Fimmtudagur 26. september 2024
Síða 210

Skrá verður stöðu kílómetramælis annars er sektað

Kílómetragjald á rafmagnsbíla, vetnisbíla og tengiltvinnbíla tekur gildi 1. janúar og fyrsti gjalddagi er 1. febrúar næstkomandi. Fjármála- og efnahagsráðherra lagði frumvarpið fram í nóvember og var það samþykkt á Alþingi fyrir jólafrí. Þetta kemur fram á heimasíðu skattsins ásamt öðum upplýsingum þessu máli tengdu.

Skattlagningin felur í sér að bifreiðaeigendurnir greiða 6 krónur á hvern kílómetra fyrir rafmagnsbíla og vetnisbíla. Greiða ber 2 krónur á hvern kílómetra fyrir tengiltvinnbíla. Greitt er mánaðarlega. Eigandi bifreiðarinnar er greiðandi nema þegar um eigna- eða fjármögnunarleigu er að ræða eins og í tilfelli rekstrarleigubíla. Þá er umráðamaður greiðandi gjaldsins. Upphæð kílómetragjalds miðast við meðalakstur bílsins en meðalakstur er reiknaður út frá síðustu tveimur skráningum á kílómetrastöðu.

Skylt er að skrá stöðu kílómetramælis fyrir 20. janúar 2024 samkvæmt upplýsingum frá Skattinum. Ef ekki verður 20 þúsund króna vanskráningargjald lagt á og greiðandi boðaður í álestur. Stöðu á kílómetramæli skal skrá að lágmarki einu sinni á ári en hægt er að skrá á þrjátíu daga fresti.

Boðið er upp á þrjár leiðir til að skrá kílómetrastöðuna. Tvær eru rafrænar. Annars vegar á mínum síðum á Ísland.is og hins vegar í Ísland.is-appinu. Þeir sem ekki hafa tök á því geta pantað tíma í sérstakan álestur hjá faggiltum skoðunarstofum eða fengið álesturinn í reglubundnu eftirliti.

Faggiltar skoðunarstofur eru þau fyrirtæki sem annast bifreiðaskoðun í landinu. Ef skattgreiðandanum verður það á að skrá ranga tölu er hægt að gera aðra skráningu sama dag og gildir þá síðari talan. Ef gera þarf leiðréttingar er einnig hægt að senda tölvupóst á netfangið island@island. is.

Ef ekki eru til tvær skráningar hjá skattgreiðandanum mun ríkisskattstjóri áætla meðalakstur. Hjá einstaklingum eru það 38 kílómetrar á dag.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar

Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar höfðu í nægu að snúast á á síðasta ári.

Árið 2023 voru 58214 mál á hendi stjórnstöðvarinnar vegna lögbundinna verkefna á sviði leitar, björgunar, eftirlits og löggæslu.


Langflest málin eða 33449 voru vegna skipa eða báta sem dottið höfðu úr sjálfvirkri tilkynningarskyldu.

Brottfall skipa úr sjálfvirkri tilkynningarskyldu krefst eftirfylgni og upplýsingaöflunar stjórnstöðvar innan 30 mínútna til að skera úr um hvort áhafnir eru í hættu. Sem betur fer er slíkt sjaldgæft en málin krefjast engu að síður inngripa að hálfu varðstjóranna.

Veðrið í Árneshreppi í desember

Yfirlit yfir veðrið frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík er tekið saman af Jóni G. Guðjónssyni.

Mæligögn:

Úrkoman mældist  63,7 mm. (í desember 2022: 30,9 mm.)

Úrkomu sem varð vart en mældist ekki var í 1 dag.

Þurrir dagar voru 12.

Mestur hiti mældist þann 13: +8,4 stig.

Mest frost mældist þann 30: -8,8 stig.

Meðalhiti mánaðarins var -1,2 stig. (í desember 2022: -1,7 stig.)

Meðalhiti við jörð var -4.71 stig. (í desember 2022: -5,12 stig.)

Alhvít jörð var í 29 daga.

Flekkótt jörð var í 2 daga.

Auð jörð var því í 0 dag.

Mesta snjódýpt mældist þann 24. 35 CM.

Yfirlit dagar eða vikur:

Úrkomulítið var fyrri hluta mánaðarins.

Eftir góðviðri og hægviðri fram til 12 desember gerði umhleypinga og var umhleypingasamt fram til nítjánda. Eftir það voru norðlægar vindáttir, N,NV, NA, með hvassviðri eða stormi með snjókomu eða éljum. Það stytti upp á jóladag.

Síðan byrjuðu él þann 27 með norðanátt, úrkomulaust var tvo síðustu daga mánaðar. Fallegt veður og hægur vindur var á gamlárskvöld.

Nýr slökkvi­bíll á Bíldudal

Slökkvi­liðið á Bíldudal fékk afhenta nýja og velútbúna slökkvi­bif­reið í desember síðast­liðnum.

Nýi bíllinn kemur til með að stytta viðbragðstíma slökkviliðsins og bæta starfsumhverfi og öryggi slökkviliðsmanna. Bíllinn leysir af 1983 árgerð af Magirus-Deutz sem keyptur var notaður frá Þýskalandi árið 2005. Sveitarfélagið fékk styrk frá Fiskeldissjóði upp í kaupin.

Bíllinn er af gerðinni Scania P500 4×4 og var breytt í slökkvibíl í Kielce í Póllandi af Moto Truck SP. Z O.O. Búnaður bílsins er veglegur en þar ber helst að nefna OneSeven froðuslökkvikerfi, 4000 lítra vatnstank ásamt tveimur 100 lítra froðutönkum. Á þaki bílsins er fjarstýrð dæla með myndavél, sjálfvirkar kastkeðjur eru við afturhjól, dráttarspil, 360° myndavélakerfi, klippur, rafstöð, fjórir reykköfunarstólar, hitamyndavél og margt fleira.

Á sunnanverðum Vestfjörðum er starfrækt slökkvilið á Patreksfirði, Tálknafirði og á Bíldudal, við útköll eru öll slökkviliðin kölluð út og því er mikilvægt að slökkviliðið hafi yfir að ráða öflugum bifreiðum til að lágmarka útkallstíma á milli fjarða, en um erfiða fjallvegi er að fara.

Elfar Steinn Karlsson og Valdimar Bernódus Ottósson, slökkviliðsstjóri.

Myndir: Vesturbyggð.

Fiskeldi: vantar ákvæði í reglugerð um ljósastýringu og neðansjávareftirlit

Frá laxeldi í Patreksfirði.
Frá laxeldi í Patreksfirði.

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra birti í nóvember á síðasta ári í samráðsgátt stjórnvalda drög að breytingu á reglugerð um fiskeldi. Er þar lagt til að bæta við reglugerðina ákvæðum um ljósastýringu og neðansjávareftirlit. Segir að rekstrarleyfishafi skuli við eldi frjórra laxa í sjókvíaeldi tryggja að lax verði ekki kynþroska á eldistíma og sé skylt til þess að viðhafa neðansjávareftirlit með ástandi netpoka á a.m.k. 30
daga fresti. Sé laxinn orðinn 4 kg að þyngd verði neðansjávareftirlitið skylt á sjö daga fresti. Þá er í þriðja lagi lagt til að bæta við ákvæðum um tíðni og umfang lúsatalningar.

Með því að bæta þessum ákvæðum við reglugerðina verður brot á þeim refsivert samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar og getur Matvælastofnun þá beitt eftir atvikum dagsektum eða stjórnvaldssektum.

Benda þessar breytingartillögur á reglugerðinni til þess að það skorti nú heimildir til að beita refsingum ef út af ber við ljósastýringu og neðansjávareftirlit.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, sem gæta hagsmuna fiskeldisfyrirtækja, gera ekki ágreining um breytingarnar að öðru leyti en því að þær gangi of langt og vilja milda tillögurnar. Ekki sé raunhæft að skylda rekstraraðila til þess að enginn lax verði kynþroska og vill frekar orða ákvæðið þannig að skylda verði til að halda hlutfalli kynþroska laxa í lágmarki á eldistíma. Varðandi neðansjávareftirlitið vill SFS hafa það en ekki eins títt og benda á að samkvæmt upplýsingum sem SFS hafi aflað frá samtökum fiskeldisframleiðenda í Noregi, Færeyjum og Skotlandi sé hvergi annarsstaðar að finna dæmi þess að viðhaft sé svo títt neðansjávareftirlit. Vísa þau til upplýsinga frá Fiskistofu Noregs sem benda til þess að það auki hættuna á stroki og vilja frekar taka upp skyldu á neðansjávareftirliti eftirliti við tilteknar aðstæður.

Umsagnarfresti lauk 12. desember sl. en reglugerðinni hefur ekki enn verið breytt.

Strandabyggð: sameining sveitarfélaga ekki lausnin

Þorgeir Pálsson er oddviti og sveitarstjóri í Strandabyggð.

Þorgeir Pálsson oddviti og sveitarstjóri í Strandabyggð segir í áramótakveðju sinni að sameining sveitarfélaga sé ekki lausnin sem tryggi framtíð sveitarfélagsins. Með sameiningu fáist fjármagn en það dugi aðeins í skamman tíma. Eftir standi að auknar tekjur séu eina leiðin til eflingar sveitarfélagsins. 

„Mikið er rætt um sameiningar sveitarfélaga sem vissa lausn.  Og það er vissulega rétt að með sameiningu fæst opinbert fjármagn til skuldajöfnunar og innviðauppbygginar, sem getur sannarlega hjálpað í vissan tíma.  En, það sem ekki fæst með sameiningu, eru þær forsendur sem framtíð sveitarfélagsins þarf að byggja á.  Sameinignarfjármagnið klárast og þá eru eftir sömu tekjuliðir og áður, sömu gjaldaliðir, nánast sama fámennið og sama innviðaskuldin, sjálfsagt eitthvað lægri.  Sameining sameiningarinnar vegna er því ekki lausnin.  Það er ekkert betra að berjast í bökkum í eitt til tvö þúsund manna samfélagi eða nokkur hundruð manna samfélagi.“

Þorgeir segir að það komi engar töfralausnir, enginn bjargvættur eða einskiptis lausn.  „Við verðum að finna lausnina sjálf.  Við verðum að ákveða hvernig samfélag við viljum í Strandabyggð og vinna síðan markvisst og samstíga að því að raungera þá mynd.  Það gerir það enginn fyrir okkur.“

Hann vísar málinu til stjórnvalda og segir það hafa legið á borði þeirra lengi.

„Hvernig á landsbyggðin að lifa af, eflast og stækka?  Hvernig á að fá fagfólk út á land til kennslu?  Hvernig á að efla ferðaþjónustu ef ekki koma til nauðsynlegar vegaframkvæmdir?  Hvernig á að tryggja öryggi þeirra sem vilja búa úti á landi, ef vetrarþjónusta á vegum, fjarskiptamál og heilbrigðisþjónusta er ekki í samræmi við þarfir íbúa?“

 

Bolungavíkurhöfn: 13.677 tonna afli á síðasta ári

Frá Bolungavíkurhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í desember sl. var landað 1.513 tonnum af bolfiski í Bolungavíkurhöfn.

Togarinn Sirrý ÍS var aflahæst með 596 tonn í sjö veiðiferðum.

Þrír snurvoðabátar lönduðu í mánuðnum samtals 480 tonnum. Ásdís ÍS var með 123 tonn, Þorlákur ÍS kom með 106 tonn og Bárður SH aflaði 251 tonn.

Þrír línubátar lögðu upp í Bolungavíkurhöfn í desember. Fríða Dagmar ÍS var með 212 tonn eftir 18 sjóferðir, Jónína Brynja ÍS 215 tonn en eftir 19 róðra og Indriði Kristins BA landaði 11 tonnum eftir eina útilegu.

22 þúsund tonn í heildina

Á árinu 2023 var samkvæmt tölum Fiskistofu landað 13.677 tonnum af bolfiski. Auk þess var landað um 8.000 tonnum af eldislaxi til slátrunar í Drimlu, sláturhúsi Arctic Fish. Tölur fyrir desember liggja ekki fyrir svo endanleg tala fyrir laxinn er ekki tiltæk.

Í heildina er þó ljóst að meira en 20 þúsund tonn af afla og eldisfiski var landað í Bolungavíkurhöfn á síðasta ári, líklega nálægt 22 þúsund tonn.

Orkubú Vestfjarða: brennir 3,4 milljónir lítra af olíu á árinu

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri.

Vegna orkuskorts stefnir í að Orkubú Vestfjarða muni brenna 3,4 milljónum lítra af olíu á þessu ári. Orkubúið er með samninga við Landsvirkjun um orkukaup. Landsvirkjun er heimilt að skerða afhendingu á rafmagni vegna lágrar stöðu vatns í uppistöðulónum, á móti fær Orkubúið rafmagnið á lægra verði. Nú hefur Landsvirkjun tilkynnt um að gripið verði til þessa ákvæðis. Orkubúið verður þá að framleiða rafmagn með því að brenna olíu og ber kostnað af því.

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri greinir frá því í aðsendri grein í Morgunblaðinu í gær að fyrirsjáanlegt sé að olíunotkunin fari í 3,4 milljónir lítra á nýbyrjuðu ári en í fyrra var hún 220 þúsund lítrar. Aukning í
losun gróðurhúsalofttegunda verður þá 9.200 tonn segir Elías. Það jafngildi ársnorkun 4.000 fólksbifreiða sem aka 15 þús. km/ári og eyða 5,5 l/100 km.

Útlit er fyrir að 20-30% orkunnar í hitaveitum á Vestfjörðum muni eigi uppruna sinn í olíu, en í venjulegu árferði sé hlutfallið um 3%.

520 m.kr. aukakostnaður

Elías segir að það stefni í skerðingar á afhendingu orku frá Landsvirkjun frá og með 19. janúar 2024, sem geti staðið til 30. apríl eða í 103 sólarhringa.

Kostnaður Orkubúsins vegna skerðingarinnar stefni í um 520 milljónir króna, sem jafngildir 74 þús. krónum á hvern Vestfirðing.

Elías Jónatansson segir þetta ástand algerlega óviðunandi og segir að að taka þurfi ákvarðanir um virkjanir fljótlega.

Þuríður sundafyllir ÍS 452

Línuveiðarinn Þuríður sundafyllir ÍS 452 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby í Englandi árið 1922 fyrir Pickering & Haldane Steam Trawling Co Ltd í Hull. 98 brl, 38 nt. 200 ha. 2 þenslu gufuvél.

Hét áður Coutea. 26,9 x 5,80 x 2,92 m. Smíðanúmer 763. Eigendur voru Sigurður Þorvarðsson og Þorvarður Sigurðsson í Hnífsdal frá 25 apríl 1925.

Þuríður var einn þriggja línuveiðara sem keyptir voru af Pickering & Haldane í Hull vorið 1925. Hinir voru Fróði ÍS 454 ex Myrica og var í eigu Jóhanns J. Eyfirðings & Co á Ísafirði og Hafþór ÍS 453 ex Silene og var í eigu Magnúsar Thorberg í Reykjavík.

Skipið var selt 28 maí 1927, Ludvig C Magnússyni og Ingvari Benediktssyni í Reykjavík, hét þá Þuríður sundafyllir RE 271. Selt 31 desember 1930, h/f Fjölni í Reykjavík, skipið hét Fjölnir RE 271. Skipið var selt 7 mars 1933, h/f Fjölni á Þingeyri, hét Fjölnir ÍS 7.

Skipið var lengt og endurbætt árið 1941, sett var á það hvalbakur, bátapallur og nýtt stýrishús. Mældist þá 123 brl. 30,14 x 5,80 x 2,83 m.

Fjölnir fórst á leið frá Íslandi til Englands fullhlaðinn fiski, hinn 9 apríl árið 1945 eftir árekstur við breskt skip, Lairdsgrove, undan ströndum Írlands. Fimm skipverjar fórust en fimm skipverjum var bjargað um borð í breska skipið.

Af vefsíðunni thsof.123.is

Sex fá styrk vegna vetrarólympíuleikana á Ítalíu 2026. 

Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, Kristrún Guðnadóttir, Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir, Dagur Benediktsson og Jónas Egilsson, framkvæmdastjóri Skíðasambands Íslands

Fimmtudaginn 28. desember fór fram undirritun samninga vegna Ólympíusamhjálparinnar við Skíðasamband Íslands og íþróttafólk þeirra vegna undirbúnings fyrir vetrarólympíuleikana í Mílanó og Cortina á Ítalíu 2026. 

Um er að ræða mánaðarlega styrki, að upphæð 1250 USD (Um 170,000 KR) til sex einstaklinga vegna kostnaðar við æfingar, keppnir og ferðalög. 

Styrkþegar Ólympíusamhjálparinnar vegna vetrarólympíuleikanna í Mílanó og Cortina 2026 eru:  

Bjarni Þór Hauksson – keppandi í alpaskíðum
Dagur Benediktsson – keppandi í skíðagöngu
Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir – keppandi í alpaskíðum
Kristrún Guðnadóttir – keppandi í skíðagöngu 
Matthías Kristinsson – keppandi í alpaskíðum

Vildís Edwinsdóttir – keppandi í snjóbrettum

Nýjustu fréttir