Miðvikudagur 18. september 2024
Síða 203

Þuríður sundafyllir ÍS 452

Línuveiðarinn Þuríður sundafyllir ÍS 452 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby í Englandi árið 1922 fyrir Pickering & Haldane Steam Trawling Co Ltd í Hull. 98 brl, 38 nt. 200 ha. 2 þenslu gufuvél.

Hét áður Coutea. 26,9 x 5,80 x 2,92 m. Smíðanúmer 763. Eigendur voru Sigurður Þorvarðsson og Þorvarður Sigurðsson í Hnífsdal frá 25 apríl 1925.

Þuríður var einn þriggja línuveiðara sem keyptir voru af Pickering & Haldane í Hull vorið 1925. Hinir voru Fróði ÍS 454 ex Myrica og var í eigu Jóhanns J. Eyfirðings & Co á Ísafirði og Hafþór ÍS 453 ex Silene og var í eigu Magnúsar Thorberg í Reykjavík.

Skipið var selt 28 maí 1927, Ludvig C Magnússyni og Ingvari Benediktssyni í Reykjavík, hét þá Þuríður sundafyllir RE 271. Selt 31 desember 1930, h/f Fjölni í Reykjavík, skipið hét Fjölnir RE 271. Skipið var selt 7 mars 1933, h/f Fjölni á Þingeyri, hét Fjölnir ÍS 7.

Skipið var lengt og endurbætt árið 1941, sett var á það hvalbakur, bátapallur og nýtt stýrishús. Mældist þá 123 brl. 30,14 x 5,80 x 2,83 m.

Fjölnir fórst á leið frá Íslandi til Englands fullhlaðinn fiski, hinn 9 apríl árið 1945 eftir árekstur við breskt skip, Lairdsgrove, undan ströndum Írlands. Fimm skipverjar fórust en fimm skipverjum var bjargað um borð í breska skipið.

Af vefsíðunni thsof.123.is

Sex fá styrk vegna vetrarólympíuleikana á Ítalíu 2026. 

Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, Kristrún Guðnadóttir, Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir, Dagur Benediktsson og Jónas Egilsson, framkvæmdastjóri Skíðasambands Íslands

Fimmtudaginn 28. desember fór fram undirritun samninga vegna Ólympíusamhjálparinnar við Skíðasamband Íslands og íþróttafólk þeirra vegna undirbúnings fyrir vetrarólympíuleikana í Mílanó og Cortina á Ítalíu 2026. 

Um er að ræða mánaðarlega styrki, að upphæð 1250 USD (Um 170,000 KR) til sex einstaklinga vegna kostnaðar við æfingar, keppnir og ferðalög. 

Styrkþegar Ólympíusamhjálparinnar vegna vetrarólympíuleikanna í Mílanó og Cortina 2026 eru:  

Bjarni Þór Hauksson – keppandi í alpaskíðum
Dagur Benediktsson – keppandi í skíðagöngu
Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir – keppandi í alpaskíðum
Kristrún Guðnadóttir – keppandi í skíðagöngu 
Matthías Kristinsson – keppandi í alpaskíðum

Vildís Edwinsdóttir – keppandi í snjóbrettum

Skólinn á Borðeyri til sölu eða leigu

Á fundi sveitarstjórnar Húnaþings vestra var greint frá því að starfshópur um eignir, jarðir og lendur í eigu Húnaþings vestra hafi skilað af sér tillögum 

Þar kom fram að lagt var til að skólahúsnæðið á Borðeyri yrði boðið til sölu eða leigu með eflingu búsetu og atvinnu á svæðinu í huga.

Til að ræða þessa tillögu er boðað til íbúafundar á Borðeyri þar sem farið verður yfir möguleika og kallað eftir hugmyndum heimamanna um hugsanlega ráðstöfun hússins.

Fundurinn verður haldinn í skólahúsinu á Borðeyri þann 9. janúar kl. 20. Á dagskrá fundarins verður kynning á hugmyndum starfshópsins og umræður í kjölfarið.

Land og skógur tekur til starfa

Þann fyrsta janúar 2024, tók ný stofnun við hlutverki og skuldbindingum tveggja eldri stofnana sem um leið heyra sögunni til, Landgræðslunnar og Skógræktarinnar.

Við tekur mótunartími undir stjórn Ágústs Sigurðssonar sem gegnir stöðu forstöðumanns Lands og skógar.

Land og skógur er þekkingarstofnun á sviði gróður- og jarðvegsauðlinda og gegnir mikilvægu rannsókna-, eftirlits-, og fræðsluhlutverki við að vernda, endurheimta og bæta þessar auðlindir Íslands og stuðla að sjálfbærri nýtingu þeirra. 

Ný stofnun sprettur ekki fullsköpuð fram fyrsta janúar 2024. Nú tekur við mótunartímabil en þegar er tilbúið skipurit fyrir stofnunina. Skipað hefur verið í stöður sviðstjóra og starfsfólk beggja eldri stofnananna heldur störfum sínum. Hjá stofnuninni munu starfa um 130 manns.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga úthlutaði 37,8 milljörðum króna

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga úthlutaði í fyrra 37,8 milljörðum króna til sveitarfélaga samkvæmt yfirliti sem birt hefur verið. Hæsta fjárhæðin fer til sveitarfélaga á Suðurlandi 6,7 milljarðar króna og á Norðurlandi eystra en þangað fóru 6,1 milljarður króna. Til sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur fóru 5,3 m.kr. og á Suðurnesjum 5,0 milljarðar krónur. Til Vesturlands voru greiddir 4,1 milljarðar króna.

Til sveitarfélaga á Vestfjörðum fóru 2,9 milljarðar króna, sama fjárhæð til Austurlands og 2,6 milljarðar króna voru greiddar til sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Á Vestfjörðum fór langhæsta fjárhæðin til Ísafjarðarbæjar eða 1.162 m.kr. Vesturbyggð fékk næsthæstu upphæðina 462 m.kr., Bolungavíkurkaupstaður 363 m.kr. og Strandabyggð 335 m.kr. Framlög til Súðavíkurhrepps voru 161 m.kr., til Reykhólahrepps 272 m.kr., til Tálknafjarðarhrepps 105 m.kr., Kaldrananeshrepps 50 m.kr. og 14 m.kr. til Árneshrepps.

Um er að ræða greiðslur til ýmissa verkefna. Hæstu fjárhæðirnar eru 12,8 milljarðar króna til almennrar jöfnunar útgjalda , 12,7 milljarðar króna til reksturs grunnskóla og 6,2 milljarðar króna til jöfnunar tekna af fasteignaskatti.

Fiskeldisgjaldið hækkar um 23%

Eldiskvíar.

Alþingi afgreiddi lagabreytingu fyrir jólin um fiskeldisgjald og hækkaði það úr 3,5% í 4,3% af verði eldislax á alþjóðlegum markaði. Hækkunin nemur 23%. Tekjur ríkissjóðs af gjaldinu eru áætlaðar verða 2,1 milljarður króna á þessu ári og hækkar þær um 630 m.kr. vegna hækkunarinnar.

Upphaflega lagði fjármálaráðherra til að gjaldið yrði 5% en meirihluti fjárlaganefndar Alþingis dró úr hækkuninni og lagði til að það yrði 4,3%, sem var svo samþykkt.

Þrátt fyrir það voru tekjur ríkissjóðs af gjaldinu ekki lækkaðar frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Segir í áliti meirihluta fjárlaganefndar að það sé vegna þess að talsverður munur sé á áætlaðri framleiðslu samkvæmt tölum frá MAST annars vegar og fiskeldisfyrirtækjum hins vegar. Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta gerði Mast ráð fyrir að framleiðsla ársins yrði 40.000 tonn af eldislaxi en fiskeldisfyrirtækin áætla að framleiðslan verði 49.000 tonn.

Með hækkun gjaldsins í 4,3% og framleiðslumagn 49.000 tonn er gert ráð fyrir þeim tekjum af fiskeldisgjaldinu sem upphaflega tillagan um 5% átti að skila í ríkissjóð.

Vestfjarðastofa: orkuskortur hamlar uppbyggingu

Í áramótapistli Sigríðar Ólafar Kristjánsdóttur, framkvæmdastjóra Vestfjarðastofu, sem birtist á Bæjarins besta á gamlársdag segir hún að mikill uppgangur sé á Vestfjörðum og fjárfestingar umtalsverðar, bæði af hálfu hins opinbera og einkaaðila. Hins vegar þurfi bæði meiri orkuframleiðslu á Vestfjörðum og jafnvel að tvöfalda Vesturlínu. Hið opinbera hafi „þrátt fyrir hillumetra af skýrslum hefur hið opinbera engin raunveruleg svör.“ Sigríður segir að taka þurfi ákvarðanir um næstu skref strax til að svæðið geti tekið þátt í orkuskiptunum framundan og haldið áfram uppbyggingu atvinnulífs og samfélags.

íbúðaskortur

Annað sem þrengir að uppbyggingunni á Vestfjörðum er að mati Sigríðar skortur á íbúðahúsnæði sem standi „þróun samfélags og atvinnulífs fyrir þrifum á svæðinu.“ Þrátt fyrir mikinn skort er verð á íbúðahúsnæði enn víða vel undir byggingarkostnaði sem skýri hversu lítið hafi verið byggt síðustu áratugina. Bendir Sigríður á að fjölgun hafi orðið í þeim byggðakjörnum og sveitarfélögum sem hefur náðst að byggja nýtt íbúðahúsnæði.

vegur um Teigskóg og brýr

Á síðasta ári hafi orðið gleðileg uppbygging í samgöngumannvirkjum og nefnir Sigríður sérstaklega nýja brú yfir Þorskafjörð, sem vígð var með viðhöfn og nokkru síðar opnaði vegurinn marg umræddi um Teigskóg í Þorskfirði.Auk þess séu framkvæmdir í gangi við 12 km langan nýjan veg á Dynjandisheiði og um helmingur hans hafi þegar verið tekinn í notkun.

Ísafjarðarhöfn: 10.357 tonn af botnfiski landað á síðasta ári

Páll Pálsson ÍS í Ísafjarðarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í desember var landað 667 tonnum af botnfiski í Ísafjarðarhöfn. Togarinn Páll Pálsson ÍS fór sjö veiðiferðir og aflaði samtals 444 tonnum. Frystitogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS landaði einu sinni 223 tonnum af afurðum.

Samkvæmt tölum frá Fiskistofu bárust 10.357 tonn af botnfiski á land í Ísafjarðarhöfn á síðasta ári. Auk þess var landað 3.503 tonnum af innfluttri rækju eða samtals 13.861 tonn.

Forsetakosningar verða í sumar

Það varð ljóst í gær að forsetakosningar fara fram í sumar. Guðni Th Jóhannesson, forseti tilkynnti þá að hann hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri. Líklega verður kosið laugardaginn 8. júní.

Guðni varð hlutskarpastur í kosningunum 2016, en þá lét Ólafur Ragnar Grímsson af störfum eftir 20 ára setu á Bessastöðum.

Alls voru 9 frambjóðendur á kjörseðlinum. Guðni Th Jóhannesson hlaut 39,1% atkvæða. Næst honum kom Halla Tómasdóttir með 27,9% atkvæða. Andri Snær Magnason varð þriðji með 14,3% og Davíð Oddsson hlaut 13,8% atkvæða. Enginn hinna fimm frambjóðenda náði 5% atkvæða.

Í Norðvesturkjördæmi varð Guðni Th. Jóhannesson efstur með 42,1% atkvæða, Halla Tómasdóttir fékk 32%, Davíð Oddsson 14,1% og Andri Snær Magnason 7,2%.

Forsetakosningar fóru einnig fram 2020 og voru þá aðeins tveir frambjóðendur í kjöri, Guðni Th. Jóhannesson og Guðmundur Franklín Jónsson. Vann Guðni Th. yfirburðasigur og fékk 92,2% atkvæða og Guðmundur Franklín fékk aðeins 7,8%.

Í nýársávarpi sínu rifjaði forsetinn upp að hann hefði í upphafi sagt að hann vildi ekki sitja lengur en 8 til 12 ár á Bessastöðum og að hann hefði komist að þeirri niðurstöðu nú að láta hjartað ráða og að hann kysi frekar að halda sáttur á braut innan tíðar. Í öflugu lýðræðissamfélagi kæmi maður í manns stað.

Guðni Th. Jóhannesson er annar þjóðhöfðinginn á Norðurlöndum sem tilkynnti um áramótin að hann hygðist láta af störfum.

Margrét II Danadrottning segir af sér

Margrét II Danadrottining. Mynd: DR/KELD NAVNTOFT, Scanpix

Margrét Þórhildur II Danadrotting tilkynnti rétt í þessu að hún myndi láta af embætti þann 14. janúar næstkomandi, en þá verða liðin rétt 52 ár síðan hún tók við að föður sínum látnum, Friðrík IX.

Sonur hennar og ríkisarfi Friðrik krónprins mun verða konungur Dana frá þeim tíma.

Hún sagði í áramótaávarpi sínu í danska ríkissjónvarpinu að aldurinn væri farin að segja til sín og nú væri rétti tíminn til þess að næsta kynslóð taki við.

Nýjustu fréttir