Þriðjudagur 22. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2100

Ökuréttindi einungis fyrir sjálfskiptar bifreiðar

Ökumaður þessarar bifreiðar þyrfti jafnvel endurmenntun.

Breytingar hafa verið gerðar á reglugerð um ökuskírteini. Fyrir þau sem eru að taka bílpróf er ein breyting gerð nú sem getur skipt miklu máli. Nú er frjálst val um það hvort próf sé tekið á sjálfskipta eða beinskipta bifreið.

Sé próf tekið á sjálfskipta bifreið verða ökuréttindin takmörkuð við bifreið með sjálfskiptingu. Takmörkunin kemur fram í ökuskírteini og er tilgreind með tákntölunni 78. Hægt að afmá þessa takmörkun síðar, sé þess óskað, og þarf þá að standast próf í aksturshæfni á beinskipta bifreið.

Önnur breyting varðar farþegaflutninga í atvinnuskyni á fólksbifreið. Nú má sá eða sú sem er með réttindi til að aka hópbifreið (D1- eða D-flokkur) í atvinnuskyni einnig aka fólksbifreið með farþega (B-flokkur) í atvinnuskyni.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

19 milljóna afgangur

Í sumar var fjárfest í Ærslabelg í Bolungarvík

Bæjarstjórn Bolungarvíkur samþykkti í fundi sínum  á þriðjudaginn fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 og að sögn Baldurs Smára Einarssonar formanns bæjarráðs ber áætlunin merki betri tíðar í Bolungarvík. Gert er ráð fyrir 19 milljóna afgangi af rekstri og skuldahlutfallið verði komið niður í 110% sem er vel undir þeim 150% mörkum sem sveitarstjórnarlög kveða á um.

Á framkvæmdalista næsta árs er leikskólabygging, gatnagerð og fegrun umhverfis. Stækkun leikskólans Glaðheima er fyrsti áfangi og mun kosta 75 milljónir  og 40 milljónum verður varið í gatnagerð.

Baldur Smári ritar grein sem birtist á bb.is í gær og þar nefnir hann sömuleiðis nýtt verkefni sem kallað er „Betri Bolungarvík“ þar sem lögð verður áhersla á aukið íbúalýðræði og um tillögur bæjarbúa verði kosið í rafrænni kosningu. Settur verður upp hugmynda- og kosningavefur á heimasíðu bæjarins og geta íbúar kosið þar um þau verkefni sem þeir vilja að fái framgang á árinu 2018.

Baldur segir sömuleiðis að fjárhagsstaða bæjarins hafi aldrei verið betri og heilt yfir séu allar kennitölur sem sveitarfélög miða við í rekstri sínum að batna.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Betri Bolungarvík

Baldur Smári Einarsson

Bæjarstjórn Bolungarvíkur samþykkti fjárhagsáætlun og gjaldskrár fyrir árið 2018 á fundi sínum í gær. Fjárhagsáætlunin ber merki þess góða árangurs sem náðst hefur í stjórnun fjármála bæjarins á undanförnum árum og skapar grunn að betri Bolungarvík. Gert er ráð fyrir 19 milljón króna afgangi af rekstri árið 2018 og verður svokallað veltufé frá rekstri 130 milljónir sem skapar svigrúm til framkvæmda. Skuldahlutfallið verður 110% sem er vel fyrir neðan þau 150% mörk sem sveitarstjórnarlög kveða á um og hefur þetta hlutfall lækkað jafnt og þétt undanfarin ár.

Nýr leikskóli

Stærsta verkefni næsta árs verður stækkun leikskólans Glaðheima við Hlíðarstræti en fyrsti áfangi þeirrar framkvæmdar mun kosta 75 milljónir. Þessi framkvæmd mun valda byltingu í aðbúnaði leikskólabarna í Bolungarvík og á skólinn eftir uppfylla þarfir samfélagsins um að taka inn yngri börn en gert er í dag ásamt því að hægt verður að fjölga barnafjölskyldum í bænum, en íbúum í Bolungarvík hefur fjölgaði á síðasta ári og vonir standa til að með uppbyggingu fiskeldis í Ísafjarðardjúpi muni íbúum halda áfram að fjölga. Gert er ráð fyrir að stækkun leikskólans fari í útboð í febrúar og að framkvæmdir geti hafist í sumarbyrjun.

Gatnaferð og fegrun umhverfis

Gatnagerð verður einnig fyrirferðarmikil í framkvæmdum næsta árs en um 40 milljónum verður varið í nýtt malbik á götur bæjarins. Þannig eiga íbúar í hverfinu fyrir ofan Stigahlíð eftir að sjá kærkomnar endurbætur á götum sínum en einnig verður haldið áfram að laga Hafnargötuna, Vitastíginn og neðsta hlutann af Höfðastíg auk þess sem kaflinn frá Grundargarði að Þuríðarbraut verður malbikaður. Jafnframt verður farið í aðrar framkvæmdir en þar ber helst að nefna  endurnýjun á stálþili Brimbrjótsins sem þó er háð fjárveitingum frá Hafnabótasjóði. Á meðal ánægjulegra mála sem bæjarstjórn hefur samþykkt með fjárhagsáætlun 2018 eru aukin framlög til fegrunar bæjarins og til menningarmála og æskulýðsmála. Einnig á að ráðast í aukið viðhald í grunnskólanum og tækjabúnaður í íþróttamiðstöðinni Árbæ verður endurnýjaður að stórum hluta.  Þá má geta þess að gjöld vegna hundahalds lækka verulega milli ára og eru nú á svipuðu róli og í nágrannasveitarfélögum.

Betri Bolungarvík

Að lokum er gaman að segja frá því að á nýju ári verður kynnt verkefnið „Betri Bolungarvík“ en það er verkefni sem gefur kost á auknu íbúalýðræði. Þannig munu íbúar geta komið fram með tillögur að framfaraverkefnum sem kosið verður um í rafrænni kosningu. Settur verður upp hugmynda- og kosningavefur á heimasíðu bæjarins og geta íbúar kosið þar um þau verkefni sem þeir vilja að fái framgang á árinu 2018.

Fjárhagsleg staða sveitarfélagsins hefur aldrei verið betri

Mikið átak hefur verið unnið síðustu ár í að koma fjárhag bæjarins í gott horf. Fjárhagsáætlun ársins 2018 gerir ráð fyrir að fjárhagsleg staða bæjarfélagsins haldi áfram að batna þrátt fyrir miklar framkvæmdir. Á undanförnum árum hefur skuldahlutfall lækkað verulega. Skuldir á hvern íbúa hafa lækkað og hefur endurgreiðslutími skulda sveitarfélagsins lækkað jafnt og þétt undanfarin ár. Heilt yfir eru allar kennitölur sem sveitarfélög miða við í rekstri sínum að batna og benda til að rekstur sveitarfélagsins er sífellt að verða betri. Ef áfram er haldið á sömu braut munu gefast enn meiri tækifæri í framtíðinni til að sækja fram og gera Bolungarvík að betri bæ.

Bolungarvíkin okkar er fegurst allra og hér finnst okkur best að búa. Með Betri Bolungarvík horfum við brosandi fram á veginn enda eru bjartir tímar framundan. Í Víkinni fögru liggja tækifærin og þau ætlum við okkur að nýta samfélaginu til hagbóta.

Með ósk um gleðileg jól og farsælt komandi ár.

Baldur Smári Einarsson

Formaður bæjarráðs Bolungarvíkur

Auglýsing
Auglýsing

FIMM ára ljósmyndarar

Mynd: Dagur Ernir frá Þingeyri

Árið 2006 dreifði Hálfdan Pedersen hundruðum einnota ljósmyndavéla til fimm ára leikskólabarna í öllum bæjar- og sveitarfélögum á Íslandi. Ætlunin var að hvetja ung börn til að prófa sig áfram með ljósmyndun og um leið fanga lífið með augum barna. Viðfangsefni myndanna var undir börnunum sjálfum komið. Hvert barn fékk einnota myndavél með 27 ramma filmu sem það mátti nota í viku. Afraksturinn varð yfir 30 þúsund ljósmyndir og hefur úrval þeirra birst á ljósmyndasýningum á Menningarnótt og Listahátíð í Reykjavík.

Nú 11 árum frá upphafi verkefnisins hafa verið valdar ljósmyndir sem prýða 215 síðna ljósmyndabók sem ber heitið FIMM. Ljósmyndarar bókarinnar eru 107 talsins og eru ljósmyndirnar teknar víðsvegar um landið. Sjónarhorn barnanna er listrænt en laust við tilgerð og veitir ómetanlega innsýn í raunveruleika fimm ára aldamóta barna á Íslandi.

500 krónur af hverri seldri bók rennur til Barnaspítala hringsins.

Meðfylgjandi myndir voru teknar af fimm ára vestfirskum börnum.

Mynd: Alex Bjartur frá Súðavík
Mynd: Þuríður frá Þingeyri
Mynd Anna Rakel frá Ísafirði

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Mótmæla niðurfellingu stærðartakmarkana

Landsamband smábátaeigenda mótmælir harðlega áformum um að „allar núgildandi stærðar og vélaraflstakmarkanir verði felldar úr gildir“ en Starfshópur um heildarendurskoðun á regluverki er varðar notkun veiðarfæra, veiðisvæði og verndunarsvæði á Íslandsmiðum hefur lagt til. Í bréfi sem sambandið hefur sent Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu kemur fram að niðurstaða hópsins séu mikil vonbrigði og telur hana vega að framtíð smábátaútgerðar á landinu. Sambandið leggur til að ráðuneytið hafni tillögum hópsins enda ógni þau markmiðum laga um stjórn fiskveiða, nema ef vera skyldi fiskifræðileg rök.

Hér má nálgast bréf smábátaeigenda.

bryndis@bb.is

 

Auglýsing
Auglýsing

Íbúafundur í Árneshreppi

Mynd: Byggdastofnun.is

Þriðjudaginn 28. nóvember var haldinn íbúafundur í Árneshreppi á Ströndum sem liður í samtali við íbúa vegna verkefnisins Brothættar byggðir, en sveitarfélagið hefur nýverið verið tekið inn í verkefnið. Mjög góð mæting var á fundinn og sköpuðust líflegar og málefnalegar umræður. Þetta kemur fram á vef Byggðastofnunar.

Á fundinum var farið yfir drög að stefnumótun fyrir verkefnið sem unnin höfðu verið af verkefnisstjóra og verkefnisstjórn og komu íbúar athugasemdum sínum á framfæri. Stærstu áherslumál íbúa/verkefnisins tengjast innviðum en fjölmörg önnur atriði verða til úrvinnslu í verkefninu.  Íbúar Árneshrepps voru almennt sammála um framgang flestra þessara mála og virðist sem góður samhljómur sé í þeirri baráttu sem framundan er. Ákveðið var að fjölga í verkefnisstjórn og voru þær Vigdís Grímsdóttir og Linda Guðmundsdóttir kosnar sem fulltrúar íbúa, auk þeirra sem fyrir voru. Í kjölfar fundarins standa íbúar fyrir kosningu um heiti á verkefnið og má vænta niðurstöðu innan fárra daga.

Sigríður K. Þorgrímsdóttir, Skúli Gautason, verkefnisstjóri, Eva Sigurbjörnsdóttir, Vigdís Grímsdóttir, Arinbjörn Bernharðsson, Linda Guðmundsdóttir, Kristmundur Kristmundsson, Aðalsteinn Óskarsson og Kristján Þ. Halldórsson. Mynd: Byggdastofnun.is

Áfram verður unnið að stefnumótun fyrir verkefnið og stefnt er að því að þeirri vinnu ljúki á næstu dögum. Að þeirri vinnu lokinni mun verkefnið færast yfir á framkvæmdastig.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Hús sköpunargleðinnar

Hjónin Julie Gasiglia og Aron Ingi Guðmundsson opnuðu í sumar Húsið – House of Creativity í Merkisteini, Aðalstræti 72, á Patreksfirði. Með Húsinu vilja þau efla og virkja menningar og listastarfsemina á sunnanverðum Vestfjörðum. Fjölbreytt dagskrá er í boði og eru þar listasýningar, skapandi vinnustofur, klúbbar og ýmis þemakvöld til að mynda. Ljósmyndaklúbbur Hússins er mjög vinsæll sem og Bókaklúbbur Hússins og svo eru þar Vín og Vínylkvöld þar sem gestir koma með vín eða bjór til að leyfa öðrum að smakka og einnig er gestum velkomið að koma með vínylplötur með sér svo hægt sé að hlusta á ljúfa tóna plötuspilarans þessa skemmtilegu kvöldstund. Í sumar voru nokkur námskeið í boði sem voru vel sótt og munu fleiri námskeið og vinnustofur vera á dagskrá í vetur. Aron og Julie leggja áherslu á að Húsið sé ákveðinn samkomustaður þar sem heimamenn sem og aðrir geti komið saman, skapað, lært og skemmt sér með öðrum. Þau eru einnig opin fyrir allskonar samstarfi og hvetja fólk til að hafa samband ef það vill til dæmis vera með sýningu, fyrirlestur eða kennslu í Húsinu. Saumaðir voru taupokar í Húsinu einu sinni í viku fyrr í vetur fyrir samvinnuverkefnið um plastpokalausa Vestfirði í samstarfi við Boomerang Bags og Vesturbyggð.

Aron og Julie eru spennt fyrir komandi vetri og bjóða alla velkomna í Húsið. Viðburðir þar eru ókeypis og selja þau heita og kalda óáfenga drykki fyrir gesti og gangandi. Verð á vinnustofum og námskeiðum eru misjöfn eftir viðfangsefnum. Þau hjón eru með áform um að víkka út hugmyndina um Húsið og hefja starfsemi í gamalli verbúð við höfnina á Patreksfirði með sama markmiði, um að efla og virkja lista og menningarstarfsemi svæðisins. Þau vonast til að opna þar næsta vor. Þar munu m.a. vera vinnustofur fyrir listamenn og hönnuði, tónleikarými og æfingahúsnæði fyrir hljómsveitir og handiðnaðarverslun. Starfsemin þar verður rekin samhliða dagskránni í Húsinu í Merkisteini.

Það er því um að gera að fylgjast með Húsinu og hægt er að gera það á heimasíðu Hússins: www.husid-workshop.com sem og á samfélagsmiðlunum facebook og instagram: https://www.facebook.com/husidworkshop/ og https://www.instagram.com/husid_workshop/

Auglýsing
Auglýsing

Vilja að Ísafjarðarbær segi sig úr byggðasamlaginu

Víða er aðgengi ábótavant fyrir hreyfihamlaða.

Bæjarfulltrúar Í-listans og Framsóknarflokks hafa lagt fram tillögu að ályktun um að Ísafjarðarbær segi sig úr Byggðasamlagi um málefni fatlaðs fólks á Vestfjörðum (BsVest). Tillagan verður tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar á morgun. Í ályktuninni segir að frá árinu 2014 hafi farið fram „umfangsmikil vinna af hálfu Ísafjarðarbæjar og eftir atvikum BsVest að bæta starf og umgjörð málaflokksins og auka árangur í rekstri og þjónustu.“

Fyrr á árinu óskaði Ísafjarðarbær eftir því að gerast leiðandi sveitarfélag á Vestfjörðum í málaflokki fatlaðs fólks og taka málaflokkinn og starfsemi BsVest yfir og veita þjónustu til annarra sveitarfélaga samkvæmt þjónustusamningum. Hin sveitarfélögin í BsVest lögðust gegn tillögu Ísafjarðarbæjar.

Í ályktun Í-listans og Framsóknarflokks segir að afstaða sveitarfélaganna hafi verið töluverð vonbrigði fyrir Ísafjarðarbæ.

„Það er sannfæring bæjarstjórnar Ísafjarðabæjar að málaflokknum verði betur fyrir komið með umræddu fyrirkomulagi og því er rétt að Ísafjarðarbær segi sig úr BsVest og undirbúi að taka rekstur málaflokksins að öllu leyti í eigin hendur.“

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Óbreyttir stýrivextir

Óbreytt vaxtastig hjá Seðlabankanum.

Pen­inga­stefnu­nefnd Seðlabanka Íslands hef­ur ákveðið að halda vöxt­um bank­ans óbreytt­um. Meg­in­vext­ir bank­ans, vext­ir á sjö daga bundn­um inn­lán­um, verða því áfram 4,25 prósent. Þetta kem­ur fram í frétt á vef Seðlabanka Íslands.

Sam­kvæmt ný­lega birt­um þjóðhags­reikn­ing­um var hag­vöxt­ur 4,3 prósent á fyrstu níu mánuðum árs­ins, sem er meiri vöxt­ur en fyrri töl­ur höfðu gefið til kynna. Því eru horf­ur á að hag­vöxt­ur verði meiri á ár­inu öllu en spáð var í nóv­em­ber­hefti Pen­inga­mála. Áfram hæg­ir á vexti út­flutn­ings en inn­lend eft­ir­spurn eykst hraðar en spáð hafði verið. Skýrist það m.a. af meiri slaka í op­in­ber­um fjár­mál­um á yf­ir­stand­andi ári en áður var talið.

Verðbólga var 1,7 prósent í nóv­em­ber og hef­ur hún verið á bil­inu 1,5-2 prósent um nokk­urt skeið. Áfram hef­ur dregið úr verðhækk­un­um á hús­næðismarkaði. Að öðru óbreyttu stuðlar það að minni verðbólgu en á móti fjara áhrif hærra geng­is krón­unn­ar út.

smari@bb.is

 

Auglýsing
Auglýsing

Átak boðar til aðalfundar

Aðalfundur íbúasamtakanna Átaks, hverfisráðs Dýrafjarðar, verður haldinn í Blábankanum á Þingeyri á morgun, fimmtudaginn 14. desember klukkan 20.00. Allir íbúar 18 ára og eldri sem eiga lögheimili í Dýrafirði hafa kjörgengi og atkvæðisrétt á fundum Átaks og eru hvattir til að mæta. Á dagskrá fundarins er:

  1. Skýrsla stjórnar um störf félagsins og nefnda á liðnu starfsári.
  2. Umræður um reikninga félagsins.
  3. Breytingar á samþykktum félagsins.
  4. Kosning tveggja stjórnarmanna til 2ja ára.
  5. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga.
  6. Fjárhagsáætlun næsta starfsárs.
  7. Verkefni næsta árs.
  8. Önnur mál.
  9. a) Fjárfestingar áranna 2017 og 2018.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir