjónin Ólaf Sigurðsson skipstjóra (1907-1974) og Guðrúnu Sumarliðadóttur (1911-1986) og son þeirra Ægi Ólafsson skipstjóra (1939-1989). Í dag eru 110 ár frá fæðingu Ólafs.

Gjöfina gefa börn Ólafs og Guðrúnar, þau Ragnar, Sigurður og Ingibjörg og börn og barnabörn Ægis heitins.

Það er ósk gefenda að bekkurinn fái að standa við Mjósund – Aðalstræti 8 þar sem Ólafur og Guðrún bjugg mest allan sinn búskap.

smari@bb.is

Tuttugu ára Hlíðarvegspúkar

Hlíðarvegspúkar

Næstkomandi laugardag ætla Hlíðarvegspúkar að koma saman eins og þeir hafa gert undanfarin 20 ár. Að þessu sinni er hittingurinn í Kiwanishúsinu og hefst kl. 18:00. Að sögn Bjarndísar Friðriksdóttur  yfirpúka verður þetta kaffi og skemmtikvöld og einhverjar líkur eru á því að Benni Sig mæti í gleðskapinn.

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir