Síða 2106

Háski – fjöllin rumska

Í kvöld verður í Ísafjarðarbíói sýnd heimildamyndin „Háski – Fjöllin rumska“ sem fjallar um snjóflóðið sem féll á Neskaupstað þann 20. desember 1974. Tólf manns fórust í flóðunum og tveir þeirra fundust aldrei. Myndin var frumsýnd á Neskaupstað 12. nóvember í tilefni opnunar Norðfjarðarganga.

Það voru feðgarnir Þórarinn Hávarðsson og Eiríkur Hafdal sem gerðu myndina. „Við feðgar gerðum mynd fyrir tveimur árum sem heitir Háski í Vöðlavík og eftir þá velgengni þá langaði okkur að fara í eitthvað stærra og gera þessari sögu skil. Fyrst og fremst til að varðveita þessa sögu,“ segir Eiríkur. „Það er farið að kvarnast úr hópnum sem að upplifði þessar hörmungar. Og ég held að mannfólkið hafi bara gott af því að fletta upp svona sögu vegna þess að vonandi er þetta liðin tíð,“ segir Þórarinn. Erfiðast hafi verið að sitja fyrir framan fólkið og hlusta á átakanlegar lýsingar. „Það gat verið mjög erfitt að sjá baráttu fólksins við að reyna að halda andliti og segja þessa sögu. Ég átti á köflum mjög erfitt með að halda andliti sjálfur við að hlusta á þessar frásagnir,“ segir Þórarinn í samtali við RUV.

Myndin verður aðeins sýnd í þetta eina skipti og hefst kl. 20:00

bryndis@bb.is

Býður samflot yfir Klettsháls

Mokstursbíll frá Vegagerðinnni fer af stað frá Patreksfirði kl. 10 og fer sem leið liggur yfir Klettsháls. Skafrenningur er á Kletthálsi og mjög lélegt skyggni. Þeir sem þurfa að komast þessa leið er bent á hægt er að vera í samfloti með moksturstækinu og vera þá tilbúnir við kirkjugarðinn á Patreksfirði þegar bíllinn leggur af stað klukkan 10.

smari@bb.is

Annað bókaspjall vetrarins

Bókaspjallið er fastur liður í starfi Bókasafnsins á Ísafirði. Í öðru bókaspjalli vetrarins sem verður á laugardaginn verða að vanda flutt tvö erindi. Í því fyrra ætlar Jónas Guðmundsson sýslumaður að fjalla um bækur sem eru honum kærar. Í seinna erindinu fjallar Marta Hlín Magnadóttir, sem er brottfluttur Ísfirðingur sem margir kannast við, um bókaútgáfuna Bókabeituna sem hún stofnaði fyrir nokkrum árum í félagi við Birgittu Elínu Hassel. Bókebeitan sérhæfir sig í útgáfu á barna- og unglingabókum.

smari@bb.is

Fornleifar og fiskar

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir

Fornleifar og fiskur fara saman í Vísindaporti vikunnar í Háskólasetri Vestfjarða. Þar kynnir Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, líffræðingur og forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum rannsókn sem hún vinnur nú að og miðar að því að greina fæðu ýmissa fisktegunda við Vestfirði fyrr á öldum.

Við fornleifauppgröft í vestfirskum verstöðvum hefur fundist mikið magn fiskibeina, aðallega þorsks. Líffræðilegar rannsóknir á þessum fornleifafræðilega efniviði gefa ómetanleg tækifæri til að skilja breytingar á vistkerfi sjávar og fiskistofnum í kjölfar umhverfisbreytinga og aukinnar nýtingar fiskistofna. Þannig má kortleggja náttúrulegt, eða ósnert, vistkerfi sjávar sem er grunnur þess að meta umhverfisáhrif í nútíma, t.d. vegna veiða og loftslagsbreytinga. Með því að greina stöðugar efnasamsætur karbons og niturs í fiskbeinum má t.d. rannsaka fæðu og breytingar á fæðu algengra íslenskra fiskitegunda frá landnámi Íslands.

Í fyrirlestrinum mun Guðbjörg kynna nýjar niðurstöður þar sem þessum aðferðum er beitt til að rannsaka fæðu þorsks, lúðu, steinbíts, ýsu og karfa við Vestfirði á tímabilinu 970-1910. Niðurstöðurnar gefa til kynna töluverðar sveiflur í fæðu fiskanna yfir tímabilið auk breytinga á fjölbreytileika fæðunnar og fæðusamkeppni milli fisktegunda. Áberandi tímabil vistkerfisbreytinga virðast vera annarsvegar við upphaf „litlu ísaldar“ og hinsvegar um 1900.

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir lauk BSc námi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 2000 og PhD námi í sama fagi frá Háskólanum í St. Andrews í Skotlandi 2005. Hún starfar nú sem forstöðumaður og rannsóknasérfræðingur við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á  Vestfjörðum. Áhugi Guðbjargar innan líffræðinnar beinist að því hvernig breytileiki og breytingar í umhverfi, þar með taldar breytingar af mannavöldum, hafa áhrif á tilurð og viðhald líffræðilegs fjölbreytileika. Á síðustu árum hefur hún fyrst og fremst rannsakað líffræði fiskistofna.

Vísindaportin eru á föstudögum og satanda frá kl. 12.10-13.00 og eru opin öllum áhugasömum. Erindi vikunnar fer fram á íslensku.

gudbjorgasta-mynd-hi.is

„Brottkast og svindl er ólíðandi“

Í þættinum í gær voru sýnd myndskeið af brottkasti um borð í Kleifabergi RE.

„Stjórn­in for­dæm­ir hvers­kon­ar sóun á verðmæt­um við meðhöndl­un okk­ar helstu nátt­úru­auðlind­ar,“ seg­ir í til­kynn­ingu frá stjórn Sam­taka fisk­vinnslu og út­flytj­enda, SFÚ. Í gær var greint frá brottkasti um borð í íslenskum skipum á fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV.

„Brott­kast og svindl er ólíðandi,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni og þar er skorað á næstu rík­is­stjórn að grípa strax til viðeig­andi ráðstaf­ana til að stöðva slíka sóun. Kerfið verði að tryggja að hags­mun­ir sam­fé­lags­ins séu tryggðir og að sóun verðmæta stöðvist og heyri sög­unni til.

„Eðli­legt hlýt­ur að telj­ast, að í sem flest­um til­fell­um eigi viðskipti sér stað í gegn­um þriðja aðila eins og þekkt er í viðskipt­um um fisk­markaði sem staðsett­ir eru í flest­um höfn­um lands­ins. Óeðli­leg­ir viðskipta­hætt­ir við meðhöndl­un auðlind­ar­inn­ar eiga að heyra sög­unni til.“

smari@bb.is

Sértæki byggðakvótinn eykst um 701 tonn

Sértækur byggðakvóti Byggðastofnunar eykst um 701 tonn frá fyrra fiskveiðiári og er 6.335 tonn fisk-veiðiárið 2017/2018. Þetta segir í fréttatilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu. Í tilkynningunni kemur fram að stefna stjórnvalda undanfarin ár hafi verið að auka vægi sértæks byggðakvóta enda hafi hann almennt reynst vel sem byggðafestuaðgerð.

„Markmiðið með þessu er að stuðla að sem öflugastri starfsemi í sjávarútvegi til lengri tíma og ná þannig að skapa og viðhalda sem flestum heilsársstörfum fyrir bæði konur og karla við veiðar, vinnslu og afleidda starfsemi í viðkomandi sjávarbyggðum,“ segir ennfremur. Alls hefur verið úthlutað 14.261 tonnum í tíð fráfarandi stjórnar.

Almennur byggðakvóti fiskveiðiárið 2017/2018 nemur alls 7.926 tonnum sem eru 6.226 þorskígildistonn. Byggðakvótinn eykst um 1.828 þorskígildistonn frá fyrra fiskveiðiári sem er aukning upp á tæplega 42%. Byggðakvóta er úthlutað til 32 sveitarfélaga byggt á upplýsingum frá Fiskistofu og í þeim fengu 46 byggðarlög úthlutun.

Hámarksúthlutun til byggðarlags er 300 þorskígildistonn og fá sex byggðarlög það hámark segir í til-kynningunni. Lágmarksúthlutun er 15 þorskígildistonn eigi byggðarlag á annað borð rétt til úthlutunar og fá 3 byggðarlög þá úthlutun.

smari@bb.is

Barnabók sem gerist á Tálknafirði

Sigríður Etna Marinósdóttir hefur gefið út sína fyrstu barnabók, bókin ber heitið Etna og Enok fara í sveitina og var haldið upp á útgáfu hennar á Bókasafni Grindavíkur í gær. Sigríður Etna vinnur í félagsmiðstöðinni Þrumunni í Grindavík en bókin gerist á Tálknafirði þaðan sem Sigríður Etna kemur en hugmyndin að bókinni kom einmitt þegar hún var stödd á Tálknafirði. Freydís Kristjánsdóttir myndskreytir bókina en í útgáfuhófinu voru til sýnis skissur eftir Freydísi sem voru frumgerðir fyrir bókina. Hægt er að kaupa bókina í öllum helstu bókaverslunum landsins.

smari@bb.is

Stórtíðindi úr skemmtanalífinu

Sálin í góðu swingi.

Það er ekki komin aðventa en engu að síður er ekki seinna vænna fyrir aðstandendur Félagsheimilisins í Bolungarvík að kynna dagskrá sjómannadags næsta árs. Og það eru heldur betur stórtíðindi. Ein fræknasta og sögufrægasta sveitballahljómsveit síðustu áratuga ætlar að stíga á stokk, sjálf Sálin hans Jóns míns. Sálin spilar ekki á hverjum degi og eitthvað sérstakt þarf til svo að Stebbi, Gummi og hinir piltarnir komi saman og sjómannadagurinn í Bolungarvík er tvímælalaust slíkt tilefni. Og skemmtanahaldarar í Bolungarvík láta ekki þar við sitja, því Sveppi og Villi verða veislustjórar á hátíðarkvöldverði sjómannadagsins og verða einnig með barnaskemmtun fyrr um daginn.

smari@bb.is

Flateyrarvegur lokaður vegna snjóflóðahættu

Vegagerðin hefur í samráði við ofanflóðasvið Veðurstofunnar ákveðið að loka Flateyrarvegi vegna snjóflóðahættu. Fyrr í dag var veginum um Súðavíkurhlíð lokað eftir að snjóflóð féll á veginn. Nokkuð hefur snjóað á Vestfjörðum síðustu sólarhringa og á norðanverðum Vestfjörðum er í gildi í óvissustig vegna snjóflóðahættu. Ekki er þó hætta í byggð heldur á vegum og í óbyggðum.

Klettsháls hefur verið ófær og kl. 14 í dag verður farið frá Patreksfirð með mokstursbíll til að opna Klettsháls og svo aftur til baka á milli kl. 16 og 17.

Stefnt á opnun í næstu viku

Skíðasvæðið í Tungudal.

Troðaramenn skíðasvæðis Ísafjarðarbæjar hafa verið önnum kafnir síðustu daga og stefna á opnun skíðasvæðisins í næstu viku. „Við höfum verið að troða þetta niður og fanga snjóinn sem hefur komið síðustu daga og þetta lofar góðu,“ segir Hlynur Kristinsson, forstöðumaður skíðasvæðisins. Að sögn Hlyns er aðallega troðið eftir að skyggja tekur á daginn. „Í svona skafrenningi þá sést ekki neitt í birtu. Það er betra að eiga við þetta í myrkrinu enda öflugir kastarar á troðaranum,“ segir hann.

Samkvæmt veðurspá gengur vindur niður um helgina og spáir fínasta veðri. Hlynur segist þurfa örfáa daga í góðu veðri til að fleyta yfir skellur þar sem snjórinn er þunnur og gera svæðið klárt fyrir opnun. „En við ættum að geta opnað í næstu viku.“

Spiltroðari sem skíðasvæðið fékk í fyrra hefur komið að góðum notum að sögn Hlyns. „Það var tímafrekt að troða lyftusporið en spiltroðarinn gerir það mun auðveldara. Það var svo lítill snjór síðasta vetur að hann fékk ekkert að njóta sín en hann hefur komið að góðum notum núna.“

Hlynur bendir á að gönguskíðasvæðið er orðið mjög flott og nægur snjór á Seljalandsdal. Búið er að troða 3 og 5 km brautir.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir