Laugardagur 19. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2102

Móta framtíðarsýn vestfirsks rannsóknarumhverfis

Vestfirskt vísindafólk kom saman á Rannsóknaþingi Vestfjarða fyrir helgi til að ræða og móta framtíðarsýn fyrir vestfirskt rannsóknarumhverfi. Þátttakendur voru fjölbreyttur hópur fólks sem starfar innan vébanda vísindastofnanna á Vestfjörðum sem og sjálfstætt starfandi vísindamenn.

Nokkrar rannsóknarstofnanir á svæðinu kynntu starfsemi sína og verkefni sem unnið er að en einnig fór fram málstofa sem helguð var sjónarmiði samfélagsins hvað þessi mál varðar. Þar tóku til máls Ragnheiður Birna Fossdal, líffræðikennar í MÍ og Smári Haraldsson, stjórnarformaður Náttúrustofu Vestfjarða og fyrrverandi forstöðumaður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. Að þessum tveimur málstofum loknum var hugað að innri málum rannsóknaumhverfissins og þess hvert skuli stefna. Sérstök áhersla var lögð á mikilvægi þess að styrkja tengslin við almenning og auka samskiptin við íbúa Vestfjarða í þeim umræðum.

Rannsóknaþingið var styrkt með sérstökum hvatningarstyrk úr Sóknaráætlun Vestfjarða en markmið þess var að gefa rannsóknastofnunum og vísindamönnum tækifæri til að bera saman bækur og stilla saman strengi. Þingið gæti markað tímamót í því að styrkja tengsl innan rannsóknarumhverfissins á Vestfjörðum og efla tengslin við samfélagið. Á þinginu var ákveðið að vinna að því að gera rannsóknarumhverfið á Vestfjörðum sýnilegra. Vefsíða Háskólaseturs Vestfjarða og sérstök Facebook síða gætu nýst í þeim tilgangi. Þátttakendur komu einnig með margar aðrar skemmtilegar hugmyndir um hvernig mætti auka sýnileika og tengjast betur innbyrðist sem verður forvitnilegt að sjá hvernig þróast í framtíðinni.

smari@bb.is

Auglýsing

Ekki komið leyfi eftir sex ára vinnu

Frá kvíum Arctic Sea Farm í Dýrafirði.

Á ann­an tug um­sókna um starfs- og rekstr­ar­leyfi fyr­ir sjókvía­eldi er í vinnslu hjá Mat­væla­stofn­un og Um­hverf­is­stofn­un. Þrjú leyf­anna verða vænt­an­lega gef­in út á næstu vik­um og bú­ist er við að 5-7 leyfi til viðbót­ar verði gef­in út á fyrri hluta næsta árs.

Leyf­in sem lengst eru kom­in í vinnslu eru stækk­un hjá Arctic Sea Farm í Dýraf­irði og leyfi sama fyr­ir­tæk­is og Arn­ar­lax í Pat­reks- og Tálknafirði, að því er fram kem­ur í um­fjöll­un um þessi mál í Morg­un­blaðinu í gær. Þar kemur meðal annars fram að sex ár eru síðan Arctic Sea Farm hóf að vinna í stækkun í Dýrafirði en í reglugerð um fiskeldi kemur fram að umsóknir um starfsleyfi og rekstrarleyfi skuli afgreiða innan sex mánaða frá því þær berast. Hafa ber í huga að eftir atvikum þurfa umsóknir um fiskeldisleyfi að fara í umhverfismat og engar kvaðir eru á Skipulagsstofnun að afgreiða umsóknir um umhverfismat á tilteknum tíma.

smari@bb.is

Auglýsing

Annar útisigurinn í höfn

FSu tók á móti Vestra í íþróttahúsi Hrunamanna um helgina. Fyrir leikinn höfðu Vestramenn landað sínum fyrsta útisigri tímabilsins gegn Gnúpverjum og vildu freista þess að bæta útileikjasigurhlutfallið enn frekar.

Leikurinn var jafn og spennandi í fyrstu og liðin skiptust á að hitta og ákefðin á báðum endum vallarins sást vel. Hvorugt liðið hafði forystuna þegar fyrsta leikhlutanum lauk og stigin voru að dreifast vel á leikmenn beggja liða. Liðin fóru inn í annan leikhluta í stöðunni 19-19 og gestirnir settu fljótt í annan gír sem FSu átti erfitt með að fylgja í fyrstu. Þegar blásið var til hálfleiks var staðan 40-45, Vestra í vil.

Fyrstu 6-7 mínúturnar af seinni hálfleiknum voru nokkuð jafnar og FSu hleyptu Vestra aldrei of langt fram úr sér. En hægt og bítandi hertu Vestramenn tök sín á leiknum sem endaði með 74 : 88 sigri Vestra.

Vestri er í fjórða sæti 1. deildar Íslandsmótsins með 16 stig en ekki eru nema tvö stig upp í topplið Breiðabliks og Vestri hefur leikið einum leik færra en lið Blikanna.

smari@bb.is

Auglýsing

Eldsupptök liggja ekki fyrir

Mynd: Rúnar Karlsson.

Lögreglan á Vestfjörðum lauk vettvangsrannsókn á brunanum á Ísafirði á laugardagskvöld. Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn á Ísafirði segir ekkert liggja fyrir um eldsupptök. Lögreglan vinnur nú úr þeim gögnum sem var aflað á vettvangi. „Ég tel ekki rétt að vera með einhverjar vangaveltur áður en það er búið að vinna úr þeim gögnum sem við öfluðum,“ segir Hlynur. Hann telur að niðurstaða úr rannsókn lögreglu ætti að liggja fyrir á næstu dögum.

Það má með sanni segja að mikil mildi hafi verið að ekki fór verr í brunanum og réði þar snarræði slökkviliðsmanna og annarra sem börðust við eldinn. Að auki var stafalogn á Ísafirði sem gerði léttara að hefta að eldurinn læsti sig í nærliggjandi hús.

smari@bb.is

Auglýsing

Taka sér tíma til að meta næstu skref

Stjórnendur Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf. gera sér ekki grein fyrir hversu mikil verðmæti brunnu til kaldra kola í stórbrunanum á Ísafirði aðfaranótt laugardags. „Það var mikið af verkfærum og varahlutum í skipin í húsinu auk veiðarfæratengdra hluta, aflanemar og þess háttar. Það kemur maður frá tryggingafélagi okkar í dag,“ segir Kristján G. Jóakimsson, vinnslu- og markaðsstjóri HG.

HG gerir út tvo togara um þessar mundir og von er á þeim þriðja á næsta ári, nýjum Páli Pálssyni ÍS og oft er mikill handagangur í öskjunni hjá skipaþjónustunni þegar skipin eru í landi og þurfa þjónustu. Kristján segir að skipaþjónusta HG fái inni hjá vélsmiðjunni Þrymi til að byrja með. „Svo tökum við okkur tíma til að mesta næstu skref,“ segir Kristján.

smari@bb.is

Auglýsing

Verulega dregið úr hagvexti

Hagvöxturinn á þriðja ársfjórðungi þessa árs er sá minnsti sem mælst hefur frá því á síðasta ársfjórðungi 2015. Hagfræðideild Landsbankans segir að nýjustu tölurnar bendi til þess að verulega sé að hægjast á vexti hagkerfisins. Hagvöxtur mældist 3,1% á þriðja ársfjórðungi borið saman við sama fjórðung árið áður samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Þessi vöxtur kemur í kjölfar 3,4% vaxtar á öðrum fjórðungi og 5,6% á fyrsta fjórðungi. Tölurnar virðast því benda til þess að verulega sé tekið að hægja á vexti hagkerfisins en hagvöxtur mældist 7,4% á síðasta ári. Hagvöxturinn á þriðja fjórðungi nú er sá minnsti í tvö ár. Í spá Hagfræðideildar Landsbankans frá því í nóvember var gert ráð fyrir að hagvöxtur verði 5,5% á þessu ári. Hagvöxtur á fyrstu þremur fjórðungum ársins nemur 4,3% og er hann því minni en Landsbankinn spáði fyrir árið í heild.

smari@bb.is

Auglýsing

Vestfirðingur ársins 2017

Katrín Björk, Vestfirðingur ársins 2016

Lesendur bb.is hafa valið Vestfirðing ársins frá árinu 2001 og árið í ár verður engin undantekning. Í fyrra var það Katrín Björk Guðjónsdóttir en valið var óvenju spennandi. Árni Brynjólfsson bóndi á Vöðlum og fyrrverandi stjórnarmaður í Orkubúi Vestfjarða kom fast á hæla Katrínar. Árið 2016 var því ár Önfirðinga.

Áður hafa fengið nafnbótina Vestfirðingur ársins þau Katrín Björk Guðjónsdóttir (2016), Kristín Þorsteinsdóttir (2015),  Magna Björk Ólafsdóttir (2014), Guðni Páll Viktorsson (2013), Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands (2012), Örn Elías Guðmundsson, Mugison (2011), Benedikt Sigurðsson (2010), Halldór Gunnar Pálsson (2009), Egill Kristjánsson (2008), Arna Sigríður Albertsdóttir (2007), Sunneva Sigurðardóttir (2006), Sigríður Guðjónsdóttir (2005), Örn Elías Guðmundsson, Mugison (2004), Magnús Guðmundsson (2003), Hlynur Snorrason (2002) og Guðmundur Halldórsson (2001).

Hægt verður að kjósa til og með gamlársdegi með því að ýta á þennan hlekk. Úrslitin verða kunngjörð fljótlega á nýju ári.

Það er Dýrfinna Torfadóttir gullsmiðjur og Bæjarins besta sem standa að vali Vestfirðingsins.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Sögufrægu húsi bjargað

Mynd: Rúnar Karlsson.

Vaskleg framganga slökkviliðsmanna og annarra sem komu að slökkvistörfum á höfninni á Ísafirði aðfararnótt laugardags bjargaði því sem bjargað varð í stærsta bruna á Ísafirði í 30 ár, eða frá því Ísafjarðarkirkja brann. Fljótlega varð ljóst húsnæði skipaþjónustu Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf. yrði ekki bjargað og miðaðist slökkvistarf við að eldurinn næði ekki að læsa sig í svonefndu „Rauða húsi“ sem einnig er í eigu HG.

Rauða húsið á sér merkilega sögu sem Kristján G. Jóhannsson, stjórnarformaður HG, hefur tekið saman.

Húsið var reist rétt eftir 1900 á Stekkeyri um tveimur km innan við Hesteyri af norskum hvalveiðimönnum sem þar voru með mikla starfsemi. Húsið var íbúðabraggi fyrir starfsfólk hvalveiðistöðvarinnar og hýsti allt 100 manns. Eftir að hvalveiðar voru bannaðar á Íslandsmiðum var farið að verka síld á Stekkeyri og um miðjan þriðja áratuginn kaupir Kveldúlfur, fyrirtæki Thorsarana, verksmiðjuna og vinnur þar síld fram til 1940.

Upp úr 1950 var lagður stóreignaskattur m.a. á fyrirtæki og  var leyfilegt að greiða hann með fasteignum samkvæmt fasteignamati.  Kveldúlfur greip tækifærið og greiddi  hluta skattsins með því að selja ríkissjóði síldarverksmiðju sína  á Stekkeyri, sem staðið hafði ónotuð á annan áratug og eftir því lítil raunveruleg verðmæti í verksmiðjunni.

Í október 1954 komu saman fimm Ísfirðingar og samþykktu að stofna hlutafélag sem annaðist útgerð vélbáta og fiskverkun og fékk félagið nafnið Fiskiðjan hf. Næstu áratugina áttu fimmmenningarnir eftir að marka djúp spor í atvinnusögu Ísafjarðar en þetta voru bræðurnir Jóhann og Þórður Júlíussynir, Ásgeir Guðbjartsson og bræðurnir Marías og Guðmundur Guðmundssynir.

Fljótlega var ljóst að Fiskiðjan þyrfti betra húsnæði undir fiskverkunina, en það hafði verið í leiguhúsnæði í svokölluðu Vöskunarhúsi rétt ofan Bæjarbryggjunnar. Íbúðabragginn á Stekkeyri, sem nú var í eigu ríkissjóðs, þótti hentugur og festi  Fiskiðjan hf. kaup á honum.  Þórður Júlíusson fór norður með nokkra menn og rifu þeir húsið niður spýtu fyrir spýtu á nokkrum dögum.  Bátarnir  Gunnvör ÍS og Guðbjörg ÍS fóru  á milli vertíða árið 1956 og náðu í efnið,  síðan var húsið  endurbyggt í aðeins öðru formi á hafnarsvæðinu á Ísafirði.

Húsið stendur enn á sama stað og er nú geymsluhúsnæði fyrir útgerð Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf.

smari@bb.is

Auglýsing

Sókn í byggðamálum

Halla Signý Kristjánsdóttir, 7. þingmaður NV kjördæmis.

Á fullveldisdaginn leit ný ríkisstjórn dagsins ljós. Ríkisstjórn Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna.  Frá því að síðasta ríkistjórn rauf þing og boðaði til kosninga hefur ríkt nokkur óvissa og stjórnmálin liðast um í einhverju þyngdarleysi sem ríkt hefur allt frá kosningum 2016.

Núverandi ríkisstjórnarflokkar tóku sér góðan tíma til að undirbúa samstarfið enda komu margir að borðinu og til að horfa fram á veginn. Þessi vinna og  traust samstarf milli formanna flokkanna hefur skilað nýrri ríkisstjórn góðri byrjun sem hefst með því að það hún hefur fylgi 78% landsmanna samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins núna 6. desember.

Í sáttmála nýrrar ríkisstjórnar er sleginn nýr tónn og í honum felast mörg tækifæri fyrir allt landið. Öflug byggðarsjónarmið sem miða að jafnrétti byggða og búsetu. Uppbygging  í samgöngum, heilbrigðismálum og menntamálum. Þessi þrjú atriði hafa fengið að sitja á hakanum lengi og hvert árið breikkar bilið á milli búsetuskilyrða landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis.

Styrkja þarf framhaldsskólana.

Í því fellst að tryggja þurfi framhaldsskólum fjármagn og frelsi til eigin stefnumótunar innan ramma framhaldsskólalaganna. Þetta skiptir miklu máli því einu ráðin sem framhaldskólarnir hafa til að halda sig innan ramma fjárlaga hefur verið að draga úr kennslu og þá hafa iðngreinar verið í hættu. Fyrir vikið verða skólarnir einsleitir og hæfni við að koma á móts við væntingar nemenda minnkar. Öflugt menntakerfi er forsenda þess að samfélög nái að þróast og dafna.  Mennta- og menningarmálaráðherra Lilja Alfreðsdóttir hefur komið með krafti í nýtt embætti og boðar breytingar innblásnar af áhuga og metnaði. Ég hef miklar væntingar til þess að skólakerfið fái að njóta þess um land allt.

Samgöngur og byggðamál

Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er stefnt að því að ljósleiðaravæðingu landsins verði lokið 2020 og sett verði aukið fé til uppbygginga í vegamálum bæði nýframkvæmdum og viðhaldi. Þar eru mörg verkefni í NV kjördæmi. Samkvæmt skýrslu Vífils Karlssonar, um umferð og ástand vega á Vesturlandi frá 2016, verma vegir á Norðurlandi Vestra neðsta sætið þegar kemur að samanburði á bundnu slitlagi á vegum landsins og Vesturlandið kemur fast á eftir. Svo ekki sé nú talað um ástand vega á sunnanverðum Vestfjörðum. Það eru margir flöskuhálsar á stofnvegum á Vestfjörðum, uppbygging hefur átt sér stað á stofnvegum á norðanverðum Vestfjörðum en Suðurfirðirnir geta ekki talist í nútíma vegasambandi hvorki suður né norður.

Sóknaráætlanir landshlutanna eru mikilvæg tæki til að ýta undir uppbyggingu og nýsköpun, það er byggðastefna á forsendum heimamanna. Byggðaraðgerðir sem hafa tíðkast og reynst vel á nágrannalöndunum á að skoða og menntamálaráðherra hefur þegar boðað að skoða eigi  námslánakerfið til að hvetja fólk með sérþekkingu til að setjast að í dreifðum byggðum landsins þá með afslætti á lánum. Þá væri hægt að skoða tekjuskattskerfið með sömu gleraugum.

Það eru mörg verkefni í sem geta styrkt byggð í landinu og ný ríkisstjórn boðar sókn í byggðamálum , í samvinnu við heimamenn á hverju svæði, með hagsmuni landsins í heild að leiðarljósi.

Halla Signý Kristjánsdóttir

  1. þingmaður í NV kjördæmi
Auglýsing

Óskað eftir tilnefningum

Kristín Þorsteinsdóttir hefur verið einstaklega sigursæl síðustu ár.

Íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2017 verður útnefndur 21. janúar 2018. Á sama tíma verður efnilegasti íþróttamaðurinn heiðraður. Það er íþrótta- og tómstundanefnd sem sér um valið. Nefndin óskar eftir tilnefningum frá íþróttafélögunum í sveitarfélaginu og þurfa þær að berast fyrir föstudaginn 12. janúar í lokuðu umslagi til HSV.

Sundkonan Kristín Þorsteinsdóttir hefur verið valin íþróttamaður Ísafjarðarbæjar síðustu fjögur árin.

Auglýsing

Nýjustu fréttir