Laugardagur 19. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2107

Krefst malbiks á bílastæði Ísafjarðarflugvallar

Ísafjarðarflugvöllur. Mynd: Mats Wibe Lund.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar krefst þess að bílastæðin við Flugstöðina við Ísafjarðarflugvöll verði malbikuð á næsta ári í samræmi við loforð sem gefið var á fundi stjórnar Isavia með bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar í Edinborgarhúsinu 26. ágúst 2016. Í bókun bæjarráðs segir að það sé algjörlega óásættanlegt að bílastæðin séu enn ómalbikuð eftir að flugstöðin hefur verið í rekstri í meira en hálfa öld. Bæjarráð telur einnig brýnt að malbik verði endurnýjað á flugbrautinni og er lag að gera það sumarið 2018 þar sem malbikunarstöð verður í sveitarfélaginu.

Tilefni bókunarinnar eru þær upplýsingar sem hafa borist frá Isavia um að fjármagn á samgönguáætlun hafi verið af skornum skammti og Isavia forgangsraði framkvæmdum sem þjóni fluginu sem slíku. Á það er bent að nú standi yfir framkvæmdir á Ísafjarðarflugvelli þar sem verið er að laga grjótgarð sem hefur skemmst á undanförnum árum.

smari@bb.is

Auglýsing

Hætt við vegtolla

Sigurður Ingi Jóhannsson. Mynd: Visir.is

Engar áætlanir eru um innheimtu veggjalda á helstu samgönguleiðum við höfuðborgina. Þetta kemur fram í viðtali RÚV við Sigurð Inga Jóhannsson samgönguráðherra. Ríkisstjórnarfundur var haldinn í morgun og var nýtt fjárlagafrumvarp og áherslur hvers ráðherra til umræðu.

Sigurður Ingi segir helstu áherslur ríkisstjórnarinnar vera á uppbyggingu innviða; heilbrigðismál, menntamál og samgöngumál. Áherslur hans  inn í fjárlagafrumvarpið í samgöngumálum lúta að öryggisþáttum, einbreiðum brúm og fleiru. Hann segir að rætt hafi verið um aukið fjármagn til samgöngumála. Forveri hans í starfi var með áætlanir um að leggja á veggjöld á helstu samgönguleiðir við höfuðborgina, en Sigurður Ingi segir að það sé ekki inni í myndinni lengur.

smari@bb.is

Auglýsing

40 prósent leigjenda fá bætur

Um 40 prósent leigj­enda þiggja hús­næðis­bæt­ur sam­kvæmt könn­un­um Íbúðalána­sjóðs. Töl­ur um greidd­ar hús­næðis­bæt­ur sýna að í októ­ber fengu um 14.100 heim­ili hús­næðis­bæt­ur, eða sam­tals um 26 þúsund manns, 8 prósent allra lands­manna.

Hús­næðis­bæt­ur eru bú­bót fyr­ir mörg heim­ili, sér­stak­lega þau tekju­lægri. Um 70 prósent heim­ila sem þiggja hús­næðis­bæt­ur eru með lægri heim­ilis­tekj­ur en 400 þúsund krón­ur á mánuði, og á meðal þess­ara heim­ila nema hús­næðis­bæt­ur að meðaltali 34 prósent af greiddri leigu.

Milli apríl og októ­ber lækkaði meðal­greiðsla hús­næðis­bóta úr 31.700 krón­um í 30.400 krón­ur, eða um 4 pró­sent. Eigna- og tekju­skerðing­ar ásamt grunn­fjár­hæðum hús­næðis­bóta héld­ust þó óbreytt yfir tíma­bilið. Leigu­verð fór hins veg­ar hækk­andi á sama tíma­bili. Meðalleigu­fjár­hæð meðal bótaþega hús­næðis­bóta var um 1.560 krón­ur á fer­metra í októ­ber og hafði hækkað um 3,2 prósent síðan í apríl, eða um 6,5% á árs­grund­velli. Til sam­an­b­urðar hækkaði leigu­verðsvísi­tala Þjóðskrár Íslands um 0,9 prósent á sama tíma­bili eða 1,8 prósent á árs­grund­velli.

Kon­ur eru í mikl­um meiri­hluta meðal um­sækj­enda um hús­næðis­bæt­ur. Það á jafnt við um þá um­sækj­end­ur sem búa ein­ir og þá sem búa með fleir­um á heim­ili. Á meðal þeirra um­sækj­enda sem bjuggu ein­ir þáðu 4.300 kon­ur og 3.600 karl­ar hús­næðis­bæt­ur í sept­em­ber. Alls búa 56 prósent bótaþega hús­næðis­bóta ein­ir á heim­ili.

smari@bb.is

Auglýsing

Ofhleðsla báta er ekki afrek

Þessi mynd birtist ekki fyrir löngu á bb.is og tekur fjölmiðillinn ábendingar rannsóknarnefndarinnar til sín. Mynd: Flateyrarhöfn

„Of­hleðsla báta er mjög al­var­legt mál sem virðist því miður vera allt of al­gengt. RNSA hvet­ur fjöl­miðla, sam­fé­lags­miðla og aðra til að hætta því að upp­hefja hátt­semi sem þessa, það er of­hleðslu báta, sem hetju­dáð og/ eða af­rek,“ seg­ir meðal ann­ars í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa. at­vik sem varð á Breiðafirði fyrr á þessu ári. Þá munaði minnstu að veru­lega of­hlaðinn bát­ur, Hjör­dís HU 16, sykki en um borð voru tveir menn.

Bát­ur­inn er rúm 10 brútt­ót­onn og hleðsla um­fram burðargetu hans reynd­ist vera 4,5 tonn. Skip­stjór­inn taldi hins veg­ar að burðargeta báts­ins væri nægi­leg miðað við aðstæður.

Í ábendingu rannsóknarnefndarinnar til fjölmiðla og annarra er vísað til að oft og tíðum birtast í fjölmiðlum myndir af drekkhlöðnum bátum að koma til hafnar sem merki um sérlega eftirtektarverða og aðdáunarverða aflasæld áhafnarinnar.

smari@bb.is

Auglýsing

Afsláttur á námslánum á strjálbýlum svæðum

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra. Mynd: mbl.is / Golli

Menntamálaráðherra hyggst kanna kosti þess að nýta námslánakerfið til að hvetja fólk til að setjast að í dreifðum byggðum, í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þetta kemur fram í viðtali við Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra í Fréttablaðinu. „Þetta gengur út á að fólk sem býr og vinnur á svokölluðum aðgerðasvæðum og er með námslán gæti sótt um afslátt af námslánum,“ segir Lilja.

Hún vísar til reynslu Norðmanna af þessari leið þar sem fólk getur fengið tíu prósenta lækkun á námslánum árlega hafi það búið á tilgreindum svæðum í tólf mánuði.

„Þar hefur þessu úrræði verið beint inn á svæði þar sem skortur hefur verið á sérfræðimenntuðu fólki,“ segir Lilja. Úrræðið hafi skilað töluverðum árangri í Norður-Noregi og laðað til dæmis lækna og tæknimenntað fólk á strjálbýl svæði.

smari@bb.is

Auglýsing

Herðir á norðaustanáttinni í kvöld

Úrkomulítið í dag en snjókoma í kortunum.

Í dag verður róleg norðaustanátt með éljum norðan- og austantil á landinu. Snjókoma eða él víða um land í kvöld og nótt, jafnframt herðir á norðaustanáttinni.

Á morgun verður svo norðaustanátt, 10-18 metrar á sekúndu, og éljagangur, en úrkomulítið suðvestanlands eftir hádegi. Frost yfirleitt 0 til 8 stig. Á föstudag er svo útlit fyrir hægan vind, léttskýjað og kalt veður en norðvestanstrekking og él austast á landinu.

Hálka er á vegum á Vestfjörðum og snjóþekja á Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði og veginum norður í Árneshrepp.

smari@bb.is

Auglýsing

Skrifa upp dagbók Sighvats Borgfirðings

Bjarnarfjörður á Ströndum

Rannsóknasetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofa stendur fyrir verkefni þar sem dálítill hópur Strandamanna ætlar að skrifa upp dagbóki Sighvatar Grímssonar Borgfirðings frá þeim tíma er hann bjó á Klúku í Bjarnarfirði.

Verkefnið er unnið í samvinnu við handritasafn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og er ætlunin að taka fyrir fleiri heimildir að þessu verkefni loknu, sem nú er verið að ljósmynda á safninu.

Á vefsíðu verkefnisins sem finna má á þessari slóð segir að öll sem áhuga hafi megi gjarnan slást í hópinn og taka þátt í uppskriftinni. Dagbókin er í heild sinni aðgengileg á handrit.is og á vefsíðu verkefnisins er ritvinnsluskjal sem tengilinn getur unnið í. Aðrir áhugasamir geta svo skoðað hvernig uppskriftinni miðar.

Sighvatur Borgfirðingur var merkasti alþýðufræðimaður landsins á sínum tíma. Hann fæddist á Akranesi árið 1840 og ólst upp í sárri fátækt og átti engan kost til menntunar þótt hugurinn stæði snemma til bókar. Hann bjó í Flatey, í Gufudalssveit og á Klúku áður en hann fluttist að Höfða í Dýrafirði 32 ára og bjó þar til dauðadags 1930. Sighvatur var gríðarlega afkastamikill fræðimaður og merkasta verk hans er Prestaæfir á Íslandi.

Síða verkefnisins

smari@bb.is

Auglýsing

Fjölskyldusvið verði Velferðarsvið

Félagsmálanefnd Ísafjarðarbæjar hefur lagt til við bæjarstjórn að nafni fjölskyldusviðs Ísafjarðarbæjar verði breytt í velferðarsvið. Tillaga nefndarinnar byggir á greinargerð Margrétar Geirsdóttur, sviðstjóra fjölskyldusviðs. Félagsmálanefnd leggur jafnframt til að nafni nefndarinnar verði breytt úr félagsmálanefnd í velferðarnefnd Ísafjarðarbæjar.

smari@bb.is

Auglýsing

Líklegt að tengipunkturinn fá samþykki

Tengipunkturinn verður líklega á Nauteyri í Langadalsströnd.

Líklegt er að tengipunktur í Ísafjarðardjúpi fái samþykki Orkustofnunar. Þetta kemur fram í viðtali við Guðmund Inga Ásmundsson, forstjóra Landsnets, á vef RÚV. Tengipunkturinn verður að öllum líkindum í Ísafirði og tengipunkturinn er sagður vera forsenda fyrir Hvalárvirkjun. Aðra virkjanir sem eru fyrirhugaðar á Vestfjörðum, eins og Austurgilsvirkjun í Skjaldfannadal og Skúfnavatnavirkjun á Langadalsströnd, munu einnig njóta góðs af tengipunktinum.

„Við erum í viðræðum við þessa aðila sem eru að fara í þessar virkjanir allar og síðan erum við bara að fara í valkostagreiningu leggja kostnaðarmyndina upp og svo fer það bara sína leið í kerfinu og fær líklega að lokum samþykki Orkustofnunar,“ segir Guðmundur Ingi Ásmundsson, í viðtalinu.

Áður hefur komið fram að tengipunkturinn verði tengdur inn á landsnetið með línu yfir í Kollafjörð við Breiðafjörð.

smari@bb.is

Auglýsing

Safna fyrir ferðahjóli

Útivist og holl hreyfing eldri borgara er megin hugsunin á bakvið söfnun sem fer nú af stað í Bolungarvík í desember og kallast „Hjólað óháð aldri“. Ætlunin með söfnuninni er að kaupa farþegahjól til að færa hjúkrunarheimilinu Bergi og íbúum Árborgar.

Álíka hjól var keypt var fyrir Hjúkrunarheimilið Eyri á Ísafirði árið 2016 og hefur það gefið góða raun.

Hjólið er af gerðinni TRIO BIKE og er rafdrifið að hluta svo auðvelt verður að hjóla um allan bæ. Kostnaður við kaupin á hjólinu með öllum aukabúnaði er um ein milljón króna.

Verkefnið „Hjólað óháð aldri“ hefur reynst vel víða um land og hefur verkefnið rofið einangrun íbúa hjúkrunarheimila og gefið þeim aukna möguleika á útiveru. Draumurinn er að geta vígt hjólið á sjómannadaginn 2018. Markmiðið er að virkja vini, ættinga og brottflutta til að skrá sig sem sjálfboðaliða í hjólaferðir.

Reikningsupplýsingar Heilsubæjarins Bolungarvíkur eru eftirfarandi:

Kennitala 520109-1610

Reikningsnúmer 0174-26-000802

smari@bb.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir