Yfirstjórn slökkviliðs Súðavíkurhrepps mun færast til slökkviliðs Ísafjarðarbæjar samkvæmt þjónustusamningi sem sveitarfélögin vinna að. Pétur G. Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, segir að áfram verði starfrækt slökkvilið í Súðavík. „Eina breytingin verður sú að það verður ekki slökkviliðsstjóri í Súðavík heldur verður yfirumsjón liðsins hjá slökkviliði Ísafjarðarbæjar sem mun sjá um æfingar, halda utan um útkallslista og þess háttar,“ segir Pétur.
Hann segir að á kjörtímabilinu hafi Súðavíkurhreppur lagt áherslu á og verið forystu um að mynda brunasamlag Ísafjarðarbæjar, Súðavíkuhrepps og Bolungarvíkurkaupstaðar og hann telur þjónustusamning Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps vera eitt skref í því.
Hátíðartónar munu hljóma á Vestfjörðum fyrir hátíðarnar, það eru þau Hera Björk, Halldór Smárason og Jogvan Hansen sem verða með tónleika sem þau segja bæði skemmtilega og hátíðlega og lofa jafnvel óvæntum atriðum.
Fyrri tónleikarnir verða í Patreksfjarðarkirkju sunnudaginn 10. desember og þeir seinni mánudaginn 11. desember í Ísafjarðarkirkju
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur áherslu á að fundin verði staðsetning fyrir flugvöll á norðanverðum Vestfjörðum sem þjónað geti farþegaflugi með ásættanlegu öryggi. Þetta kemur fram í ályktun ráðsins. Einnig leggur bæjarráð til að farin verði svokölluð skosk leið í innanlandsflugi varðandi niðurgreiðslur á flugfargjöldum.
Ástæða ályktunarinnar er að undanfarna mánuði hefur vinnuhópur á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins verið með til umfjöllunar rekstur flugsamgöngukerfisins innanlands. Markmiðið með vinnuhópnum er að ná fram hagkvæmari rekstri á innanlandsflugi og skilvirkari rekstri flugvalla sem skilar sér til neytenda í lægri flugfargjöldum. Unnið er út frá tillögum fyrri vinnuhóps ráðuneytisins frá árinu 2016. Ráðuneytið óskaði eftir viðbrögðum frá sveitarfélögunum vegna erindisins.
Veðurstofan spáir norðaustanátt, víða allhvöss eða hvöss í dag en stormur SA-lands síðdegis. Snjókoma eða él, en úrkomulítið á SV-landi þegar líður á daginn. Frost 0 til 6 stig. Fer að lægja um landið vestanvert á morgun. Éljagangur NA- og A-lands, en víða léttskýjað á S- og V-landi. Harðnandi frost. Hægur vindur á föstudag, bjartviðri og kalt, en norðvestan strekkingur A-lands.
Veðurhorfur næstu daga
Á fimmtudag:
Norðan 10-18 en 18-23 m/s SA-til, dregur úr vindi með deginum, fyrst V-lands. Él á NA- og A-landi, en bjartviðri S- og V-lands. Talsvert frost.
Á föstudag:
Norðvestan 8-15 m/s A-lands, en hægviðri V-til á landinu. Él austast, annars léttskýjað. Áfram kalt í veðri.
Á laugardag:
Hæg breytileg átt, bjartviðri og talsvert frost, en suðaustan strekkingur og hiti um frostmark við SV-ströndina síðdegis.
Á sunnudag og mánudag:
Norðaustan- og austanátt með dálitlum éljum, en víða léttskýjað V-til á landinu. Kalt í veðri.
Á þriðjudag:
Austlæg átt og víða él.
Færð á vegum:
Á Vestfjörðum er víða strekkingsvindur og skafrenningur og hálka eða snjóþekja á flestum leiðum. Þæfingsfærð er á Steingrímsfjarðarheiði og Klettshálsi og ófært á Þröskuldum en þar er unnið að hreinsun. Vegurinn fyrir Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði er ófær. Eins er ófært norður í Árneshrepp.
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur hafnað samningsboði Umhverfisstofnunar um refaveiðar. Samkvæmt samningnum eru hámarksgreiðslur ríkisins 300 þúsund krónur á ári. Í umsögn bæjarráðs er óskað eftir betra boði frá Umhverfisstofnun og bent á að hlutdeild ríkisins þurfi að vera miklu hærri í refaveiðum á Íslandi, auk þess sem gæta þarf meira jafnræðis milli sveitarfélaga í endurgreiðslum. Á síðustu árum hefur bærinn varið 2,5 milljónum króna á ári til refaveiða og hálfri til einni milljón til minkaveiða. Bærinn hefur samið við Félag refa- og minkaveiðimanna í Ísafjarðarbæ og félagið hefur séð Ísafjarðarbæ fyrir tófuskyttum á öll svæði Ísafjarðarbæjar. Á síðasta ári fékk bærinn 278 þúsund endurgreitt frá Umhverfisstofnun vegna veiðanna.
Út er komin hjá Vestfirska forlaginu bókin Fortunu slysið í Eyvindarfirði á Ströndum 1787. Guðlaugur Gíslason frá Steinstúni og Jón Torfason tóku hana saman. Strandlengjan frá Hornbjargi og langt suður eftir Ströndum, með öllum sínum flóum, fjörðum og annesjum, var löngum annáluð fyrir að vera hættuleg skipum, stórum og smáum, enda hafa farist þar ótal skip í tímans rás. Í bókinni sagt frá þeim hörmungaratburðum sem áttu sér stað þegar kaupskipið Fortuna strandaði í Eyvindarfirði á Ströndum í september 1787. Öll áhöfn skipsins týndi lífinu.
Halldór Jacobsson, sýslumaður á Felli í Kollafirði, sem kunnur er af afskiptum sínum af Fjalla- Eyvindi og Höllu, stjórnaði rannsókn Fortunu strandsins. Ekki var þar allt sem sýndist og ýmislegt athugavert við meðferð sýslumanns á strandgóssinu.
Skjölin sem geyma þessa 230 ára gömlu sögu, og er stuðst við í bókinni, eru öll varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands.
Íslenska kalkþörungafélagið á Bíldudal hefur tekið niður og gefið Áhugamannafélaginu Gyðu það sem eftir var af Bullhúsinu svokallaða, gömlu pakkhúsi sem stóð á athafnalóð félagsins, ásamt mjög nákvæmum teikningum og myndum sem fyrirtækið lét útbúa áður en húsið var tekið niður. Gyða er áhugamannafélag um varðveislu menningarminja á Bíldudal og hefur félagið í hyggju að láta endursmíða það og reisa á ný á Bíldudal fáist til þess nægilegt fjármagn. Bullhúsið var elsta atvinnuhúsnæði Bíldudals, hluti menningarsögu bæjarins og friðað samkvæmt lögum. Það var tekið niður í samræmi við leiðbeiningar og kröfur Minjastofnunar Íslands.
Bullhúsið var upphaflega flutt til Bíldudals frá Noregi af Brödrene Bull sem reistu það 1894 við hvalveiðistöð sína á Stekkeyri í Jökulfjörðum. Um aldamótin 1900 keypti athafnamaðurinn Pétur Torsteinsson húsið og reisti á Bíldudal. Þar var það notað sem aðgerðar- og pakkhús, en einnig sem leikhús og til dansleikjahalds eftir því sem fram kemur í gögnum Minjastofnunar. Þar var einnig saltfiskur þveginn innandyra í fyrsta sinn hér á landi vegna þeirrar framsýni að leiða vatn inn í húsið sem gerði þvottinn þar mögulegan.
Frá niðurrifi hússins.
Timburverk nær ófúið
Áður en húsið var tekið niður skoðuðu sérfræðingar á vegum Minjastofnunar húsleifarnar ítarlega og sú skoðun leiddi í ljós að timburverk þess er nær ófúið þótt ýmsar stoðir vanti og ýmsar séu brotnar. Burðarbitarnir voru t.d. víða lásaðir saman að frönskum sið. „Skoðun sérfræðinga á okkar vegum var engu að síður sú að húsnæðið var í heild mjög bágborðið auk þess sem slysagildra stafaði af því. Það var því ekki um annað að ræða en að heimila niðurtöku þess að lokinni mjög nákvæmri uppmælingu á því og gerð samsvarandi teikninga,“ segir Einar Ísaksson minjavörður Vestfjarða hjá Minjastofnun.
„Minjastofnun var okkur til ráðgjafar um hvernig best væri að taka húsið niður, en áður lögðum við í tæplega þriggja milljóna króna kostnað til að láta mæla húsið mjög nákvæmlega upp, alveg upp á millimetra til að hægt væri að gera teikningar af húsinu og endurreisa á ný. Við gáfum síðan Gyðu húsið, teikningarnar og einnig ljósmyndir sem teknar voru meðan á niðurtöku hússins stóð. Það væri gaman fyrir Bíldudal verði húsið endurreist og fundið nýtt hlutverk betri stað hér í þorpinu,“ segir Einar Sveinn Ólafsson, nýfjárfestingastjóri Marigot, eiganda Kalkþörungafélagsins, hér á landi.
Ný bygging rís á lóðinni
Hann segir að þar sem gamla pakkhúsið stóð verði reist ný 1400 fm bygging samföst núverandi verksmiðjuhúsnæði þar sem lager Kalkþörungafélagsins verði geymdur. „Við áttum fund með hafnarstjórn og bæjarstjóra Vesturbyggðar í október þar sem við handsöluðum samkomulag um sameiningu tveggja lóða, Strandgötu 2 og Hafnarbraut 4 þar sem við hygghumst reisa lagerhúsnæðið. Að lokinni þeirri framkvæmd verðum við komin með allan afurðalager fyrirtækisins undir þak sem verður til mikilla bóta,“ segir Einar Sveinn.
Í síðustu viku voru grafnir 72,8 m í Dýrafjarðargöngum. Heildarlengd ganganna í lok viku 48 var 662,7 m sem er 12,5% af heildarlengd ganganna. Alla vikuna var grafið í gegnum samskonar basalt og var í síðustu viku. Á nokkrum stöðum lekur aðeins af vatni inn í göngin í gegnum sprungur eða drenholur.
Klöppin er nokkuð góð og því er öllu efni úr göngunum keyrt á haugsvæði þar sem það verður geymt til síðari nota þegar unnið verður í efri lögum nýja vegarins sem kemur utan ganga og í sjálfum göngunum en þörf er á sterkara bergi eftir því sem ofar kemur í sniði vegarins.
Á meðfylgjandi mynd sést í einn arm borsins vera að bora í stafn ganganna.
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar krefst þess að bílastæðin við Flugstöðina við Ísafjarðarflugvöll verði malbikuð á næsta ári í samræmi við loforð sem gefið var á fundi stjórnar Isavia með bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar í Edinborgarhúsinu 26. ágúst 2016. Í bókun bæjarráðs segir að það sé algjörlega óásættanlegt að bílastæðin séu enn ómalbikuð eftir að flugstöðin hefur verið í rekstri í meira en hálfa öld. Bæjarráð telur einnig brýnt að malbik verði endurnýjað á flugbrautinni og er lag að gera það sumarið 2018 þar sem malbikunarstöð verður í sveitarfélaginu.
Tilefni bókunarinnar eru þær upplýsingar sem hafa borist frá Isavia um að fjármagn á samgönguáætlun hafi verið af skornum skammti og Isavia forgangsraði framkvæmdum sem þjóni fluginu sem slíku. Á það er bent að nú standi yfir framkvæmdir á Ísafjarðarflugvelli þar sem verið er að laga grjótgarð sem hefur skemmst á undanförnum árum.
Engar áætlanir eru um innheimtu veggjalda á helstu samgönguleiðum við höfuðborgina. Þetta kemur fram í viðtali RÚV við Sigurð Inga Jóhannsson samgönguráðherra. Ríkisstjórnarfundur var haldinn í morgun og var nýtt fjárlagafrumvarp og áherslur hvers ráðherra til umræðu.
Sigurður Ingi segir helstu áherslur ríkisstjórnarinnar vera á uppbyggingu innviða; heilbrigðismál, menntamál og samgöngumál. Áherslur hans inn í fjárlagafrumvarpið í samgöngumálum lúta að öryggisþáttum, einbreiðum brúm og fleiru. Hann segir að rætt hafi verið um aukið fjármagn til samgöngumála. Forveri hans í starfi var með áætlanir um að leggja á veggjöld á helstu samgönguleiðir við höfuðborgina, en Sigurður Ingi segir að það sé ekki inni í myndinni lengur.