Miðvikudagur 14. maí 2025
Heim Blogg Síða 2104

Kuldakaflinn að kveðja

Það verður austan 8-15 m/s og bjartviðri á Vestfjörðum í dag, en dálítil él norðantil með kvöldinu. Lægir heldur á morgun, en suðaustan 10-15 og fer að snjóa annað kvöld. Frost 1 til 8 stig. Í hugleiðingum veðurfræðings segir að um helgina líti út fyrir að mesti kuldakaflinn sé liðinn hjá í bili og við tekur lægðagangur með hvössum suðlægum áttum, vætu og hlýindum.

Færð á vegum

Á Vestfjörðum er hálka eða snjóþekja. Ófært er yfir Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðar

Auglýsing

Andri Rúnar valinn í landsliðið

Andri Rúnar með markakóngsverðlaunin sem hann fékk í sumar eftir markametið góða.

Bolvíski framherjinn Andri Rúnar Bjarnason hefur bæst við landsliðshópinn sem mætir Indónesíu í vináttuleikjum dagana 11. og 14. janúar.

Andri Rúnar var allra framherja marksæknastu í Pepsi-deildinni í sumar þegar hann skoraði 19 mörk með liði Grindavíkur og jafnaði markamet í efstu deild. Eftir tímabilið samdi hann við Helsingborg í Svíþjóð sem leikur í B-deildinni.

Nú hefur Andri bæst við í hópinn sem fer til Indónesíu. Víða var kallað eftir því að hann yrði í hópnum eftir að hann hafði verið tilkynntur eftir því sem kemur fram í frétt fótbolta.net.

„Þetta er mikill heiður og eitthvað sem mig hefur dreymt um frá því ég var lítill,“ hefur fótbolti.net eftir Andra Rúnari um tíðindin.

Auglýsing

Biðin eftir Baldri lengist

Áætlað er að Breiðafjarðarferjan Baldur hefji siglingar um 20. janúar. Siglingar hafa legið niðri frá því 18. nóvember þegar bilun kom upp í aðalvél skipsins. Vélin var tekin úr ferjunni send á verkstæði í Garðabæ. Gunnlaugur Grettisson framkvæmdastjóri Sæferða, segir í samtali við RÚV að hluti vélarinnar hafi verið endurnýjaður og að samsetningu vélarinnar sé ekki lokið.

Stefnt er að því að senda vélina vestur í Stykkishólm á mánudag og þá tekur við um það bil 10 daga stillitími.

Auglýsing

Slátra upp úr síðustu kvíunum

Kristján G. Jóakimsson

Háa­fell ehf., dótt­ur­fé­lag Hraðfrysti­húss­ins – Gunn­var­ar hf. í Hnífsdal, er að slátra regn­bogasil­ungi upp úr síðustu sjókví sinni í Ísa­fjarðar­djúpi. Fyr­ir­tækið er til­búið með laxa­seiði til að setja út í vor en hef­ur ekki leyfi til þess. HG hefur verið með fisk í kívum i Djúpinu samfellt síðan 2002, fyrst þorsk og síðar regnbogasilung. Kristján G. Jóakimsson, verkefnastjóri fiskeldis hjá HG, er í ítarlegu viðtali í Morgunblaðinu í dag.

„Staðan hjá okk­ur er sú að við erum að slátra upp úr sein­ustu regn­bogasil­ungskvínni og er áætlað að því verði lokið fljót­lega í fe­brú­ar. Sam­kvæmt áætl­un­um út frá lög­bundn­um af­greiðslu­tíma stofn­ana hefðum við átt að vera komn­ir út í sjókví­ar með lax en þar sem leyf­is­mál hafa dreg­ist úr hófi höf­um við ekki getað sett laxa­seiðin okk­ar frá Nauteyri út og þurf­um að selja útsæðið okk­ar í burtu,“ seg­ir Kristján í viðtalinu.

Auglýsing

Umferðin eykst hröðum skrefum

Í fyrra jókst umferð um tæplega 11% en hefur að jafnaði aukist um tæp 8% á ári frá 2012. Vegagerðin hefur birt yfirlit yfir umferð á árinu 2017, sem byggt er á umferðartölum frá sextán stöðum á landinu. Í fyrra jókst umferð um tæp 11%, og er það næstmest aukning frá því að þessi mælingaraðferð var tekin upp. Hún er þó nokkru minni en árið 2016 þegar umferð jókst um rúm 13%. Ef litið er til landssvæða þá jókst umferð mest um Suðurland, um tæp 16%, en minnst um Austurland, um tæp 9%. Af einstökum teljurum var umferðaraukningin mest um hringveginn á Mýrdalssandi, eða rúm 24%.

Í desember jókst umferð um rúm 9%, sem er nokkru minni aukning en árið 2016 þegar hún jókst um 21% frá fyrra ári. Athygli vekur að þótt umferð hafi aukist mest um Mýrdalssand í desember, eða um tæp 22%, var hún ekki nálægt því sem mældist árið 2016. Þá jókst umferð um 89% frá sama mánuði 2015.

Auglýsing

Gjaldfrjálsar tannlækningar barna komnar að fullu til framkvæmda

Öll börn með skráðan heimilistannlækni eiga nú rétt á gjaldfrjálsum tannlækningum samkvæmt samningi þar að lútandi. Gjaldfrjálsar tannlækningar barna hafa verið innleiddar í áföngum og lauk inneiðingunni 1. janúar sl. þegar börn yngri en þriggja ára öðluðust rétt samkvæmt samningnum.

Samningur Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) og Tannlæknafélags Íslands um tannlækningar barna tók gildi 15. maí 2013. Til að byrja með tók hann til 15, 16 og 17 ára barna og síðan bættust fleiri árgangar við samkvæmt skilgreindri áætlun þar til innleiðingunni lauk að fullu 1. janúar síðastliðinn.

Markmið samningsins er að tryggja börnum yngri en 18 ára nauðsynlega tannlæknaþjónustu óháð efnahag foreldra. Gjaldfrjálsar tannlækningar ná yfir eftirlit, forvarnir, flúormeðferð, skorufyllur, tannfyllingar, rótfyllingar og annað sem telst til  nauðsynlegra tannlækninga. Sjúkratryggingar greiða að fullu fyrir þessa þjónustu, að undanskildu 2.500 kr. árlegu komugjaldi.

Til að eiga rétt á gjaldfrjálsum tannlækningum þurfa börnin að vera með skráðan heimilistannlækni. Hlutverk heimilistannlæknis er m.a. að boða börn í reglulegt eftirlit eftir þörfum hvers og eins og ekki sjaldnar en á tveggja ára fresti. Hann sinnir einnig forvörnum og nauðsynlegum tannlækningum hjá hlutaðeigandi börnum.

Auglýsing

Hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi hækka í 520.000 krónur

Hámark greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra í fæðingarorlofi hefur verið hækkað sem nemur 20.000 kr. á mánuði. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins en ný reglugerð varðandi þessar greiðslur tók gildi nú um áramótin.
Í tilkynningu Stjórnarráðsins segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, að um fyrsta skreið í áformum stjórnvalda um aukinn stuðning við barnafjölskyldur með hækkun orlofsgreiðslna og lengingu fæðingarorlofsins. Til standi að endurskoða fæðingarorlofskerfið.

„Í þessu felst ekki einungis fjárhagslegur stuðningur, heldur einnig félagslegur þar sem markmiðið er að börn fái notið samvista með foreldrum sínum á fyrstu mánuðum lífs síns. Eins er það mikilvægt jafnréttismál að feður nýti rétt sinn til fæðingarorlofs en á því hefur verið alvarlegur misbrestur síðustu ár, eða frá því að farið var að skerða hámarksgreiðslurnar í kjölfar efnahagshrunsins.“

Breytingar á fjárhæðum samkvæmt reglugerðinni öðlast gildi 1. janúar 2018 og eiga við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2018 eða síðar. Breytingarnar eru eftirfarandi:

Hámarksgreiðsla hækkar úr 500.000 kr. í 520.000 kr.
Lágmarksgreiðsla fyrir 25-49% starf hækkar úr 118.335 kr. í 123.897 kr.
Lágmarksgreiðsla fyrir 50-100% starf hækkar úr 164.003 kr. í 171.711 kr.
Fæðingarstyrkur til foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi hækkar úr 71.563 kr. í 74.926 kr.
Fæðingarstyrkur til foreldra í fullu námi hækkar úr 164.003 kr. í 171.711 kr.

Eldri fjárhæðir (greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði 2017) gilda áfram vegna barna sem:
Fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á tímabilinu 15. október 2016 – 31. desember 2017
Fæddust, voru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur fyrir 15. október 2016.

Auglýsing

Þorskstofninn í hæstu hæðum en loðnan veldur áhyggjum

Sigurður Guðjónsson

Þorskstofninn við Íslandstrendur er í sögulegu hámarki síðan haustmælingar hófust árið 1996. Þá er ýsustofninn einnig að jafna sig eftir margra ára lægð. Flestar stofnvísitölur botnfiska eru upp á við samkvæmt stofnmælingu Hafrannsóknastofnunnar síðastliðið haust.

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, var gestur á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.

Sjávarhiti hefur verið hár á Íslandsmiðum hin síðustu ár og ræður hærra hitastig miklu í breytingum á lífríkinu í hafinu umhverfis landið. Makrílinn hefur gengið inn í lögsögunna í ríkari mæli en áður hefur sést og loðnan er kominn lengst norður í höf.

Sigurður hefur áhyggjur af loðnustofninum en loðnan er mikilvæg fyrir aðra nytjastofna eins og þorskinn. „Stærð og viðkoma loðnustofnsins ræður miklu fyrir aðrar tegundir. Bæði ungloðna og fullorðin loðna er norðar og vestar en við höfum séð áður. Sem hefur orsakað erfiðleika að ná á henni góða mælingu í tíma. Almennt má segja að það er allt að færast norðar. Suðlægari tegundir eru að koma hingað og norðlægari tegundir enn norðar.“

Sigurður bindur vonir við að veiðar á þorski verði auknar á næstu árum í ljósi nýjustu mælinga sem sýna að stofninn er á réttri leið. Næsta stofnmæling verður í mars þegar farið verður í svokallað togararall.

Auglýsing

Beina sjónum að menningu á landsbyggðinni

Nú styttist í umsóknarfrest um Eyrarrósina góðu en tekið er við umsóknum til 15. janúar. Eyrarrósin er viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunar. Markmið Eyrarrósarinnar er að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar, á sviði menningar og lista. Byggðastofnun, Air Iceland Connect og Listahátíð í Reykjavík hafa staðið saman að verðlaununum frá upphafi, eða frá árinu 2005.

Umsækjendur um Eyrarrósina geta meðal annars verið stofnun, tímabundið verkefni, safn eða menningarhátíð. Valnefnd, skipuð fulltrúum Byggðastofnunar, Listahátíðar í Reykjavík og Flugfélags Íslands ásamt einum menningarfulltrúa á starfssvæði Byggðastofnunar tilnefnir þrjú verkefni og hlýtur eitt þeirra Eyrarrósina ásamt veglegum peningaverðlaunum. Hin tvö tilnefndu verkin hljóta einnig peningaverðlaun.

Eyrarrósin hefur tvívegis komið í hlut vestfirskra menningarverkefna. Árið 2007 fékk Strandagaldur á Hólmavík verðlaunin og árið eftir var komið að Aldrei fór ég suður tónlistarhátíðinni.

Auglýsing

Atvinnuleysið 1,7 prósent

Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru að jafnaði 198.100 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði í nóvember 2017, sem jafngildir 80,5% atvinnuþátttöku. Af þeim voru 194.700 starfandi og 3.400 án vinnu og í atvinnuleit. Hlutfall starfandi af mannfjölda var 79,2% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 1,7%.
Samanburður mælinga fyrir nóvember 2016 og 2017 sýna að vinnuaflið hefur dregist saman um 1.000 manns og hlutfall þess af mannfjölda lækkað um 3,5 prósentustig. Fjöldi starfandi stendur nánast í stað en hlutfall þeirra af mannfjölda lækkaði þó um 2,9 prósentustig.
Atvinnulausir eru um 1.200 færri en á sama tíma árið 2016 og hlutfall þeirra lækkaði um 0,6 prósentustig. Alls voru 47.900 utan vinnumarkaður og fjölgaði þeim um 10.100 manns frá því í nóvember 2016 en þá voru þeir 37.800.

Auglýsing

Nýjustu fréttir