Síða 2109

Uppruni sýkinga óljós

Mikilvægt að fullelda alifuglakjöt.

Á síðasta misseri hefur tilfellum af listeríu og salmonellu í fólki fjölgað á Íslandi. Í tilkynningu frá Matvælastofnun segir að uppruni sýkinganna er enn óljós og er unnið að því að rekja upprunann í samvinnu við sóttvarnalækni.

Brýnt er fyrir neytendum að verjast smiti með réttri meðhöndlun matvæla og kynna sér hvaða matvæli fólk í áhættuhópum ætti að vera vakandi fyrir, til að lágmarka áhættu með tilliti til listeriu.  Í áhættuhóp eru aldraðir, barnshafandi konur, ung börn og fólk með skert ónæmiskerfi. Einstaklingar úr áhættuhóp ættu að varast að borða, reyktan og grafin fisk,  hráan fisk, hrátt kjöt, ósoðin og/eða lítið hitaðan mat.

Matvælastofnun vill benda neytendum á að þrátt fyrir fyrirbyggjandi aðgerðir og öflugt eftirlit er aldrei hægt að koma fyllilega í veg fyrir salmónelluí kjöti. Neytendur þurfa því ætíð að hafa hugfast að hrátt kjöt geti verið mengað af sjúkdómsvaldandi örverum. Ávallt ber því að meðhöndla hrátt kjöt m.t.t. þessa og gæta fyllsta hreinlætis við matreiðslu, koma í veg fyrir krosssmit úr hráu kjöti í matvæli sem tilbúin eru til neyslu og huga að því að kjötið sé nægilega vel eldað/hitað, sér í lagi svína- og alifuglakjöt.

smari@bb.is

Hverfisráðið fær ærslabelg

Hverfisráð efri- og neðribæjar á Ísafirði hefur fengið samþykkt tillögu um að settur verði upp svokallaður ærslabelgur á Eyrartúni, í nágrenni við gamla sjúkrahúsið. Ærslabelgur er uppblásin dýna sem yngstu kynslóðunum þykir einkar gaman að ærslast á. Í fyrra var settur upp ærslabelgur í Bolungarvík og hefur hann mælst vel fyrir. Í kostnaðarmati sem bæjarráð lét vinna kemur fram að kostnaðurinn nemur um 2,7 milljónum króna og hefur bæjarráð samþykkt tillögu hverfisráðsins.

smari@bb.is

Þjónusta sem má ekki tefla í tvísýnu

Stúdíó Dan.

Ísafjarðarbær mun kaupa rekstur líkamsræktarstöðvarinnar Stúdíó Dan, en eigendur hafa ákveðið að hætta rekstri fljótlega á næsta ári. Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri segir líkamsræktarstöð sé svo mikilvæg þjónusta í sveitarfélaginu að ekki megi tefla henni í tvísýnu og því hafi bærinn ákveðið aðkomu sína. Að sögn Gísla Halldórs er ekki búið að ákveða hvort að reksturinn verði á hendi bæjarins eða hvort auglýst verði eftir rekstaraðila og/eða reksturinn boðinn út. Hann vill ekki gefa upp kaupverð fyrr en að endanlegur kaupsamningur liggur fyrir.

Bærinn ætlar einnig að leigja húsnæðið sem líkamsræktarstöðin er til húsa en Gísli Halldór segi að um tólf mánaða leigusamning sé að ræða. Hann segir að bærinn stefnir að varanlegri lausn í húsnæðismálum líkamsræktarstöðvar og eru ýmsir kostir til skoðunar.

Gísli Halldór segir að hann hafi ekki orðið var við annað en einhugur ríki hjá bæjarfulltrúum um að bærinn beiti sér til að tryggja rekstur líkamsræktarstöðvar í sveitarfélaginu.

smari@bb.is

Between Mountains heilla David Fricke

Þekktasti núlifandi tónlistarblaðamaður veraldar er án vafa David Fricke. Hann hefur setið í ritstjórn Rolling Stone tímaritsins um árabil og verið nær árlegur gestur á Iceland Airwaves og þar var hann einmitt um þarsíðustu helgi. Á vef Rolling Stone í dag birtir Fricke það sem helst heillaði hann á tónlistarhátíðinni og nefndi til sögunnar sjö nöfn. Eitt þeirra er vestfirski dúettinn Between Mountains en hann skipa þær Katla Vigdís Vernharðsdóttir og Ásrós Helga Guðmundsdóttir frá Dýrafirði. „Hafa ekkert gefið út – ennþá. Það mun örugglega breytast fljótlega,“ skrifar Fricke. Between Mountains sigraði Músíktilraunir í vor og Fricke bendir lesendum Rolling Stone á þýðingu verðlaunanna og til marks um af hvaða kaliberi Músiktilraunir eru minnist Fricke á að fyrir sjö árum unnu Of Monsters and Men keppnina.

Tónlist Between Mountains lýsir Fricke sem blöndu af sykursætri bjartsýni og ástsjúkum blús. „Dúettinn semur um það sem þær þekkja,“ skrifar Fricke.

smari@bb.is

Gáfu bekk til minningar um foreldra og bróður

Gísli Halldór þakkar Sigurði fyrir gjöfina.

Ísafjarðarbæ barst í dag góð gjöf er Sigurður Ólafsson afhenti Gísla Halldóri Halldórssyni bæjarstjóra bekk til minningar um foreldra hans og bróður. Bekkurinn er gefinn til minningar um hjónin Ólaf Sigurðsson skipstjóra (1907-1974) og Guðrúnu Sumarliðadóttur (1911-1986) og son þeirra Ægi Ólafsson skipstjóra (1939-1989). Í dag eru 110 ár frá fæðingu Ólafs.

Gjöfina gefa börn Ólafs og Guðrúnar, þau Ragnar, Sigurður og Ingibjörg og börn og barnabörn Ægis heitins.

Það er ósk gefenda að bekkurinn fái að standa við Mjósund – Aðalstræti 8 þar sem Ólafur og Guðrún bjugg mest allan sinn búskap.

smari@bb.is

Tuttugu ára Hlíðarvegspúkar

Hlíðarvegspúkar

Næstkomandi laugardag ætla Hlíðarvegspúkar að koma saman eins og þeir hafa gert undanfarin 20 ár. Að þessu sinni er hittingurinn í Kiwanishúsinu og hefst kl. 18:00. Að sögn Bjarndísar Friðriksdóttur  yfirpúka verður þetta kaffi og skemmtikvöld og einhverjar líkur eru á því að Benni Sig mæti í gleðskapinn.

bryndis@bb.is

Harma niðurstöðuna

EFTA-­dóm­stóll­inn í Lúx­em­borg felldi í morgun dóma í tveimur málum og kemst að þeirri niðurstöðu að íslenska leyf­is­veit­inga­kerfið fyrir inn­flutn­ing á hrárri og unn­inni kjöt­vöru, eggjum og mjólk sam­rým­ist ekki ákvæðum EES-­samn­ings­ins. Bænda­sam­tök Íslands telja nið­ur­stöð­u dómstólsins geta valdið miklu tjóni. Þetta kemur fram í frétta­til­kynn­ingu sam­tak­anna. Þar segir að um sé að ræða þýð­ing­ar­mikið hags­muna­mál íslensks land­bún­aðar en fjöl­margir hafi bent á þá áhættu sem felst í auknum inn­flutn­ingi á hráu kjöti, óger­il­sneyddum mjólk­ur­vörum og hráum eggj­um. Þrátt fyrir mótrök fjölda aðila úr heil­brigð­is­geir­an­um, bænda og búvís­inda­manna og fleiri sem vara við óheftum inn­flutn­ingi þá kom­ist EFTA-­dóm­stóll­inn að annarri nið­ur­stöðu.

„Bænda­sam­tök Íslands harma nið­ur­stöðu dóm­stóls­ins en þau hafa um ára­bil barist gegn inn­flutn­ingi á hráu kjöti, óger­il­sneyddum mjólk­ur­vörum og hráum eggj­um. Að mati sam­tak­anna mun nið­ur­staða dóms­ins að óbreyttu geta valdið íslenskum land­bún­aði miklu tjóni og ógnað bæði lýð­heilsu og búfjár­heilsu. Ísland er ekki aðili að evr­ópskum trygg­ing­ar­sjóðum sem bæta tjón ef upp koma alvar­legar sýk­ingar í land­bún­aði og þyrfti rík­is­valdið ásamt bændum að bera slíkar byrð­ar,“ segir í til­kynn­ing­unn­i.

smari@bb.is

Rafmagnslaust í rúman sólarhring

Hvítanes í Skötufirði.

Rafmagn fór af bænum Hvítanesi í Skötufirði laust eftir hálf ellefu í gærmorgun. Í tilkynningu frá Orkubúi Vestfjarða kemur fram að viðgerðarmenn frá Hólmavík fóru á staðinn og reyndu innsetningu sem tókst ekki en fundu út að bilun er í sæstreng yfir Skötufjörð. Staðan nú er sú að verið er að fara á staðinn á bát frá Ísafirði til að leita bilunar og einnig er á leiðinni mannskapur með bát frá Hólmavík til aðstoðar.

smari@bb.is

Tekur jákvætt í aukið eldi í Dýrafirði

Frá kvíum Arctic Sea Farm í Dýrafirði.

Ísafjarðarbær tekur jákvætt í áform Arctic Sea Farm um aukið fiskeldi í Dýrafirði. Fyrirtækið áætlar að auka framleiðsluna úr 4.200 tonnum í 10.000 tonn á ári. Samkvæmt mati Hafrannsóknastofnunar er Dýrafjörður talinn þola eldi á allt að 10 þúsund tonnum. Í umsögn Ísafjarðarbæjar kemur fram að stækkunaráform fyrirtækisins séu rökrétt í framhaldi af ágætum árangri síðustu ára og áform um viðbrögð þess eðlis að neikvæð umhverfisáhrif verða í algeru lágmarki.

Þá kemur einnig fram að bæjaryfirvöld líti svo á að mikilvægt sé að nærliggjandi auðlindir séu nýttar með einhverjum hætti, til hagsbóta fyrir samfélagið og ítrekuð sú skoðun bæjarstjórnar – sem hefur verið komið á framfæri í fjölda ára – að brýn þörf er á að strandsvæði verði skipulögð og að skipulagsvaldið verði hjá sveitarfélögunum.

smari@bb.is

Engir bílar með Baldri vegna bilunar

Breiðafjarðarferjan Baldur.

Vegna bilunar í ekjubrú í Stykkishólmshöfn verður ekki hægt að taka bíla um borð í ferjuna, einungis farþega. Unnið hefur verið að viðgerð frá því í gær og stendur viðgerð enn yfir.

Vonast er til þess að hægt verði að sigla með bíla skv. áætlun á morgun miðvikudag, nánar um það síðar.

Fótgangandi  farþegar eru vinsamlegast beðnir um að hringja og bóka fyrir kl. 14:00 í dag 14. Nóvember í 433 2254 að öðrum kosti mun skipið ekki sigla í dag.

Hægt er að fylgjast með framvindu mála á vefsíðu Sæferða www.saeferdir.is og á facebook „Seatours Iceland“

bryndis@bb.is

Nýjustu fréttir