Síða 2109

Samningur um Náttúrustofuna verði framlengdur

Refur rannsakaður á Náttúrustofunni.

Í árslok renna út samningar umhverfis- og auðlindaráðuneytisins við sveitarfélögin um rekstur náttúrustofa. Hafinn er undirbúningur að endurskoðun samninganna þar sem meðal annars er ætlunin að fara yfir verkefni náttúrustofa í ljósi af reynslu af starfsemi þeirra og hver þau eiga að vera til framtíðar.

Í bréfi ráðuneytisins til sveitarfélaga á Vestfjörðum er lagt til að samningur um rekstur Náttúrstofu Vestfjarða verði framlengdur um eitt ár þar sem ekki gefst tími til að endurskoða samninginn fyrir árslok.

Málefni Náttúrustofu Vestfjarða hafa verið í brennidepli síðustu vikur en í fjárlagafrumvarpi Benedikts Jóhannessonar fráfarandi fjármálaráðherra er gert ráð fyrir að framlög ríkisins til stofunnar verði skorin niður um þriðjung. Fjárlögin komu ekki til afgreiðslu þingsins þar sem ríkisstjórnin féll skömmu eftir að frumvarpið var lagt fram og alls óvíst hver afdrif frumvarpsins verða.

smari@bb.is

„Viljum vera fremst í fiskeldi“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

„Fisk­eldið hef­ur líka komið mjög sterkt inn á þessu ári, og gam­an að fylgj­ast með upp­bygg­ingu at­vinnu­grein­ar­inn­ar. Sam­hliða vexti fisk­eld­is­ins hef­ur verið unnið að mót­un stefnu sem miðar að því að grein­in dafni í sátt við þjóðina, líf­ríki og nátt­úru og virðast lang­flest­ir meðvitaðir um mik­il­vægi þess að byggja fisk­eldið upp á var­kár­an og skyn­sam­leg­an máta. Við vilj­um auðvitað verða fremst í fisk­eldi líka, og get­um orðið það ef við ger­um hlut­ina rétt.“ Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra í viðtali í Morgunblaðinu. Í viðtalinu fer hún yfir þetta tæpa ár sem hún hefur verið í ráðuneytinu en allar líkur eru á að hún hverfi úr ríkisstjórn innan skamms og setjist í stjórnarandstöðu.

Meðal þeirra verk­efna sem Þor­gerður er ánægð með að hafa komið af stað er stofn­un stýri­hóps sem vann til­lög­ur um end­ur­skoðun al­menna byggðakvóta­kerf­is­ins.

„Sér­tæki byggðakvót­inn er á könnu Byggðastofn­un­ar en al­menni byggðakvót­inn hjá ráðuneyt­inu. Mjög áhuga­verðar hug­mynd­ir komu út úr starfi stýri­hóps­ins og von­andi verður þeim fylgt eft­ir,“ seg­ir hún.

„Meg­in­inn­takið er það að færa meira vald yfir byggðakvót­an­um yfir til sveit­ar­fé­lag­anna svo að þau sjálf – en ekki miðstýrt vald í Reykja­vík – ákveði hvernig kvót­an­um verður best ráðstafað. Sum myndu vilja láta kvót­ann ganga beint til ákveðinna út­gerða, en á öðrum stöðum gæti orðið ofan á að selja kvót­ann og nota ágóðann til annarr­ar upp­bygg­ing­ar.“

smari@bb.is

Ákærðir fyrir brot á ákvæðum Hornstrandafriðlandsins

Mynd af mönnunum í Hornvík í fyrra.

Þrír menn hafa verið ákærðir af embætti lög­reglu­stjór­ans á Vest­fjörðum fyr­ir að hafa í fyrra brotið gegn lög­um um nátt­úru­vernd og aug­lýs­ingu um friðland á Horn­strönd­um með því að hafa laug­ar­dag­inn 28. maí í fyrra komið í friðlandið og dvalið þar í viku­tíma án þess að til­kynna Um­hverf­is­stofn­un um ferðalag sitt. Frá þessu er greint á mbl.is.

Málið komst í hámæli í fyrra er starfsfólk Borea Adventures kom að mönnunum í Hornvík þar sem þeir voru með skotvopn og ýmsan veiðibúnað, en meðferð skotvopna er bönnuð í friðlandinu.

Greint var frá því í janú­ar að fallið hafi verið frá ákæru gegn mönn­un­um, en þá hafði verið ákveðið að beita þá sekt­armeðferð. Karl Ingi Vil­bergs­son, hjá lög­regl­unni á Vest­fjörðum, staðfest­ir í sam­tali við mbl.is að menn­irn­ir hafi hins veg­ar neitað að skrifa und­ir slíka sekt­armeðferð og því hafi verið ákært í mál­inu. Það er aft­ur á móti ekki ákært fyr­ir veiði í friðland­inu.

Í síðustu viku féll sýknudóm­ur í Héraðsdómi Vest­fjarða í meiðyrðamáli þar sem GJÁ útgerð ehf, ferðaþjónustufyrirtækið sem flutti menn­ina og veiðibúnað þeirra til Horn­vík­ur, hafði höfðað á hendur  Rúnari Óla Karlssyni hjá Borea Adventures vegna ummæla hans í fjölmiðlum um atburðina í Hornvík í fyrra.

smari@bb.is

Dagur íslenskrar tungu í MÍ

Baptiste Griffaton flytur ljóð á frönsku og Hilda Sigurðardóttir íslenska þýðingu á því. Mynd: Emil Emilsson

Síðastliðinn fimmtudag var dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur í Menntaskólanum á Ísafirði en 16. nóvember er jafnframt fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar. Nemendur skólans voru með sérstaka hátíðardagskrá á sal skólans í tilefni dagsins. Þar var boðið uppá kynningar á skáldum, upplestur og söng. Lesið var upp úr bókunum Ástin, drekinn og dauðinn og Auður eftir Vilborgu Davíðsdóttur og bókinni Saga Ástu eftir Jón Kalman Stefánsson. Þá voru nemendur einnig með kynningar á báðum skáldunum.

Kolbeinn Hrólfsson les upp úr sögunni Saga Ástu eftir Jón Kalman Stefánsson. Mynd: Emil Emilsson
Baptiste Griffaton flytur ljóð á frönsku og Hilda Sigurðardóttir íslenska þýðingu á því. Mynd: Emil Emilsson

Ljóðið Ferðalok eftir Jónas Hallgrímsson var einnig flutt á íslensku og frönsku. Hilda Sigurðardóttir flutti það á íslensku en Baptiste Griffaton, franskur nemandi skólans, sá um flutning þess á frönsku. Hann flutti einnig franskt ljóð en einnig var íslensk þýðing á ljóðinu flutt. Dagskránni lauk með fjöldasöng á laginu Á íslensku má alltaf finna svar en þar sameinast góður texti Þórarins Eldjárns við þekkt lag Atla Heimis Sveinssonar.

bryndis@bb.is

Baldur bilaður

Breiðafjarðarferjan Baldur.

Vegna bilunar í aðalvél Baldurs falla allar ferðir ferjunnar niður en viðgerð hefur staðið yfir frá því í gær og var unnið í alla nótt. Að sögn forsvarsmanna ferjunnar er ekki ljóst á þessari stundu hve langt stopp ferjunnar verður.

Farþegabáturinn Særún mun sigla eitthvað í fjarveru Baldurs.

bryndis@bb.is

Sárt að vita að farsímanotkun var ein aðalorsök slyssins

Þórir flutti ávarp á minningarathöfninni í gær.

Í gær var haldin minningathöfn við um þá sem hafa látist í umferðarslysum. Minningarathöfnin var haldin við þyrlupall Landspítalans í Fossvogi. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, flutti ávarp, einnig Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Þórir Guðmundsson, lögreglumaður á Ísafirði og Ágúst Mogensen, sem um árabil starfaði við rannsóknir á umferðarslysum hjá rannsóknarnefnd umferðarslysa og síðar rannsóknarnefnd samgönguslysa og er nú ráðgjafi í slysavörnum.

Þórir sagði frá reynslu sinni þegar Þórey tvíburasystir hans lést í umferðarslysi á Hnífsdalsvegi í janúar 2006 þegar bíll hennar fór útaf veginum og lenti í sjónum. Sagði hann sárt að vita til þess að ein aðalorsök slyssins hafi verið farsímanotkun hennar við stýrið. Hann hafi iðulega bent á alvöru þess að nota ekki símann um leið og ekið er og kvaðst trúa því að þetta hafi verið eina skiptið sem hún gerði það. Það hafi hins vegar verið einu sinni of oft.

smari@bb.is

Hvessir að norðan

Útlit er fyrir vaxandi norðan- og norðaustanátt í dag með snjókomu eða éljum en legst af verður þó þurrt og bjart sunnantil. Seint í kvöld og í nótt verður vindstyrkurinn kominn í fimmtán til 23 metra á sekúndu norðan- og vestantil en hægara verður um landið suðaustanvert þar til á morgun. Búast má við skafrenningi og lélegu skyggni, einkum á norðvestanverðu landinu. Frost verður allt að tíu stig, mest inn til landsins. Dregur heldur úr vindi og ofankomu norðan- og vestanlands þegar líður á morgundaginn, en bætir í vind á Suðausturlandi með éljum. Áframhaldandi hvöss norðaustanátt fram að helgi með éljagangi og köldu veðri.

Gul viðvörun hefur verið gefin út á Breiðafirði, Vestfjörðum og Norðurlandi. Viðvaranirnar gilda frá klukkan sex í kvöld, nema á Breiðafirði frá átta. Á öllum þessum landsvæðum er varað við norðaustan hvassviðri eða stormi og snjókomu. Viðvaranirnar gilda fram á miðvikudag á Breiðafirði og Vestfjörðum en fram á fimmtudagskvöld á Ströndum og Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra.

smari@bb.is

Stúlknaflokkarnir gerðu víðreist

Níundi flokkur Vestrastúlkna með Yngva Páli Gunnlaugssyni, þjálfara, eftir 1. umferð Íslandsmótsins á Ísafirði í síðasta mánuði þegar liðið vann sig upp í A-riðil.

Tveir stúlknaflokkar körfuknattleiksdeildar Vestra spiluðu að heiman í Íslandsmótum á dögunum og þótt sigrarnir hefðu ekki allir fallið Vestra megin var frammistaða beggja flokka góð. Stelpurnar í 9. flokki kepptu í A-riðli í annarri umferð Íslandsmótsins og var leikið í Keflavík en þær höfðu sigrað B-riðil örugglega í fyrstu umferð. Stelpurnar í minnibolta eldri (11 ára) sóttu Þorlákshöfn heim í fjölliðamóti þar sem þær tókust á við jafnöldur sínar í B-riðli.  Níundi flokkur átti við ramman reip að draga í sínum fjórum leikjum enda við bestu lið landsins að etja. Þrátt fyrir góða spretti á köflum náði liðið ekki að landa sigri en ljóst að mikið býr í þessu vaska liði Vestra.

Minniboltastelpur Vestra með Stefaníu Ásmundsdóttur, fararstjóra og þjálfara. Á myndina vantar einn liðsmann, sem tók einnig þátt í lúðrasveitarhátíð í Hörpunni þessa sömu helgi.

Stúlkurnar í minniboltamótinu léku einnig fjóra leiki og fóru leikar þannig að þær sigruðu tvo fyrstu leikina og biðu lægri hlut í seinni tveimur leikjunum.

smari@bb.is

Hundahald valgrein í Grunnskólanum

Hundurinn Kári í góðum hóp nema við G.Í.

Í haust var nemendum í Grunnskólanum á Ísafirði boðið upp á nýja valgrein á miðstigi, sem nefnist ,,hundar sem gæludýr“. Markmið kennslunnar er að nemendur kynnist umhirðu hunda og mikilvægum þáttum í samskiptum þeirra við manninn. Auður Yngvadóttir kennir þessa valgrein, en hún hefur áralanga reynslu af hundum og hefur m.a. þjálfað björgunarhunda til starfa.

Í síðustu viku kom Auður með hundinn Kára með sér í kennslustund og vakti það mikla gleði hjá nemendum. Kári kunni einnig vel að meta heimsóknina, var hinn kátasti og fór að mestu eftir skólareglum.

 

Áfangastöðum forgangsraðað

Ferðamenn á Látrabjargi.

Undanfarna mánuði hefur Markaðsstofa Vestfjarða unnið að gerð áfangastaðaáætlun fyrir Vestfirði. Um er að ræða verkefni sem leitt var af Ferðamálastofu og Stjórnstöð ferðamála og síðan samið við Markaðsstofur landshlutanna um að halda utan um vinnuna á verkefninu.

Verkefnið snýst um að skipuleggja og samhæfa þróun og stýringu á öllum þeim þáttum sem geta haft áhrif á upplifun ferðamanna á svæðinu. Þetta er unnið með tilliti til þarfa gesta, heimamanna, fyrirtækja og umhverfis.

Með gerð áfangastaðaáætlunar DMP fyrir Vestfirði verður til heildræn stefna sem tekur til allra þeirra þátta sem atvinnugreinin tengist; umhverfi, íbúum og samfélagi.

Verkefnið á að auðvelda opinbera ákvörðunartöku sem tengjast meðal annars uppbyggingu þjónustu, skipulagsmálum, aðgangsstýringu og markaðsáherslum.

Á Vestfjörðum er unnin ein áfangastaðaáætlun með þremur aðgerðaáætlunum skipt niður á eftirfarandi svæði.

  • Norðursvæði – Ísafjarðarbær, Bolungarvíkurkaupstaður og Súðavíkurhreppur
  • Suðursvæði – Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur
  • Strandir og Reykhólar – Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Strandabyggð og Reykhólahreppur

Á næstu tveimur vikum verða opnir svæðisfundir og markmið þeirra er að fara yfir nokkur atriði sem tengjast þessari vinnu. Þar verður einnig ákveðið hver forgangsverkefni hagsmunaaðila á svæðinu verða.

Fundirnir verða sem hér segir:

  • Hólmavík, í Hnyðju – 20. nóvember 2017, kl. 11-14
  • Patreksfjörður, í Félagsheimilinu – 21. nóvember 2017, kl. 09-12
  • Ísafirði, á Hótel Ísafirði – 30. nóvember, kl. 11-14

smari@bb.is

Nýjustu fréttir