Miðvikudagur 18. september 2024
Síða 205

Hver verður íþróttaeldhugi ársins 2023?

ÍSÍ, í samvinnu við Lottó, stendur fyrir kjöri á Íþróttaeldhuga ársins samhliða kjöri á Íþróttamanni ársins þann 4. janúar næstkomandi. Íþróttaeldhugi ársins er valinn úr röðum sjálfboðaliða í íþróttahreyfingunni, sem hafa í gegnum árin nýtt eigin hæfileika, frítíma og sérþekkingu til að efla íþróttastarfið í sínu nærumhverfi eða á landinu öllu.

Kallað var eftir tilnefningum úr hreyfingunni og frá landsmönnum og bárust alls 163 tilnefningar um alls 112 einstaklinga úr 20 íþróttagreinum. Úr röðum þeirra hefur sérstök valnefnd valið þrjá einstaklinga og mun einn þeirra hljóta heiðursviðurkenninguna Íþróttaeldhugi ársins 2023. Tilkynnt verður um úrslitin, eins og áður sagði, í hófi um kjör Íþróttamanns ársins 2023. Valnefndin var skipuð þeim Þóreyju Eddu Elísdóttur formanni, Kristínu Rós Hákonardóttur, Margréti Láru Viðarsdóttur, Snorra Einarssyni og Degi Sigurðssyni. 

Þeir einstaklingar sem valnefndin valdi úr röðum tilnefninga eru :

Edvard Skúlason (knattspyrna), hefur starfað fyrir Knattspyrnufélagið Val,
Guðrún Kristín Einarsdóttir (blak) hefur starfað fyrir Aftureldingu og Blaksamband Íslands og 
Ólafur Elí Magnússon (borðtennis, glíma blak, badminton, frjálsíþróttir) hefur starfað fyrir Íþróttafélagið Dímon.

Öll hafa þau unnið mikið og óeigingjarnt starf í þágu íþrótta til áratuga.

Pólverjar þriðjungur erlendra ríkisborgara á Íslandi

Alls voru 74.423 erlendir ríkisborgarar skráðir með búsetu hér á landi þann 1. desember sl. og fjölgaði þeim um 9.838 einstaklinga frá 1. desember 2022 eða um 15,2%.

Á sama tímabili fjölgaði íslenskum ríkisborgurum um 1.627 einstaklinga eða um 0,5%.

Úkraínskum ríkisborgurum hefur fjölgað um 74,2% frá 1. desember 2022 og voru í byrjun mánaðarins alls 3.946 úkraínskir ríkisborgarar skráðir til heimilis á Íslandi samkvæmt Þjóðskrá, sem er fjölgun um 1.681 einstaklinga á tímabilinu.

Sömuleiðis hefur orðið umtalsverð fjölgun ríkisborgara frá Palestínu eða um 73,5% sem eru 228 einstaklingar á umræddu tímabili og eru nú 538 einstaklingar með palestínskt ríkisfang búsettir hér á landi.

Pólskum ríkisborgurum fjölgaði á ofangreindu tímabili um 2.316 einstaklinga eða um 9,9% og eru pólskir ríkisborgarar með lögheimili á Íslandi nú 25.612 samtals.

Sameining er orð ársins í Vesturbyggð

Bíldudalur séð til vesturs, Mynd: Mats Wibe Lund.

Sameining er orð ársins í Vest­ur­byggð árið 2023. Þetta er niður­staða rafrænnar kosn­ingar á milli valinna tillagna sem bárust. 

Orðin sem komu til greina voru framkvæmdir, framtíð, laxalús, sameining og samgöngur.

Sigurorðið vann með 34% atkvæða en atkvæði skiptust nokkuð jafnt á milli hinna orðanna.

Orðið sameining var áberandi á liðnu ári, þá sérstaklega í haust þegar sameining Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps var samþykkt í íbúakosningu.

Undirbúningur stofnunar nýs sveitarfélags er nú í fullum gangi og munu sveitarstjórnarkosningar fara fram í sameinuðu sveitarfélagið 4. maí 2024. .

V-Barð: sveitarstjórnarkosningar verða 4. maí 2024

Ráðhús Vesturbyggðar.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti samhljóða á miðvikudaginn að sveitarstjórnarkosningum í sameinuðu sveitarfélagi Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps verði 4. maí 2024. Áður hafði bæjarráð samþykkt dagsetninguna.

Hreppsnefnd Tálknafjarðarhrepps afgreiddi málið fyrir sitt leyti 19. desember og samþykkti 4. maí sem kjördag. Þar var ágreiningur um málið, fjórir greiddu atkvæði með dagsetningunni en einn var á móti.

Við áramót

Við horfum nú við áramót að baki viðburðaríku ári hér heima á Íslandi og á erlendri grundu. Náttúruhamfarir á Reykjanesi, kjaramál og verkföll, efnahagsórói og raforkuskortur hafa verið helstu viðfangsefni ársins og munu fylgja okkur inn í nýja árið ef af líkum lætur. Sama er uppi á teningnum á alþjóðavettvangi þar sem stríð geisa og átök brjótast út milli þjóðfélagshópa. Spennustigið er því miður víða of hátt og óvenjulegar forsetakosningar á næsta ári í öflugasta lýðræðisríki heims munu væntanlega ekki slá á þær væringar. En það er aftur á móti jafn líklegt að hugsanlegar forsetakosningar hér á landi í júní næstkomandi munu ekki rugga bátnum á alþjóðavettvangi.

Stjórnmálin hér innanlands hafa ekki farið varhluta af þessum vendingum. Hafa þau sumpart verið uppspretta átaka og óánægju eins og vanhugsuð stöðvun hvalveiða í sumar ber vitni um. Raforkuskort í landinu má einnig rekja til grundvallarágreinings milli stjórnmálaflokka þjóðarinnar um nýtingu náttúruauðlinda – hvort virkja eigi græna orku í þágu landsmanna og loftslagsmarkmiða eða vernda land og þjóð gegn frekari verðmætasköpun og velmegun.

Rjúfa þarf stöðnun í raforkuframleiðslu

Rammaáætlun hefur misst marks og ekki orðið neinn grundvöllur sátta heldur þess í stað getið af sér nýtt skrifræðisbákn hins opinbera um matsáætlanir, leyfisveitingaferla, umsagnir og kæruleiðir. Umsóknir um virkjanaleyfi eða framkvæmdaleyfi fyrir lagningu raflína eru árum saman að velkjast um í kerfinu. Eftirspurn er eftir raforku svo hægt sé að ráðast í uppbyggingu margs konar iðnaðar- og matvælaframleiðslu víðs vegar um land en allt eru þetta að verða að glötuðum tækifæri vegna orkuskorts.

Einstaklingsframtak og athafnasemi til uppbyggingar og verðmætasköpunar á við ofurefli stofnanahers að etja sem er brynjaður matskenndum stjórnvaldsákvörðunum, studdur róttækum afturhaldsöflum. Á þennan Gordíons-hnút stöðnunar í raforkumálum þjóðarinnar verður að höggva með öllum tiltækum ráðum. Mögulega þarf löggjafinn að grípa beint inn í málið og setja einstaka virkjanaframkvæmdir á laggirnar með lögum en samhliða verður að ráðast að ýmsum þáttum í  reglugerðarfarganinu og grisja.

Skynsamir samningar verða að nást

Hátt vaxtastig plagar nú heimili og fyrirtæki landsins og brýnasta úrlausnarefni efnahagsmála er þar af leiðandi að ná niður verðbólgu. Í þeirri baráttu duga hvorki vettlingatök né skammtímalausnir. Markmið bæði stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins hlýtur að vera að stuðla áfram að ábyrgri stjórn ríkisfjármála og gerð skynsamra kjarasamninga sem eru í takti við verðmætasköpunina í landinu. Fyrir ríkisstjórnina hlýtur það að vera keppikefli að hlusta vel eftir því hvað það er sem stjórnvöld geta lagt af mörkum til að greiða götur slíkra kjarasamninga til lengri tíma. 

En meginforsenda þess að hægt sé að bæta lífskjör alls almennings er að okkur auðnist að skapa meiri verðmæti, að okkur takist að skapa áfram skilyrði fyrir auknum hagvexti og framleiðni, efla framleiðslu- og útflutningsgreinar og nýta þann mannauð sem hér er til frekari nýsköpunar og tækniframfara. Þetta er grundvallaratriði og öll umræða um ríkisfjármál eða styrkingu velferðarkerfisins verður að taka mið af þessum augljósu sannindum.

Vöxtur til velsældar – ekki ríkisvæðing

Það er ekki hægt að auka velferð með því að hækka skatta. Þeir peningar sem renna eiga í ríkissjóð með þeim hætti eru ekki til. Fjármunir verða til með aukinni verðmætasköpun og til þess þarf kröftugt atvinnulíf. Um þetta grundvallaratriði verður tekist á um á nýju ár sem fyrr.

Hlúa þarf að samkeppnishæfni sjávarútvegsins og skapa fiskeldi trausta umgjörð til vaxtar, tryggja verður landbúnaðinum betri rekstrarskilyrði og veita greininni heimild til að keppa við innflutning á matvælum á jafnari grunni. Þá eru ótalin fjölmörg tækifæri til frekari uppbyggingar iðnaðar á grunni hugvits, nýsköpunar og grænna orku. 

Hitt er og víst, að áfram, áfram miðar.
Upp, fram til ljóssins tímans lúður kliðar.

Öldin oss vekur ei til værðarfriðar.
Ung er hún sjálf, og heimtar starf, án biðar.

                  (Hannes Hafstein, úr Aldamótum)

Ég óska öllum íbúum Norðvesturkjördæmis gleðilegs og farsæls nýs árs og um leið þakka ég fyrir ánægjulegt samstarf og samvinnu á viðburðarríku ári sem er að líða.

Teitur Björn Einarsson,

þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi 

Byggðastofnun: 40 m.kr. til atvinnuráðgjafar á Vestfjörðum

Byggðastofnun.

Vestfjarðastofa mun fá um 40 m.kr. til atvinnuráðgjafar á næsta ári. Stjórn Byggðastofnunar skipti í nóvember sl. 205 m.kr. milli landssvæða og komu 34,7 m.kr. í hlut Vestfjarða.

Sigríður Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu segir að fjárhæðin, sem til skipta var, hafi hækkað í meðförum fjárlaganefndar Alþingis og að til Vestfjarða muni koma um 40 m.kr.

Hún segir að starfsemin verði svipuð á næsta ári einkum vegna tveggja evrópuverkefna sem Vestfjarðastofa er þátttakandi í. „Framlag til atvinnu-og byggðaþróunar hefur verið í svipaðri krónutölu í mörg ár þannig að hún nær ekki að halda í við launaþróun augljóslega. Landshlutasamtökin hafa ítrekað bent á þetta en fengið aðeins takmarkaðan hljómgrunn og þurft að sækja aukaframlag árlega.“

skipting Byggðastofnunar á framlaginu:

 Fjárlaganefnd bætti 35 m.kr. við fjárhæðina þannig að samtals eru 240 m.kr. til atvinnuráðgajfar.

Byggðastofnun styrkir meistaranema við Háskólasetur Vestfjarða

Stjórn Byggðastofnunar ákvað á fundi sínum þann 15. desember síðastliðinn að styrkja þrjá meistaranema sem vinna að lokaverkefnum á sviði byggðamála. Auglýsing um styrkina var birt 1. september og rann umsóknarfrestur út 1. nóvember. Verkefnin sem sótt er um styrk til skulu hafa skírskotun til markmiða eða aðgerða byggðaáætlunar. Alls bárust níu umsóknir.

Heildarupphæð styrkjanna er tæplega ein milljón króna. Hver styrkur er að upphæð 330.000 kr. Styrkirnir eru fjármagnaðir af byggðaáætlun. Einn styrkþeginn er nemandi við Háskólasetur Vestfjarða.

Evaluating place attachment in times of climate change, disaster-risk and uncertainty

Styrkþegi er Emma Katherine Alvera Dexter, Háskólasetri Vestfjarða.

Verkefnið felur í sér könnun meðal íbúa á landsvísu um staðartengsl, vitund um loftslagsbreytingar og mat á hættu. Athugað verður hvort merkja megi svæðisbundinn mun í svörum íbúa mismunandi byggðarlaga sem samræmist ólíkri hamfarahættu svæðis. Einnig hver öryggiskennd svarenda er og traust til öryggisráðstafana og viðbragðsáætlana. Rannsóknin mun efla vitund um hvað vantar uppá þekkingu um hamfarahættu og gefa vísbendingar um hverskonar aðlögunar er þörf á neyðaráætlunum þegar fyrir liggur mat á staðbundinni þekkingu íbúa.

Valdið til þorpanna: Frá hverfisráðum til heimastjórna?

Styrkþegi er Steinunn Ása Sigurðardóttir, Háskóla Íslands.

Einn styrkjanna þriggja er áhugavert verkefni þar sem athugað verður hver upplifun íbúa smærri byggðakjarna í fjölkjarna sveitarfélögum er af stjórnsýslu og ákvarðanatöku sveitarfélags. Skoðuð verða áhrif hinna nýtilkomnu heimastjórna í Múlaþingi í samanburði við upplifun íbúa annars fjölkjarna sveitarfélags. Rannsóknin mun varpa ljósi á mögulega gagnsemi heimildar 38. greinar sveitarstjórnarlaga um nefnd fyrir hluta sveitarfélags, sem var í fyrsta sinn virkjuð með tilkomu svokallaðra heimastjórna í ný sameinuðu sveitarfélagi Múlaþings.

Ákveðið hefur verið að koma á fót fjórum heimastjórnum í nýju sveitarfélagi á sunnanverðum Vestfjörðum, sem verður til á næsta ári með sameiningu Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps.

COP28: hvatt til 75% aukningar á fiskeldi

Kort af Eyjafirði.

Í ályktun nýafstaðinnar loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28 er hvatt til þess að fiskeldi verði aukið um 75% á árunum fram til 2040 frá 2020 í því skyni að auka matvælaframleiðslu heimsins. Fiskeldið er talið gefa heilbrigða matvöru með mun minna kolefnisspori en t.d. kjötframleiðsla og aukið fiskeldi stuðli því að draga úr loftslagsáhrifum iðnaðarframleiðslu heimsins. Alls undirrituðu 158 þjóðir yfirlýsinguna.

Í frumvarpi Matvælaráðherra Svandísar Svavarsdóttur sem er til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda er lagt til að banna fiskeldi með laxfiskum á stórum svæðum við strandlengju landsins. Bætt er við núverandi svæði sem eru lokuð sjókvíaeldi bæði Eyjafirði og Öxarfirði.

Þessar áherslur sæta gagnrýni fyrirtækisins Laxóss ehf á Árskógssandi í Eyjafirði í umsögn þess um frumvarpið. Vísar fyrirtækið til ályktunar COP28 og segir frumvarpið skjóta skökku við. Ekki eigi að útiloka aðferðir sem hægt væri að rökstyðja að muni hafa hverfandi lítil áhrif á lífríkið í fjörðunum og vatnakerfi þeirra.

Í umsögninni segir að bæði í nútíð og í framtíð munu ýmsar aðferðir verða ákjósanlegar sem ekki ætti að útiloka fyrir fram með lögum. Aðferðir sem byggja á að minnka eða koma í veg fyrir vandamál vegna laxalúsa, minnka eldistíma í kvíum, lokuð eldiskerfi gætu komið til greina og því væri rétt að hafa þannig opið fyrir ýmsar lausnir sem gætu hentað.

Lýst er fyrirhuguðu fiskeldi Laxóss ehf., sem á að rísa á Árskógssandi við Eyjafjörð á næstunni og getur gefið íslensku landeldi rekstrarlegt forskot til að styrkja afkomu sína með því að hafa eldisfiskinn í sjókvíum einungis síðasta sumarið og haustið fyrir slátrun. Þegar fiskurinn er orðin á bilinu 1 til 2.5 kg að þyngd, í landeldi er hann settur út í kvíar að vori og kominn í sláturstærð fyrir veturinn. Aðferðin er bæði vistvæn, örugg og kostnaðarsparandi segir í umsögninni.

lágt kolefnisspor og hollur

„Hafa ber í huga að Íslenskur eldifiskur er hollur til neyslu, sýklalyfjanotkun nánast engin, inniheldur allar tegundirnar af lífsmikilvægum amínósýrum og inniheldur hollar fitusýrur eins og Omega 3 og Omega 6. Hann hefur eitt lægsta kolefnisspor af allri sambærilegri fæðu sem finnst á markaði. Íslenskt fiskeldi getur haft gríðarlega þýðingu fyrir íslenskt hagkerfi og atvinnulíf ef vandað verður til verka varðandi setningu laga og regluverks.“

Lítið sem ekkert sjókvíaeldi hafi verið í Eyjafirði og hnignandi ástand bleikjustofna í firðinum eigi sér aðrar skýringar en eldið.

Umsögnina ritar Guðmundur Valur Stefánsson, cand scient í fiska, vatna- og sjávarlíffræði, framkvæmdastjóri Laxóss ehf. og bóndasonur úr Hörgárdal.

Reykhólahreppur telur sameiningu við önnur sveitarfélög ekki tímabæra

Frá Reykhólum.

Alþingi samþykkti 2021 að stefnt skyldi að því að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags væri 1000 manns.

Sveitarfélög með færri en 250 íbúa voru einnig skylduð til að hefja sameiningarviðræður við önnur sveitarfélög, eða vinna álit um stöðu sveitarfélagsins, getu þess til að sinna lögbundnum verkefnum og um þau tækifæri sem felast í mögulegum kostum sameiningar sveitarfélagsins við annað eða önnur sveitarfélög.

Reykhólahreppur skilaði í vor greinargerð um stöðu sameiningarviðræðna við nágrannasveitarfélögin.

Í haust barst svo umsögn innviðaráðuneytisins og niðurstaða þess er að sveitarfélagið er hvatt til að huga að þeim tækifærum sem kunna að felast í sameiningu við önnur sveitarfélög.

Sveitarstjórn hefur tekið á dagskrá til tveggja umræðna málefni sameiningar og bókaði um málið eftir síðari umræðu þann 13. desember:

„Sveitarstjórn Reykhólahrepps telur forsendur til þess að ganga til formlegra sameiningaviðræðna við önnur sveitarfélög ekki sterkar, vegna verkefnastöðu sveitarfélagsins og vinnu við hringrásarsamfélagið. Samþykkt samhljóða.“

Þar sem er talað um verkefnastöðu er átt við vinnu við Græna iðngarða, hringrásarsamfélagið á Reykhólum og uppbyggingu húsnæðis í tengslum við það.

30 milljónir til verkefna gegn fíknisjúkdómum

Heilbrigðisráðherra hefur úthlutað 30 milljónum króna í styrki til frjálsra félagasamtaka vegna verkefna sem miða að því að vinna gegn fíknisjúkdómum og þá einkum ópíóíðafíkn. Sex verkefni hlutu styrk. Hæsti styrkurinn, átta milljónir króna, rennur til verkefnis Matthildar, samtaka um skaðaminnkun. Í því felst að koma á fót færanlegu úrræði til að veita fólki sem reykir ópíóíða eða örvandi vímuefni nærþjónustu á forsendum þess með skaðaminnkun að leiðarljósi.

Þetta er í annað sinn sem ráðherra auglýsir styrki til verkefna á vegum frjálsra félagasamtaka til að vinna gegn fíknisjúkdómum. Í auglýsingunni var áhersla lögð á að verkefni sem kæmu til greina skyldu byggja á faglegum grunni, hafa raunhæft markmið tengt því að vinna gegn fíknisjúkdómum og hafa skýrt upphaf og endi. Jafnframt að við lok verkefnis verði árangur af því metinn. Alls bárust umsóknir um sjö verkefni. Sex þeirra hlutu styrk en ein umsókn uppfyllti ekki skilyrði.

Foreldrahús hlaut 4,0 m.kr. til að veita fjölskyldum ráðgjöf sem snemmtækt inngrip vegna vímuefnanotkunar unglinga sem hluta af fyrirhuguðu forvarnarverkefni félagasamtakanna.

Matthildur, samtök um skaðaminnkun hlutu 3,6 m.kr. til að auka aðgengi að upplýsingum á vefnum um öruggari notkun löglegra og ólöglegra vímuefna og forvarnir gegn ofskömmtun.

Matthildur samtök um skaðaminnkun hlutu 8,0 m.kr. í færanlegt skaðaminnkunarverkefni fyrir fólk sem reykir ópíóíða og örvandi vímuefni.

Rótin hlaut 3,8 m.kr. til verkefnis sem miðar að því að þróa áfram og koma á fót lágþröskulda-heilbrigðisþjónustu fyrir konur sem glíma við heimilisleysi og alvarlegan vímuefnavanda.

Samhjálp hlaut 5,4 m.kr. til áframhaldandi innleiðingar áfallamiðaðrar nálgunar í meðferðarstarfi undir handleiðslu erlends sérfræðings.

SÁÁ hlutu 5,2 m.kr. til að útbúa aðgengilegt fræðsluefni með upplýsingum um aðgengi að meðferð og bjargráð sem nýtast til að draga úr neikvæðum afleiðingum ópíóíða.

Nýjustu fréttir