Þriðjudagur 22. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2099

Pottaskefill fer á bókasafn

Laugardaginn 16. desember ætlar Pottaskefill að heimsækja Safnahúsið. Hann mun spjalla við gesti og gangandi í sal Listasafnsins þar sem einnig er að finna jólasýningu hússins. Pottaskefill reiknar svo sannarlega með að í boði verði kaffisopi, girnilegir pottar og góð börn. Safnahúsið er opið frá 13:00 – 16:00 á laugardögum en tímabundinn Sveinki ætlar að vera á staðnum um kl. 14:00.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Heiðursborgarar Vesturbyggðar

Heiðursborgarar Vesturbyggðar 2013

Á fundi bæjarstjórnar Vesturbyggðar þann 7. desember var lagði stjórnin til að eftirfarandi fjórir íbúar Vesturbyggðar verði tilnefndir heiðursborgarar Vesturbyggðar.

  • Bjarni Símonarson Hákonarson, fyrrv. hreppstjóri Barðastrandahrepps og bóndi á Haga.
  • Hannes Stephensen Friðriksson, fyrrv. sveitarstjórnarmaður og kaupmaður, Bíldudal.
  • Helga Bjarnadóttir, fyrrv. leikskólastjóri og fyrrv. form. Kvenfélagsins Sifjar, Patreksfirði.
  • Sveinn Þórðarson, fyrrv. verslunarmaður og bóndi á Innri-Múla, Barðaströnd.

Jón Magnússon var kosinn heiðursborgari Vesturbyggðar árið 2010 en síðan hefur skapast sú hefð að tilnefna heiðursborgara í lok kjörtímabils, á síðasta desemberfundi bæjarstjórnar. Síðast í desember 2013.

Að sögn Þóris Sveinssonar skrifstofustjóra Vesturbyggðar er tilnefning heiðursborgara hjá Vesturbyggð er fyrst og fremst þakklætisvottur frá bæjarstjórn sveitarfélagsins á þætti viðkomandi í óeigingjörnu, margvíslegu og viðamiklu starfi einstaklinga samfélaginu til heilla um langt árabil. Engin sérstök venja eða nákvæmar reglur gilda um tilnefninguna eða hverjir hljóti hana hverju sinni heldur fer þar eftir matskenndu áliti bæjarstjórnarfulltrúa. Engin fjárhagslegur ávinningur fylgir viðurkenningunni fyrir viðkomandi sem hana hlýtur, heiðursborgurunum er einungis boðið til kaffisamsætis þar sem þakkarræður eru haldnar.

Á meðfylgjandi mynd eru heiðursborgarar frá 2013

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

„Má ég fá lánaða húfuna þína“

Guðni Th. Jóhannesson og Isabel Alejandra Díaz

Við setningu alþings í dag gerði Guðni Th. Jóhannesson #metoo byltinguna að umtalsefni og las upp prósaljóð meðframbjóðanda síns, Elísabetar K. Jökulsdóttur.

„Það eru allskonar venjulegir menn jafnvel vinir mínir að kvarta undan þessari metoo bylgju sem er í gangi, þeir segja „ekkert má maður“ og „hvað má eiginlega“ og ekkert má maður lengur. Við þá vil ég segja, það má ekkert, maður biður um leyfi fyrir öllu;

Má ég sýna þér hvað ég var að skrifa.

má ég fá tannkremið,

má ég fá mjólkina,

má ég knúsa þig,

má ég fá lánaða húfuna þína..“

Nei þýðir nei, sagði forsetinn, hingað og ekki lengra, við verðum að hlusta og gera betur.

Guðni ræddi líka tjáningar- og skoðunarfrelsi en benti á gagnrýni er eitt en óhróður er annað, hann ræddi hættuna sem felst í fölskum fréttum og um réttinn til þess að vera ósammála.

Stefnuræða forsætisráðherra.

Í kvöld flytur Katrín Jakobsdóttir stefnuræðu sína og í kjölfarið verða umræður um hana. Umræðurnar skiptast í þrjár umferðir og munu eftirfarandi þingmenn taka til máls:

Ræðumenn fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð verða Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í fyrstu umferð, í annarri Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og í þriðju umferð Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Ræðumenn Samfylkingarinnar verða í fyrstu umferð Logi Einarsson, 5. þingmaður Norðausturkjördæmis, í annarri Helga Vala Helgadóttir, 4. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður, og Guðmundur Andri Thorsson, 4. þingmaður Suðvesturkjördæmis, í þriðju umferð.

Ræðumenn fyrir Miðflokkinn verða Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, 3. þingmaður Norðausturkjördæmis, í fyrstu umferð, í annarri Birgir Þórarinsson, 3. þingmaður Suðurkjördæmis, og í þriðju umferð Anna Kolbrún Árnadóttir, 8. þingmaður Norðausturkjördæmis.

Ræðumenn fyrir Sjálfstæðisflokk verða Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í fyrstu umferð, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, 5. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður, í annarri umferð og Ásmundur Friðriksson, 4. þingmaður Suðurkjördæmis, í þriðju umferð.

Fyrir Pírata tala Halldóra Mogensen, 11. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður, í fyrstu umferð, Jón Þór Ólafsson, 8. þingmaður Suðvesturkjördæmis, í annarri umferð, og Helgi Hrafn Gunnarsson, 3. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður, í þriðju.

Fyrir Framsóknarflokk tala Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í fyrstu umferð, í annarri Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og í þriðju umferð Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Fyrir Flokk fólksins tala Inga Sæland, 8. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður, í fyrstu umferð, Ólafur Ísleifsson, 10. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður, í annarri umferð, og Guðmundur Ingi Kristinsson, 12. þingmaður Suðvesturkjördæmis, í þriðju.

Ræðumenn Viðreisnar verða í fyrstu umferð Þorgerður K. Gunnarsdóttir, 7. þingmaður Suðvesturkjördæmis, Þorsteinn Víglundsson, 7. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður, í annarri og í þriðju umferð Hanna Katrín Friðriksson, 7. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður.

Umræðunum verður bæði útvarpað og sjónvarpað og hefjast kl. 19:30

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Íþróttakona eða íþróttamaður Strandabyggðar

Auglýst er eftir tilnefningum  um íþróttamann eða -konu ársins 2017 í Strandabyggð. Senda skal tilnefningar og stuttan rökstuðning á netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is eigi síðar en 5. janúar. Allir mega senda inn tilnefningu og frjálst er að nefna fleiri en einn aðila en viðkomandi þurfa að hafa haft lögheimili í Strandabyggð á síðastliðnu ári. Samkvæmt reglugerð um útnefningu á íþróttamanni eða -konu ársins hefur Tómstunda- íþrótta- og menningarnefnd umsjón með valinu á ári hverju.  Upplýst verður um valið á íþróttahátíð Grunnskólans á Hólmavík mánudaginn 15. janúar 2018.

Útnefningin er fyrst og fremst hugsuð sem viðurkenning fyrir íþróttaafrek, framlag til íþróttastarfs og hvatning til frekari afreka. Viðurkenningin var fyrst veitt með þessu sniði fyrir árið 2012, þá hlaut Ingibjörg Emilsdóttir nafnbótina íþróttakona ársins og Jamison Ólafur Johnson hlaut sérstök hvatningarverðlaun. Sigríður Drífa Þórólfsdóttir var hins vegar valin íþróttakona ársins 2013 en Trausti Rafn Björnsson hlaut þá sérstök hvatningarverðlaun. Árið 2014 hlaut Jamison Ólafur Johnsson titilinn og sérstök hvatningarverðlaun hlaut Ingibjörg Benediktsdóttir. Íþróttamaður ársins 2015 er Rósmundur Númason og Vala Friðriksdóttir hlaut sérstök hvatningarverðlaun. Árið 2016 hlaut Ragnar Bragason titilinn og sérstök hvatningarverðlaun hlaut Friðrik Heiðar Vignisson. Handhafi viðurkenningarinnar hlítur farandbikar í vörslu í eitt ár sem íþróttafélag lögreglumanna á Hólmavík gefur.

Þetta kemur fram á vef Strandabyggðar

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Mikil vonbrigði með fyrirhugaða úrsögn Ísafjarðarbæjar

Í gær sögðum við frá ályktun sem bæjarfulltrúar Í-listans og Framsóknarflokks lögðu fram á bæjarstjórnarfundi Ísafjarðarbæjar í gær um að sveitarfélagið segði sig úr Byggðasamlagi um málefni fatlaðs fólks á Vestfjörðum (BsVest).

 

Fyrr á árinu óskaði Ísafjarðarbær eftir því að gerast leiðandi sveitarfélag á Vestfjörðum í málaflokki fatlaðs fólks og taka málaflokkinn og starfsemi BsVest yfir og veita þjónustu til annarra sveitarfélaga samkvæmt þjónustusamningum. Hin sveitarfélögin í BsVest lögðust gegn tillögu Ísafjarðarbæjar og í ályktun Í-listans og Framsóknarflokks kemur fram að afstaða þeirra hafi verið töluverð vonbrigði.

 

Nú hafa sveitarfélögin í BsVest sent frá sér eftirfarandi ályktun:

 

Tillaga í-lista og framsóknarflokks um úrsögn Ísafjarðarbæjar úr Byggðarsamlagi um málefni fatlaðra eru vonbrigði fyrir vestfirsk sveitarstjórnmál.

BsVest er byggðasamlag allra sveitarfélaga á Vestfjörðum um að sinna þjónustu við íbúa, sem eru okkar viðkvæmasti hópur.  Hversu mikils virði er samfélag sem ekki sinnir sínum minnstu bræðrum?

 

Einhliða ákvörðun Ísafjarðarbæjar er til þess fallin að skapa óvissu meðal þjónustuþega, getur rýrt traust þeirra á þjónustunni og mun þannig mögulega skapa aukin óþægindi og erfiðleika fyrir þennan hóp.

 

Ísafjarðarbær hefur um nokkra hríð lýst þeirri skoðun sinni að þeir ættu einir að stýra þjónustunni sem nú er veitt innan BsVest. Gerast leiðandi sveitarfélag. Frá upphafi hafa önnur sveitarfélög lýst yfir efasemdum um þessa skoðun Ísafjarðarbæjar og talið mikilvægt að halda áfram að vinna að því að bæta þjónustuna og gera hana skilvirkari með virku og skynsamlegu samstarfi á vettvangi BsVest.

 

Það er rangt sem kemur fram í tillögu Í – lista og Framsóknarflokks að sveitarfélög á Vestfjörðum hafi hafnað því að Ísafjarðarbær myndi gerast leiðandi sveitarfélag í BsVest. Til þess hefur aldrei komið. Boðað var til aukafundar BsVest föstudaginn 17. nóvember, með einu máli á dagskrá; Tillögu Ísafjarðarbæjar um að gerast leiðandi sveitarfélag. Hins vegar dró Ísafjarðarbær tillögu sína til baka þessa sömu viku, fundurinn því afboðaður og tillagan aldrei afgreidd. Hins vegar hefur Ísafjarðarbæ ekki tekist að sýna fram á ávinning þess að færa þjónustuna frá Byggðasamlagi um málefni fatlaðra til Ísafjarðarbæjar sem leiðandi sveitarfélags.

 

Það er okkar staðfasta trú að saman getum við gert betur. Gott samstarf mun í öllum tilfellum leiða til betri þjónustu og skilvirkara starfs hjá öllum þjónustuþegum, alls staðar á Vestfjörðum. Með þessari yfirlýsingu staðfestum við þessa skoðun okkar.

 

Það fylgir því ábyrgð að vera stærsta sveitarfélagið á Vestfjörðum. Þjónusta við málefni fatlaðra er eitt þeirra verkefna sem þar stærri sveitarfélög eiga að leiða samstarfið um þjónustuna innan Vestfjarða öllum íbúum svæðisins til heilla. Það er hinsvegar ekki hægt að leiða verkefni án þess að njóta trausts. Úrsögn úr þessu stærsta samstarfsverkefni sveitarfélaga á Vestfjörðum er til þess fallið að rýra traust annarra sveitarfélaga til Ísafjarðarbæjar.

 

Við undirrituð hvetjum meirihluta Ísafjarðarbæjar og fulltrúa framsóknarflokks til að leggja tillögu um úrsögn úr BsVest til hliðar og verða raunverulega hið leiðandi sveitarfélag með því að öðlast traust og vinna málinu framgangs með samræðum og samstarfi. Það er ekki þess virði að ná sínum sjónarmiðum fram með hótunum og yfirgangi.

Baldur Smári Einarsson, formaður bæjarráðs Bolungarvíkurkaupstaðar

Friðbjörg Matthíasdóttir, forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar

Steinn Ingi Kjartansson, oddviti Súðavíkurhrepps

Jón Gísli Jónsson, oddviti Strandabyggðar

Finnur Ólafsson, oddviti Kaldrananeshrepps

Karl Kristjánsson, starfandi oddviti Reykhólahrepps

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps

Indriði Indriðason, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps

 

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Endurvinnum álið í sprittkertunum

Endurvinnsluátakinu „Gefum jólaljósum lengra líf – endurvinnum álið í sprittkertunum“ var ýtt úr vör í byrjun vikunnar af Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfis- og auðlindaráðherra, sem tók á móti nokkrum af aðstandendum átaksins í umhverfisráðuneytinu.

Tilgangurinn með átakinu er að fá fjölskyldur til að skila álinu í sprittkertum til endurvinnslu og efla vitund Íslendinga um mikilvægi þess að endurvinna það ál sem fellur til á heimilum og hjá fyrirtækjum.

Ætla má að á ári hverju séu notuð um 3 milljónir sprittkerta hér á landi. Til að setja hlutina í samhengi, þá dugar álið úr þremur sprittkertum í eina drykkjardós og einungis þarf þúsund sprittkerti til að búa til reiðhjól.

Skila má sprittkertum á um 90 endurvinnslu- og móttökustöðvar um allt land.

Þá gefst fólki kostur á að setja kertin í grænu tunnurnar sem eru í boði hjá Gámaþjónustunni og Íslenska gámafélaginu.

Að átakinu standa Endurvinnslan, Fura málmendurvinnsla, Gámaþjónustan, Íslenska gámafélagið, Málmsteypan Hella, Plastiðjan Bjarg, Samál – Samtök álframleiðenda, Samtök iðnaðarins og Sorpa.

Ráðist hefur verið í sambærileg átaksverkefni í Noregi, Finnlandi, Svíþjóð og á Írlandi og er þetta tilraunaverkefni hér á landi. Álið sem safnast verður pressað hjá Furu og endurunnið hér á landi, en nánar verður tilkynnt um útfærslu þess þegar söfnunarátakinu lýkur í lok janúar.

Ál hefur þá sérstöðu að það má nýta aftur og aftur án þess að það tapi upprunalegum eiginleikum sínum. Einungis þarf um 5% af orkunni sem fór upphaflega í að framleiða álið til að endurvinna það. Það þýðir að mikil verðmæti leysast úr læðingi við endurvinnslu álsins og færir það stoðir undir rekstur endurvinnslufyrirtækja víða um Evrópu.

Þá dregur orkusparnaðurinn við endurvinnslu áls verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda, enda verður almennt mest losun frá orkuvinnslunni við framleiðslu áls í heiminum.

Átakið stendur til 31. janúar næstkomandi.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Because of the tourists

Jónas Guðmundsson gerði á dögunum að umtalsefni erlendar merkingar á Nettó en verslunin er merkt sem „discount-supermarket“. Fyrirsögn greinarinnar sem birtist á bb.is er „Samkaup – Why English“.  Jónas er ósáttur við að ekki skuli íslenskum áletrunum bætt við og spyr hvað valdi.

Nú hefur Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa svarað Jónasi og óskar eftir birtingu á sama vettvangi.

 

Vegna aðsendrar greinar sem birtist hér á vefnum í síðustu viku frá Jónasi Guðmundssyni íbúa á Ísafirði er það mér bæði ljúft og skylt að svara.

Fyrst af öllu vil ég þakka Jónasi fyrir greinina. Það skiptir miklu máli fyrir hvert samfélag að íbúar láti sig málefni þess varða. Það er líka afar mikilvægt að taka tillit til athugasemda íbúa ekki síst réttmætra athugasemda, eins og í tilfelli Jónasar. Það er óheppilegt að lágvöruverðsverslunin Nettó sé einungis merkt sérstaklega á ensku.

Við hjá Samkaupum getum ekki svarað fyrir önnur fyrirtæki. En við höfum í það minnsta kappkostað að gera eins vel við alla okkar viðskiptavini og hægt er. Kúnnahópurinn okkar um land allt er afar fjölbreyttur og fer sífellt stækkandi. Ekki síst á Ísafirði. Því fögnum við ákaft.

Við leggjum mikla áherslu á að vekja athygli á þjónustunni sem við höfum uppá að bjóða; með kraftmiklum hætti í sjónvarpi, útvarpi, á neti og í bæklingum þar sem íslenskan er í hávegum höfð. Við finnum líka að Íslendingar þekkja verslanir okkar gríðarlega vel.

Eins og Jónas bendir réttilega á eru útveggir verslunar okkar á Ísafirði merktir Nettó- Discount Supermarket.  Og ástæðan er einföld, eins og hann sjálfur bendir á: Fjölgun erlendra gesta á svæðinu.

Yfir tvær milljónir ferðamanna heimsóttu landið okkar í fyrra. Eðli málsins samkvæmt eru þeir misgóðir í íslensku og komast líklega að mestu leyti hjá því að heyra eða sjá auglýsingarnar okkar. Og ef þeir heyra þær eða sjá eiga þeir sennilega oft erfitt með að skilja þær. Þess utan stoppa ferðmenn alla jafna aðeins stutta stund á hverjum stað og hafa þ.a.l. sjaldnast hugmynd um hvað lágvöruverðsverslunin Nettó er.

Því brugðum við á það ráð, til að upplýsa erlendu ferðamennina, að merkja verslunina, vitandi að Ísfirðingar þekktu Nettó ágætlega.

Við hjá Samkaupum viljum öðru fremur starfa í sátt og samlyndi við heimamenn á hverjum stað. Ég vil því enn og aftur þakka Jónasi fyrir greinina og í kjölfarið munum við taka málið til skoðunar hjá okkur.

 Með vinsemd og virðingu,  

Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Getur ekki hætt

Fréttaritari RÚV á Vestfjörðum var með skemmtilegt innslag í fréttum í gærkvöld af bókaupplestri í sundlaug Þingeyrar, svo sannarlega frumlegt uppátæki. Þar var meðal annars rætt við Hallgrím Sveinsson sem hefur um árabil verið afkastamikill bókaútgefandi og hans vestfirska forlag lagt áherslu á vestfirskar bókmenntir.

Nýverið kom út bókin Vestfirðingar til sjós og lands – gaman og alvara fyrir vestan en það eru sögur sem Hallgrímur hefur sjálfur tekið saman. Um bókin segir Hallgrímur:

„Bókin hefur að geyma ýmsar frásagnir af Vestfirðingum, lífs og liðnum. Tilgangurinn: Að vekja athygli og áhuga á Vestfjörðum og innbyggjurum þeirra fyrr og síðar. Til þess var Vestfirska forlagið einmitt stofnað. Kannski bara af hugsjón. En ekki til að græða peninga.

Margir telja að Vestfirðingar séu að sumu leyti svolítið öðruvísi en aðrir landsmenn. Má vel merkja það í þessari bók. Nægir þar að nefna kraft þeirra, áræði og ósérhlífni að ógleymdri hjálpseminni. Manngildið frekar metið í dugnaði en peningum. Og gamansemin er þeirra lífselexír. Svo segja sumir gárungar að þegar Vestfirðingar eru hættir að geta rifið kjaft, séu þeir endanlega búnir að vera. En það er nú kannski ofsagt! „

Hallgrímur hefur marglýst því yfir að hann sé hættur í bókaútgáfu en engu að síður koma út fleiri og fleiri bækur og á árinu 2017 voru þær átta.

Hér má nálgast frétt RUV af syndum lestrarhestum á Þingeyri.

bryndis@bb.is

 

Auglýsing
Auglýsing

Fossadagatalið fáanlegt á Ísafirði

Gullfossar Stranda heitir dagatal þeirra Tómasar Guðbjartssonar og Ólafs Más Björnssonar og verður það til sölu í versluninni Götu sem er til húsa í Bræðraborg. Allir alþingismenn, sveitarstjórnamenn á Vestfjörðum og forsvarsmenn Vesturverks og Landsvirkjunar hafa fengið eintak af dagatalinu, sem og allir íbúar Árneshrepps. Fyrsta upplag dagatalsins seldist upp á fyrsta degi.

Þeir félagar, Tómas og Ólafur, hafa látið sig málefni náttúrunnar varða og berjast hatrammlega á móti Hvalárvirkjun við mismikinn fögnuð þeirra er fjórðunginn byggja. Til dæmis taldi Hafdís Gunnarsdóttir þáverandi varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu Tómas hafa tekist „móðga heilan fjórðung í viðtali“. Í athugasemd við fréttina á bb.is tjáir þingmaður Framsóknarflokksins, Halla Signý Kristjánsdóttir og bendir á að hún sé nú stödd á suðvestur horni landsins og segist þar „sjá mannvistarleifar, hvort sem það er byggð eða atvinnuuppbygging, byggðin teygir og treður niður fallegar útivistarperlur“

Í september birtu þeir rafrænt fossadagatal með daglegum myndum af fallegum fossum á upptökusvæði Hvalárvirkjunnar.

Allur ágóði af útgáfunni rennur til Rjúkanda, samtaka um verndun náttúru og menningarverðmæta í Árneshreppi á Ströndum.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Tíðindalaust veður

Veðurstofan spáir norðaustan 8-13 á Vestfjörðum og dálítil él norðantil, hiti um frostmark. Skýjað verður með köflum á morgun, úrkomulítið og kólnandi veður.

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir