Kostnaður vegna tannlækninga barna verður greiddur að fullu af Sjúkratryggingum Íslands frá og með 1. janúar 2018. Foreldrar þurfa að skrá börn sín hjá heimilistannlækni og greiða árlega 2500 króna komugjald. Þetta er lokahnykkurinn á innleiðingu samninga Sjúkratrygginga Íslands og Tannlæknafélags Íslands um tannlækningar barna, sem hefur verið komið á í skrefum frá árinu 2013.
Markmið samningsins er að börn yngri en 18 ára fái nauðsynlega tannlæknaþjónustu óháð efnahag foreldra.
Mikael Sigurður Kristinsson er 18 ára nemi við Menntaskólann á Ísafirði. Hann sker sig ekki mikið úr nemendahópnum en munurinn á Mikael og vísitölunemanum er að hann er með einhverfu. Á vísindadögum Menntaskólans sem voru haldnir á dögunum sagði Mikael frá einhverfu og hvernig hún hefur markað líf hans. Kynning Mikale var verðlaunuð sem besta kynningin á vísindadögum. „Ég fjallaði fyrst um hvað einhverfa er og hversu mismunandi hún getur verið. Manneskja sem er með dæmigerða einhverfu eins ég og getur talað og hagað sér eðlilega en það eru til fleiri afbrigði af einhverfu,“ segir Mikael.
Hann fór einnig yfir hvað við getum tengt einhverfu, fordóma sem einhverfir verða fyrir og hvað skólar geta gert fyrir fólk með einhverfu.
„Svo sagði ég mína sögu og hvernig ég lifi með einhverfu. Ég var lagður í einelti og átti erfitt í skóla vegna þunglyndis. Nú er ég á starfsbraut í Menntaskólanum og gengur frekar vel, eiginlega alveg fáránlega vel,“ segir Mikael.
Leiðin liggur upp á við hjá þessum efnilega unga manni en hann fer ekki í grafgötur með það að barnæskan hafi verið erfið. „Ég var greindur mjög seint með einhverfu og þetta var verst þegar ég var yngri, þá vissi ég ekki hvað var að mér. Ég vissi að ég væri öðruvísi en ekki af hverju.“
Á næstu önn ætlar Mikael að halda áfram námi. „Ég held áfram á starfsbraut en tek einhverja áfanga á náttúrufræðibraut. Markmiðið er að klára stúdentinn.“
Jólaljósin verða tendruð á Ísafirði og Flateyri um helgina. Klukkan 15.30 á morgun hefst jólatorgsala Tónlistarskólans á Silfurtorgi þar sem lúðrasveit skólans blæs jólaandanum í gesti. Eftir að ljósin hafa verið kveikt syngur barnakór Tónlistarskólans nokkur falleg jólalög.
Á Flateyri hefst vöfflu- og kakósala Grettis í Félagsbæ á sunnudag klukkan 14, en ljósin verða kveikt á jólatrénu klukkan 16 áður en börn úr Grunnskóla Önundarfjarðar taka lagið.
Eins og venjulega má telja nokkuð öruggt að vaskir sveinar úr fjöllunum láti sjá sig þegar ljósin hafa verið tendruð.
Í dag kl. 13:00 hófst stofnfundur Vestfjarðastofu ses að viðstöddu fjölmenni í Edinborgarhúsinu. Í stofnsamþykkt stofunnar segir:
Tilgangur Vestfjarðastofu ses. er að vinna að hagsmunamálum íbúa, sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja á Vestfjörðum og veita samræmda og þverfaglega ráðgjöf og þjónustu tengda atvinnu- og byggðaþróun, frumkvöðlastarfsemi og menningu í víðum skilningi.
Markmið Vestfjarðastofu ses. er að efla atvinnulíf á Vestfjörðum, stuðla að velferð íbúa og styrkja Vestfirði sem búsetukost og áfangastað ferðamanna. Markmiði sínu hyggst Vestfjarðastofa ses. ná með öflugu samstarfi atvinnulífs, sveitarfélaga, ríkisvalds og stoðkerfis hins opinbera.
Undirbúningur Vestfjarðastofu hefur staðið um nokkurt skeið og mun hún taka yfir þau verkefni sem Fjórðungssamband Vestfirðinga og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða hafa sinnt hingað til.
Í stjórn Vestfjarðastofu skal skipa 9 einstakling og skulu 5 tilnefndir af sveitarfélögum og fjórir af svið atvinnulífs og menningar. Í þessa fyrstu stjórn og varastjórn stofunnar voru kosnir:
Stjórn
Pétur G. Markan, sveitarfélag
Jón Örn Pálsson, sveitarfélag
Ingibjörg Emilsdóttir, sveitarfélag
Margrét Jónmundsdóttir, sveitarfélag
Sigurður Hreinsson, sveitarfélag
Víkingur Gunnarsson, atvinnulíf og menning
Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, atvinnulíf og menning
Önfirðingurinn María Rut Kristinsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður formanns Viðreisnar, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Viðreisn.
María Rut er með BS-gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og stundar nú meistaranám í opinberri stjórnsýslu við sama skóla. Hún lætur af störfum sem sérfræðingur í dómsmálaráðuneytinu þar sem hún hefur leitt samráðshóp ráðherra um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins síðastliðin tvö ár.
Áður starfaði hún sem markaðsstjóri GOMOBILE og formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Þá var hún talskona Druslugöngunnar 2013 til 2015 þar sem hún lagði ríkar áherslur á úrbætur í ofbeldismálum.
„Hún tók virkan þátt í stúdentapólitík þar sem hún sat m.a. í háskólaráði, jafnréttisnefnd HÍ og sinnti ýmsum öðrum trúnaðarstörfum fyrir skólann. Var hún tilnefnd af JCI Íslandi sem framúrskarandi ungur Íslendingur árið 2014 fyrir afrek á sviði menntamála. María gegndi embætti varaformanns Samtakana ’78 árið 2015-2016 og er stofnandi Hinseginleikans, ásamt unnustu sinni.
Hinseginleikinn er fræðsluvettvangur fyrir ungt fólk sem hefur það að markmiði að brjóta upp staðalmyndir og fjölga fyrirmyndum hinseginfólks í samfélaginu. Verkefnið fékk heiðursviðurkenningu KYNÍS fyrir framúrskarandi starf á sviði kynfræðslu 2016. Þá er María einnig í skipulagsteymi rokkhátíðarinnar Aldrei fór ég suður, sem haldin er á Ísafirði ár hvert.
María Rut er fædd árið 1989 og er trúlofuð Ingileif Friðriksdóttur, laganema og fjölmiðlakonu og eiga þær soninn Þorgeir Atla, 10 ára,“ segir í tilkynningu Viðreisnar.
Opnað hefur verið fyrir umsóknir um Eyrarrósin og er umsóknarfrestur er til 15. janúar 2018. Eyrarrósin er viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunar. Markmið Eyrarrósarinnar er að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar, á sviði menningar og lista. Byggðastofnun, Air Iceland Connect og Listahátíð í Reykjavík hafa staðið saman að verðlaununum frá upphafi, eða frá árinu 2005.
Umsækjendur um Eyrarrósina geta meðal annars verið stofnun, tímabundið verkefni, safn eða menningarhátíð. Valnefnd, skipuð fulltrúum Byggðastofnunar, Listahátíðar í Reykjavík og Flugfélags Íslands ásamt einum menningarfulltrúa á starfssvæði Byggðastofnunar tilnefnir þrjú verkefni og hlýtur eitt þeirra Eyrarrósina ásamt veglegum peningaverðlaunum. Hin tvö tilnefndu verkin hljóta einnig peningaverðlaun.
Verndari Eyrarrósarinnar er Eliza Reid, forsetafrú.
Í tvígang hefur Eyrarósin verið veitt vestfirskum menningarverkefnum. Árið 2007 fékk Strandagaldur verðlaunin og árið eftir kom Eyrarósin í hlut Aldrei fór ég suður.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson tók við lyklavöldum í umhverfisráðuneytinu í morgun. Guðmundur er utanþingsráðherra en hann hefur starfað sem framkvæmdastjóri Landverndar. Málaflokkur ráðuneytisins er stór og hefur snertifleti á mál sem Vestfirðingar hafa sett á oddinn. Í frétt á vef Morgunblaðsins er Guðmundur spurður um ýmist hitamál, fiskeldi meðal annars nefnt og hvernig nýjum ráðherra hugnist að takast á við þau mál. „Mér hugnast það ágætlega,“ svarar Guðmundir Ingi og bætir við: . „Ég held að þarna þurfi að fara að mikilli gát til þess að passa áhrifin á sérstaklega villta laxastofna og það þarf að vinna málið útfrá því; að gæta að þeirri auðlind okkar þegar verið er að huga að þróun fiskeldis á Íslandi.“
Í vor sendi Landvernd frá sér eindregna ályktun þar sem stjórnvöld voru krafin um að banna laxeldi á frjóum laxi í sjó. Í ályktuninni stóð meðal annars að áhættan sem fylgir stórauknu laxeldi í sjó hér við land, og þeim aðferðum sem hér eru notaðar, sé geigvænleg og óboðleg fyrir íslenska náttúru.
Hvað er spunnið í opinbera vefi er könnun sem hefur verið framkvæmd annað hvert ár frá 2005. Niðurstöður í könnuninni 2017 voru kynntar á UT-deginum í gær á Grand hóteli í Reykjavík og óhætt að segja að Bolungarvíkurkaupstaður deili toppnum í könnunni með öðrum stofnunum. Vefur Bolungarvíkkaupstaðar skorar 90 stig í könnuninni en 35 stofnanir skora 90 stig eða hærra af 239 stofnunum.
Af sveitarfélögum fá 13 félög 90 stig eða hærra. Hin sveitarfélögin 12 eru:
Akureyri
Dalvíkurbyggð
Fjarðabyggð
Fljótsdalshérað
Garðabær
Hornafjörður
Kópavogsbær
Reykjanesbær
Reykjavíkurborg
Seltjarnarneskaupstaður
Skagafjörður
Ölfus
Vefur Ísafjarðarbæjar skoraði ekki hátt í könnuninni og fékk 65 stig og vefur Vesturbyggðar fékk 78 stig.
Fólk safnaðist saman við Stjórnarráðið þann 1. desember 1918 þegar Ísland varð frjálst og fullvalda ríki.
Í dag, 1. desember, minnist íslenska þjóðin að 99 ára eru frá fullveldi Íslands. Þann 1. desember 1918, tóku gildi milli Íslands og Danmerkur Sambandslögin, sem voru lög um það hvernig Ísland stóð í sambandi sínu við Danmörku. Í þeim kom meðal annars fram viðurkenning Danmerkur á því að Ísland væri fullvalda og frjálst ríki. Dagurinn varð smám saman að almennum þjóðhátíðardegi fram að lýðveldistíma og var Íslenski fáninn dreginn að húni í fyrsta sinn sem fullgildur þjóðfáni þennan dag.
Þrátt fyrir að áralangri baráttu hafi verið lokið með fullveldi landsins var lítið um hátíðahöld þegar haldið var upp á fullveldisdaginn í fyrsta sinn árið 1918, enda veturinn með eindæmum harður og oftast kallaður frostaveturinn mikli. Katla gaus einnig frá 12. október til 4. nóvember og seint í október barst drepsótt sú sem kölluð var spánska veikin til landsins og létust hundruð manna. Loks brast á nýtt kuldakast þegar veikin stóð sem hæst og ekki þótti ráðlegt að hafa langa útisamkomu við þessar aðstæður.
Á næsta ári verða 100 ár frá fullveldi landsins og Alþingi samþykkti í fyrra halda upp á aldarafmælið með víðtækum hætti.
Jólaskilti Vesturbyggðar í Geirseyrarmúla fauk í illviðri í fyrra en hefur nú verið endurreist bæjarbúum nú til sérstakrar gleði. Ekki bara vegna þess að jólaandanum líkar ljósadýrðin heldur urðu framkvæmdaraðilum á örlítil mistök og brosa vegfarendur út í annað þegar litið er upp í hlíðina.