Þriðjudagur 22. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2097

Gert ráð fyrir 26,9 milljóna króna afgangi

Hólmavík.

Afgangur af rekstri samstæðu Strandabyggðar (A og B hluta) er áætlaður 26,9 milljónir króna á næsta ári. Fjárhagsáætlun var samþykkt í sveitarstjórn í síðustu viku að lokinni seinni umræðu. Áætlaðar fjárfestingar vegna framkvæmda árið 2018 hljóða upp á 64 milljónir króna. Haldið verður áfram í verkefninu Ísland ljóstengt og unnið að því að  ljósleiðaravæða í dreifbýli norðan Hólmavíkur og á Langadalsströnd yfir í Djúp. Áfram er unnið að undirbúningi vegna hitaveitu á Hólmavík. Sett verður niður nýtt stálþil í höfnina og unnið áfram að gatnaframkvæmdum innanbæjar á Hólmavík.  Byggja á nýja fjárrétt í Skeljavík, unnið verður áfram að viðhaldi á skólahúsnæði, endurbætur í íþróttamiðstöð og  framkvæmdir í félagsheimili auk þess sem fjármunir verða settir í hönnun á götum auk leikvalla og tjaldsvæðis. Áætlað er að fjármagna þessar framkvæmdir með 64 milljóna króna láni en takist sala eigna kemur það til lækkunar á lántöku.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Pokar sem segja sögur á lögheimili lognsins

Fyrir nokkrum mánuðum ákvað Bókasafnið á Ísafirði að taka upp margnota taupoka sem seldir yrðu á kostnaðarverði. Til að gera pokana vel úr garði gerða og smekklega ákvað starfsfólk Bókasafnsins að efna til samkeppni um slagorð og bárust margar góðar tillögur. Valið var ekki auðvelt, en að lokum var ákveðið að velja tvo texta:

Bókasafnið – þar sem lognið á lögheimili. – Höf. Matthildur Helgadóttir Jónudóttir.

Þessi poki hefur sögu að segja. – Höf. Kristján Freyr Halldórsson.

Höfundarnir fá að gjöf eintak af pokanum, en þeir verða annars seldir á 400 kr.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Sjálfstæðisflokkurinn styður ekki hótun um úrsögn.

Daníel Jakobsson

Meirihluti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar með samþykki atkvæða Í-listans og Framsóknarflokksins tók þá ákvörðun að slíta samstarfi sveitarfélaga á Vestfjörðum um samrekstur þjónustu við fatlað fólk. Ákvörðunin um að ganga úr Byggðarsamlaginu sem sér um reksturinn var ekki studd af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

Ákvörðun þessi lætur kannski ekki mikið yfir sér en hún er um margt merkileg og hún er risastór. Um er að ræða stærsta samstarfsverkefni sveitarfélaga á Vestfjörðum og við Sjálfstæðismenn viljum ekki skrifa upp á það að slíta beri því samstarfi. Það er okkar sýn að við verðum að vinna saman. Til að svo sé þurfa sveitarfélögin að vera tilbúin til að miðla málum. Ekki fara í fýlu ef maður nær ekki öllu sínu í gegn og hóta úrsögn. Sú vegferð sem Í-listinn og Framsóknarflokkur eru að hefja er ekki líkleg til að efla samstarf á svæðinu.

Ef við stöndum ekki saman náum við ekki árangri

Við búum að veikasta svæði landsins, hér er fullt af áskorunum (og tækifærum) og það eitt er víst að ef við stöndum ekki saman náum við ekki árangri. Kannski hefur það átt of lengi við hér hjá okkur. Það er líka vert að horfa til þess að íbúar okkar hafa valið að starfa saman. Hér er verið að sameina íþróttastarf, kóra og menningarstarf og fyrirtækin okkar og stofnanir vinna saman um allt svæðið. Það er því grátlegt að þeir fulltrúar sem við höfum valið til að starfa fyrir okkur séu þess ekki mengir að ná málamiðlun sem allir geta við unað.

Ekki kostur í stöðunni að slíta þessu samstarfi

Í þessu tiltekna máli hefur það legið fyrir um langt skeið að Ísafjarðarbær á lang mest undir þegar kemur að þjónustu við fatlað fólk á Vestfjörðum. Um 90% af þjónustunni fer fram hér en restin í hinum sveitarfélögunum. Það ætti því að vera augljóst að sjónarmið Ísafjarðarbæjar eiga að vega þungt. En það er líka þannig að hin sveitarfélögin taka þátt í að greiða fyrir þjónustuna og það á því líka að vera skiljanlegt að sjónarmið þeirra þurfa að heyrast. Það er ekki bara einn sem ræður. Hvað sem öllu líður þá hlýtur það að vera krafa okkar, að þegar að búið er að skoða málið í tvö ár ætti að vera hægt að finna málamiðlun sem allir geta unað við. Mín tilfinning er að sú málamiðlun sé ekki fullreynd og því tel ég ekki tímabært að taka svo afdrifaríka ákvörðun sem raun ber vitni enda er það ekki kostur í mínum huga að slíta þessu samstarfi. Sér í lagi þegar að hagsmunir fatlaðs fólks eru hafðir í huga.

Auka þarf samstarf vestfirskra sveitarfélaga

Ef við ætlum að ná árangri hér verðum við Vestfirðingar að vinna saman. Með tilkomu Dýrafjarðarganga verður til nýr veruleiki hér hjá okkur. Það verður loksins raunhæft að efla samvinnu á milli svæða. Við eigum ekki eyða tíma okkar í að rífast, okkar í milli. Tímanum er miklu betur varið í að sækja fram saman með hagsmuni allra í húfi. Þess vegna þarf að auka samstarf á milli sveitarfélaga á öllum sviðum. Hvort sem það eru skipulagsmál, fjármál, slökkvilið, hafnir, skólar eða markaðssetning svæðisins svo dæmi séu tekin. Alls staðar eru við sterkari saman en sundruð.

Vestfjarðarstofa byrji á að styrkja ímynd Vestfjarða

Stofnun Vestfjarðarstofu á dögunum gaf góð fyrirheit um að hægt sé að efla samstarf. Þar eru saman komin bæði atvinnulíf og stjórnmál af öllum svæðum á Vestfjörðum. Eitt af fyrstu verkefnum stofunnar ætti að mínu mati að vera það að skilgreina betur samstarf sveitarfélaga á svæðinu og draga fram hvar heppilegast er að vinna saman. Lítið dæmi sem gæti skilað miklu væri t.d. að sameina heimasíður og markaðsefni sveitarfélaga á Vestfjörðum. Þannig væru allar síðurnar svipaðar og sameiginlegt lógó og slagorð Vestfjarða væri þar áberandi og fyrirtæki af svæðinu gætu jafnvel notað það líka. Það styrkir okkur bæði út á við og inn á við og minnir okkur á að við erum ein heild og að sameinuð stöndum vér en sundruð föllum við.

Sú vegferð sem Í-listinn og Framsóknaflokkurinn hafa hafið hefur skaðað samstarf sveitarfélaga á Vestfjörðum, algjörlega að óþörfu. Yfirlýsing oddvita allra sveitarfélaga á Vestfjörðum ber vott um það. Að hóta úrsögn úr samstarfi sveitarfélaga um málefni fatlaðs fólks er dæmi um yfirgang og óbilgirni sem ég vill ekki taka þátt í. Ísafjarðarbær verður ekki leiðandi sveitarfélag með slíkum vinnubrögðum.

Daníel Jakobsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

Auglýsing
Auglýsing

Góðar líkur á hvítum jólum

Ágætislíkur eru á hvítum jólum nokkuð víða á landinu. Veðurstofan spáir snjókomu á vesturhelmingi landsins á Þorláksmessu og á aðfangadag jóla ætti að snjóa á norðurhelmingnum. Þeir sem búa á Suðausturlandi ættu hins vegar að búa sig undir rauð jól. Ferðaveður verður gott á Þorláksmessu og ágætt á aðfangadag að minnsta kosti fyrri part dags.

Fram að helgi verður nokkuð rysjótt veður, í dag er nokkuð stíf suðvestanátt og svipuðu veðri er spáð á morgun. Veðrið gengur svo niður á fimmtudag og á föstudaginn, tveimur dögum fyrir jól, er von á enn einni lægðinni með allhvassru sauðaustanátt og rigningu. Það hlýnar vel upp fyrir frostmark. Eins og áður segir kólnar strax aftur á Þorláksmessu og von á jólasnjó á vestanverðu landinu og á aðfangadag snýst vindur í norðanátt. Það kólnar meira og frystir og þá er það norðurhelmingur landsins sem fær ofankomu.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Jólin geta endað í niðurgangi og uppköstum

