Mánudagur 21. apríl 2025
Heim Blogg Síða 2097

Hádegissteinninn verður sprengdur

Hádegissteinninn vegur tugi tonna og ekki að spyrja að hættunni sem myndast ef hann hrynur ofan í byggðina.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að Hádegissteinninn í Hnífsdal verði sprengdur. Steinninn er talinn valda hættu fyrir byggðina í Hnífsdal og óttast sérfræðingar að hann geti farið af stað og runnið niður hlíðina og á byggðina. Það er mat sérfræðinga að heppilegra sé að fjarlægja steininn með sprengingum en að festa hann niður með víravirki. Framkvæmdasýslu ríkisins hefur verið falið að ná samningum við lægstbjóðanda í verkið sem er Kubbur ehf., en fyrirtækið bauð fjórar milljónir króna í brjóta steininn niður með sprengingum.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Ríkisstjórnin tryggi fjármagn til rækjurannsókna

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hvetur ríkisstjórn Íslands til að tryggja Hafrannsóknarstofnun fjármagn til að efla rækjurannsóknir við Ísland og Ísafjarðardjúp sérstaklega til að skilja megi til hlýtar ástæður lítillar nýliðunar. Umrædd atvinnugrein skiptir miklu máli fyrir samfélagið við Djúp og því mikilvægt að vandað sé til verka með það að markmiði að hægt sé að stunda sjálfbærar veiðar í atvinnuskyni. Þetta kemur fram í ályktun sem bæjarstjórn samþykkti fyrir helgi. Engar rækjuveiðar verða stundaðar í Ísafjarðardjúpi í vetur samkvæmt ráðleggingum Hafrannsóknastofnunar að loknum haustrannsóknum.

Í ályktuninni er bent á að rækjuveiðar og vinnsla hafa verið stundaðar við Ísafjarðardjúp frá árinu 1935 og skipta samfélagið miklu máli. Árlegur rækjuafli úr Ísafjarðardjúpi hefur iðulega verið á bilinu 1700-2500 tonn og farið upp í 3000 tonn. Það er því grafalvarlegt mál fyrir samfélagið hér að ákveðið hafi verið að rækjuveiðar verði bannaðar í Ísafjarðardjúpi og Arnarfirði, vertíðina 2017-2018.

Síðast þegar rækjuveiðar voru bannaðar í Ísafjarðardjúpi stóð það bann í 9 ár. Í ályktunni er minnt á að Arnarfjörður og Ísafjarðardjúp eru síðustu tvö innfjarðarækjusvæðin sem nýtt eru við Ísland, af átta skilgreindum innfjarðarækjustofnum við landið. „Alger friðun á hinum svæðunum sex, í hartnær tvo áratugi, hefur engum árangri skilað í uppbyggingu rækjustofnanna en er hinsvegar á góðri leið með að gera út af við atvinnugreinina á viðkomandi svæðum,“ segir í ályktuninni sem var samþykkt samhljóða.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Bæjarfulltrúar hækka launin

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti að fastar mánaðarlegar greiðslur til bæjarfulltrúa hækki um 23,5 prósent og greiðslur fyrir funardarsetur hækki um 8,5 prósent. Í afgreiðslu bæjarstjórnar segir að hækkunin sé í samræmi við breytingu á launavísitölu.

Enn fremur var samþykkt að greiðslur til bæjarfulltrúa verði ekki lengur tengdar þingfararkaupi. Greiðslur verði miðaðar við fasta fjárhæð sem skuli endurreiknuð 1. janúar ár hvert í samræmi við launavísitölu. Launavísitalan í október 2017, verður notuð sem grunngildi útreikninganna.

Föst laun bæjarfulltrúar eru 66 þúsund kr. á mánuði og fá þeir greitt 33 þúsund kr. fyrir hvern bæjarstjórnarfund og 16.500 kr. fyrir nefndarfundi.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Góður gangur fyrir jólafrí

Í síðustu viku voru grafnir 70,8 m í Dýrafjarðargöngum. Heildarlengd ganganna í lok viku 50 var 812,0 m sem er 15,3% af heildarlengd ganganna. Grafið var í gegnum þrennskonar efni seinni part vikunnar. Í vinstri hlið ganganna er berggangur sem hefur fylgt gangamönnum í um 40 m. Neðst í sniðinu er karginn á leiðinni upp og svo þar fyrir ofan er basaltið sem grafið hefur verið í síðustu vikurnar. Sem fyrr þá dropar vatn úr loftinu og veggjum.

Efni úr göngunum er keyrt í vegfyllingu sem er komin um 500 m frá enda fyrirhugaðs vegskála. Enn á þó eftir að hækka veginn töluvert.

Á annarri myndinni er stafn ganganna með öllum þremur berggerðunum. Hin myndin sýnir slóðagerð sitt hvoru megin við svæði þar sem lífrænt efni verður tekið upp áður en efni í vegfyllingu er komið fyrir.

Gangamenn Suðurverks og Metrostav fara í jólafrí á morgun og koma aftur til starfa þann 3. janúar. Flestir starfsmenn Metrostav eru frá Tékklandi.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Skammvinn hlýindi

Ausandi rigning á sunnanverðum Vestfjörðum í dag.

Það verður stíf sunnan og suðvestanátt á Vestfjörðum næsta sólarhringinn. Talsverð rigning verður á sunnanverðum Vestfjörðum en minna annars staðar. Síðdegis er spáð sunna 5-13 m/s og hiti verður 3 til 8 stig. Snýst í suðvestan 13-18 m/s í nótt með skúrum eða éljum, en 15-20 m/s síðdegis á morgun með éljagangi og hita 0 til 3 stig.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir hlýtt loft leikur um landið og rignir víða talsvert þegar líður á daginn, jafn vel úrhelli undir Eyjafjöllum, í Mýrdal og Öræfum í kvöld. Hlýindin standa þó stutt yfir, því á morgun kólnar talsvert með útsynningi, skúrum eða éljum. Tölvuspár fyrir vikuna gera ráð fyrir að hlýni um tíma á föstudag, en kólni síðan yfir jólahelgina.

Það er hálka eða hálkublettir á vegum á norðanverðum Vestfjörðum en á sunnanverðum fjörðunum og á Innstrandavegi er víða flughálka. Þæfingsfærð er norður í Árneshrepp. Ófært er yfir Hrafnseyrar- og Dynjandisheiði.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Ríkisstjórnin hlusti á borgarafundinn

Frá borgarafundinum í í september.

Stjórn Samfylkingarinnar á Samfylkingarinnar á norðanverðum Vestfjörðum leggur áherslu á að ný ríkisstjórn setji raforkumál á Vestfjörðum, vegagerð í Gufudalssveit á oddinn ásamt því að stuðla að laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Þetta kemur fram í ályktun stjórnar Samfylkingarfélagsins. Í ályktuninni bent á að það er mjög mikilvægt fyrir landsbyggðina, eins og landið allt, að hafa góða og gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu sem er öllum opin. Í ályktuninni segir:

„Til þess að landið geti virkað sem ein heild þarf að efla atvinnulífið á landsbyggðinni og finna leiðir til að efla svæði í sátt við náttúruna. Í september 2017 var haldinn borgarafundur  á Ísafirði þar sem kallað var eftir úrbótum í þremur málefnum á Vestfjörðum. Þau eru í fyrsta lagi, vegagerð í Gufudalssveit,  í öðru lagi raforkumál á Vestfjörðum og þriðja lagi, hvort leyfa skuli laxeldi í Ísafjarðardjúpi.

Aðalfundur Samfylkingarinnar á norðanverðum Vestfjörðum tekur heils hugar undir þær ályktanir er settar voru fram á fundinum og hvetur nýja ríkisstjórn til að setja þessi atriði í forgang sem fyrst og þar með sýna að þeir hafi í hyggju að halda uppi blómlegri byggð og  efla atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum.“

Á aðalfundinum var Magnús Bjarnason kjörinn nýr formaður félagsins og tekur hann við af Línu Björgu Tryggvadóttur.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Ný reglugerð um drónaflug

Fyrir helgi öðlaðist reglugerð um fjarstýrð loftför – dróna – gildi á Íslandi. Þótt ýmiss ákvæði loftferðarlaga taki og hafi tekið á þessum þætti flugumferðar er þetta í fyrsta skipti sem sérstaklega er kveðið á um notkun dróna í reglugerð. Markmiðið er að tryggja flugöryggi og öryggi og réttindi fólks. Nýjungar frá fyrri reglum felast m.a. í að tryggja nægjanlega fjarlægð frá fólki, dýrum og mannvirkjum eða eignum.

Segja má að með reglugerðinni skiptist notkun dróna í tvo flokka. Annarsvegar tómstundaflug þar sem ekki þarf að leita sérstaks leyfis hjá Samgöngustofu. Hinsvegar eru reglur um notkun dróna í atvinnuskyni, þ.m.t. rannsókna, sem þarf að skrá hjá þjónustuveri Samgöngustofu. Nánar er kveðið á um undanþágur í reglugerðinni.

Notendur eru hvattir til að kynna sér reglugerðina og fræðsluefni sem nálgast má hér. Samgöngustofa hefur útbúið veggspjald um meginatriði hennar og er það hér meðfylgjandi. Verður því dreift til helstu söluaðila dróna á Íslandi og ætlast er til að þeim sé dreift áfram til kaupenda.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

25 viðburðir á tæpum þremur mánuðum

Frá húsakynnum Blábankans.

Blábankinn á Þingeyri opnaði þann 20. september og hefur því starfað í tæpa þrjá mánuði. Mikil þátttaka hefur verið í starfinu, bæði frá heimafólki og gestum í Dýrafirði. Frá opnun hafa verið haldnir 25 viðburðir í eða á vegum Blábankans, allt frá námskeiðum til funda, kynninga, tónleika og sýninga. Þátttakendur hafa verið um 300, auk þess sem á annað hundrað mættu á opnunina sjálfa.

Blábankinn er tilraunaverkefni á Þingeyri sem miðar að því að leggja grunn að félags- og efnahagslegri nýsköpun. Hægt er að fylgjast með framgangi verkefnisins á Facebook hópnum Blábankinn á Þingeyri en einnig er starfrækt enskumælandi Facebook síða The Blue Bank.

Tækni, lýðræði og gervigreind

Innan veggja Blábankans fer fram verkstjórn á tveimur nýsköpunarverkefnum undir merkjum Karolina Fund. Annarsvegar verkefni stutt af Tækniþróunarsjóði sem miðar að því að nýta gervigreind við fjármálatækni og hinsvegar rafrænt lýðræðisverkefni að frumkvæði finnskra stjórnvalda. Sérfræðingar á sviði vélnáms, forritunar og markaðssetningar hafa dvalið í Blábankanum við þessi verkefni.

Stafræn framleiðsla og japönsk byggðarþróun

Arkítektinn Yasuaki Tanago hefur undanfarið unnið verkefni sem lítur að því að nýta reynslu japana af byggðarmálum dreyfðari byggða á Þingeyri. Þá hefur FabLab á Ísafirði unnið með Blábankanum við að setja upp sköpunarsmiðju og m.a. staðið á kynningu á þrívíddarprentun.

Þjónusta

Blábankinn hefur gert samstarfssamninga við Landsbankann, Ísafjarðarbæ, Bókasafnið Ísafirði og VerkVest um aukna þjónustu við íbúa Dýrafjarðar sem framkvæmd er af starfsfólki Blábankans. Þá veitir Blábankinn almenna tölvuaðstoð tvisvar í viku.

smari@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Hugum að jólaljósum og rafmagnsöryggi

Framundan er hátíð ljóss og friðar. Að mörgu þarf að hyggja og eitt af því er að huga vel að jólaljósum, skreytingum og rafmagnsöryggi. Rafmagn er stórvirkur brennuvargur og á hverju ári verða eldsvoðar, sem eiga upptök sín í rafbúnaði.

Atriði sem vert er að hafa í huga:

  • Látum aldrei loga á ljósunum á jólatrénu.
  • yfir nótt eða þegar við erum að heiman.
  • Hendum gömlum jólaljósum sem eru úr sér gengin.
  • Notum ætíð ljósaperur af réttri gerð, stærð og styrkleika.
  • Gætum þess að brennanleg efni séu ekki nálægt jólaljósum.
  • Óvarinn rafbúnaður getur valdið raflosti.
  • Vörum okkur á óvönduðum jólaljósum.
  • Inniljós má aldrei nota utandyra.
  • Förum eftir leiðbeiningum um uppsetningu og notkun.
  • Látum logandi kerti aldrei standa ofan á raftæki.
  • Góður siður er að skipta um rafhlöður í reykskynjurum fyrir hver jól.

Mannvirkjastofnun hefur nýlega birt gagnlegar upplýsingar um jólaljós og rafmagnsöryggi og á vef sínum ráðleggur Orkubú Vestfjarða viðskiptavinum sínum og landsmönnum öllum að kynna sér vel þessar leiðbeiningar.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Fimleikasýning í Bolungarvík

Nú virðist fimleikaíþróttin vera ryðja sér til rúms hér á norðanverðum Vestfjörðum. Í vetur og í fyrra hafa verið fimleikaæfingar á Flateyri og í vor var stofnuð fimleikadeild hjá UMFB í Bolungarvík. Þar var haldið prufunámskeið sem vakti mikla lukku og í kjölfarið var deildin stofnuð. Það er Laddawan Dagbjartsson íþróttakennari sem þjálfar deildina með dyggri aðstoð dætra sinna, Lilju og Marín, Pálínu Jóhannsdóttur formanns og foreldra.

Iðkendur eru 40-50 og koma frá Ísafirði og Bolungarvík.

Allir eru launalausir við deildina og fara öll æfingagjöld í tækjakaup en þegar hefur verið fjárfest í lofttrampólíndýnu sem er væntanleg en það er fjárfesting upp á 650.000. Að sögn Pálínu mun dýnan breyta aðstöðu iðkenda gríðarlega. Hún segir mikinn áhuga hjá börnunum og metnaður Laddawan mikill en hún sé einstök og drífandi í starfinu öllu.

Á sunnudaginn kl. 12:00 er sýning hjá fimleikadeildinni þar sem sýndur verður boogie-,  barbie-,  og up-town funk fimleikadans ásamt allskonar hoppum og heljarstökkum. Sýningin verður í íþróttahúsinu Árbær, þar verður enginn aðgangseyrir en deildin tekur glöð við styrkjum til tækjakaupa ef einhverjir vilja styðja við nýja íþróttagrein.

bryndis@bb.is

Auglýsing
Auglýsing

Nýjustu fréttir