Sunnudagur 20. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2105

Skoða byggingu seiðaeldisstöðvar í Mjólká

Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax. Mynd: mbl.is / Helgi Bjarnason.

Arnarlax hf. er með til skoðunar að reisa seiðaeldisstöð í Borgarfirði, nánar tiltekið í næsta nágrenni við Mjólkárvirkjun. Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax, segir að fyrirtækið sé með fleiri staðsetningar til skoðunar. Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar tók fyrir erindi Arnarlax á síðasta fundi sínum, en færa þarf veglínur í og við Mjólká eigi áformin að verða að veruleika. Víkingur segir að Arnarlax hafi skoðað þetta með Orkubúi Vestfjarða sem á Mjólkárvirkjun og Vegagerðinni. Það er ljóst að á næstu árum þarf fyrirtækið að auka seiðaframleiðslu. „Við þurfum að gera það til að geta haldið áfram að byggja upp fyrirtækið, en hvort seiðaeldistöð verði þarna eða annars staðar verður að koma í ljós,“ segir Víkingur.

Í dag framleiðir Arnarlax seiði í Tálknafirði og á Þorlákshöfn.

Auglýsing

Vaktavinna algengari á Íslandi

Vaktavinna er fremur algeng á Íslandi í samanburði við önnur Evrópulönd en árið 2016 unnu 26,1 prósent launþega á Íslandi vaktavinnu, sem var níunda hæsta hlutfallið í Evrópu og 7,6 prósentustigum yfir meðaltali Evrópusambandsríkjanna. Hlutfall launþega í vaktavinnu hefur hækkað frá 2008 þegar það var 20,6 prósent. Ekki var munur á körlum og konum árið 2016.

Vaktavinna var langalgengust í yngsta aldurshópnum en árið 2016 voru 55,8 prósent launþega á aldrinum 16–24 ára í vaktavinnu. Því næst kom aldurshópurinn 25–34 ára með 25,6 prósent. Ekki var tölfræðilega marktækur munur á hópum á aldursbilinu 35–64 ára. Innan þeirra hópa var hlutfallið sem vann vaktavinnu á bilinu 17,7 prósent til 18,5 prósent. Hlutfallið var lægst á meðal fólks 65 ára og eldra. Þá hefur hlutfall launþega í vaktavinnu aukist mest í tveimur yngstu aldursbilunum frá árinu 2008, úr 37,4 prósent á meðal fólks 16–24 ára og úr 18,7 prósent á aldursbilinu 25–34 ára.

Launþegar með háskólamenntun voru ólíklegri til að vinna vaktavinnu en launþegar með minni menntun. Árið 2016 voru um 11% launþega 25 ára og eldri með háskólamenntun í vaktavinnu. Hlutfallið var hæst á meðal þeirra sem höfðu lokið framhalds- eða starfsnámi, eða 27,5 prósent, og hafði hækkað umtalsvert frá 2008, úr 19,6 prósent. Þeir launþegar sem aðeins höfðu lokið grunnnámi og unnu á vöktum voru 21,8 prósent.

Auglýsing

Moka Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði

Mokstur á Hrafnseyrarheiði. Mynd úr safni.

Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja á flestum leiðum, sumstaðar skafrenningur. Ófært er á Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði en unnið að mokstri. Eins er ófært norður í Árneshrepp. Ekki er útlit fyrir annað en að vetur konungur ráði ríkjum næstu daga, eða út spá Veðurstofunnar. Ekki eru þó nein stórviðri eða ofankoma að ráði í vestfirsku veðurkortunum en það verður kalt og fimbulkulda er td. spáð á morgun.

Auglýsing

Áhættumatið verður grunnur til að byggja á

Kristján Þór Júlíusson.

„Eðlilega eiga sér stað átök þegar uppbygging af þessum toga fer af stað, og við höfum vítin til að varast og læra af. Það er mjög jákvætt að fiskeldi á Íslandi er að verða öflugt og skapar bæði verðmæti og störf, en þróun næstu ára þarf að grundvallast á vísindalegum rannsóknum og áhættumati.“ Þetta segir Kristján Þór Júlíusson, sem hefur setið á stól sjávarútvegsráðherra í tæpa viku. Kristján Þór er í viðtali í Morgunblaðinu í dag. Hann bendir á að nú liggi fyrir samkomulag á milli hagsmunaaðila sem var ekki þrautalaust að ná fram og ráðherrann telur það góðan grunn til að byggja á.

Samkomulagið sem Kristján Þór vísar í er starf nefndar um stefnumótun í fiskeldi. Stærstu tíðindin í því var samkomulag Landssambands fiskeldisstöðva og Landssambands veiðifélaga um að skipulag sjókvíaeldis ráðist af áhættumati Hafrannsóknastofnunar. Eins og flestum er kunnugt lagði Hafrannsóknastofnun til bann við sjókvíaeldi á laxi í Ísafjarðardjúpi.

Auglýsing

Bæjarins besta 27. tbl. 34. árgangur

27. tbl. 34. árg.
27. tbl. 34. árg.
Auglýsing

Árekstur Breska heimsveldisins við íslenska gestrisni

Galtarviti um 1930.

Vitavörðurinn heitir ný bók eftir Valgeir Ómar Jónsson sagnfræðing. Það er Bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi sem gefur út. Þorbergi var gefið að sök, réttilega, af breska hernum að hafa hulið og hýst til sjö mánaða árið 1940 Þjóðverjann August Lehrmann. Þetta gerði Þorbergur fyrir orð vinar síns sem hann mat mikils. Greiðvikni þessi átti eftir að draga dilk á eftir sér, því þegar Bretar komust á snoðir um þetta – raunar eftir að Lehrmann var farinn – voru útsendarar heimsveldisins sendir vestur í vitann, hvar þeir tóku Þorberg höndum að næturlagi og í framhaldinu var hann fluttur í fangavist til Bretlands.

Valgeir Ómar Jónsson sagnfræðingur.

Fleiri voru handteknir vegna málsins og gefið að sök að hafa aðstoðað Lehrmann.  Tryggvi Jóakims­son kaupmaður, sem var vararæðismaður Breta á Ísaf­irði, og eig­in­kona hans, Marga­ret­he Häsler, voru hand­tek­in af breska setuliðinu sum­arið 1941 og kastað í fang­elsi ytra. Helgi Felixon, barnabarn Tryggva og Margarethe, gerði heimildarmynd fyrir skemmstu um sögu fjölskyldunnar og Lehrmannmálið.

Auglýsing

Herðir á frostinu

Í dag leikur köld norðanátt um landið og nær hún stormstyrk á suðaustanverðu landinu. Á Norður- og Austurlandi gengur á með éljum eða snjókomu, en bjartviðri verður í öðrum landshlutum. Á morgun dregur smám saman úr vindi og léttir til, en herðir á frostinu. Ekki er að sjá nein raunveruleg hlýindi í kortunum næstu daga.

Veðurhorfur næstu daga:

Laugardagur

Norðaustlæg eða breytileg átt, víða 3-8 m/s, en norðvestan 8-13 A-ast. Skýjað með köflum N- og A-til og úrkomulítið, annars bjartviðri. Talsvert frost.

Sunnudagur

Norðan- og norðaustanátt og skýjað með stöku éljum NA-lands, en léttskýjað S- og V-til. Áfram kalt í veðri.

Mánudagur

Norðankaldi og léttskýjað sunnan heiða, en dálítil él NA-til. Vaxandi suðaustanátt og þykknar upp SV-lands um kvöldið. Dregur úr frosti.

Þriðjudagur

Suðaustan- og austanátt með snjókomu og síðan slyddu S- og V-lands, annars þurrt. Hiti nálægt frostmarki við S- og V-ströndina, en frost 3 til 9 stig NA-lands.

Miðvikudagur

Útlit fyrir norðaustlæga átt með éljum NA-til, annars víða bjart. Frost um allt land.

Auglýsing

Hitametið fellur ekki

Það er orðið ljóst að árið 2017 verður ekki það hlýjasta á Íslandi frá því að mælingar hófust. Eftir hlýjan október var möguleiki á því en óvenju kaldur nóvember sá til þess að árið endar ekki á toppnum. Trausti Jónsson veðurfræðingur segir í samtali á mbl.is að enn er möguleiki á hitameti á Austfjörðum verði desember sæmilega hlýr.

Eft­ir hlýj­an októ­ber bloggaði Trausti að sér sýnd­ist að yrði nóv­em­ber og des­em­ber sam­tals 1,3 stig­um yfir meðallagi þess­ara mánaða síðustu tíu árin yrði árið 2017 það hlýj­asta á land­inu frá upp­hafi mæl­inga um miðja síðustu öld. „Ekki lík­legt – en al­veg inn­an þess mögu­lega.“

smari@bb.is

Auglýsing

Skráningar hafnar

Þátttakendur á síðustu körfuboltabúðum. Mynd: Ágúst Atlason.

Skráningar hafnar

Skráning er nú hafin í tíundu Körfuboltabúðir Vestra sem fram fara dagana 5.-10. júní 2018. Allar helstu upplýsingar um búðirnar má nálgast á heimasíðu búðanna  Í fyrra var fullt í Körfuboltabúðirnar og því er um að gera að tryggja áhugasömum körfuboltakrökkum sæti í búðunum sem fyrst.

Körfuboltabúðir Vestra (áður KFÍ) verða eins og áður segir haldnar í tíunda sinn í vor. Búðirnar þyka með allra metnaðarfyllstu körfuboltabúðum á landinu og hlutu þær hvatningarverðlaun UMFÍ á sambandsþingi í haust

Skráning fer fram á heimasíðu Körfuboltabúðanna eða með því að smella hér.

Auglýsing

Meðhöndlað við fiskilús í Dýrafirði

Frá kvíum Arctic Sea Farm í Dýrafirði.

Fiskilús hefur látið á sér kræla í sjókvíum Arctic Sea Farm í Dýrafirði. Fyrirtækið fékk leyfi frá Matvælastofnun til að meðhöndla fiskinn með lyfjafóðri. Frá þessu er greint á vef RÚV. Fiskilúsinn er minni en laxalúsin og veldur ekki eins miklum skaða á roði fisksins en er engu að síður hvimleið í eldi. Í frétt RÚV er haft eftir Sigríði Gísladóttur, dýralækni Matvælastofnunar á Ísafirði, að góð reynsla sé af lyfjafóðrinu í Færeyjum þar sem einnig hefur verið mikið af fiskilús að undanförnu. Fóðrið á ekki að hafa áhrif á fiskinn sjálfan en drepa lúsina þegar hún nærir sig á laxinum. Fóðrið er gefið þegar fiskurinn étur mikið svo það falli ekki til botns og verði að úrgangi. Lyfjafóðrið er gefið í um viku en virkar þó lengur.

Laxinn sem er í Dýrafirði var settur út í sumar og var á viðkvæmu vaxtarskeiði þegar fiskilúsinn kom upp í haust.

Auglýsing

Nýjustu fréttir