Miðvikudagur 2. apríl 2025
Síða 2108

Hey þú

Fyrir nokkrum árum tóku nokkrir rekstraraðilar á Ísafirði sig til og bjuggu til veggspjald þar sem íbúar voru hvattir til að versla í heimabyggð og kaupa jólagjafir af litlum fyrirtækjum og sjálfstætt starfandi í heimabyggð.

„Verum viss um að peningarnir okkar fari heldur til einstaklinga í samfélaginu en til stórfyrirtækja í öðrum landshlutum. Þannig mun stærri hluti heimafólksins eiga gleðileg jól“ segir í textanum og að lokum er hvatning til að „styðja raunverulegt fólk“.

bryndis@bb.is

Rjúpnaveiðum lýkur

Síðasta helgi rjúpnaveiða hófst í dag, en veiðar voru leyfðar fjórar þriggja daga helgar í ár, líkt og í fyrra. Ágætlega viðrar til rjúpnaveiða á Vestfjörðum um helgina og þá sérsaklega á morgun. Jörð er snævi þakin sem veitir rjúpunni betra skjól í harðri lífsbaráttu við veiðimenn gráa fyrir járnum. Veiði hefur verið þokkaleg á Vestfjörðum og þá sérstaklega fyrstu helgina. Þá var jörð alauð upp á fjallstoppa og hvítur felubúningur rjúpunnar kom að litlu gagni.

Í gær var fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar og því er vel við hæfi að birta ljóðið Óhræsið sem Jónas orti um rjúpuna:

 

Ein er upp til fjalla,

yli húsa fjær,

út um hamrahjalla,

hvít með loðnar tær,

brýst í bjargarleysi,

ber því hyggju gljúpa,

á sér ekkert hreysi

útibarin rjúpa.

 

Valur er á veiðum,

vargur í fuglahjörð,

veifar vængjum breiðum,

vofir yfir jörð;

otar augum skjótum

yfir hlíð, og lítur

kind, sem köldum fótum

krafsar snjó og bítur.

 

Rjúpa ræður að lyngi

– raun er létt um sinn –

skýst í skafrenningi

skjót í krafsturinn,

tínir, mjöllu mærri,

mola, sem af borði

hrjóta kind hjá kærri,

kvakar þakkarorði.

 

Valur í vígahuga

varpar sér á teig,

eins og fiskifluga

fyrst úr löngum sveig

hnitar hringa marga;

hnýfill er að bíta;

nú er bágt til bjarga,

blessuð rjúpan hvíta!

 

Elting ill er hafin,

yfir skyggir él,

rjúpan vanda vafin

veit sér búið hel;

eins og álmur gjalli,

örskot veginn mæli,

fleygist hún úr fjalli

að fá sér eitthvert hæli.

 

Mædd á manna besta

miskunn loks hún flaug,

inn um gluggann gesta

guðs í nafni smaug

– úti garmar geltu,

gólið hrein í valnum –

kastar hún sér í keltu

konunnar í dalnum.

 

Gæðakonan góða

grípur fegin við

dýri dauðamóða –

dregur háls úr lið;

plokkar, pils upp brýtur,

pott á hlóðir setur,

segir happ þeim hlýtur,

og horaða rjúpu étur.

smari@bb.is

Norðlægar áttir verða ríkjandi

Veðurstofan spáir norðvestanátt 8-13 m/s og él á Vestfjörðum í dag. Dregur úr vindi í kvöld en áfram él og vægt frost. Í athugasemd veðurfræðings kemur fram að djúp lægð er nokkuð langt austur af landi en hún hefur áhrif á vind á austan- og suðaustanverðu landinu, en þar verður hvassviðri eða stormur um hádegi og fram á nótt. Hægari vindur og víða él um landið norðanvert í dag en samfelldari snjókoma norðaustanlands í kvöld. Norðvestan 3-10 um landið suðvestanvert og bjartviðri en stöku él við ströndina. Hiti áfram nálægt frostmarki.

Hæg breytileg átt á morgun en norðan 8-13 austast á landinu. Víða bjartviðri en dálítill éljagangur norðanlands.

Lægir heldur norðaustanlands á sunnudag, en áfram éljagangur og hvessir heldur suðvestanlands, en áfram bjartviðri.

Helgin setur tóninn fyrir næstu viku, norðlægar áttir ríkjandi með él eða snjókomu fyrir norðan en bjartviðri syðra. Hiti við frostmark við sjávarsíðuna en frost inn til landsins.

smari@bb.is

Blakveisla á morgun

Meistaraflokkur kvenna með Tihomir Paunovski þjálfara.

Meistaraflokkar karla og kvenna í blaki taka á móti Hamri um helgina og má reikna með spennandi viðureignum. Kvennaliðin mætast á Torfnesi kl. 11:00 og engar líkur á öðru en að okkar konur leggi allt í leikinn. Hamarskonur eiga tvo leiki til góða en þær hafa unnið einn leik og tapað þremur. Vestrakonur hafa unnið þrjá leiki og tapað þremur. Það er alltaf styrkur að hafa hávaða á pöllunum og um að gera að mæta á Torfnes kl. 11:00 á laugardaginn.

Karlalið Vestra hefur ekki riðið feitum hesti frá sínum viðureignum á þessari leiktíð og sigurleikur væri vel þeginn. Vestri hefur spilað tvo leiki og tapað báðum og Hamar hefur sömuleiðis spilað tvo leiki en unnið báða. Vestramenn lögðu 1. deildinni í fyrra með glæsibrag og þurfa að finna aftur taktinn og gráupplagt að gera það á laugardaginn kl. 15:00 á Torfnesi og klapplið myndi örugglega hjálpa þeim í gírinn.

Meistaraflokkur Vestra

bryndis@bb.is

Tap í Borgarnesi

Barátta í Borgarnesinu í gær.

Vestri beið lægri hlut fyrir Skallagrími í Borgarnesi í gær, 106 : 96, þegar liðin mættust í 1. deilda karla í körfuknattleik. Nebojsa Knezevic var atkvæðamestur Vestramanna, skoraði 37 stig og tók 12 fráköst. Eyjólfur Ásberg Halldórsson var bestur maður Borgnesinganna, skoraði 22 stig, tók fráköst og gaf 10 stoðsendingar.

Skalla­grím­ur er á toppi deild­ar­inn­ar með 14 stig, hef­ur unnið sjö af fyrstu átta leikj­um sín­um, en Vestri er í þriðja sæt­inu með 10 stig. Breiðablik er í öðru sæti með 12 stig og á leik til góða gegn Snæfelli á sunnu­dag.

Smari@bb.is

Svalur nóvember

Nú er nóv­em­ber­mánuður hálfnaður og hef­ur hann verið frem­ur sval­ur, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um Trausta Jóns­son­ar veður­fræðings. Meðal­hiti í Reykja­vík er +1,5 stig, -0,5 neðan meðallags 1961-1990, en -2,3 stig­um neðan meðallags síðustu tíu ár. Nóv­em­ber hef­ur þó tvisvar á öld­inni byrjað kald­ari í Reykja­vík en nú, árin 2005 og 2010. Hlýj­ast var árið 2011. Á langa sam­an­b­urðarlist­an­um er mánuður­inn nú rétt neðan við miðju, í 78. sæti af 142. Fyrri hluti nóv­em­ber var hlýj­ast­ur árið 1945 (8,2 stig), en kald­ast­ur 1969 (-2,6 stig). Meðalhiti var undir meðallagi á öllum veðurstöðvum landsins, minnst í Seley, -0,8 stig, en mest í Veiðivatnahrauni, -3,9 stig.

Trausti skrifar að hita er spáð undir meðallagi næstu daga „svo það verður trúlega þungur róður fyrir mánuðinn að ná meðallagi hvað hita varðar.“

smari@bb.is

Ársrit Sögufélags Ísfirðinga komið út

Út er komið 55. ársrit Sögufélags Vestfirðinga og kennir þar ýmissa grasa. Í inngangi ritstjóranna kemur fram að ársritið spanni að þessu sinni tvö ár, 2016-2017 en því miður hafi ársritið ekki staðið fyllilega undir nafni. Fyrsta ársritið kom út árið 1956, fyrir sextíu og einu ári.

Ritstjórar eru þeir Jón Þ. Þór og Veturliði Óskarsson.

Kristján Pálsson fjallar um sögu Hnífsdals frá landnámi til 19. aldar, um Þórólf Brækir og hugsanlegan misskilning um Skálavík og Hnífsdal. Þar má líka lesa um átök Sólveigar Guðmundsdóttur og Björns hirðstjóra, deilur Magnúsar Prúða í Ögri og Árna Gíslasonar lögmanns og um fyrsta ættlegg Hnífsdalsættar. Heilsufar og trúarlíf Hnífsdælinga er líka líst og haft eftir Eggerti og Bjarna. Greinin í ársritinu er hluti af meistararitgerð Kristjáns í sagnfræði við Háskóla Íslands.

Bragi Bergsson fjallar um Simsongarð og um líf og störf Martinusar Simson en hann hóf ræktun garðsins árið 1926.

Sigurður Pétursson fjallar um Þjóðminningarhátíð Ísfirðinga en í lok 19. aldar tóku Reykvíkingar að halda Þjóðminningardag þann 2. ágúst og tóku fleiri landsmenn það upp, þar á meðal Ísfirðingar. Sá dagur „týndist“ þegar 17. júní var að hátíðisdegi.

Birt er bréf um skólamál í Ísafjarðarsýslu sem sent var blaðinu Norðanfari árið 1881, bréfritari lýsir þar skoðun sinni á barnaskólum og hvetur frekar til að byggðir sem verði upp unglingaskólar.

Að lokum er í ritinu minningargrein um Karl Olgeirsson sem birtist í Vesturlandi í febrúar 1956.

Sögufélagið var stofnað árið 1953 og er tilgangur félagsins meðal annars að safna, varðveita og kynna hverskonar fróðleik um Ísafjarðarsýslu að fornu og nýju, um héraðið og kynna íbúa þess og gefa út rit um þetta efni, ásamt annarri útgáfustarfsemi. Formaður félagins er Guðfinna M. Hreiðarsdóttir.

bryndis@bb.is

Minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa

Sunnudaginn 19. nóvember verður þeirra minnst sem látist hafa í umferðarslysum á Íslandi. Efnt verður til þessarar athafnar í sjötta sinn og er hliðstæð athöfn víða um heim að tilhlutan Sameinuðu þjóðanna sem hafa tileinkað þriðja sunnudag í nóvember þessari minningu.

Um það bil 4.000 einstaklingar láta lífið og hundruð þúsunda slasast í umferðinni í heiminum á degi hverjum. Enn fleiri þurfa að takast á við áföll, sorgir og eftirsjá af völdum þessa. Segja má að allir upplifi með einum eða öðrum hætti afleiðingar umferðarslysa. Vart er til sá einstaklingur sem þekkir ekki einhvern sem lent hefur í  alvarlegu slysi í umferðinni.

Athöfn verður við þyrlupall bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi í Reykjavík sem hefst klukkan 11. Þar mun forseti Íslands flytja ávarp og meðal þeirra sem taka til máls er Þórir Guðmundsson, lögreglumaður á Ísafirði. Þórir missti Þóreyju tvíburasystur sína í banaslysi á Hnífadalsvegi árið 2006.

Þann 1. nóvember 2017 höfðu alls 1.545 manns látist í umferðinni á Íslandi frá því að skipt var yfir í hægri umferð 26. maí 1968. Að meðaltali hefur umferðarslysum fækkað mikið undanfarna áratugi, sérstaklega banaslysum. Árin 2007-2016 létust að jafnaði 12,3 á hverju ári í umferðinni. Næstu 10 ár þar á undan (1997-2006) létust að jafnaði 24,4 á ári. Því má ætla að með betri bílum, betri vegum og betri hegðun ökumanna hafi tekist að bjarga um 12 mannslífum á hverju ári síðustu 10 árin.

Mikil áhersla hefur verið lögð á fræðslu og leiðbeiningar sem m.a. hefur leitt til breytts viðhorfs til áhættuhegðunar eins og hraðaksturs og ölvunaraksturs. Nýrri tækni fylgja nýjar áskoranir og er farsímanotkun við akstur áhættuhegðun sem hefur stórlega aukist á undanförnum árum og hefur mikil áhrif á hegðun ökumanna og veldur það hvað mestum áhyggjum í umferðaröryggismálum heimsins í dag. Samgöngustofa hefur á undanförnum árum staðið fyrir herferðum gegn farsímanotkun undir stýri sem hefur verið sérstaklega beint að ungu fólki. Á þessu ári hefur verið veitt aukið fjármagn í þessa baráttu og eru í því sambandi ýmiss verkefni nú þegar í framkvæmd og í undirbúningi. Ökumenn eru hvattir til þess að ,,gera ekki neitt“ þegar síminn kallar á athygli þegar þeir eru að keyra.

smari@bb.is

Vigdís Grímsdóttir hlýtur Jónasarverðlaunin

Vigdís í kennslustofunni í Finnbogastaðaskóla. Mynd: mbl.is / Golli

Vigdís Grímsdóttir hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu. Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarráðherra afhenti verðlaunin í menningarhúsinu Bergi á Dalvík. Í umsögn dómnefndar segir að Vigdís hafi haft mótandi áhrif á samtíð og menningu Íslendinga. Með rödd sinni, stundum ögrandi og tilfinningaþrunginni, stundum mildri og sefandi, hafi hún hrifið fólk með sér og fengið til að takast á við krefjandi spurningar um manneskjuna og þá veröld sem við lifum og hrærumst í. Hún knúi okkur til að líta í eigin barm eins og hún gerir sjálf í skáldævisögunni Dísusögu þar sem hún hlífir sér hvergi. Þá segir að Vígdís hafi, hvar sem hún er stödd: á Kleppsvegi, í Norðurfirði eða Trékyllisvík, hreyft við lesendum, ekki aðeins hér heima, heldur víða um lönd, með sínum seiðmagnaða frásagnarmáta.

Vigdís hefur síðustu ár verið með annan fótinn í Árneshreppi og setið þar við skriftir og einnig sinnt kennslu við Finnbogastaðaskóla.

smari@bb.is

Veiðibann gríðarlegt áfall

Halldór Sigurðsson ÍS.

Bann við rækjuveiðum í Ísafjarðardjúpi er gríðarlegt áfall fyrir byggðirnar við Djúp. Hafrannsóknastofnun hefur lagt til algjört bann við rækjuveiðum í vetur, bæði í Djúpinu og í Arnarfirði. Gunnar Torfason gerir út rækjubátinn Halldór Sigurðsson ÍS. Hann segir tíðindi dagsins gríðarlegt áfall fyrir útgerðir, sjómenn og landverkafólk. „Það eru um 15 sjómenn sem hafa starfað við rækjuveiðar á veturna og það verður ekkert fyrir þá að gera. Þetta er ekki síður áfall fyrir rækjuverksmiðjuna Kampa og starfsfólkið þar sem hefur verið að þreyja þorrann með rækju úr Djúpinu,“ segir Gunnar.

Rækjusjómenn eru ekki á eitt sáttir með verklag Hafrannsóknastofnunar þegar kemur að rækjurannsókninni. „Við höfum gagnrýnt að það hefur verið tekið svokölluð hálf-rannsókn síðustu ár og sú rannsókn miðar frekar að því að kanna hvað er mikið af fiski í Djúpinu frekar en að kanna hvað er mikið af rækju. Það hefur ekki verið farið á þekktar rækjuslóðir í Hestfirði og út af Óshlíðarvita,“ segir Gunnar.

Síðustu ár hefur verið farið í febrúarrannsókn þar sem ástand rækjustofnsins er kannað og hafa heimabátarnir verið notaðir í þá rannsókn. Gunnar gerir ráð fyrir að Hafrannsóknastofnun geri þessa rannsókn. „Febrúarrannsóknin mun vonandi leiða í ljós að það sé frekari rækju að finna,“ segir Gunnar.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir