Mánudagur 21. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2102

Þjófnaður á jólatónleikum í kirkjunni

Fingralangir þjófar gerðu sér lítið fyrir og stálu verðmætum yfirhöfnum tónleikagesta í Ísafjarðarkirkju í gærkvöldi. Yfirhafnirnar voru geymdar í anddyri kirkjunnar meðan á jólatónleikum Heru Bjarkar, Jógvan Hansen og Halldórs Smárasonar stóð. Um var að ræða lykla, greiðslukort, ökuskírteini og peningaseðla svo dæmi sé tekið.

Fljótlega eftir að lögreglu var tilkynnt um þjófnaðinn voru tveir karlmenn handteknir í miðbæ Ísafjarðar, grunaðir um verknaðinn. Þeir eru í haldi meðan rannsókn fer fram.

Allmargir tónleikagestir, sem urðu fyrir þessum þjófnaði, gáfu sig fram við lögregluna. Vera kann að fleiri hafi tapað þarna verðmætum. Þeir eða þau eru hvött til að hafa samband við lögregluna á Vestfjörðum í síma 444 0400.

Þá þiggur lögreglan upplýsingar frá þeim sem kunna að geta gefið upplýsingar um verknaðinn, séð til grunsamlegra mannaferða eða annað sem gæti komið að gagni.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Umhverfisráðherra fékk fyrsta fossadagatalið

Frá vinstri: Tómas Guðbjartsson, Ólafur Már Björnsson og Guðmundur Ingi Guðbrandsson. Mynd: mbl.is / RAX

Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son um­hverf­is­ráðherra tók í dag við fyrsta ein­tak­inu af fossa­da­ga­tal­inu 2018 úr hendi þeirra Tóm­as­ar Guðbjarts­son­ar hjartask­urðlækn­is og Ólafs Más Björns­son­ar augn­lækn­is. Þá fékk ráðherra einnig af­hent­an 44 síðna bæk­ling með mynd­um af 30 af þeim foss­um sem verða und­ir ef Hvalár­virkj­un verður að veru­leika. Í tilkynningu segir að lang­flest­ir foss­anna hafi, áður en þeir settu fossa­da­ga­talið á Face­book í sept­em­ber á þessu ári, ekki sést á mynd.

Fram­takið kosti þeir fé­lag­ar úr eig­in vasa og eng­in sam­tök né stjórn­mála­flokk­ur komi að út­gáf­unni. Graf­ísk­ur hönnuður var Guðbjörg Tóm­as­dótt­ir.
„Á morg­un send­um við öll­um ráðherr­um, alþing­is­mönn­um, sveit­ar­stjórn­ar­mönn­um á Vest­fjörðum og stjórn­um orku­fyr­ir­tækja daga­talið og bæk­ling­inn, þeim að kostnaðarlausu,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

„Mark­mið okk­ar er að láta nátt­úr­una á þessu svæði njóta vaf­ans, en við telj­um þetta svæði ein­hverja helstu nátt­úruperlu Íslands, ekki síst foss­ana en þarna leyn­ast 5 foss­ar, sem flest­ir eru lítt þekkt­ir og nafn­laus­ir, sem við telj­um nátt­úrperl­ur á heims­mæli­kv­arða. Þarna telj­um við kjörið að stofna friðland eða þjóðgarð þar sem foss­arn­ir gætu verið í for­grunni.“

Daga­talið verður sett í sölu í út­vist­ar­versl­un­um Ev­erest og Fjalla­kof­ans og í Lyfja­veri og Mela­búðinni.

Ágóði af út­gáf­unni renn­ur til Rjúk­anda, sam­taka um vernd­un nátt­úru og menn­ing­ar­verðmæta í Árnes­hreppi á Strönd­um.

Auglýsing
Auglýsing

Móta framtíðarsýn vestfirsks rannsóknarumhverfis

Vestfirskt vísindafólk kom saman á Rannsóknaþingi Vestfjarða fyrir helgi til að ræða og móta framtíðarsýn fyrir vestfirskt rannsóknarumhverfi. Þátttakendur voru fjölbreyttur hópur fólks sem starfar innan vébanda vísindastofnanna á Vestfjörðum sem og sjálfstætt starfandi vísindamenn.