Matvælastofnun varar við því að jólin geti endað í „niðurgangi og uppköstum sem hvorki er eiganda né dýri til ánægju,“ ákveði hundaeigendur að deila hátíðarsteikinni með hundinum. Á pistli á vefsíðu Matvælastofnun er sagt vera misskilin góðmennska að deila jólamatnum með hundinum, margir hundar eru viðkvæmir fyrir breytingum í mataræði og eru nokkrir hlutir sem sérlega ber að varast. Til dæmis inniheldur súkkulaði efnið theobromíð sem er eitrað hundum og hefur slæm áhrif á ketti. Mest er af theobrómíð í dökku súkkulaði. Theobrómíð hefur áhrif á hjarta, taugakerfi og nýru sem getur valdið alvarlegri eitrun, jafnvel dauða. Áhrifin byrja oft 4-24 klst eftir inntöku og geta verið uppköst, niðurgangur, óróleiki, ofvirkni, skjálfti, óstöðugleiki og krampi. Ekkert mótefni er til. Því þarf að fara með dýrið til dýralæknis sem fyrst.

„Ef um 30 kg hund er að ræða gæti verið um lífshættulega eitrun ef hann étur yfir 1 kg af mjólkursúkkulaði, ½ kg af dökku súkkulaði og 170 g af suðusúkkulaði. Eituráhrif myndu koma fram við lægri skamt td líklegt að uppköst og niðurgangur sæist við inntöku af 200 g af mjólkursúkkulaði, möguleg áhrif á hjartað við 500 g og trúlega skjálftar og krampar við 750 g,“ segir í pistli Matvælastofnunar.

Stofnunin varar jafnframt við því að hundar komist í lauk, hvítlauk, graslauk, rúsínur, ber, avocado, bein, heslihnetur, gerdeig og gervisætuefnið Xylitol.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Sextán milljóna afgangur í fjárhagsáætlun

Reykhólar. Ljósmynd Árni Geirsson.

Gert er ráð fyrir 16 milljóna kr. afgangi í fjárhagsáætlun Reykhólahrepps sem var samþykkt eftir síðari umræðu í sveitarstjórn fyrir helgi. Fjárhagsáætlun ársins 2018 gerir ráð fyrir samanlögðum tekjum A og B hluta upp 558 milljónir króna og þar af eru útsvarstekjur 127 milljónir krónur og tekjur frá Jöfnunarsjóði 176 milljónir krónur.  Samanlögð útgjöld A og B hluta eru 543 milljónir króna og þar vega laun þyngst, eða 352 milljónir króna.

Sveitarstjórn samþykkti að auka framlag til gatnagerðar í fjárhagsáætlun næsta árs um 10 milljónir króna sem fjármagnast með lántöku.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Slæmt ferðaveður síðdegis í dag

Frá Steingrímsfjarðarheiði.

Búast má við allhvassri suðvestanátt víða um land í dag og á morgun með skúrum í fyrstu en síðar slydduél eða él á suður- og vesturhelmingi landsins en léttskýjað á Norðausturlandi. Slæmt ferðaveður verður síðdegis í dag og á morgun í kröftugustu éljunum þar sem búast má við lélegu skyggni að því er segir í tilkynningu frá Veðurstofunni.

Hiti verður í kringum frostmark en kólnar heldur norðantil á morgun. Á föstudag verður sunnanátt og talsverð rigning sunnanlands með hlýindum en á Þorláksmessu snýst í norðaustanátt og kónar aftur með éljum norðan- og austanlands en úrkomulítið syðra.

Það er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á Vestfjörðum og eitthvað um éljagang. Flughálka á Bjarnarfjarðarhálsi. Ófært er yfir Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Bæjarráð samþykkir móttöku flóttamanna

Velferðarsvið Ísafjarðarbæjar hefur fengið staðfestingu velferðarráðuneytisins um að bænum bjóðist að taka á móti flóttamönnum frá Sýrlandi. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkti í gær tillögu Gísla Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra um að bærinn bjóðist til að taka má móti fólkinu sem verða eitthvað á þriðja tug talsins. Móttaka flóttafólksins verði unnin í samstarfi sveitarfélaganna á norðanverðum Vestfjörðum eins og kostur er.

Koma flóttafólksins gæti orðið í lok janúar eða í febrúar 2018, samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu. Velferðarsvið Ísafjarðarbæjar hefur gert ráðuneytinu ljóst að bærinn ráði vel við þetta verkefni, enda liggur fyrir að hægt verður að finna húsnæði.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Áfram gert ráð fyrir niðurskurði í nýju fjárlagafrumvarpi

Bjarni, líkt og forveri hans í fjármálaráðuneytinu, vill skera niður fjárframlög til Náttúrustofu Vestfjarða.

Í nýju fjárlagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra er áfram lagt til að framlag ríkissjóðs til Náttúrustofu Vestfjarða verði skorið niður um ríflega þriðjung á næsta ári – úr 28,7 milljónum króna í 17,7 milljónir króna. Ljóst að er niðurskurðurinn veldur verulegum búsifjum í rekstri Náttúrustofunnar og þarf jafnvel að grípa til fækkunar stöðugilda. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar bókaði um fyrirhugaðan niðurskurð og í bókuninni er ríkisvalið hvatt til að efla starfsemi Náttúrustofu Vestfjarða með auknum fjárveitingum og „slást með þeim hætti í lið með Vestfirðingum sem telja gífurlega mikilvægt að mikill kraftur verði settur í rannsóknir á strandsvæðum Íslands.“

Bæjarráð óskar jafnframt eftir því að sveitarfélög á Íslandi fái þann lýðræðislega rétt að taka að sér skipulag á strandsvæðum.

Í bókuninni segir:

„Hafrannsóknir á mikilvægum fiskistofnum við Ísland hafa leitt til sívaxandi þekkingar á þessum mikilvægu auðlindum, þó vissulega þurfi einnig að efla þær rannsóknir enda er fjölmargt sem rannsaka þarf betur. Rannsóknir á strandsvæðum Íslands, þar sem m.a. er að finna uppvaxtarsvæði mikilvægra fiskistofna og mikil tækifæri til uppbyggingar í fiskeldi og annarri matvæla- og líftækniframleiðslu, eru þó varla fugl né fiskur. Í ljósi mikilvægis strandsvæða fyrir okkur Íslendinga er kominn tími til að þjóðin hætti að vera eftirbátur annarra þjóða í rannsóknum og skipulagi strandsvæða.

Strandsvæðin eru Vestfirðingum einkar mikilvæg, enda þriðjungur strandlengju Íslands á Vestfjörðum.“

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Gera gagn fyrir Fannar

Fannar Freyr Þorbergsson.

Þann 19.október lenti ungur Ísfirðingur, Fannar Freyr Þorbergsson, í alvarlegu bílslysi í Álftafirði. Í slysinu hlaut hann skaða á mænu og framundan er löng og ströng endurhæfing. Fannar er baráttujaxl og er þegar búinn að ná skjótari bata en læknar gerðu ráð fyrir.

Það því miður alkunna að það er dýrt að slasast og vera veikur á Íslandi og þjálfarar og starfsfólk Studio Dan á Ísafirði ætla að leita til nærsamfélagsins til að leggja sitt af mörkum og gefa Fannari Frey góða jólagjöf sem vonandi léttir aðeins undir í baráttunni sem bíður hans.

Á Þorláksmessu kl. 10:00-11:45 verður blásið til viðburðarins „Gerum gagn“.

Gerum gagn er stöðvaæfingagleði sem verður til húsa í Studio Dan og kostar kr. 2.000 að vera með og rennur upphæðin sem inn kemur óskipt til Fannars. Greiða þarf með seðlum svo hægt sé að afhenda upphæðina sem safnast í lok viðburðar.

Örlítið um Gerum gagn:

  • Það þarf ekki að eiga kort í Studioinu til að vera með
  • Verð kr. 2000 á mann en frjáls framlög að sjálfsögðu vel þegin
  • Æfingunum er stillt upp þannig að allir geta verið með, óháð aldri, líkamsástandi eða öðru
  • Studio Dan verður skipt upp í 6 stöðvar
  • Unnið í 10 mín á hverri stöð
  • 8-10 manns á hverri stöð
  • Stöðvarnar innihalda meðal annars:
  • Spinning
  • Hreyfingu á þrektækjum
  • Lóða og tækjaæfingar
  • Liðleika og kviðæfingar
  • Lotuþjálfun

Vilji fólk mæta í hópum er það sjálfsagt mál og bent á að tilvalið væri að mæta í fatnaði sem einkennir hópinn. Þeir sem vilja leggja málefninu lið en ekki taka þátt í hreyfingunni geta að sjálfsögðu litið við í Studionu, heilsað upp á hópinn og stutt við átakið. Fyrir fyrirtæki og þá sem ekki komast til að vera með á laugardaginn er bent á að einnig er hægt að leggja inn á reikning Fannars: 0556-14-602586-091089-3199.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir