Miðvikudagur 18. september 2024
Síða 208

Ágæt færð á vegum

Vegir á Vestfjörðum eru greiðfærir nema norður í Árneshrepp að sögn Vegagerðarinnar. Guðmundur Björgvinsson, verkefnastjóri segir að vegir hafi verið hreinsaðir í gær og lítið hafi snjóað. Úrkoma var mest 14. og 21 des. Aðra daga fremur lítil úrkoma en hvassviðrið aðfararnótt aðfangadags olli því að talsvert skóf og snjóflóð sem fallið hafa afleiðing þess, fremur kaldur og þurr snjór safnaðist í fleka í giljum sem hljóp fram.
Hann segir góðar horfur vera fyrir morgundaginn fram eftir degi. En spáð er vaxandi norðaustanátt seint á morgun og þá gæti færð á Dynjandisheiði spillst, einkum á gamla veginum yfir heiðina norðanverða.
Þjónusta Vegagerðarinnar er til kl. 19 á Steingrímsfjarðarheiði en til kl. 17:30 á Dynjandisheiði. Þjónustu er þó hætt fyrr á Dynjandisheiðinni ef fer að skafa en þá spillist færðin fljótt á gamla hluta vegarins.

Jólahugvekja: Hitt guðspjallið

I.
Tveir af guðspjallamönnunum, þeir Matteus og Lúkas segja frá fæðingu Jesú og þeim atburðum, sem þá urðu. Lúkas segir frá ferðalagi Maríu og Jósefs til Betlehem og að frelsarinn hafi verið lagður í jötu nýfæddur. Hann segir einnig frá fjárhirðunum á völlunum við Betlehem, sem hlustuðu á engil segja þeim frá því að frelsarinn væri fæddur. Síðan sungu englarnir Guði lof og dýrð. Þessi frásaga er vel þekkt og hún er alltaf lesin upp í kirkjum landsins á jólum.
Matteus segir söguna allt öðru vísi. Þar eru það þrír menn, líklega stjörnuskoðunarmenn frá Meópótamíu, sem eru á ferðalagi af því að þeir sáu nýja stjörnu á himninum. Þessir vitringar álíta stjörnuna boða stórtíðindi og dettur þeim helst í hug að það muni vera fæðing nýs konungs. Og líkt og fréttamenn nútímans þá storma þeir inn í höllina í Jerúsalem og spyrja hvort þar hafi nokkuð fæðst nýr konungsson, Messías Hebreanna.
Þetta atriði sýnir okkur að þessir vitringar voru kjánar. Já, bjálfalegt var það að fara í höllina til Heródesar gamla og spyrja þennan grimmdarsegg hvort það hefði ekki nýlega fæðst barn, sem hugsanalega væri Messías, hinn fyrirheitni konungur og frelsari. Og brosandi glaðir og spenntir sögðu vitringarnir Heródesi að þessi nýfæddi konungur yrði konungur konunganna, sem myndi skyggja á allt og alla. Já, það hefði meira að segja birst ný stjarna á næturhimninum! Og þetta söguðu þeir við hinn grimmlinda konung í Jerúsalem, sem í vænisýki sinni hafði látið drepa konu sína, syni og fjölda þegna sinna.
Heródes gamli var ekki Ísraelsmaður eða Gyðingur. Hann var fæddur handan árinnar Jórdan, þar sem nú er ríkið Jórdanía. Hann var útlendur harðstjóri, sem drottnaði yfir Ísrael. Og nú komu til hans þrír stjörnuskoðunarmenn, sem sögðu honum að hinn nýi konungur Gyðinganna væri fæddur. Heródes vissi alveg hvert hann átti að senda þessa stjörnuspekinga að leita að nýfæddum konungi. Ætt Davíðs konungs var frá Betlehem og þar hlaut barnið að vera fætt. Og Heródes sagði spekingunum þremur að fara til Betlehem og leita þar að barninu. Þegar þremenningarnir voru farnir þá skipaði Heródes hermönnum sínum að elta vitringana þrjá og drepa barnið, sem þeir leituðu að.
II.
Frásögn Matteusar er ekki beint jólaleg. Þetta er ekki saga, sem nokkur prestur vill lesa upp í kirkjunni á aðfangadagskvöld þegar hátíð jólanna, hátíð ljóss og friðar er hringd inn. Frásaga Matteusar er eins og handrit að hasar- og spennumynd, sem Hollývúdd myndi framleiða. Lesendur Matteusar eru eins og hengdir upp á þráð þegar þeir lesa fyrstu tvo kaflana í guðspjalli hans. Lesendinn spyr sig hvernig þetti endi allt saman. Matteusarguðspjall er hitt guðspjallið, sem við lesum ekki upp í kirkjunni fyrr en á þrettándanum, – ef það er þá messað þann dag!
Samt er þetta guðspjall með engu minni jólaboðskap en frásaga Lúkasar. Því boðskapur Matteusar er sá að manneskjan sé ekki ein hér í heimi, ekki ofurseld grimmd herkonunga eins og Heródesar. Nei, guðspjall Matteusar minnir okkur á þann sannleik að yfir veröldinni vaki góður Guð, sem hjálpar mönnunum og verndar þá. Þess vegna vitjar Guð vitringanna í draumi og segir þeim að varast Heródes og láta hann og hans menn ekki vita af barninu. Og engill Drottins birtist Jósef í draumi og segir honum að flýja með Maríu og barnið til Egyptalands því Heródes ætli að vinna því mein.
III.
Já, fjölskylda Jesú var flóttafólk, þau flúðu til Egyptalands, voru á vergangi í nokkur ár áður en þau áræddu að snúa aftur heim til Ísraels.
Á Íslandi er flóttafólk. Sumt er langt að komið og hefur leitað hér skjóls undan stríði, ofsóknum eða atvinnuleysi og eymd. Aðrir eru landar okkar. Já, á þessum jólum eru Íslendingar á flótta í eigin landi. Grindvíkingar hafa orðið að flýja heimili sín vegna náttúruhamfara. Jólin þeirra í ár verða allt öðru vísi en jólin í fyrra eða hitteðfyrra. En samt verða það heilög jól. Og þetta er leyndardómur jólanna; það er alveg sama hvar þú ert staddur, hvort þú ert heima hjá þér, vinnandi á stofnum eða á ferðalagi úti í heimi þá kemur yfir þig jólaandinn þegar hátíðin gengur í garð og þú brosir framan í ástvini þín og segir gleðileg jól. Það er engin önnur hátíð, sem hefur viðlíka stemmingu og áhrif og jólin. Jólin snerta við okkur á sérstakan hátt. Þau búa í huga okkar og hjarta.
Og svo er það flóttafólkið, sem enginn vill vita af. Það er fólkið, sem hefur ákveðið að flýja sjálft sig með því að sökkva sér ofan í algleymi vímuefna, fólkið, sem ráfar um stræti stórborganna og á hvergi höfðu sínu að halla eða getur hvergi fest rætur. Í Reykjavík bjóða Hjálpræðisherinn og Samhjálp slíku utangarðsfólki upp á jólamat. Annars staðar á landinu er það útrétt hönd nágrannans, sem hjálpar.
Jólin eru hátíð kærleikans. Þau segja frá kærleika Guðs til okkar manna. Þau eru tækifæri til halda upp á og innsigla kærleika okkar til fjölskyldu okkar og vina með gjöfum og veislumat. Og jólin kveikja í hjarta okkar kærleika til allra manna og þess vegna viljum við rétta þeim hjálparhönd, sem eru á vergangi í lífinu.
Engin hátíð er eins stórkostleg eins og jólin.
Guð gefi þér og þínum gleðileg jól.

Magnús Erlingsson,
prestur á Ísafirði.

Gleðilega hátíð

Skemmtiferðaskip í Ísafjarðarhöfn. Mynd: Ágúst Atlason.

Fréttavefurinn Bæjarins besta sendir lesendum sínum, auglýsendum og öllum velunnurum besta jóla- og nýárskveðjur með góðum óskum um gott og farsælt komandi ár.

Árið hefur verið Vestfirðingum í meginatriðum farsælt til lands og sjávar rétt eins og árið á undan. Mikilvæg framfaramál hafa mjakast áfram í rétta átt og íbúum fjölgaði, einkum þar sem áhrifa uppbyggingar í atvinnulífinu gætir mest. Nú er lokið vegagerð í Þorskafirði um inn umdeilda Teigskóg, búið að opna brúna yfir Þorskafjörð og sér fyrir endann á vegagerð um Gufudalssveit. Vetrarsamgöngur milli norðanverðra og sunnanverðra Vestfjarða hafa tekið stakkaskiptum í vetur með þjónustu á Dynjandisheiðinni og nýjum vegarköflum á heiðinni. Innan þriggja ára verður báðum þessum miklu vegaframkvæmdum lokið.

Laxeldi í sjókvíum heldur áfram að eflast í vestfirskum fjörðum og framleiðslan vex hröðum skrefum. Arnarlax og Arctic Fish eru komin í hóp stærstu fyrirtækja landsins og eru metin á hátt á annað hundrað milljarða króna í norsku kauphöllinni. Háafell í Hnífsdal hefur hafið framleiðslu í Ísafjarðardjúpi. Beðið er útgáfu nýrra leyfa í Djúpinu. Nýtt laxasláturhús var opnað í Bolungavík. Fjárfesting í því er um 5 milljarðar króna. Framundan eru frekari fjárfestingar á sunnanverðum Vestfjörðum í nýju sláturhúsi og seiðaeldisstöð, framkvæmdir sem eru um einn tugur milljarða króna. Áform stjórnvalda um nýja löggjöf um fiskeldi þurfa að styðja við uppbygginguna en varast ber að láta undan þrýstingi andstæðinga atvinnugreinarinnar sem vilja stöðva starfsemina.
Enn er lítil hreyfing á virkjunaráformum á Vestfjörðum og orkuskortur hamlar atvinnuuppbyggingu og orkuöryggi í fjórðungnum. Bundnar eru vonir við að árið skili okkur fram á við. Hafinn er undirbúningur að nýrri kalkþörungaverksmiðju í Súðavík með landfyllingu á Langeyri og útsýnispallur á Bolafjall ásamt stórhuga uppbyggingu Sundahafnar á Ísafirði hefur styrkt ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Erlendu skemmtiferðaskipin hafa skilað miklu til samfélagsins og Vestfirðingar munu nýta þau til þess að halda áfram að byggja upp sína ferðaþjónustu.

Helgihaldi víða aflýst vegna veðurs

Helgihaldi í dag hefur verið aflýst vegna veðurs og ófærðar í Bolungavík, Hnífsdal, Súgandafirði, Önundarfirði og Dýrafirði.

Á Ísafirði verður það skv. fyrri tilkynningu.

Jólamessur í Ísafjarðarprestakalli

Bolungarvík:

Aðfangadagur 24. desember: Aftansöngur í Hólskirkju kl. 18:00.

Jóladagur 25. desember: Jólamessa í Hólskirkju kl. 14:00. Helgistund á Bergi kl. 15.15.

Gamlársdagur 31. desember. Aftansöngur í Hólskirkju kl. 17:00.

Hnífsdalur:

Aðgangadagur 24. desember: Aftansöngur kl. 18:00 í Hnífsdalskapellu.

Ísafjörður:

Aðgangadagur 24. desember: Miðnæturmessa kl. 23:30 í Ísafjarðarkirkju.

Jóladagur 25. desember: Jólamessa kl. 14:00 í Ísafjarðarkirkju. Helgistund á Eyri kl. 15:30.

Gamlársdagur 31. desember. Aftansöngur í Ísafjarðarkirkju kl. 17:00.

Súðavík:

Annar jóladagur 26. desember: Jólamessa kl. 14:00 í Súðavíkurkirkju.

Súgandafjörður:

Aðfangadagur 24. Desember: Messa á jólanótt kl. 23:00 í Suðureyrarkirkju.

Gamlársdagur 31. Desember. Aftansöngur kl. 18:00 í Staðarkirkju. Blysför á undan frá Suðureyri.

Önundarfjörður:

Aðgangadagur 24. desember: Aftansöngur kl. 18:00 í Flateyrarkirkju.

Jóladagur 25. desember: Jólamessa kl. 13:00 í Holtskirkju.

Dýrafjörður:

Aðgangadagur 24. desember: Aftansöngur kl. 22:30 í Þingeyrarkirkju.

Jóladagur 25. desember: Jólamessa kl. 15:00 á Tjörn.

Vond spá yfir hátíðirnar – mokstur og þjónusta í Bolungavík

Snjóalög í Bolungavík 2014. Mynd: visir.is

Lögreglan hefur varað við slæmri veðurspá er slæm fyrir hátíðirnar.

Bolungavíkurkaupstaður segir í tilkynningu að búast megi við mikilli snjókomu og skafrenningi fyrripartinn á aðfangadag og frameftir kvöldi.

Íbúa eru beðnir að fylgjast vel með veðurspá á www.vedur.is og reyna eftir bestu að aðlaga sín plön að aðstæðum.

Stefnt verður að því halda öllum götum opnum á aðfangadag til kl.16 með því að ‚stinga‘ í gegn. Það má því búast við ruðningar myndist í bænum sem geta teppt bílastæði og heimreiðar.

Á jóladag, verður byrjað að opna göturnar kl.10, ef þess gerist þörf og stungið einu sinni í gegnum göturnar.

Á annan í jólum, verður byrjað að opna göturnar kl.10, ef þess gerist þörf, og stungið einu sinni í gegnum göturnar.

Síðan hefst hefðbundin mokstur miðvikudaginn 27.des.

Ef íbúar lenda í vandræðum með að komast til og frá heimilum sínum í bænum yfir hátíðirnar er björgunarsveitin Ernir með hefðbundna vakt yfir hátíðirnar og hægt er að óska eftir aðstoð með því að hringja í 112. Mikilvægt er að beiðnir um aðstoð fari í gegnum 112, en ekki með því að hringja beint í síma björgunarsveitamanna. Það auðveldar eftirfylgni allra verkefna og tryggir að allir fái aðstoð.

Tónlistarhátíð við Djúp um næstu sumarsólstöður

Frá hátíðinni í fyrra.

Tónlistarhátíðin við Djúpið notar vetrarsólstöður, sem voru í vikunni til þess að minna á að næst þegar sólin er í þann mund að ná eins hátt og hún kemst verður næsta tónlistarhátíðin Við Djúpið.

Strax á nýju ári verður kynnt fyrsti hluti dagskrár hátíðarinnar sem fram fer dagana 17.–22. júní á Ísafirði.

Á Instagram hafa verið birtar myndir sem teknar voru á Ísafirði á hátíðinni í sumar, þegar sólin tók sér aldrei frí og var varla horfin bakvið fjöllin þegar hún hóf að skína á þau handan fjarðarins.

Vávest: tryggjum velferð barna og unglinga

Vá-Vest beitir sér gegn auknu aðgengi að áfengi.

Vá-Vest hefur um árabil sinnt forvörnum á norðanverðum Vestfjörðum. Í tilkynningu frá samtökunum segir að í dag sé ýmislegt sem bendir til að neysla ungmenna á áfengi, tóbaki og nikótínvörum sé að aukast og full ástæða er til að taka það alvarlega. Vávest hvetur til þess að áfengi, nikótín og nikótínvörur séu ekki seldar þeim sem ekki hafa aldur til.

„Á Íslandi gilda skýr lög um hámarksaldur þegar kemur að sölu á áfengi, tóbaki og nikótínvörum. Megin ástæða þessara laga er að neysla ungmenna á umræddum vörum hefur verulega slæmar heilsufarslegar afleiðingar fyrir þau. Því yngri sem unglingar byrja að neyta þeirra því skaðlegri verða afleiðingar neyslunnar. Því lengur sem unglingar sniðganga áfengi því ólíklegra er að þeir ánetjist fíkniefnum, svo hvert ár skiptir máli.

Það er samfélagsleg ábyrgð okkar allra að tryggja velferð barna og ungmenna. Ein leið til þess er að selja ekki áfengi, tóbak og nikótínvörur til þeirra sem ekki hafa aldur til. Við hvetjum ykkur til að upplýsa starfsfólk ykkar um hver hámarksaldurinn er til að kaupa umræddar vörur og fylgja því eftir með ábyrgum hætti.

Einnig hvetjum við söluaðila til þess að framfylgja lögum um sölu á tóbaki og nikótínvörum og gæta þess að starfsfólk hafi tilskilinn aldur til þess að afhenda þessar vörur í verslunum. Í lögum er kveðið á um að starfsfólk þurfi að hafa náð 18 ára aldri til að mega selja umræddar vörur.

Í sameiningu getum við skapað öruggara og heilbrigðara samfélag fyrir unga fólkið okkar.“ 

MÍ: Ísafjarðarbær greiddi framlag vegna Fablab fyrir 2023

Frá undirritun samningsins um Fablab 2018. Mynd: Aðsend.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á fimmtudaginn 3,9 m.kr. viðauka við fjárhagsáætlun ársins fyrir notkun Fab Lab smiðju árið 2023.

Í bréfi skólameistara Menntaskólans á Ísafirði dags. 14. júní í sumar var farið fram á að Ísafjarðarbær greiddi framlag sitt fyrir 2022 en sveitarfélagið hafði allt það ár nýtt Fablab smiðjuna til kennslu fyrir grunnskóla sveitarfélagsins. Var Ísafjarðarbær ekki rukkaður fyrir efnis- og tækniþjónustu, en hún nam 4.932.000 kr.

Skólameistarinn rekur að í apríl 2022 hafi verið fundur sveitarfélaganna við Djúp um samstarf þeirra um Fablab Ísafjörður og rætt um áframhaldandi samstarf. Það hafi því komið á óvart að Ísafjarðarbær hafi tilkynnt að hlutur þeirra fyrir 2022 yrði ekki greiddur þar sem samningurinn væri útrunninn. Bolungavík og Súðavík greiddu sinn hlut.

Skólameistari segir að taki Ísafjarðarbær ekki þátt í rekstri Fablab smiðjunnar sé rekstrargrundvöllurinn brostinn í því formi sem hann er í dag.

Fór hann fram á að Ísafjarðarbær kæmi að því með MÍ og hinum sveitarfélögunum tveimur að endurnýja samninginn til næstu fjögurra ára.

Í afgreiðslu bæjarstjórnar koma ekki fram svör við því erindi.

Varðskipið Freyja kallað til Vestfjarða

Áhöfnin á varðskipinu Freyju hefur verið kölluð út að beiðni lögreglunnar á Vestfjörðum vegna slæmrar veðurspár og hugsanlegrar snjóflóðahættu um helgina. Gert er ráð fyrir að skipið haldi úr höfn á Siglufirði um miðnætti og verði komið vestur á firði í fyrramálið.

Almannavarnir hafa vakið athygli á að veðurspá helgarinnar er ekki góð og hætta á að færð spillist og snjóflóðahætta myndist á Vestfjörðum. Átján manna áhöfn skipsins, sem var á bakvakt, brást skjótt við kallinu og hóf þegar undirbúning fyrir brottför.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni kemur fram að miðað við veðurspá eru allar líkur á að skipið verði til taks á Vestfjörðum fram yfir helgi.

Nýjustu fréttir