Þriðjudagur 22. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2100

Endurvinnum álið í sprittkertunum

Endurvinnsluátakinu „Gefum jólaljósum lengra líf – endurvinnum álið í sprittkertunum“ var ýtt úr vör í byrjun vikunnar af Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfis- og auðlindaráðherra, sem tók á móti nokkrum af aðstandendum átaksins í umhverfisráðuneytinu.

Tilgangurinn með átakinu er að fá fjölskyldur til að skila álinu í sprittkertum til endurvinnslu og efla vitund Íslendinga um mikilvægi þess að endurvinna það ál sem fellur til á heimilum og hjá fyrirtækjum.

Ætla má að á ári hverju séu notuð um 3 milljónir sprittkerta hér á landi. Til að setja hlutina í samhengi, þá dugar álið úr þremur sprittkertum í eina drykkjardós og einungis þarf þúsund sprittkerti til að búa til reiðhjól.

Skila má sprittkertum á um 90 endurvinnslu- og móttökustöðvar um allt land.

Þá gefst fólki kostur á að setja kertin í grænu tunnurnar sem eru í boði hjá Gámaþjónustunni og Íslenska gámafélaginu.

Að átakinu standa Endurvinnslan, Fura málmendurvinnsla, Gámaþjónustan, Íslenska gámafélagið, Málmsteypan Hella, Plastiðjan Bjarg, Samál – Samtök álframleiðenda, Samtök iðnaðarins og Sorpa.

Ráðist hefur verið í sambærileg átaksverkefni í Noregi, Finnlandi, Svíþjóð og á Írlandi og er þetta tilraunaverkefni hér á landi. Álið sem safnast verður pressað hjá Furu og endurunnið hér á landi, en nánar verður tilkynnt um útfærslu þess þegar söfnunarátakinu lýkur í lok janúar.

Ál hefur þá sérstöðu að það má nýta aftur og aftur án þess að það tapi upprunalegum eiginleikum sínum. Einungis þarf um 5% af orkunni sem fór upphaflega í að framleiða álið til að endurvinna það. Það þýðir að mikil verðmæti leysast úr læðingi við endurvinnslu álsins og færir það stoðir undir rekstur endurvinnslufyrirtækja víða um Evrópu.

Þá dregur orkusparnaðurinn við endurvinnslu áls verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda, enda verður almennt mest losun frá orkuvinnslunni við framleiðslu áls í heiminum.

Átakið stendur til 31. janúar næstkomandi.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Because of the tourists

Jónas Guðmundsson gerði á dögunum að umtalsefni erlendar merkingar á Nettó en verslunin er merkt sem „discount-supermarket“. Fyrirsögn greinarinnar sem birtist á bb.is er „Samkaup – Why English“.  Jónas er ósáttur við að ekki skuli íslenskum áletrunum bætt við og spyr hvað valdi.

Nú hefur Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa svarað Jónasi og óskar eftir birtingu á sama vettvangi.

 

Vegna aðsendrar greinar sem birtist hér á vefnum í síðustu viku frá Jónasi Guðmundssyni íbúa á Ísafirði er það mér bæði ljúft og skylt að svara.

Fyrst af öllu vil ég þakka Jónasi fyrir greinina. Það skiptir miklu máli fyrir hvert samfélag að íbúar láti sig málefni þess varða. Það er líka afar mikilvægt að taka tillit til athugasemda íbúa ekki síst réttmætra athugasemda, eins og í tilfelli Jónasar. Það er óheppilegt að lágvöruverðsverslunin Nettó sé einungis merkt sérstaklega á ensku.

Við hjá Samkaupum getum ekki svarað fyrir önnur fyrirtæki. En við höfum í það minnsta kappkostað að gera eins vel við alla okkar viðskiptavini og hægt er. Kúnnahópurinn okkar um land allt er afar fjölbreyttur og fer sífellt stækkandi. Ekki síst á Ísafirði. Því fögnum við ákaft.

Við leggjum mikla áherslu á að vekja athygli á þjónustunni sem við höfum uppá að bjóða; með kraftmiklum hætti í sjónvarpi, útvarpi, á neti og í bæklingum þar sem íslenskan er í hávegum höfð. Við finnum líka að Íslendingar þekkja verslanir okkar gríðarlega vel.

Eins og Jónas bendir réttilega á eru útveggir verslunar okkar á Ísafirði merktir Nettó- Discount Supermarket.  Og ástæðan er einföld, eins og hann sjálfur bendir á: Fjölgun erlendra gesta á svæðinu.

Yfir tvær milljónir ferðamanna heimsóttu landið okkar í fyrra. Eðli málsins samkvæmt eru þeir misgóðir í íslensku og komast líklega að mestu leyti hjá því að heyra eða sjá auglýsingarnar okkar. Og ef þeir heyra þær eða sjá eiga þeir sennilega oft erfitt með að skilja þær. Þess utan stoppa ferðmenn alla jafna aðeins stutta stund á hverjum stað og hafa þ.a.l. sjaldnast hugmynd um hvað lágvöruverðsverslunin Nettó er.

Því brugðum við á það ráð, til að upplýsa erlendu ferðamennina, að merkja verslunina, vitandi að Ísfirðingar þekktu Nettó ágætlega.

Við hjá Samkaupum viljum öðru fremur starfa í sátt og samlyndi við heimamenn á hverjum stað. Ég vil því enn og aftur þakka Jónasi fyrir greinina og í kjölfarið munum við taka málið til skoðunar hjá okkur.

 Með vinsemd og virðingu,  

Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Getur ekki hætt

Fréttaritari RÚV á Vestfjörðum var með skemmtilegt innslag í fréttum í gærkvöld af bókaupplestri í sundlaug Þingeyrar, svo sannarlega frumlegt uppátæki. Þar var meðal annars rætt við Hallgrím Sveinsson sem hefur um árabil verið afkastamikill bókaútgefandi og hans vestfirska forlag lagt áherslu á vestfirskar bókmenntir.

Nýverið kom út bókin Vestfirðingar til sjós og lands – gaman og alvara fyrir vestan en það eru sögur sem Hallgrímur hefur sjálfur tekið saman. Um bókin segir Hallgrímur:

„Bókin hefur að geyma ýmsar frásagnir af Vestfirðingum, lífs og liðnum. Tilgangurinn: Að vekja athygli og áhuga á Vestfjörðum og innbyggjurum þeirra fyrr og síðar. Til þess var Vestfirska forlagið einmitt stofnað. Kannski bara af hugsjón. En ekki til að græða peninga.

Margir telja að Vestfirðingar séu að sumu leyti svolítið öðruvísi en aðrir landsmenn. Má vel merkja það í þessari bók. Nægir þar að nefna kraft þeirra, áræði og ósérhlífni að ógleymdri hjálpseminni. Manngildið frekar metið í dugnaði en peningum. Og gamansemin er þeirra lífselexír. Svo segja sumir gárungar að þegar Vestfirðingar eru hættir að geta rifið kjaft, séu þeir endanlega búnir að vera. En það er nú kannski ofsagt! „

Hallgrímur hefur marglýst því yfir að hann sé hættur í bókaútgáfu en engu að síður koma út fleiri og fleiri bækur og á árinu 2017 voru þær átta.

Hér má nálgast frétt RUV af syndum lestrarhestum á Þingeyri.

bryndis@bb.is

 

Auglýsing
Auglýsing

Fossadagatalið fáanlegt á Ísafirði

Gullfossar Stranda heitir dagatal þeirra Tómasar Guðbjartssonar og Ólafs Más Björnssonar og verður það til sölu í versluninni Götu sem er til húsa í Bræðraborg. Allir alþingismenn, sveitarstjórnamenn á Vestfjörðum og forsvarsmenn Vesturverks og Landsvirkjunar hafa fengið eintak af dagatalinu, sem og allir íbúar Árneshrepps. Fyrsta upplag dagatalsins seldist upp á fyrsta degi.

Þeir félagar, Tómas og Ólafur, hafa látið sig málefni náttúrunnar varða og berjast hatrammlega á móti Hvalárvirkjun við mismikinn fögnuð þeirra er fjórðunginn byggja. Til dæmis taldi Hafdís Gunnarsdóttir þáverandi varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu Tómas hafa tekist „móðga heilan fjórðung í viðtali“. Í athugasemd við fréttina á bb.is tjáir þingmaður Framsóknarflokksins, Halla Signý Kristjánsdóttir og bendir á að hún sé nú stödd á suðvestur horni landsins og segist þar „sjá mannvistarleifar, hvort sem það er byggð eða atvinnuuppbygging, byggðin teygir og treður niður fallegar útivistarperlur“

Í september birtu þeir rafrænt fossadagatal með daglegum myndum af fallegum fossum á upptökusvæði Hvalárvirkjunnar.

Allur ágóði af útgáfunni rennur til Rjúkanda, samtaka um verndun náttúru og menningarverðmæta í Árneshreppi á Ströndum.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Tíðindalaust veður

Veðurstofan spáir norðaustan 8-13 á Vestfjörðum og dálítil él norðantil, hiti um frostmark. Skýjað verður með köflum á morgun, úrkomulítið og kólnandi veður.

Auglýsing
Auglýsing

Það vantar gangstétt við holuveginn á Suðureyri

Flóknar leiðir stjórnsýslunnar vefjast fyrir mörgum sem þurfa að eiga erinda við hana en Árdís Niní Liljudóttir á Suðureyri veit hvert skal leita með erindi sín. Á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar á mánudaginn var tekið fyrir bréf frá Árdísi þar sem hún bendir á að það vanti gangstétt við „holuveginn“.  Holuvegurinn mun vera malarvegurinn í kringum tjörnina og tók bæjarráð vel í athugasemd hennar, þakkaði bréfritara fyrir bréfið og sagði að til framtíðar væri fyrirhugað að gera fallega gönguleið meðfram tjörninni.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Ökuréttindi einungis fyrir sjálfskiptar bifreiðar

Ökumaður þessarar bifreiðar þyrfti jafnvel endurmenntun.

Breytingar hafa verið gerðar á reglugerð um ökuskírteini. Fyrir þau sem eru að taka bílpróf er ein breyting gerð nú sem getur skipt miklu máli. Nú er frjálst val um það hvort próf sé tekið á sjálfskipta eða beinskipta bifreið.

Sé próf tekið á sjálfskipta bifreið verða ökuréttindin takmörkuð við bifreið með sjálfskiptingu. Takmörkunin kemur fram í ökuskírteini og er tilgreind með tákntölunni 78. Hægt að afmá þessa takmörkun síðar, sé þess óskað, og þarf þá að standast próf í aksturshæfni á beinskipta bifreið.

Önnur breyting varðar farþegaflutninga í atvinnuskyni á fólksbifreið. Nú má sá eða sú sem er með réttindi til að aka hópbifreið (D1- eða D-flokkur) í atvinnuskyni einnig aka fólksbifreið með farþega (B-flokkur) í atvinnuskyni.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

19 milljóna afgangur

Í sumar var fjárfest í Ærslabelg í Bolungarvík

Bæjarstjórn Bolungarvíkur samþykkti í fundi sínum  á þriðjudaginn fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 og að sögn Baldurs Smára Einarssonar formanns bæjarráðs ber áætlunin merki betri tíðar í Bolungarvík. Gert er ráð fyrir 19 milljóna afgangi af rekstri og skuldahlutfallið verði komið niður í 110% sem er vel undir þeim 150% mörkum sem sveitarstjórnarlög kveða á um.

Á framkvæmdalista næsta árs er leikskólabygging, gatnagerð og fegrun umhverfis. Stækkun leikskólans Glaðheima er fyrsti áfangi og mun kosta 75 milljónir  og 40 milljónum verður varið í gatnagerð.

Baldur Smári ritar grein sem birtist á bb.is í gær og þar nefnir hann sömuleiðis nýtt verkefni sem kallað er „Betri Bolungarvík“ þar sem lögð verður áhersla á aukið íbúalýðræði og um tillögur bæjarbúa verði kosið í rafrænni kosningu. Settur verður upp hugmynda- og kosningavefur á heimasíðu bæjarins og geta íbúar kosið þar um þau verkefni sem þeir vilja að fái framgang á árinu 2018.

Baldur segir sömuleiðis að fjárhagsstaða bæjarins hafi aldrei verið betri og heilt yfir séu allar kennitölur sem sveitarfélög miða við í rekstri sínum að batna.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Betri Bolungarvík

Baldur Smári Einarsson

Bæjarstjórn Bolungarvíkur samþykkti fjárhagsáætlun og gjaldskrár fyrir árið 2018 á fundi sínum í gær. Fjárhagsáætlunin ber merki þess góða árangurs sem náðst hefur í stjórnun fjármála bæjarins á undanförnum árum og skapar grunn að betri Bolungarvík. Gert er ráð fyrir 19 milljón króna afgangi af rekstri árið 2018 og verður svokallað veltufé frá rekstri 130 milljónir sem skapar svigrúm til framkvæmda. Skuldahlutfallið verður 110% sem er vel fyrir neðan þau 150% mörk sem sveitarstjórnarlög kveða á um og hefur þetta hlutfall lækkað jafnt og þétt undanfarin ár.

Nýr leikskóli

Stærsta verkefni næsta árs verður stækkun leikskólans Glaðheima við Hlíðarstræti en fyrsti áfangi þeirrar framkvæmdar mun kosta 75 milljónir. Þessi framkvæmd mun valda byltingu í aðbúnaði leikskólabarna í Bolungarvík og á skólinn eftir uppfylla þarfir samfélagsins um að taka inn yngri börn en gert er í dag ásamt því að hægt verður að fjölga barnafjölskyldum í bænum, en íbúum í Bolungarvík hefur fjölgaði á síðasta ári og vonir standa til að með uppbyggingu fiskeldis í Ísafjarðardjúpi muni íbúum halda áfram að fjölga. Gert er ráð fyrir að stækkun leikskólans fari í útboð í febrúar og að framkvæmdir geti hafist í sumarbyrjun.

Gatnaferð og fegrun umhverfis

Gatnagerð verður einnig fyrirferðarmikil í framkvæmdum næsta árs en um 40 milljónum verður varið í nýtt malbik á götur bæjarins. Þannig eiga íbúar í hverfinu fyrir ofan Stigahlíð eftir að sjá kærkomnar endurbætur á götum sínum en einnig verður haldið áfram að laga Hafnargötuna, Vitastíginn og neðsta hlutann af Höfðastíg auk þess sem kaflinn frá Grundargarði að Þuríðarbraut verður malbikaður. Jafnframt verður farið í aðrar framkvæmdir en þar ber helst að nefna  endurnýjun á stálþili Brimbrjótsins sem þó er háð fjárveitingum frá Hafnabótasjóði. Á meðal ánægjulegra mála sem bæjarstjórn hefur samþykkt með fjárhagsáætlun 2018 eru aukin framlög til fegrunar bæjarins og til menningarmála og æskulýðsmála. Einnig á að ráðast í aukið viðhald í grunnskólanum og tækjabúnaður í íþróttamiðstöðinni Árbæ verður endurnýjaður að stórum hluta.  Þá má geta þess að gjöld vegna hundahalds lækka verulega milli ára og eru nú á svipuðu róli og í nágrannasveitarfélögum.

Betri Bolungarvík

Að lokum er gaman að segja frá því að á nýju ári verður kynnt verkefnið „Betri Bolungarvík“ en það er verkefni sem gefur kost á auknu íbúalýðræði. Þannig munu íbúar geta komið fram með tillögur að framfaraverkefnum sem kosið verður um í rafrænni kosningu. Settur verður upp hugmynda- og kosningavefur á heimasíðu bæjarins og geta íbúar kosið þar um þau verkefni sem þeir vilja að fái framgang á árinu 2018.

Fjárhagsleg staða sveitarfélagsins hefur aldrei verið betri

Mikið átak hefur verið unnið síðustu ár í að koma fjárhag bæjarins í gott horf. Fjárhagsáætlun ársins 2018 gerir ráð fyrir að fjárhagsleg staða bæjarfélagsins haldi áfram að batna þrátt fyrir miklar framkvæmdir. Á undanförnum árum hefur skuldahlutfall lækkað verulega. Skuldir á hvern íbúa hafa lækkað og hefur endurgreiðslutími skulda sveitarfélagsins lækkað jafnt og þétt undanfarin ár. Heilt yfir eru allar kennitölur sem sveitarfélög miða við í rekstri sínum að batna og benda til að rekstur sveitarfélagsins er sífellt að verða betri. Ef áfram er haldið á sömu braut munu gefast enn meiri tækifæri í framtíðinni til að sækja fram og gera Bolungarvík að betri bæ.

Bolungarvíkin okkar er fegurst allra og hér finnst okkur best að búa. Með Betri Bolungarvík horfum við brosandi fram á veginn enda eru bjartir tímar framundan. Í Víkinni fögru liggja tækifærin og þau ætlum við okkur að nýta samfélaginu til hagbóta.

Með ósk um gleðileg jól og farsælt komandi ár.

Baldur Smári Einarsson

Formaður bæjarráðs Bolungarvíkur

Auglýsing
Auglýsing

FIMM ára ljósmyndarar

Mynd: Dagur Ernir frá Þingeyri

Árið 2006 dreifði Hálfdan Pedersen hundruðum einnota ljósmyndavéla til fimm ára leikskólabarna í öllum bæjar- og sveitarfélögum á Íslandi. Ætlunin var að hvetja ung börn til að prófa sig áfram með ljósmyndun og um leið fanga lífið með augum barna. Viðfangsefni myndanna var undir börnunum sjálfum komið. Hvert barn fékk einnota myndavél með 27 ramma filmu sem það mátti nota í viku. Afraksturinn varð yfir 30 þúsund ljósmyndir og hefur úrval þeirra birst á ljósmyndasýningum á Menningarnótt og Listahátíð í Reykjavík.

Nú 11 árum frá upphafi verkefnisins hafa verið valdar ljósmyndir sem prýða 215 síðna ljósmyndabók sem ber heitið FIMM. Ljósmyndarar bókarinnar eru 107 talsins og eru ljósmyndirnar teknar víðsvegar um landið. Sjónarhorn barnanna er listrænt en laust við tilgerð og veitir ómetanlega innsýn í raunveruleika fimm ára aldamóta barna á Íslandi.

500 krónur af hverri seldri bók rennur til Barnaspítala hringsins.

Meðfylgjandi myndir voru teknar af fimm ára vestfirskum börnum.

Mynd: Alex Bjartur frá Súðavík
Mynd: Þuríður frá Þingeyri
Mynd Anna Rakel frá Ísafirði

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir