Miðvikudagur 14. maí 2025
Heim Blogg Síða 21

Leikhúspáskar í Kómedíuleikhúsinu

Frá sýningu á Dimmalimm.

Kómedíuleikhúsið í Haukadal Dýrafirði, dalnum þar sem engin býr, tekur að vanda þátt í páskahátiðinni fyrir vestan. Á fjölunum verða tvær leiksýningar úr smiðju leikhússins. Fjölskylduleikritið ástsæla og alvestfirska Dimmalimm eftir Bílddælinginn Mugg hefur notið gífurlegra vinsælda frá því það var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu árið 2019. Dimmalimm verður sýnt á Skírdag fimmtudaginn 17. apríl kl.14.00 og einnig á laugardag 19. apríl kl.14.00.

Sýning sumarsins liðna í Kómedíuleikhúsinu Haukadal var Ariasman. Um er að ræða sögulegt og blóðugt leikverk er fjallar um hin hrottalegu Baskamorð fyrir vestan. Ariasman hefur hlotið afbragðs góðar viðtökur og var nú síðast sýnt tvívegis fyrir uppseldu Tjarnarbíó í Reykjavík.

Miðasala á sýningar leikhúspáska Kómedíuleikhússins stendur yfir í síma 891 7025. Einnig er hægt að kaupa miða á miðasöluvefnum midix.is.

Fra´sýningu á ariasman.

Auglýsing

Sjótækni sækir um aðstöðu í Bolungavík

Kort sem sýnir svæðið sem sótt er um.

Sjótækni hefur sótt um aðstöðu á Sandinum í Bolungavík. Vill fyrirtækið fá afnot af svæðinu meðan önnur starfsemi er ekki á svæðinu og byggingar ekki áætlaðar. Svæðið er mikið útivistasvæði bæjarbúa, og segir í erindi Sjótækni að ósk þess sé að halda því þannig. „Með því að Sjótækni taki það til sín og fái að hafa starfsemi, hyggst Sjótækni einnig ganga vel frá þeim verkefnum sem það vinnur að hverju sinni“ segir í erindinu.

Fram kemur að Sjótækni væri tilbúið að gera betra aðgengi fyrir bæjarbúa með því að setja bekki til að tylla sér á og horfa út á haf á svæðinu.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri segir bæjarráð jákvætt fyrir þessari starfsemi og það vilji gjarnan vinna með fyrirtækinu að þessari þjónustu og stuðningi við fiskeldið á Vestfjörðum.

„En eins og með margt í lífinu, þá er landnæði takmörkuð gæði og það þarf að skoða vandlega að þessi starfsemi fari saman með aðra hagsmuni á svæðinu. Þetta svæði er deiliskipulagt og það er talsverður áhugi á lóðum fyrir iðnað í Bolungarvík. Svo er Sandurinn útivistarparadís og mikið nýttur sem slíkur meðal íbúa. Svo er næsta nágrenni griðarstaður ýmissa fuglategunda og svo mætti áfram telja.

En ég veit að Sjótækni er meðvitað um þessa stöðu og ég  upplifi mikill vilja hjá fyrirtækinu að vinna með hagsmunaaðilum þannig að hægt sé að vinna þetta í sátt við alla hagsmunaaðila.“

Auglýsing

Skíðavikan sett í dag

Skíðavikan á Ísafirði verður sett í dag kl 17 á Silfurtorgi.

Að venju verður sprettgangan aðalatriðið en auk þess mun lúðrasveit Tónlistarskólans leika nokkur lög og seldar verða veitingar.

✨ Lúðrasveit TÍ
✨ Lifandi tónlist
✨ Kakó- og pönnsusala SFÍ
✨ Plötusnúðar
✨ Sprettgangan

Dagskrá Skíðavikunnar er á www.skidavikan.is.

Frá setningunni 2022, sem einnig fór fram á Silfurtorgi.

Auglýsing

Ríkis­saksóknari: lands­samband veiði­félaga fær ekki aðgang að gögnum rannsóknar á slysa­sleppingu

Gunnar Örn Petersen, framkvæmdastjóri landssambands veiðifélaga fær ekki aðgang að gögnum málsins.

Landssamband veiðifélaga krafðist þess í byrjun árs að lögreglustjórinn á Vestfjörðum afhenti sambandinu, sem telur sig aðila málsins, öll gögn rannsóknar embættisins á slysasleppingu í Patreksfirði í ágúst 2023 úr kví Arctic Fish. Lögreglustjórinn hafnaði kröfunni og var sú ákvörðun kærð til Ríkissaksóknaraembættisins.

Niðurstaða Ríkissaksóknara var að ekki væri unnt að líta svo á að félagið hafi stöðu brotaþola skv. lögum um meðferð sakamála og eigi því ekki rétt á afhendingu gagnanna á þeim grundvelli. En brotaþoli er skv. þeim lögum sá sem hefur orðið fyrir misgjörð vegna afbrots. Var þar með ákvörðun lögreglustjórans á Vestfjörðum um að synja um aðgang að gögnunum staðfest.

Landssambandið visaði einnig til þess að það væri aðili máls þar sem það gætti hagsmuna allra veiðifélaga á landinu. Ríkissaksóknari segir um það atriði að ekki hafi verið sýnt fram á að félagið hafi slíkra lögvarinna hagsmuna að gæta að það eigi rétt á að fá aðgang að gögnunum.

Niðurstaða rannsóknarinnar var að verklagsreglur voru fyrir hendi og að svæðisstjóri var ábyrgur fyrir þeim reglum sem ekki var farið eftir. Fram kom í rannsókninni að starfsmönnum Arctic Fish var kunnugt um verklagsreglurnar, haldnir voru árlegir gæðafundir með öllum starfsmönnum þar sem farið var yfir bæði verklag og viðbragð með ýmsum uppákomum.

Telur Ríkissaksóknari að stjórnendur, framkvæmdastjóri og stjórn Arctic Fish hafi aðhafst til að tryggja að unnið væri eftir verklagsreglum. Staðfesti Ríkissaksóknari því ákvörðun lögreglustjórans á Vestfjörðum um að fella málið niður, en rannsóknin snerist um ábyrgð stjórnenda á slysasleppingunni.

Auglýsing

Framsókn í Norðvestur­kjördæmi: fyrstu skref nýrrar ríkis­stjórnar eru vonbrigði

Framsóknarflokkurinn í Norðvesturkjördæmi hélt kjördæmisþing sitt að Dæli í Víðidal um liðna helgi. Í ályktun þingsins segir að fyrstu skref nýrrar ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur hafi verið landsbyggðarfólki gríðarleg vonbrigði þrátt fyrir fögur loforð um að hagsmunum landsbyggðar yrði gætt.

„Á þeim tíma síðan ný ríkisstjórn tók við má sjá að stór hluti þeirra mála sem hún hefur kynnt eru í raun mál frá fyrri ríkisstjórn, sem hún virðist tileinka sér. Þau mál sem eiga rætur að rekja til núverandi ríkisstjórnar eru hins vegar illa unnin, lítt ígrunduð og skortir greiningu og mat á áhrifum.

Sem dæmi má nefna nýja fjármálaáætlun, sem bersýnilega var unnin í flýti en henni fylgja hvorki lögbundnir mælikvarðar né mat á áhrifum. Ríkisstjórnin hefur nú þegar boðað niðurskurð í mikilvægum málaflokkum. Fjárframlög til vegamála og menntamála verða skert, auk – þess sem góð verkefni fyrri ríkisstjórnar verða stöðvuð, eins og í heilbrigðisþjónustu, samanber stuðning við Janus endurhæfingu.“

Um atvinnumálin segir í ályktuninni að á fyrstu mánuðum nýrrar ríkisstjórnar hafi verið teknar ákvarðanir sem gera rekstur í þessum atvinnugreinum enn erfiðari. „Þar má nefna illa útfært veiðigjald, aukna skattlagningu á ferðaþjónustu sem bitnar sérstaklega á litlum og meðalstórum ferðaþjónustufyrirtækjum, og nýlega hækkun raforkuverðs sem hefur sérstaklega neikvæð áhrif á iðnað, garðyrkjubændur og köld svæði.

Þá hafa verið teknar ákvarðanir – og fleiri eru í burðarliðnum – sem munu leiða til fækkunar sérhæfðra opinberra starfa utan höfuðborgarsvæðisins. Það kemur sérlega illa við íbúa í Norðvesturkjördæmi og má þar meðal annars nefna uppsagnir hjá Vinnumálastofnun og sameiningu sýslumannsembætta.“

Auglýsing

Tölum saman – Átak gegn félagslegri einangrun

Félags- og húsnæðismálaráðuneytið stendur nú fyrir átaksverkefni gegn félagslegri einangrun undir yfirskriftinni Tölum saman. Með henni vilja stjórnvöld vekja athygli almennings á því hve alvarleg félagsleg einangrun er og hvernig við getum öll verið hluti af lausninni. Ýmis ráð eru til að rjúfa félagslega einangrun, hvort sem er fyrir þau sem eru félagslega einangruð eða fólkið í kringum þau – og hefur eftirspurn verið mikil eftir fræðsluefninu sem nálgast má á island.is/felagsleg-einangrun.

Tengiráðgjafar

Eitt af þeim úrræðum sem eru í boði vítt og breitt um landið er þjónustu tengiráðgjafa, en þeir veita eldra fólki og öðrum viðkvæmum hópum stuðning til að rjúfa félagslega einangrun og finna leiðir til að auka virkni. Tengiráðgjafinn á Vestfjörðum heitir Alberta Guðbjartsdóttir og hægt er að hafa samband við hana í gegnum netfangið albertag@isafjordur.is  

Tengiráðgjafar nálgast einstaklinga sem eru félagslega einangraðir eða eiga á hættu að einangrast, meðal annars með símtölum og heimsóknum og vinna með þeim að leiðum til að auka virkni.  Tengiráðgjafar hafa einnig yfirsýn yfir bjargir nærsamfélagsins, sérstaklega þau úrræði sem eru líkleg til að auka félagsleg samskipti viðkvæmra hópa. Um tveggja ára tilraunaverkefni er að ræða sem fór af stað hjá stjórnvöldum sem viðbragð við félags- og heilsufarslegum afleiðingum Covid-19 heimsfaraldursins.

Félagsleg einangrun er þögul ógn

Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra segir að markmið vitundavakningarinnar sé að opna augu fólks fyrir félagslegri einangrun í samfélaginu og vekja athygli á samfélagslegri ábyrgð okkar allra.

„Sem ráðherra félags- og öldrunarmála þá er það eitt af mínum hjartans málum að vinna gegn þeirri þöglu ógn sem einmanaleiki og félagsleg einangrun eru,“ segir hún.  

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur skilgreint félagslega einangrun sem lýðheilsuvanda til jafns við reykingar, ofneyslu áfengis, offitu og fleiri stórfelldar ógnir við almenna heilsu. WHO telur að um eitt af hverjum tíu ungmennum upplifi félagslega einangrun og um fjórðungur eldra fólks.

Auglýsing

Tjaldur BA 68

Tjaldur BA 68 ex Guðný HF 68. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2020

Tjaldur BA 68 hét upphaflega Sigursæll RE 219 og var smíðaður í Bátalóni í Hafnarfirði árið 1955.

Árið 1967 var Sigursæll, sem er 5,38 brl. að stærð, kominn vestur í Reykhólasveit og varð BA 219.

Árin 1969 til 1977 var Sigursæll ÁR 47 með heimahöfn í Þorlákshöfn en 1977 fékk hann nafnið Fengur RE 51. .

Árið 1979 fékk báturinn nafnið Guðný HF 68 með heimahöfn í Hafnarfirði.

Frá árinu 1980 hefur báturinn heitið Tjaldur BA 68 með heimahöfn á Brjánslæk á Barðaströnd en þar var myndin tekin.

Af vefsíðunni skipamyndir.com

Auglýsing

Rúmlega 80 þúsund erlendir ríkis­borgarar voru búsettir á Íslandi 1. apríl

Alls voru 80.867 erlendir ríkisborgarar skráðir með búsetu hér á landi þann 1. apríl sl. og fjölgaði þeim um 321 einstaklinga frá 1. desember 2024 eða um 0,4% samkvæmt tölum frá Þjóðskrá

Ríkisborgurum frá Úkraínu og Palestínu heldur áfram að fjölga. Frá 1. desember sl. fjölgaði Úkraínskum ríkisborgurum um 153 eða 3,2% og eru nú 4.987og ríkisborgurum frá Palestínu fjölgaði um 26 eða 3,2% og eru 836

Pólskum ríkisborgurum fækkaði á sama tíma um 189 og eru nú 26.350 pólskir ríkisborgarar með lögheimili á Íslandi.

Næst á eftir Pólverjum í fjölda eru 6,213 frá Litháen og 5,144 frá Rúmeníu.

Á sama tímabili fjölgaði íslenskum ríkisborgurum um 523 einstaklinga eða um 0,2% og eru 326.023.

Auglýsing

Ný grein um erfðafræðilega aðgreiningu rækju

Úthafsrækja. Mynd: Svanhildur Egilsdóttir

Á vef Hafrannsóknastofnunar er sagt frá grein um erfðafræðilega aðgreiningu stofna innfjarðar rækju (algengar á grunnslóð) og úthafs rækju (stóri kampalampi, Pandalus borealis) við norðanvert Ísland.

Notast var við raðgreind skerðibútagögn úr erfðamengi rækju sem safnað var úr Arnarfirði, Skjálfanda, og alla leið út að Kolbeinsey. 

Þær niðurstöður sem koma fram eru að lítill sem engin munur fannst innan innfjarðar rækju, en greinilegur fallandi sást á milli innfjarðar og úthafsrækju. Þá sýnir rannsóknin að talsvert af innfjarðar rækju greindist fyrir utan Skjálfanda.

Þrátt fyrir umfangsmikla norðlæga útbreiðslu hefur fram til þessa greinst lítill fjölbreytileiki innan erfðamengis stóra kampalampa. Í þessari rannsókn fannst hins vegar sterkt samband á milli botnsjávarhita og greindrar erfðasamsetningar sýna frá Skjálfanda og út að Kolbeinsey.

Þessi nýskilgreindi erfðafræðilegi fjölbreytileiki gæti mögulega reynst mikilvægur fyrir rækjurnar ef breyting á sjávarhita til lengdar eykur valþrýsting á stofninum.

Greinna má finna hér. 

Auglýsing

Yfir­lýsing sveit­ar­fé­lagsins Vest­ur­byggðar

í Morg­un­blaðinu 10. apríl sl. var viðtal við Björn Hembre, forstjóra Arnarlax, þar sem hann m.a. kallar eftir því að sveit­ar­fé­lagið geri þjón­ustu­samning við fyrir­tækið um greiðslu hafn­ar­gjalda. Af því tilefni vill Vest­ur­byggð árétta nokkur atriði.

Vesturbyggð hefur ekki hafnað því að gerður verði samningur við Arnarlax líkt og kom fram í viðtalinu. Haldnir hafa verið margir fundir þar sem reynt hefur verið að ná samningi en án árangurs. Horfa verður til þess að hafnalögin veita höfnum heimild til þess að að gera langtímasamninga við notendur. Vesturbyggð telur forsendur slíks samnings að Arnarlax geri grein fyrir framtíðar­áform­um sínum á svæðinu. Fyrir sveitarfélagið er mikilvægt að fá skýra mynd af framtíðarsýn og áætlun­um Arnarlax svo hægt sé að tryggja að samningur samræmist og styðji við langtíma uppbyggingu svæðisins og hagsmuni samfélagsins.

Í viðtalinu er vísað til samnings sem annað sjókvíaeldisfyrirtæki hefur gert við annað sveitarfélag á Vestfjörðum. Rétt er að benda á að sjókvíaeldisfiski er landað í þremur höfnum á Íslandi í dag að jafnaði, tveimur á Vestfjörðum og einni á Austurlandi. Vesturbyggð telur að samningar við eldisfyrirtæki þurfi að taka mið af aðstæðum og þörfum viðkomandi samningsaðila, annars vegar þörfum og umfangi viðkomandi sjókvíaleldis og hins vegar þörfum hafnarinnar fyrir tekjur til að standa undir nauðsynlegri uppbyggingu og þjónustu. Sú staðreynd að það finnist einn samningur á þessu sviði getur ekki verið ráðandi í viðræðum aðila. M.a. er alls óvíst hvort umræddur samn­ingur tryggi viðkomandi höfn nægar tekjur til að standa undir þeirri þjónustu sem veitt er eða tryggi jafnræði gagnvart öðrum notendum hafnarinnar.

Í viðtalinu er einnig vísað til þess að gjaldtakan sé þjónustugjald og sýna þurfi fram á kostnað við veitingu þjónustunnar. Svo því sé haldið til haga þá áskilja hafnalögin að hafnir upplýsi notendur um almennar forsendur gjaldtöku samkvæmt gjaldskrá. Vesturbyggð vinnur nú að greiningu á kostnaði sem liggja mun til grundvallar gjaldtöku hafnargjalda eldisfyrirtækjanna. Greiningin mun byggja á fyrri greiningu sem KPMG vann fyrir Vesturbyggð um gjaldtöku í hafnarsjóð. Þetta er mikilvægt skref í því að tryggja að gjöld endurspegli kostnað og að viðskiptavinir, þar á meðal sjókvíaeldisfyrirtæki, greiði sanngjarnt gjald fyrir þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir.

Rétt er að útreikningur á fiskeldisgjaldi sem sveitarfélagið lagði á sjókvíaeldisfyrirtæki tók mið af Nasdaq vísitölunni. Nú er miðað við svokallaða SISALMON vísitölu til samræmis við gjaldtöku ríkisins  á grundvelli laga nr. 89/2019 með síðari breytingum. Markmiðið er að gæta sanngirni og jafnræðis milli aðila er selja á markaði og þeirra sem selja tengdum aðila.

Athafnasvæði Arnarlax nær yfir þrjár af fjórum höfnum Vesturbyggðar og eru umsvifin mikil. Gott samstarf og samvinna er því mikilvæg fyrir báða aðila. Sveitarfélagið Vesturbyggð er stað­ráðið í að vinna áfram í góðu samstarfi við sjókvíaeldisfyrirtæki á svæðinu, þar á meðal Arnarlax, og mun áfram leitast við að tryggja sanngjarnt og gagnsætt ferli í samningaviðræðum, með það að markmiði að bæta þjónustu, tryggja efnahagslega sjálfbærni og stuðla að vexti samfélagsins.

Auglýsing

Nýjustu fréttir