Síða 21

Björgunarskipið Húnabjörg, dregur fiskibát með net í skrúfunni til hafnar

Áhöfn Húnabjargar, björgunarskips Slysavarnarfélags Landsbjargar á Skagaströnd, var kölluð út í gær vegna fiskibáts sem var á veiðum utarlega í Húnaflóa.

Skipstjóri bátsins óskaði eftir aðstoð eftir að net höfðu farið í aðal- og hliðarskrúfur bátsins, sem olli því að ekki var hægt að sigla honum fyrir eigin vélarafli. Húnabjörgin fór frá Skagaströnd skömmu fyrir klukkan tíu í ágætu veðri og segir í tilkynningu Landsbjargar að lítil hætta hafi verið á ferðum.

Siglingin tók tæpa tvo tíma og um hádegisbil var búið að koma taug á milli og svo var haldið til Skagastrandar með bátinn en þangað komu bátarnir um klukkan fimm í gær.

Laxey og Ístækni gera samning um kaup á vinnslubúnaði fyrir laxasláturhús

Netmiðillinn tígull.is greinir frá því að fiskeldisfyrirtækið Laxey í Vestmannaeyjum og Ístækni á Ísafirði hafa undirritað samning um afhendingu á vinnslubúnaði fyrir sláturhús fyrirtækisins í gæðaframleiðslu á landeldislaxi.

Lausnin tryggir fyrsta flokks meðhöndlun hráefnis frá upphafi til enda ferilsins og stuðlar að hámarksgæðum lokaafurðar. Samningurinn nær yfir afhendingu og uppsetningu alls vinnslubúnaðar, allt frá slátrun að flokkunarlínu. Tækin samanstanda af blæði-/kælitanki, handslæingarlínu, auk þvottakerfis fyrir sjálfvirk þrif búnaðarins.

Kristmann Kristmannsson, sviðsstjóri vinnslu og innkaupa hjá Laxey, segir:

“Við hjá Laxey teljum mikilvægt að efla og styðja við bakið á íslenskum tæknifyrirtækjum í fiskvinnslulausnum og vissum að Ístækni býr yfir mikilli reynslu og sérþekkingu á þessu sviði. Ístækni hefur unnið að lausnum sem við vildum hafa í okkar framleiðslu til að tryggja bestu meðhöndlun og mestu kælingu hráefnis til að hámarka gæði vörunnar.“


Samstarf styrkir íslenskan laxaiðnað og undirstrikar mikilvægi þess að fyrirtæki í greininni styðji hvert annað og efli innlenda framleiðslu. Verkefnið er einnig skýrt dæmi um öfluga atvinnusköpun á landsbyggðinni – Ístækni er með starfsemi á Ísafirði, en Laxey rekur landeldi í Vestmannaeyjum, þar sem sláturhús er í undirbúningi.”

HSÍ með námskeið á Patreksfirði

Um næstu helgi stendur Handknattleikssamband Íslands fyrir handboltanámskeið á Patreksfirði í samvinnu við Arnarlax dagana 22.-23.febrúar.

Námskeiðið fer fram í íþróttahúsinu á Patreksfirði en Arnarlax mun bjóða upp á rútuferðir á æfingarnar frá Vesturbyggð.

Iðkendum er skipt upp í tvo hópa, eldri og yngri og eru æfingatímar sem hér segir :

Yngri (1.-4.bekkur)

Laugardagurinn 22.febrúar kl 10:00-12:00

Sunnudagurinn 23.febrúar kl 10:00-11:30

Eldri (5.-10.bekkur)

Laugardagurinn 22.febrúar kl 13:00-15:00

Sunnudagurinn 23.febrúar kl 12:00-13:30

Daníel Franz Davíðsson einn af þjálfurum úr Hæfileikamótun HSÍ mun stýra námskeiðinu.

Það er frítt á námskeiðið og eru sem flestir hvattir til að koma og prófa handbolta.

Vesturbyggð: allur byggðakvóti til vinnslu innan sveitarfélags

Tálknafjarðarhöfn um 1990.

Bæjarráð Vestubyggða leggur til að sérreglur varðandi úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa í Vesturbyggð verði óbreyttar frá síðasta fiskveiðiári á fiskveiðiárinu 2024/2025 með þeirri undantekningu að allur afli sem telja á til byggðakvóta skuli fara til vinnslu innan sveitarfélagsins.

Þá verði fiskiskipum á Bíldudal, Brjánslæk og Patreksfirði skylt að landa þeim afla sem telja á til byggðakvóta til vinnslu innan sveitarfélagsins á tímabilinu frá 1. september 2024 til 31. ágúst 2025 en fiskiskipum á Tálknafirði skylt að landa innan byggðalagsins.

Tillögunum var vísað áfram til bæjarstjórnar til staðfestingar.

Á yfirstandandi fiskveiðiári er úthlutað 330 tonnum af byggðakvóta til byggðalaga innan Vestubyggðar. Til Tálknafjarðar fara 285 tonn, en 15 tonn til hvers hinna byggðarlaganna, Patreksfjarðar, Bíldudals og Brjánslækjar. Auk þess eru 190 tonn óráðstafað frá eldri úthlutun, þar af 155 tonn til Tálknafjarðar.

Vegakerfið: 290 milljarða kr. viðhaldsskuld

Samtök iðnaðains og félag ráðgjafarverkfræðinga hafa gefið út skýrslu um innviði landsins. Tekur hún til vegakerfis, veitukerfa,flugvalla, hafna, fasteigna og raforkukerfis.

Í inngangi skýrslunnar segir að markmið skýrslunnar sé að kalla fram upplýsta umræðu og nauðsynlegar úrbætur þannig að innviðir landsins geti staðið undir hlutverki sínu og efli samkeppnishæfni. Auka þurfi fjárfestingu og fyrirsjáanleika í opinberum framkvæmdum, einfalda ferli framkvæmda og horfa til fjölbreyttari leiða í uppbyggingu og rekstri innviða.

ástandið óásættanlegt

Ástand einstakra innviða er sagt misjafnt. Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni eru vegakerfið og fráveitukerfið í verstu ásigkomulagi, bæði með einkunnina 2, sem þýðir að ástandið er óásættanlegt og þörf á tafarlausum aðgerðum. Mikilvægt er að hafa í huga að vegakerfið er lífæð íslensks samfélags, bæði fyrir atvinnulíf og almennar samgöngur, og ónógt viðhald þess getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir samfélagið í heild.

Um vegakerfið segir að endurstofnvirði þjóðvegir landsins sé 1.200 milljarða króna og að uppsöfnuð viðhaldsskuld sé 200 milljarðar króna. Sveitarfélagavegir eru metnir á 250 – 310 milljarðar króna að endurstofnvirði og uppsöfnuð viðhaldsskuld er 65 – 90 milljarðar króna.

Vegakerfinu er svo lýst í skýrslunni:

Vegakerfi Íslands er tæplega 26 þús. km langt og þar af eru um 8 þús. km með bundnu slitlagi. Vegakerfi landsins er skipt í þjóðvegi, 12.900 km, sem eru á forræði Vegagerðarinnar og sveitarfélagsvegi, 13.100 km, sem eru vegir innan þéttbýlis sem ekki teljast þjóðvegir og eru þeir í umsjá sveitarfélaga. Þjóðvegakerfinu er skipt í vegflokka sem eru; stofnvegir 4.300 km, tengivegir 3.500 km, héraðsvegir 2.600 km, landsvegir 2.000 km og stofnvegir um hálendi 500 km. Á þjóðvegum landsins er bundið slitlag á um 5.900 km en 7.000 km eru malarvegir. Á vegum á forræði sveitarfélaga er bundið slitlag á um 2.500 km en malarvegir eru 10.600 km. Á Íslandi eru um 1.200 brýr og af þeim eru rúmlega helmingur einbreiðar og lengd þeirra um 15 km. Tæpur helmingur eru tvíbreiðar brýr og lengd þeirra um 15 km. Árið 2023 voru 29 brýr á hringveginum einbreiðar og stefnt er að því að engin einbreið brú verði á hringveginum um 2040. Fjöldi jarðganga er 14 og lengd þeirra er um 64 km.

viðhaldsskuld þjóðvega

Um mat á viðhaldskuld þjóðvega er vitnað til mats Vegagerðarinnar á stöðunni:

Vegagerðin hefur áætlað að viðhaldsskuld á öllu vegakerfi Vegagerðarinnar sé varlega metin að minnsta kosti um 200 milljarðar króna. Mikilvægt er að ráðast í uppfærslu á vegakerfinu sjálfu, breikkun brúa, breikkun vega og jarðganga sem er í raun að hluta til endurbygging kerfisins. Með þessu má áætla að
brýr, jarðgöng og uppfærsla á vegakerfinu í rétta vegtegund miðað við þróun umferðar, sé viðhaldsþörfin varlega áætluð tvöföld þessi upphæð.
Til að tryggja viðunandi burðargetu þjóðvega miðað við núverandi mælingar þyrfti að endurnýja 190 km á ári. Þá yrði fjárþörf verkefnisins 10 milljarðar króna á ári. Fjárveitingar síðustu ára hafa legið á bilinu 16–20% af reiknaðri fjárþörf. Árleg viðhaldsþörf bundinna slitlaga er 24 milljarðar króna og árleg viðhaldsþörf
malarslitlaga 3 milljarðar króna. Vegagerðin áætlar að árleg viðhaldsþörf til að uppfæra jarðgöng vegna aukinna alþjóðlegra krafna verði um 1 milljaður króna og árleg viðhaldsþörf brúa verði einnig um 1 milljarður króna á ári.

Suðurtangi: Hrafnatanga 4 var úthlutað 2018

Suðurtangi. Mynd: Ísafjarðarbær.

Á fundi Skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðabæjar á mánudaginn kemur fram að  lóðinni við Hrafnatanga 4, Ísafirði hafi verið úthlutað til Sjávareldis ehf. og Hábrúnar ehf. á fundi bæjarstjórnar þann 3. maí 2018.

Úthlutuninni fylgdi eftirfarandi bókun: „Lóðarumsókn falli úr gildi hafi teikningar ekki borist Ísafjarðarbæ innan 12 mánaða og framkvæmdir ekki hafist innan 24 mánaða frá úthlutun.“

Bókað er að haustið 2023 hafi framkvæmdum við uppfyllingu og hafnarkant og hafnarþekju verið lokið og lóðin því tilbúin til uppbyggingar en gögn hafi ekki borist.

Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að afturkalla lóðaúthlutun Sjávareldis ehf og Hábrúnar ehf. við Hrafnatanga 4, Ísafirði.

Lóðin við Hrafnatanga 4 á Ísafirði var auglýst á heimasíðu Ísafjarðarbæjar frá 28. janúar 2025 með umsóknarfresti til og með 12. febrúar 2025. Ein umsókn barst og var hún frá Ísnum ehf.

Vegagerðin: ásþunginn hækkaður í 10 tonn

Mynd af dekki þakið olíumöl, eða blæðingu. Myndin var tekin á Bröttubrekku.

Þeim 7 tonna ásþungatakmörkunum sem hafa verið í gildi á Vestfjarðavegi 60 frá Hringvegi 1 við Dalsmynni að Snæfellsnesvegi 54 við Skógstagl var breytt í morgun og eru nú takmörkuð við 10 tonn frá kl. 8:00 miðvikudaginn 19. febrúar 2025 samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu frá Vegagerðinni í gærkvöldi.

Þessi breyting opnar að nýju að nokkru fyrir þungaflutninga frá Vestfjörðum til höfuðbogasvæðisins en bikblæðing hefur verið alvarlegt vandamál.

Byggðakvóti: óbreyttar sérreglur

Smábátar í Flateyrarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum í gær að sömu reglur muni gilda í ár um úthlutun byggðakvóta og voru í gildi á síðasta fiskveiðiári. Sjö bæjarfulltúar Í lista og D lista stóðu að samþykktinni en bæjarfulltrúar B lista sátu hjá.

Íbúasamtök Flateyrar óskuðu eftir því að sett yrði skilyrði um að byggðakvóta Flateyrar yrði landað á Flateyri þótt vinnslan færi fram í öðru byggðalagi, en ekki var orðið við því.

Í bókun frá bæjarfulltrúum Í lista kemur fram að mikilvægt sé að standa vörð um störf í fiskvinnslu í minni byggðarlögum sveitarfélagsins og ef sveigjanleiki í löndun byggðakvóta styddi við vinnslu í minni byggðalögum væri Í listinn fylgjandi því.

Ljósmóðurtaska

Salbjörg Jóhannsdóttir (1896-1991) var ljósmóðir í Snæfjallahreppi frá 1929 þar til hún, níræð að aldri, fluttist frá Lyngholti til Ísafjarðar árið 1987.

Hún gegndi einnig ljósmóðurembætti í Nauteyrarhreppi frá 1944 og í Reykjarfjarðarhreppi 1954 til 1958.

Þegar Salbjörg hóf störf fékk hún tösku sem var farin að láta á sjá árið 1947. Þá fékk hún þessa ljósmóðurtösku sem hún gaf seinna Geir Hlíðberg Guðmundssyni lækni (1953-2010).

Taskan hafði varðveist á heimili Geirs í Garðabæ í meir en tvo áratugi þegar Margrét Guðmundsdóttir geislafræðingur (1953-), ekkja Geirs  Hlíðberg Guðmundssonar afhenti hana Lyngholtssafni haustið 2012.

Af sarpur.is

Þeim fækkar sem fara í ljósabekk

Árið 2024 var hlutfall þeirra sem hafði farið í ljós síðustu 12 mánuði á Íslandi 5% sem er einu prósentustigi lægra en í síðustu könnun sem gerð var 2022.

Þetta sýna nýlegar niðurstöður könnunar á notkun ljósabekkja á Íslandi sem Gallup gerði fyrir samstarfshóp Geislavarna, embættis landlæknis, húðlækna og Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins.

Auk þess fækkar ljósabekkjum á Íslandi samkvæmt síðustu talningu Geislavarna sem gerð var árið 2023. Þá var fjöldi ljósabekkja á Íslandi 86 en til samanburðar var fjöldinn 97 árið 2020.

Embætti landlæknis vekur athygli á því að notkun á ljósabekkjum fylgir aukin hætta á húðkrabbameini.

Nýjustu fréttir