Föstudagur 1. nóvember 2024
Síða 21

Áhrif orkuskipta á vestfirskar hafnir í Vísindaporti

Í vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða þann 11.október mun Þorsteinn Másson halda erindi sem nefnist „Áhrif orkuskipta á vestfirskar hafnir“.

Orkuskipti í sjávartengdri starfsemi munu hafa veruleg áhrif á orkuþörf, innviði og skipulag hafna. Þetta á sérstaklega við um hafnir á norðlægum slóðum sem byggja afkomu sína á sjávartengdri starfsemi. Þorsteinn Másson framkvæmdastjóri Bláma fer yfir möguleg áhrif, áskoranir og tækifæri sem fylgja þessari þróun.

Þorsteinn Másson er menntaður vélstjóri og viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri. Þorsteinn er með bakgrunn úr sjávarútvegi og fiskeldi og hefur verið framkvæmdastjóri Bláma í 3 ár.

Erindið fer fram á kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða og hefst kl. 12.10.

Erindinu er streymt í gegnum zoom hlekk og má finna hann hér :https://eu01web.zoom.us/j/69947471079

Ísafjarðarbær: Skrefagjald frá 1. október

Vinnuaðstæður sorphirðufólks geta oft verið snúnar og er 10 m viðmiðið liður í að bæta úr því eins og kostur er.

Frá og með 1. október 2024 verður innheimt svokallað skrefagjald vegna sorphirðu.

Ísafjarðarbæ er heimilt að innheimta skrefagjald ef draga þarf sorpílát lengra en 10 metra að lóðarmörkum til losunar í hirðubíl.

Þessar breytingar voru samþykktar í bæjarstjórn í september 2023 en ákveðið að fresta innleiðingu ákvæðisins til að gefa íbúum sumarið í sumar til að bregðast við ef breytingarnar kalla á verklegar framkvæmdir.

Tilgangur þessarar breytingar er fyrst og fremst að bæta vinnuaðstæður sorphirðufólks og stytta þann tíma sem tekur að losa heimilissorp. 

Skrefagjaldið er samkvæmt gjaldskrá 50% álag á hvert ílát sem þýðir að hefðbundið 240 lítra ílát fyrir almennan úrgang með innra hólfi fyrir lífrænan úrgang hækkar úr 25.700 kr. á ári í 38.550 kr. á ári eða um 12.850 kr á ári.

Fjórðungsþing: vilja Álftafjarðargöng strax

Grjóthrun á Súðavíkurhlíð. Mynd: Þorsteinn Haukur Þorsteinsson.

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps hefur lagt fram tillögu um Álftafjarðargöng sem verður tekin fyrir á Fjórðungsþingi Vestfirðinga seinna í október. Þingið verður haldið á Laugarhóli í Bjarnarfirði agana 18. og 19. október n.k.

Í tillögunni segir að brýnt sé að hraða framkvæmdum vegna Álftafjarðarganga milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar með vísan til umferðaröryggis og lagt er til að hafist verði handa við undirbúning strax vorið 2025. Þannig megi flýta framkvæmdum sem gætu hafist án tafar þegar unnt er að ráðast í gerð jarðganga.

Þá segir að Álftafjarðargöng séu sem stendur fyrsti kostur í jarðgangagerð á Vestfjörðum samkvæmt drögum að samgönguáætlun (nr. 5 af þeim 10 kostum sem þar er að finna) sem liggur í meðförum
alþingis og því brýnt að leggja áherslu á þann kost óháð því að þörf er á fara í fleiri jarðgangakosti í fjórðungnum.

Í greinargerð sem fylgir með tillögunni segir að ósamstaða innan Vestfjarða og ákvarðanir á
Alþingi hafi ýtt Álftafjarðargöngum aftar í forgangsröðun og tafið fyrir úrbótum á þessum hættulega
vegarkafla sem er farartálmi allan ársins hring.

„Sú stefna hefur verið tekin af umhverfis- og samgöngunefnd alþingis að setja umferðaröryggi framar þegar kemur að forgangsröðun jarðganga og leysa þannig af hólmi hættulega vegi sem örðugt er eða ómögulegt að leysa með öðrum kosti. Þeir þættir varða beint Súðavíkur- og Kirkjubólshlíð þegar kemur að umferðaröryggi. Því er mikilvægt að 69. fjórðungsþing Vestfirðinga sameinist um ályktun sem varðar þessar löngu brýnu úrbætur.“

einn hættulegasti vegarkafli landsins

Ennfremur segir í greinargerðinni: „Um er að ræða jarðgangakost sem hefur það að markmiði að leysa af hólmi láglendisveg sem metinn hefur verið einn sá hættulegasti á landinu með fyrirséðum
samgöngutruflunum ár hvert vegna grjóthruns og snjóflóða. Vetur hvern má gera ráð fyrir yfir 20 lokunum vegna snjóflóða og snjóflóðahættu og hafa slíkar lokanir jafnvel orðið hátt á 5. tug á ári. Undanfarnir vetur hafa verið mildir hvað varðar snjóþunga, en veturinn 2020 voru um 40 lokanir á Súðavíkurhlíð fyrstu 3 mánuði ársins á 90 dögum. Þá er ótalin sú truflun á daglegu lífi þeirra sem nota þurfa veginn, af sms sendingum Vegagarðarinnar þar sem gert er ráð fyrir hættu á snjóflóðum og vegna hugsanlegra lokana á veginum.“

Piff hefst á morgun – 30 erlendir gestir

Von er rúmlega 30 gestum á alþjóðlegu kvikmyndahátíðina PIFF (Pigeon International Film Festival) sem hefst á Ísafirði á morgun, fimmtudag. Koma þeir frá flestum heimshornum svo sem Póllandi, Íran, Íslandi og Írlandi. Einn þeirra er John Farrelly, leikstjóri og handritshöfundur hryllingsmyndarinnar An Taibhse sem sýnd er í Ísafjarðarbíói kl. 20 á fimmtudagskvöld. „Það er okkur mikill heiður að kynna An Taibhse á PIFF á Ísafirði, hátíð sem er þekkt fyrir að fagna áberandi og kraftmiklum kvikmyndaröddum. Þetta tækifæri hefur sérstaka þýðingu þar sem það merkir ekki aðeins mikilvæga stund í írskri kvikmyndagerð heldur dregur einnig fram viðvarandi tengsl Írlands og Íslands,“ segir John.

„Írska tungan, sem er forntunga okkar frumbyggja, var næstum glötuð eftir aldalangt landnám Breta, þar sem reynt var að eyða menningarlegri sjálfsmynd okkar. Hins vegar höfum við barist fyrir því að endurvekja og endurheimta tungumálið okkar og í dag erum við vitni að endurreisn kvikmynda á írsku, þar sem Taibhse er fyrsta hryllingsmyndin sem gerð hefur verið algjörlega á okkar móðurmáli. Við erum mjög stolt af því að koma með An Taibhse til Ísafjarðar, ekki baratil að fagna þessari sameiginlegu arfleifð. Við erum einnig ótrúlega stolt af því að leggja okkar af mörkum til vaxandi fjölda kvikmynda á írsku og deila þessu starfi með landsmönnum og alþjóðasamfélaginu hjá PIFF.“

John segir söguleg tengsl á milli Írlands og Íslands vera mjög þýðingarmikil þótt þau séu oft vanmetin. „Talið er að írskir munkar, þekktir sem Papar, hafi komið til Íslands á undan norrænum landnámsmönnum og skilið eftir sig ummerki um veru sína í sögunum og örnefnum. Að auki innihalda Íslendingasögurnar tilvísanir í Íra, sem undirstrika enn frekar sameiginlega sögu okkar. Þessi tengsl minna okkur á langvarandi menningarsamskipti þjóða okkar.

John segist hlakka til að eiga samskipti við áhorfendur hátíðarinnar og skoða fallegt landslag Ísafjarðar. „Við erum sérstaklega ánægð með að vera hluti af PIFF vegna hollustu hátíðarinnar við að sýna kvikmyndir sem þrýsta á mörk og kanna nýjar frásagnir. Einstök umgjörð Ísafjarðar og orðspor hátíðarinnar fyrir að hlúa að innilegu og grípandi andrúmslofti gera hana að fullkomnum stað til að sýna An Taibhse. Skuldbinding PIFF við að fagna fjölbreyttum röddum og efla menningarsamræður samræmist fullkomlega markmiði okkar um að koma kvikmyndagerð á írsku yfir á heimssviðið. Við erum spennt að taka þátt í röð kvikmynda sem eiga örugglega eftir að hvetja, ögra og hljóta hljómgrunn hjá áhorfendum alls staðar að úr heiminum.“

Sýningar PIFF fara fram í Ísafjarðarbíói og kaupfélaginu í Súðavík frá fimmtudegi til sunnudags. Dagskrá hátíðarinnar má finna á piff.is og frítt er inn á allar sýningar.

Fullkomlega óskiljanlegt

Tólf prósent kjósenda myndi greiða Sjálfstæðisflokknum atkvæði sitt ef gengið yrði til þingkosninga nú miðað við skoðanakönnun Prósents sem birt var í Morgunblaðinu um síðustu helgi. Á sama tíma myndu 18% kjósa Miðflokkinn. Þessi þróun hefur verið í gangi um hríð en þó einkum undanfarnar vikur þar sem ekki er hægt að segja annað en að fylgi Sjálfstæðisflokksins hafi hreinlega hrunið á skömmum tíma.

Vafalítið hefur sitthvað spilað inn í fylgishrun Sjálfstæðisflokksins en eitt mál hefur þó verið einna helzt áberandi undanfarnar vikur. Önnur tilraun Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, utanríkisráðherra og varaformanns flokksins, til þess að reyna að koma frumvarpi í gegnum þingið sem myndi festa í lög að innleitt regluverk frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn yrði æðra innlendri lagasetningu.

Miðað við könnun Prósents sem birt var á mánudaginn eru 72% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins andvíg frumvarpi Þórdísar af þeim sem taka afstöðu með eða á móti. Hið sama er til dæmis að segja um stuðningsmenn Framsóknarflokksins þar sem hlutfallið er 66%. Mest er andstaðan í röðum stuðningsmanna Miðflokksins eða 79% sem hinir flokkarnir tveir hafa ljóslega misst mikið fylgi til undanfarnar vikur.

Verði frumvarp Þórdísar að lögum verður til ný forgangsregla í íslenzkum rétti. Ólíkt þeim forgangsreglum sem þegar eru fyrir hendi hér á landi þegar almenn lagasetning er annars vegar, þar sem yngri lög ganga fyrir þeim sem eldri eru og sértækari lög fyrir almennari, mun nýja reglan miðast við það eitt og aðeins eitt að um sé að ræða innleiðingu á regluverki frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn.

Ekki var hægt að ganga lengra

Með frumvarpinu stendur til að breyta því fyrirkomulagi sem notað var varðandi innleiðingu bókunar 35 við EES-samninginn þegar hann var lögfestur fyrir rúmum 30 árum síðan sem var ætlað að sjá til þess að málið bryti ekki í bága við stjórnarskrána. Ófáir lögspekingar hafa bent á það að bókunin standist ekki stjórnarskrána þar sem hún kveði á um framsal löggjafarvalds sem sé ekki heimilt samkvæmt henni.

Til að mynda má nefna skrif Markúsar Sigurbjörnssonar, fyrrverandi forseta Hæstaréttar, í afmælisriti EFTA-dómstólsins árið 2014 þar sem hann benti á að einföld ástæða væri fyrir því að bókun 35 hefði verið innleidd með þeim hætti sem raunin varð, með 3. grein laga um Evrópska efnahagssvæðið, þó hvergi væri þar minnst á forgang regluverks. Bókun 35 sem slík bryti einfaldlega í bága við stjórnarskrána.

„Staðreyndin er hins vegar sú að ekki var mögulegt að ganga lengra innan þess ramma sem stjórnarskrá Íslands setur. Stjórnarskráin gerir hvorki ráð fyrir því að takmarka megi fullveldi lýðveldisins með framsali löggjafarvalds til alþjóðastofnana né að landslög, sem byggjast á alþjóðlegum skuldbindingum eins og EES-samningnum, geti eingöngu af þeim sökum öðlast ríkari stöðu en önnur almenn löggjöf,“ segir Markús.

„Með öðrum orðum gerir stjórnarskráin ekki ráð fyrir því að árekstur á milli ákvæða almennra laga verði leystur með öðrum hætti en beitingu viðurkenndra lögskýringarreglna og veitir löggjafanum hvorki vald né svigrúm til þess að veita tilteknum almennum lögum alfarið forgang gagnvart öðrum.“ Ólíkt gildandi forgangsreglum myndi nýja reglan ná til tiltekinna laga en ekki einungis aldurs og eðlis þeirra óháð uppruna.

Jól Miðflokksins koma snemma

Margir aðrir lögspekingar hafa sem fyrr segir lýst sömu eða hliðstæðum sjónarmiðum í gegnum tíðina. Þar á meðal Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor og helzti sérfræðingur landsins í Evrópurétti, og Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari. Sömuleiðis Björn Þ. Guðmundsson lagaprófessor og Guðmundur Alfreðsson, sérfræðingur í þjóðarétti, í aðdraganda lögfestingar EES-samningsins.

Mjög langur vegur er einfaldlega frá því að helztu lögspekingar landsins séu einróma í þeirri afstöðu að rétt sé að frumvarp Þórdísar verði að lögum þrátt fyrir fullyrðingar um annað. Þvert á móti er ljóst að málið er og hefur verið afar umdeilt í röðum þeirra. Það var einfaldlega ekki að ástæðulausu að bókun 35 var innleidd með þeim hætti sem raunin varð. Annars hefðum við ekki orðið aðilar að EES-samningnum.

Fullkomlega óskiljanlegt er að keyra eigi frumvarp Þórdísar í gegnum Alþingi þegar fyrir liggur að mikil andstaða er við það ekki sízt í röðum okkar sjálfstæðismanna. Ekki getur beinlínis talizt skynsamlegt fyrir forystu Sjálfstæðisflokksins að fara í slag við sitt eigið fólk á kosningavetri og þegar fylgi streymir í ofanálag frá flokknum miðað við kannanir. Eða eins og einn sagði við mig: Jól Miðflokksins koma snemma.

Hins vegar er leið út úr þessum aðstæðum. Taka aftur upp varnir í málinu eins og gert var árum saman þar til því var skyndilega hætt án skýringa. Færi málið fyrir EFTA-dómstólinn lægi niðurstaða ekki fyrir fyrr en eftir kosningar. Málið verður ekki verra en með þeirri fyrirfram uppgjöf sem felst í frumvarpinu. Með dómstólaleiðinni yrðu stjórnarflokkarnir skornir úr snörunni og möguleiki yrði á hagfelldri niðurstöðu.

Hjörtur J. Guðmundsson er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).

Strandabyggð: vantrauststillagan felld

Þorgeir Pálsson er oddviti og sveitarstjóri í Strandabyggð.

Tillaga Matthíasar Lýðssonar um vantraust á Þorgeir Pálsson, oddvita var tekin fyrir í gær á fundi sveitarstjórnar. Tillagan var felld með þremur atkvæðum T listans gegn tveimur atkvæðum A listans.

Fulltrúar A listans, Mtthías Lýðsson og Hlíf Hrólfsdóttir lögðu fram bókun og segja þar að greinargerð KPMG hafi hrakið ásakanir Þorgeirs Pálssonar og Hrafnhildar Skúladóttur í garð Jóns Jónssonar fyrrverandi sveitarstjórnarmanns og mæltust þau til þess að þau bæðust afsökunar á ásökunum sínum.

Matthías Lýðsson sagði í samtali við Bæjarins besta að ekki hafi verið orðið við þessum tilmælum en að fulltrúar úr meirihlutanum hefðu tekið munnlega undir bókunina.

Einn sveitarstjórnarmaður meirihlutans, Óskar Hafsteinn Halldórsson, tilkynnti á fundinum að hann myndi senda inn fyrir næsta fund formlega beiðni um lausn frá störfum í sveitarstjórninni.

Að sögn Matthíasar voru um 20 manns viðstaddir sem fylgdust með fundinum.

Lagarlíf: liðlega 700 manns á ráðstefnu um fiskeldi

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra flytur ávarp sitt.

Á áttunda hundrað manns eru skráðir á ráðstefnu Strandbúnaðar um eldi og ræktun sem hófst í Hörpu í gær og stendur fram eftir degi í dag. Félag um ráðstefnuna var stofnað 2016 er skráð á Ísafirði. Framkvæmdastjóri er Gunnar Þórðarson, Ísafirði.

Tilgangur félagsins er að stuðla að faglegri og fræðandi umfjöllun um strandbúnað og styðja þannig við menntun, rannsóknir,  þróun og stefnumótun greinarinnar. Félagið er ekki hagsmunasamtök einstakra hópa og vinnur ekki að hagsmunagæslu.

Ráðstefnan var að þessu sinni flutt í Hörpu vegna vaxandi aðsóknar og að sögn Gunnars Davíðssonar, eins stjórnarmanna, hafa þátttakendur aldrei verið fleiri.

Jens Þórðarson, stjórnarformaður setti ráðstefnuna og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra flutti að því loknu ávarp.

Í gær voru flutt 25 erindi í fimm málstofum. Fjallað var um bæði landeldi og sjókvíaeldi, farið yfir áskoranir sem eldið glímir við svo sem umhverfismál og velferð og heilsu fiska. Erindi voru flutt um markaðsmál, eftirlit með eldinu og þróun eldisins og vaxtarmöguleika þess.

Stofnuð voru samtökin konur í eldi og leiddi Vestfirðingurinn Eva Dögg Jó­hann­es­dótt­ir stofn­un nýja fé­lags­ins.

Í dag verða einnig fimm málstofur með miklum fjölda erinda. Í einni málstofunni gera vestfirsku eldisfyrirtækin fimm grein fyrir starfsemi sinni.

Sigurður Jökull Ólafsson, stjórnarformaður Cruise Iceland, Guðrún Anna Finnbogadóttir, Vestfjarðastofu og Gerður Björk Sveinsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð eru á ráðstefnunni.

Menntaskólinn á Ísafirði kynnir nám sitt tengt fiskeldinu á ráðstefnunni. Heiðrún Tryggvadóttir, skólameistari og Sigríður Gísladóttir, kennari við M.Í.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Svartiskógur: 785 m.kr. hagnaður í fyrra

Einkahlutafélagið Svartiskógur á Ísafirði hagnaðist í fyrra um 785 m.kr. Uppistaðan í tekjum fyrirtækisins vrou fjármagnstekjur sem námu 754 m.kr.

Eignir félagsins voru um síðustu áramót 797 m.kr. Þar af var verðbréaeign 258 m.kr. og handbært fé 491 mkr.

Eigendur Svarataskógs eru Dóra Hlín Gísladóttir og Hálfdán Bjarki Hálfdánsson.

Ekki er gerð frekari grein fyrir tekjunum í ársreikningi félagsins, en líklegt er að um sé að ræða hagnað af sölu hlutabréfa í Kerecis.

Lögreglan Vestfjörðum: ekki sektað vegna nagladekkja

Hlynur Hafberg Snorrason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vestfjörðum segir að ökumenn á nagladekkjum verði ekki sektaðir þótt þeir láti setja nagladekk undir bílinn fyrir 1. nóvember.

„Veður og færð er orðið með þeim hætti að eðlilegt er að gæta öryggis með þessum hætti að hafa hjólbarða sem eiga við, neglda sem óneglda vetrarhjólbarðarða.“

Í gær var greint frá því að lögreglan á Suðurlandi hefði tilkynnt að ekki yrði sektað þótt nagladekkin færu undir fyrir mánaðamót.

Þjóðin og valdið – Fjölmiðlalögin og Icesave

Í forsetatíð sinni hélt Ólafur Ragnar Grímsson ítarlegar dagbækur, skráði frásagnir af atburðum og samræðum við ráðherra og forystufólk. Nú hefur hann gefið út bók sem nefnist Þjóðin og valdið – Fjölmiðlalögin og Icesave.

Skrifin voru eins konar samtal hans við sjálfan sig, leit að ráðgjöf í eigin huga. Penninn tæki í glímunni við erfið vandamál og göngustafur á leið til ákvarðana. Þessar dagbækur eru því einstæð heimild.

Átökin um fjölmiðlalögin og Icesave mörkuðu þáttaskil, hin síðari þau mestu í nútímasögu Íslendinga; snerust um efnahagslegt sjálfstæði jafnvel fullveldi þjóðarinnar. Forsetinn stóð í örlagasporum og engar ákvarðanir þjóðhöfðingjans hafa verið jafn erfiðar.

Hver átti að ráða: Alþingi, ríkisstjórn eða þjóðin? Fjölmiðlar um allan heim fylgdust náið með úrslitunum. Atburðarásin varðaði braut að nýju lýðræði og breytti vitund um stjórnskipun landsins.

Frásagnir forsetans veita hér óvænta sýn og lærdóma til framtíðar.

Nýjustu fréttir