Síða 2105

10. flokkur stúlkna spilar heima um helgina

Mynd: Vestri.is

Um helgina fer fram fjölliðamót Íslandsmótsins í 10. flokki stúlkna í körfubolta. Vestrastelpur mæta Hamri/Hrunamönnum, Haukum og Val. Mótið fer að mestu leyti fram í Bolungarvík utan fyrsti leikur Vestra sem fram fer á Torfnesi á morgun laugardag kl. 16:45 gegn Haukum.

Áhugasamir eru hvattir til að koma við í íþróttahúsinu í Bolungarvík og á Torfnesi til að hvetja stelpurnar áfram.

Leikir liðsins eru sem hér segir:

Laugardagur, Torfnes:

Vestri – Haukar kl. 16:45

Sunnudagur, Bolungarvík:

Vestri – Hamar/Hrunamenn kl. 10:15

Vestri – Valur kl. 12:45

bryndis@bb.is

Ýmir mætir á Torfnes

Meistaraflokkur kvenna í blaki

Og enn er blakveisla á Torfnesi því á sunnudaginn mætir Ýmir og mun takast á við kvennalið Vestra í 1. deild Íslandsmótsins. Bæði liðin eru leika sinn áttunda leik og bæði hafa unnið fjóra leiki og tapað þremur. Það má því búast við spennandi leik og sem fyrr er rétt að benda á að hvatning á bekkjunum er vel þegin.

Leikurinn hefst kl. 14:00

bryndis@bb.is

Bæjarins besta 26. tbl. 34. árgangur

Eiga kost á 46 milljónum króna

Menn frá Snerpu að plægja niður ljósleiðara á Hvilftarströnd í Önundarfirði.

Í gær voru opnaðar styrkbeiðnir frá sveitarfélögum vegna verkefnisins Ísland ljóstengt 2018. Það er Fjarskiptasjóður sem úthlutar styrkjum til sveitarfélaga til ljósleiðaravæðingar í dreifbýli utan markaðssvæða. Mat á umsóknum liggur fyrir og samtals eiga sveitarfélögin í landinu kost á 450 milljóna kr. styrk til þess að tengja um 1.000 lögheimili og vinnustaði með ljósleiðara á næsta ári.

Í hlut Vestfjarða koma 46 milljónir króna. Verkefni Ísafjarðarbæjar á kost á hæsta styrknum, eða 18,7 milljónir króna.

smari@bb.is

Saltverk Reykjaness gjaldþrota

Fyr­ir­tækið Salt­verk Reykja­ness hef­ur verið úr­sk­urðað gjaldþrota en það fram­leiddi salt í Reykjanesi í Ísafjarðardjúpi  með því að hita sjó með jarðvarma. Frá þessu er greint á vef Morgunblaðsins.

Stofn­end­ur fé­lags­ins reistu salt­verk­smiðju á Reykja­nesi við Ísa­fjarðar­djúp árið 2011 þar sem á ár­un­um 1770 til 1794 var fram­leitt salt með svipaðri aðferð.

smari@bb.is

Kristín keppir á Norðulandamóti

Kristín Þorsteinsdóttir hefur verið einstaklega sigursæl síðustu ár.

Sundkonan Kristín Þorsteinsdóttir tekur þátt í Norðulandamóti fatlaðra um helgina. Mótið er haldið í Ásvallalaug í Hafnarfirði og hefst á morgun. Samgöngur á landinu hafa verið ótryggar síðustu daga og Kristín og hennar fólk tóku þá ákvörðun að keyra suður í gær þar sem innanlandsflug er háð mikilli óvissu þessi dagana. Til dæmis missti Kristín af Íslandsmeistaramótinu í 25 m laug um síðustu helgi þar sem flug til Ísafjarðar féll niður vegna veðurs. Kristín er vel stemmd fyrir mótið og hún er ein af 19 manna hópi sem keppir fyrir Íslands hönd.

smari@bb.is

Óvissustigi aflétt

Óvissustigi vegna snjóflóða hefur verið aflýst á norðanverðum Vestfjörðum. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands. Tvö snjóflóð féllu á veginn um Súðavíkurhlíð í gærkvöld og nótt og eitt á Kirkjubólshlíð og einnig á veginn um Sjötúnahlíð í Álftafirði. Búið er að opna veginn milli Súðavíkur og Ísafjarðar.

Í tilkynningunni kemur fram að þótt dregið hafi úr líkum á „náttúrulegum“ snjóflóðum geta geta snjóalög enn verið óstöðug. Þess vegna getur verið hætta á því að fólk sem ferðast um brattar hlíðar t.d. á skíðum eða vélsleðum setji af stað flóð. Fólk sem hyggur á ferðir til fjalla ætti því að fara að öllu með gát.

Óvissustigið var sett á í fyrradag.

smari@bb.is

Biðin styttist

Að gæða sér á jólajógúrtinni frá Örnu er orðinn ríkur partur af aðventunni hjá þeim sem kunna gott að meta. Jólajógúrtin er árstíðarbundin vara sem gerir hana líklegast enn meira spennandi. Aðdáendur jólajógúrtarinnar, sem er með grískum stæl og blönduð með bökuðum eplum og kanil, eru orðnir óþreyjufullir eins og eftirfarandi ummæli tekin af handahófi á Facebook bera vitni um: „Ég er í alvörunni búinn að hugsa um þetta á hverjum degi í svona mánuð.“ – „Ég er barnslega spennt,“ og „Þetta er fáránlega gott.“

Nú styttist biðin heldur betur og samkvæmt upplýsingum frá Örnu í Bolungarvík þá hefur borist fjöldi fyrirspurna um jógúrtina og hægt að upplýsa að hún er væntanleg í búðir von bráðar.

smari@bb.is

Landverðir fá samræmdan einkennisfatnað

Á myndinni eru landverðir við Skógafoss í nýju fötunum.

Íslenskir landverðir hafa fengið nýjan samræmdan einkennisfatnað. Ólafur A. Jónsson, sem stýrir sviði náttúru hjá Umhverfisstofnun, segir að um tímamótaskref sé að ræða að sameina klæðaburð hjá öllum þeim landvörðum sem starfa á vettvangi við gæslu á náttúru landsins. Landverðir séu lykilhlekkur þegar kemur að því að veita ferðamönnum mikilvægar upplýsingar og sé mikilvægt að þeir séu auðkenndir ferðamönnum.

Samið var við Gunnar Hilmarsson um hönnun einkennisbúninganna sem hafa þegar verið teknir í notkun.

smari@bb.is

Framlengir samning og ítrekar fyrri mótmæli

Bæjarráð Vesturbyggðar hefur staðfest framlenginu á samningi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og sveitarfélaga á Vestfjörðum um rekstur Náttúrustofu Vestfjarða. Samningurinn rennur út um áramótin en ekki hefur gefist tími til að ráðast í endurskoðun á honum og því var ákveðið að framlengja samninginn um eitt ár. Bæjarráð bendir hins vegar á bókun ráðisins frá því í október þar fyrirhugðum niðurskurði á framlögum ríkisins til Náttúrustofunnar var harðlega mótmælt.

Í fjárlagafrumvarpi sem var lagt fram í haust áður en Alþingi var slitið var lagt til að skera niður fjárframlög til stofunnar um 10,1 milljón króna. Í bókun bæjarráðs var bent var á að þessi fyrirhugaða skerðing væri aðför að störfum háskólamenntaðra starfsmanna á landsbyggðinni og væri algjörlega á skjön við þá stefnu sem boðuð var í Vestfjarðaskýrslunni. Ennfremur að niðurskurðurinn komi sérstaklega hart niður á sunnanverðum Vestfjörðum sem muni hafa áhrif á uppbyggingu stuðningsgreina við vaxandi fiskeldi í sjókvíum í landshlutanum.

smari@bb.is

Nýjustu fréttir