Nokkrar rannsóknarstofnanir á svæðinu kynntu starfsemi sína og verkefni sem unnið er að en einnig fór fram málstofa sem helguð var sjónarmiði samfélagsins hvað þessi mál varðar. Þar tóku til máls Ragnheiður Birna Fossdal, líffræðikennar í MÍ og Smári Haraldsson, stjórnarformaður Náttúrustofu Vestfjarða og fyrrverandi forstöðumaður Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. Að þessum tveimur málstofum loknum var hugað að innri málum rannsóknaumhverfissins og þess hvert skuli stefna. Sérstök áhersla var lögð á mikilvægi þess að styrkja tengslin við almenning og auka samskiptin við íbúa Vestfjarða í þeim umræðum.

Rannsóknaþingið var styrkt með sérstökum hvatningarstyrk úr Sóknaráætlun Vestfjarða en markmið þess var að gefa rannsóknastofnunum og vísindamönnum tækifæri til að bera saman bækur og stilla saman strengi. Þingið gæti markað tímamót í því að styrkja tengsl innan rannsóknarumhverfissins á Vestfjörðum og efla tengslin við samfélagið. Á þinginu var ákveðið að vinna að því að gera rannsóknarumhverfið á Vestfjörðum sýnilegra. Vefsíða Háskólaseturs Vestfjarða og sérstök Facebook síða gætu nýst í þeim tilgangi. Þátttakendur komu einnig með margar aðrar skemmtilegar hugmyndir um hvernig mætti auka sýnileika og tengjast betur innbyrðist sem verður forvitnilegt að sjá hvernig þróast í framtíðinni.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Ekki komið leyfi eftir sex ára vinnu

Frá kvíum Arctic Sea Farm í Dýrafirði.

Á ann­an tug um­sókna um starfs- og rekstr­ar­leyfi fyr­ir sjókvía­eldi er í vinnslu hjá Mat­væla­stofn­un og Um­hverf­is­stofn­un. Þrjú leyf­anna verða vænt­an­lega gef­in út á næstu vik­um og bú­ist er við að 5-7 leyfi til viðbót­ar verði gef­in út á fyrri hluta næsta árs.

Leyf­in sem lengst eru kom­in í vinnslu eru stækk­un hjá Arctic Sea Farm í Dýraf­irði og leyfi sama fyr­ir­tæk­is og Arn­ar­lax í Pat­reks- og Tálknafirði, að því er fram kem­ur í um­fjöll­un um þessi mál í Morg­un­blaðinu í gær. Þar kemur meðal annars fram að sex ár eru síðan Arctic Sea Farm hóf að vinna í stækkun í Dýrafirði en í reglugerð um fiskeldi kemur fram að umsóknir um starfsleyfi og rekstrarleyfi skuli afgreiða innan sex mánaða frá því þær berast. Hafa ber í huga að eftir atvikum þurfa umsóknir um fiskeldisleyfi að fara í umhverfismat og engar kvaðir eru á Skipulagsstofnun að afgreiða umsóknir um umhverfismat á tilteknum tíma.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Annar útisigurinn í höfn

FSu tók á móti Vestra í íþróttahúsi Hrunamanna um helgina. Fyrir leikinn höfðu Vestramenn landað sínum fyrsta útisigri tímabilsins gegn Gnúpverjum og vildu freista þess að bæta útileikjasigurhlutfallið enn frekar.

Leikurinn var jafn og spennandi í fyrstu og liðin skiptust á að hitta og ákefðin á báðum endum vallarins sást vel. Hvorugt liðið hafði forystuna þegar fyrsta leikhlutanum lauk og stigin voru að dreifast vel á leikmenn beggja liða. Liðin fóru inn í annan leikhluta í stöðunni 19-19 og gestirnir settu fljótt í annan gír sem FSu átti erfitt með að fylgja í fyrstu. Þegar blásið var til hálfleiks var staðan 40-45, Vestra í vil.

Fyrstu 6-7 mínúturnar af seinni hálfleiknum voru nokkuð jafnar og FSu hleyptu Vestra aldrei of langt fram úr sér. En hægt og bítandi hertu Vestramenn tök sín á leiknum sem endaði með 74 : 88 sigri Vestra.

Vestri er í fjórða sæti 1. deildar Íslandsmótsins með 16 stig en ekki eru nema tvö stig upp í topplið Breiðabliks og Vestri hefur leikið einum leik færra en lið Blikanna.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Eldsupptök liggja ekki fyrir

Mynd: Rúnar Karlsson.

Lögreglan á Vestfjörðum lauk vettvangsrannsókn á brunanum á Ísafirði á laugardagskvöld. Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn á Ísafirði segir ekkert liggja fyrir um eldsupptök. Lögreglan vinnur nú úr þeim gögnum sem var aflað á vettvangi. „Ég tel ekki rétt að vera með einhverjar vangaveltur áður en það er búið að vinna úr þeim gögnum sem við öfluðum,“ segir Hlynur. Hann telur að niðurstaða úr rannsókn lögreglu ætti að liggja fyrir á næstu dögum.

Það má með sanni segja að mikil mildi hafi verið að ekki fór verr í brunanum og réði þar snarræði slökkviliðsmanna og annarra sem börðust við eldinn. Að auki var stafalogn á Ísafirði sem gerði léttara að hefta að eldurinn læsti sig í nærliggjandi hús.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Taka sér tíma til að meta næstu skref

Stjórnendur Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf. gera sér ekki grein fyrir hversu mikil verðmæti brunnu til kaldra kola í stórbrunanum á Ísafirði aðfaranótt laugardags. „Það var mikið af verkfærum og varahlutum í skipin í húsinu auk veiðarfæratengdra hluta, aflanemar og þess háttar. Það kemur maður frá tryggingafélagi okkar í dag,“ segir Kristján G. Jóakimsson, vinnslu- og markaðsstjóri HG.

HG gerir út tvo togara um þessar mundir og von er á þeim þriðja á næsta ári, nýjum Páli Pálssyni ÍS og oft er mikill handagangur í öskjunni hjá skipaþjónustunni þegar skipin eru í landi og þurfa þjónustu. Kristján segir að skipaþjónusta HG fái inni hjá vélsmiðjunni Þrymi til að byrja með. „Svo tökum við okkur tíma til að mesta næstu skref,“ segir Kristján.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Verulega dregið úr hagvexti

Hagvöxturinn á þriðja ársfjórðungi þessa árs er sá minnsti sem mælst hefur frá því á síðasta ársfjórðungi 2015. Hagfræðideild Landsbankans segir að nýjustu tölurnar bendi til þess að verulega sé að hægjast á vexti hagkerfisins. Hagvöxtur mældist 3,1% á þriðja ársfjórðungi borið saman við sama fjórðung árið áður samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Þessi vöxtur kemur í kjölfar 3,4% vaxtar á öðrum fjórðungi og 5,6% á fyrsta fjórðungi. Tölurnar virðast því benda til þess að verulega sé tekið að hægja á vexti hagkerfisins en hagvöxtur mældist 7,4% á síðasta ári. Hagvöxturinn á þriðja fjórðungi nú er sá minnsti í tvö ár. Í spá Hagfræðideildar Landsbankans frá því í nóvember var gert ráð fyrir að hagvöxtur verði 5,5% á þessu ári. Hagvöxtur á fyrstu þremur fjórðungum ársins nemur 4,3% og er hann því minni en Landsbankinn spáði fyrir árið í heild.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Vestfirðingur ársins 2017

Katrín Björk, Vestfirðingur ársins 2016

Lesendur bb.is hafa valið Vestfirðing ársins frá árinu 2001 og árið í ár verður engin undantekning. Í fyrra var það Katrín Björk Guðjónsdóttir en valið var óvenju spennandi. Árni Brynjólfsson bóndi á Vöðlum og fyrrverandi stjórnarmaður í Orkubúi Vestfjarða kom fast á hæla Katrínar. Árið 2016 var því ár Önfirðinga.

Áður hafa fengið nafnbótina Vestfirðingur ársins þau Katrín Björk Guðjónsdóttir (2016), Kristín Þorsteinsdóttir (2015),  Magna Björk Ólafsdóttir (2014), Guðni Páll Viktorsson (2013), Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands (2012), Örn Elías Guðmundsson, Mugison (2011), Benedikt Sigurðsson (2010), Halldór Gunnar Pálsson (2009), Egill Kristjánsson (2008), Arna Sigríður Albertsdóttir (2007), Sunneva Sigurðardóttir (2006), Sigríður Guðjónsdóttir (2005), Örn Elías Guðmundsson, Mugison (2004), Magnús Guðmundsson (2003), Hlynur Snorrason (2002) og Guðmundur Halldórsson (2001).

Hægt verður að kjósa til og með gamlársdegi með því að ýta á þennan hlekk. Úrslitin verða kunngjörð fljótlega á nýju ári.

Það er Dýrfinna Torfadóttir gullsmiðjur og Bæjarins besta sem standa að vali Vestfirðingsins.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Sögufrægu húsi bjargað

Mynd: Rúnar Karlsson.

Vaskleg framganga slökkviliðsmanna og annarra sem komu að slökkvistörfum á höfninni á Ísafirði aðfararnótt laugardags bjargaði því sem bjargað varð í stærsta bruna á Ísafirði í 30 ár, eða frá því Ísafjarðarkirkja brann. Fljótlega varð ljóst húsnæði skipaþjónustu Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf. yrði ekki bjargað og miðaðist slökkvistarf við að eldurinn næði ekki að læsa sig í svonefndu „Rauða húsi“ sem einnig er í eigu HG.

Rauða húsið á sér merkilega sögu sem Kristján G. Jóhannsson, stjórnarformaður HG, hefur tekið saman.

Húsið var reist rétt eftir 1900 á Stekkeyri um tveimur km innan við Hesteyri af norskum hvalveiðimönnum sem þar voru með mikla starfsemi. Húsið var íbúðabraggi fyrir starfsfólk hvalveiðistöðvarinnar og hýsti allt 100 manns. Eftir að hvalveiðar voru bannaðar á Íslandsmiðum var farið að verka síld á Stekkeyri og um miðjan þriðja áratuginn kaupir Kveldúlfur, fyrirtæki Thorsarana, verksmiðjuna og vinnur þar síld fram til 1940.

Upp úr 1950 var lagður stóreignaskattur m.a. á fyrirtæki og  var leyfilegt að greiða hann með fasteignum samkvæmt fasteignamati.  Kveldúlfur greip tækifærið og greiddi  hluta skattsins með því að selja ríkissjóði síldarverksmiðju sína  á Stekkeyri, sem staðið hafði ónotuð á annan áratug og eftir því lítil raunveruleg verðmæti í verksmiðjunni.

Í október 1954 komu saman fimm Ísfirðingar og samþykktu að stofna hlutafélag sem annaðist útgerð vélbáta og fiskverkun og fékk félagið nafnið Fiskiðjan hf. Næstu áratugina áttu fimmmenningarnir eftir að marka djúp spor í atvinnusögu Ísafjarðar en þetta voru bræðurnir Jóhann og Þórður Júlíussynir, Ásgeir Guðbjartsson og bræðurnir Marías og Guðmundur Guðmundssynir.

Fljótlega var ljóst að Fiskiðjan þyrfti betra húsnæði undir fiskverkunina, en það hafði verið í leiguhúsnæði í svokölluðu Vöskunarhúsi rétt ofan Bæjarbryggjunnar. Íbúðabragginn á Stekkeyri, sem nú var í eigu ríkissjóðs, þótti hentugur og festi  Fiskiðjan hf. kaup á honum.  Þórður Júlíusson fór norður með nokkra menn og rifu þeir húsið niður spýtu fyrir spýtu á nokkrum dögum.  Bátarnir  Gunnvör ÍS og Guðbjörg ÍS fóru  á milli vertíða árið 1956 og náðu í efnið,  síðan var húsið  endurbyggt í aðeins öðru formi á hafnarsvæðinu á Ísafirði.

Húsið stendur enn á sama stað og er nú geymsluhúsnæði fyrir útgerð Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir