Laugardagur 12. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2107

Gáfu 5 ára deildinni gönguskíði

Íþróttagarparnir Gullrillur eru ekki bara afrekskonur í íþróttum, þær eru líka samfélagslega þenkjandi konur og hafa nú keypt 21 par af gönguskíðum fyrir 5 ára börn. 17 pör fara á Tanga, 5 ára deild leikskólabarna á Ísafirði og 4 pör fara á leikskólann Grænagarð á Flateyri. Fyrir skíðunum söfnuðu Gullrillur með sushi gerð og dugði afraksturinn fyrir 16 pörum en fyrirtæki á svæðinu hafa bætt við svo hægt væri að kaupa fleiri.

Skíðin voru afhent með pompi og pragt á sjúkrahústúninu í hádeginu í dag og voru krakkarnir alveg til í tuskið. Grunnurinn er lagður fyrir landsliðsfólk framtíðarinnar.

Hér má lesa um fjáröflun sportkvendana í apríl.

Auglýsing
Auglýsing

Staðinn verði vörður um skurðlæknisþjónustu

Bæjarstjórn Bolungarvíkur krefst þess að heilbrigðisráðherra, stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, í samstarfi við fjármálaráðuneyti taki höndum saman og standi vörð um skurðlæknisþjónustu á Vestfjörðum. Þetta kemur fram í ályktun bæjarstjórnar og tilefni hennar voru fregnir um að enginn skurðlæknir yrði starfandi við Heilbrigðisstofnuna í desember. Úr því rættist í dag líkt og greint var frá á bb.is. Ekki hefur tekist að ráða skurðlækni í fullt starf og er staðan mönnuð með afleysingalæknum sem koma vestur í skemmri tíma.

Í ályktun bæjarstjórnar er bent á að til  lengri  tíma  geti  skapast  sú  hætta,  ef  ekki  er  starfandi  skurðlæknir  á stofnuninni, að fjárframlög til hennar skerðist og að endingu verði lagt til að ekki sé forsenda til þess að halda úti skurðstofu á Heilbrigðisstofnuninni.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Heilræði til Alþingis og ríkisstjórnar

Þingeyrarakademían tekur sterklega undir með þeim sem segja að  gera eigi eldra fólki mögulegt að halda heimili eins lengi og það óskar og getur. Það er öllum til heilla. En til þess þarf vel skipulagða heimilishjálp sem dugar. Þar á enginn að vera útundan.

Segjum sem svo, að 500 manns yrðu ráðnir í fullt starf til að styðja við aldraða á heimilum þeirra vítt og breytt um landið, í viðbót við þá starfsmenn sem fyrir eru. Ef reiknað væri með 10 milljónum kr. á hvern starfsmann í launum og launatengdum gjöldum á ári, mundi það þýða 5 milljarða útgjöld. Hluti af þessum fjármunum skilar sér aftur strax í ríkis-og sveitarsjóði með sköttum.

Það liggur í augum uppi að með þessu móti þarf færri biðsali fyrir gamla fólkið.  Það kostar mikla fjármuni að reisa okkar góðu elli-og hjúkrunarheimili. Þá er rekstrarkosnaðurinn eftir sem oft er erfiðasti hjallinn. Tillaga okkar mun spara ríki og sveitarfélögum stórfé og allir ánægðir. Ekki síst þeir sem þurfa að deila herbergi með bláókunnugu fólki. Það er heitasta ósk margra að geta verið sem lengst í eigin híbýlum á ævikvöldinu. Það er ekkert annað en heilbrigð skynsemi að verða við þeirri ósk. Hlustum á starfsfólk Landsspítalans og landlækni og framkvæmum þetta eins og menn!

Hvað er Þingeyrarakademían?

Þingeyrarakademían er stór hópur spekinga á öllum aldri sem stundar morgunsund og heita pottinn á Þingeyri. Þar eru ýmiskonar innanlands- og heimsvandamál rædd og jafnvel leyst.    Þingeyrarakademían kemur til dyranna eins og hún er klædd.

Auglýsing
Auglýsing

Of dýrt að fá afleysingaskip

Ekki kemur til greina að fá afleysingaskip fyrir ferjuna Baldur vegna kostnaðar að sögn Gunnlaugs Grettissonar framkvæmdastjóra Sæferða. Bilun kom upp í aðavél Baldurs í síðustu viku og líklegt að viðgerð ljúki ekki fyrr en eftir áramót. Á vef RÚV er haft eftir Gunnlaugi að styrkur Vegagerðarinnar standi ekki undir kostnaði við afleysingaskip, sem hefði líkega verið 2,5 milljónir kr. á dag. Gunnlaugur bendir á að tilfelli Herjólfs séu annarsskonar þar sem Herjólfur er í eigu ríkisins. Þegar Herjólfur fer í slipp þá útvegar Vegagerðin eða ríkið varaskip. Gunnlaugur segir að samkvæmt samningi Sæferða við Vegagerðina beri ekki að taka skip á leigu sem kostar þrisvar til fjórum sinnum meira í dagsiglingu en fyrirtækið fær fyrir siglingu Baldurs.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Hreint loft til framtíðar

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur gefið út fyrstu almennu áætlunina um loftgæði fyrir Ísland og ber hún heitið Hreint loft til framtíðar.  Áætlunin gildir fyrir árin 2018 – 2029 og er meginmarkmið hennar að stuðla að loftgæðum og heilnæmu umhverfi.

Loftgæðaáætlunin tekur til þeirra þátta er varða loftgæði utandyra. Í henni koma fram mælanleg markmið, upplýsingar um loftgæði og tímaáætlun, aðgerðir og stefnumörkun til að bæta loftgæði. Við vinnslu áætlunarinnar var tekið mið af Landsáætlun um loftgæði, sem var gefin út af Umhverfisstofnun árið 2010 og skýrslunni Hreint loft, betri heilsa – Umfjöllun um loftgæði og heilsufar á Íslandi ásamt tillögum til úrbóta, sem var gefin út af velferðarráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti í apríl 2013.

Í áætluninni er stefnt að því að fækka árlegum ótímabærum dauðsföllum af völdum loftmengunar á Íslandi, fækka árlega fjölda daga þar sem svifryk fer yfir skilgreind heilsufarsmörk af völdum umferðar úr 7-20 skiptum niður í engin skipti fyrir árslok 2029 og að ársmeðaltal brennisteinsvetnis verði áfram undir skilgreindum mörkum.

Áætlun um loftgæði er sett í samræmi við breytingar sem gerðar voru á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir 2013 vegna innleiðingar á evróputilskipun 2008/50/EB um gæði andrúmslofts og hreinna loft í Evrópu.

Á vef stjórnarráðsins segir að þess sé vænst að áætlunin stuðli að heilnæmu umhverfi og bættu heilbrigði í landinu þar sem stjórnvöld, atvinnulífið og almenningur verði samstíga í að viðhalda hreinu lofti.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Búið að ráða skurðlækna í desember

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Tekist hefur að manna skurðlæknisstöðu við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, en útlit var fyrir að enginn skurðlæknir væri á sjúkrahúsinu í desember. Síðasta misserið, eða frá því að Þorsteinn Jóhannesson lét af störfum, hafa skurðlæknar komið tímabundið til starfa við stofnunina þar sem ekki hefur tekist að ráða skurðlækni í fullt starf.

Hallgímur Kjartansson, framkvæmdastjóri lækninga, segir að sá skurðlæknir sem er við stofnunina núna hafi ákveðið að vera aðeins lengur og annar læknir leysir hann af í desember. „Svo er búið að festa þessi mál fram í mars og framhaldið eftir það lítur vel út,“ segir Hallgrímur.

Ef ekki hefði tekist að manna vakt skurðlæknis á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða í desember hefði það þýtt  að þeir sem hugðust nýta sér fæðingarþjónustu spítalans í þeim mánuði gætu þurft að sækja þá þjónustu til Reykjavíkur og dvelja þá í Reykjavík í 1-2 vikur.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Skuldahlutfall í sögulegu lágmarki

Fjárhagur Bolungarvíkur hefur farið ört batnandi.

Fyrri umræða um fjárhagsáætlun Bolungarvíkurkaupstaðar fyrir næsta ár fór fram á fundi bæjarstjórnar í gær. Gert er ráð fyrir 24 milljóna króna rekstrarafgangi og veltufé frá rekstri er 136 milljónir króna. Skuldahlutfall bæjarins fer niður í sögulegt lágmark eða 110 prósent. Ekki eru nema örfá ár síðan skuldahlutfall sveitarfélagsins var yfir 150 prósentum, sem er yfir leyfilegu viðmiði sveitarstjórnarlaga.

Á næsta ári verður framkvæmt fyrir 150 milljónir króna og liggur fyrir að stærsta einstaka framkvæmdin verður fyrsti áfangi stækkunar leikskólans Glaðheima.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Sumarhús gjörónýtt eftir eldsvoða

Mynd: Strandir.is

Mannlaust sumarhús í Bjarnarfirði í Kaldrananeshreppi, milli Drangsness og Hólmavíkur, eyðilagðist í eldi í gærkvöldi. Húsið, sem er gamall sveitabær sem breytt hefur verið í sumarhús, er gjörónýtt.

Slökkviliðsmenn úr slökkviliðum Strandabyggðar og Kaldrananeshrepps taka þátt í slökkvistarfinu og hafa við það notið aðstoðar heimamanna. Á vef RÚV segir að slökkvistarf hafi gengið nokkuð vel en aðstæður nokkuð erfiðar. Til dæmis þurfti að brjóta leið niður að nálægri á til að komast í vatn, og var það gert með aðstoð heimamanns á sérútbúinni dráttarvél. Brjóta þurfti niður hluta þaks og veggja til að komast að síðustu glæðunum og slökkva þær.

Eldsupptök eru ókunn en lögregla hefur nú tekið við vettvangi og mun leiða rannsókn á þeim.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Rannsóknaþing á Ísafirði

Stjórnsýsluhúsið á Ísafirði.

Fimmtudaginn 7. desember fer fram stutt rannsóknaþing í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði þar sem vísinda- og rannsóknafólk á Vestfjörðum kemur saman. Þingið er opið jafnt þeim sem starfa innan stofnana sem þeim sem vinna sjálfstætt. Dagskráin hefst kl. 14 og stendur fram eftir degi.

Til stóð að halda tveggja daga rannsóknaþing á Patreksfirði í haust en tekin var ákvörðun um að fresta því þar sem tímasetningin þótti ekki henta þegar á reyndi. Þess í stað var ákveðið að halda styttra þing á Ísfirði í desember þar sem vísinda- og rannsóknafólk mun stilla saman strengi sína og leggja drög að viðameira rannsóknaþingi vorið 2018.

Háskólasetur Vestfjarða hlaut hvatningarstyrk úr Sóknaráætlun Vestfjarða til að skipuleggja Rannsóknaþing Vestfjarða. Markmið þingsins voru m.a. þau að gefa öllum rannsóknastofnunum og sjálfstætt starfandi rannsóknafólki tækifæri til að bera saman bækur sínar og vinna markvisst að því að þróa samstarfsverkefni. Einnig var þingið hugsað sem vettvangur til að kynna almenningi og fyrirtækjum það fjölbreytta starf sem unnið er á sviði rannsókna og vísinda á Vestfjörðum. Ekki gefst svigrúm til slíkra kynninga að þessu sinni og bíða þær stærra þings.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Hvessir af suðvestri á morgun

Veðurstofan spáir vestlægri eða breytilegri átt, 3-10 m/s og súld eða rigningu með köflum á Vesturlandi og sums staðar slyddu á norðvestanverðu landinu, en annars bjart með köflum. Suðvestan 10-18 og víða rigning á morgun, hvassast norðvestan til, en þurrt að kalla Suðausturlandi. Hlýnar í veðri, hiti víða 0 til 5 stig síðdegis, en frost 0 til 5 stig fyrir austan, 3 til 8 stig á morgun.

Hiti fer heldur hækkandi fram að helgi og gæti náð 10 stigum á Suðausturlandi á morgun.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir