Miðvikudagur 18. september 2024
Síða 201

Veiðigjald fyrir 2024 hefur ekki verið ákveðið

Svndís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.

Matvælaráðherra Svandís Svavarsdóttir hefur ekk enn birt auglýsingu um veiðigjald í sjávarútvegi fyrir 2024.

Samkvæmt lögum um veiðigjald frá 2018 gerir ríkisskattstjóri tillögu um fjárhæð veiðigjalds hvers nytjastofns fyrir komandi veiðigjaldsár til þess ráðherra sem fer með sjávarútvegsmál eigi síðar en 1. desember. Skal tillagan vera um að veiðigjaldið nemi 33% af reiknistofni hvers nytjastofns skv. 5. gr. laganna. Ráðherra auglýsir gjaldið sem krónur á kílógramm landaðs óslægðs afla fyrir áramót. Veiðigjaldsár er almanaksár.

Síðast auglýsti ráðherra 2. desember 2022 veiðigjald fyrir 2023 og þar kemur fram að auglýsingin sé sett að fenginni tillögu embættis ríkisskattstjóra.

Veiðigjaldið fyrir þorsk var 19,17 kr/kg af óslægðum fiski.

Ekki hafa komið fram skýringar á því hvers vegna veiðigjaldið hefur ekki verið ákveðið og beðið er svara Matvælaráðuneytisins við fyrirspurn Bæjarins besta.

Falur Jakobsson bátasmiður

Jakob Falsson,Mildríður Falsdóttir,Falur Jakobsson og Sigmundur Falsson

Falur Jakobsson var fæddur í Þaralátursfirði á Hornströndum árið 1872. Hann bjó með konu sinni Júdit Kristjánsdóttur í Barðsvík á Hornströndum 1894 – 1906 og stundaði þar búskap og bátasmíðar. Júdit lést af barnsförum 1906. Falur lést árið 1936.

Árin 1906 til 1907 var Falur húsmaður á Horni en flutti þá til Bolungarvíkur við Ísafjarðadjúp og stundaði þar smíðar enda maðurinn völundur á tré og járn.

Ekki hefur tekist að finna nöfn báta, sem Falur smíðaði í Barðsvík og er það að vonum því að um nafnlausar skektur og árabáta hefur verið að ræða. Eftir Mildfríði dóttur hans er haft í „Grunnvíkingabók“ l bindi bls. 260 að Fransmenn hafi stundum hleypt skútum sínum að landi í Barðsvík og keypt skektur sem faðir hennar hafði smíðað.

Óljóst er með öllu hve marga báta Falur smíðaði á meðan hann var í Barðsvík en gera má ráð fyrir að umtalsverð hafi sú smíði verið fyrst Fransmenn gerðu sér ferð inn á Barðsvíkina til bátakaupa af honum.

Ljóst er af þessu að Falur Jakobsson hefur verið þekktur langt út fyrir landsteinana og vel má hugsa sér Fal sem fyrsta Íslendinginn sem framleiddi báta til útflutnings.

Eftir komuna til Bolungarvíkur þá smíðaði Falur fjölda báta. Starfaði hann í fyrstu með Jóhanni Bjarnasyni bátasmiði en þegar sjógangur skolaði í burtu verkstæði Jóhanns þá byggði Falur sitt eigið verkstæði árið 1912.

Falshús í Bolungarvík byggt árið 1932

Seinna naut Falur aðstoðar sona sinna Jakobs og Sigmundar við smíðarnar.

Haft hefur verið fyrir satt að enginn ófaglærður skipasmiður hér á landi hafi smíðað fleiri vélbáta en Falur og þótti lán fylgja fleytum hans. Á örðum og þriðja áratug síðustu aldar má segja að mest allur vélbátafloti Bolvíkinga hafi verið smíðaður af honum og sonum hans.

Bátar Fals þóttu afbragðs sjóskip, léttbyggðir og fallegir. Í bátum hans voru bönd grönn en styrkleikinn náðist með því að hafa skemmra á milli þeirra en almennt tíðkaðist. Lögun og gerð bátanna var miðuð við að hægt væri að taka þá á þurrt eftir hvern róður sem var nauðsynlegt við hafnlausa ströndina.

Burðargeta báta Fals var meiri en ætla mátti við fyrstu sýn því þeir voru botnmiklir og léttbyggðir.

Eftir því sem best er vitað þá var Falur eini bátasmiðurinn í Bolungarvík, á öðrum, þriðja og fram á fjórða áratug síðustu aldar, sem smíðaði þar þilfarsbáta.

Af vefsíðunni aba.is

100 ára og eldri

Þjóðskrá hefur tekið saman upplýsingar um elstu íbúa landsins. Í dag eru 41 einstaklingar 100 ára og eldri og þrír þeirra eiga maka á lífi.

Elsti núlifandi einstaklingurinn búsettur á Íslandi er kona fædd árið 1917 og er því 106 ára. Hún er búsett á Suðurlandi.  

Konur eru í meirihluta þeirra sem hafa náð 100 ára aldri eða alls 31 á meðan það eru 10 karlar sem eru 100 ára og eldri. Alls eru 17 einstaklingar 100 ára, þar af 14 konur og 3 karlar. 

Þeir einstaklingar sem eru yfir 100 ára eru alls 17 konur en 7 karlar. Ef við skoðum sérstaklega hvert ár þá eru 10 konur og 6 karlar 101 árs, 1 kona er 102 ára og 3 konur 103 ára. Þá eru 2 konur 104 ára, 1 karl 105 ára og ein kona er 106 ára.

Breyting á aðalskipulagi Tálknafjarðarhrepps

Skipulagsstofnun staðfesti 3. janúar 2024 breytingu á Aðalskipulagi Tálknafjarðarhrepps 2006-2018 sem samþykkt var í sveitarstjórn 29. nóvember 2023.

Í breytingunni felst að áformað er að framleiðsla seiðaeldisstöðvar á Gileyri verði aukin í allt að 1.000 tonna hámarkslífmassa og áætlað að eldisrými verði um 19.600 m3.

Hægt verður að nálgast aðalskipulagsbreytinguna á Skipulagsvefsjá Skipulagsstofnunar og í Skipulagsgátt þegar breytingin hefur öðlast gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda.

Ísafjarðarbær eitt af fimm sveitarfélögum sem taka þátt í verkefni um úrgangsstjórnun

Sveitarfélögin Garðabær, Ísafjörður, Rangárþing eystra, Skagafjörður og Suðurnesjabær hafa verið valin af Sambandi íslenskra sveitarfélaga til þátttöku í verkefni um kostnað og tekjur sveitarfélaga í úrgangsstjórnun.

Auglýst var eftir áhugasömum sveitarfélögum til þátttöku í verkefnið í nóvember sl. og bárust alls 22 umsóknir frá breiðum og fjölbreyttum hópi sveitarfélaga. Eftir yfirferð á umsóknum, með teknu tilliti til þeirra valforsendna sem lágu fyrir í upphafi, stóðu þessi fimm framangreindu sveitarfélög eftir sem fulltrúar í verkefnið.   

Valforsendurnar sem horft var til við val á sveitarfélögum voru eftirfarandi: 

  • Staða gagnvart innleiðingu nýrra lagakrafna  
  • Svigrúm til að leggja fram vinnu til verkefnisins  
  • Aðgengi að upplýsingum  
  • Rekstrarform á þjónustu  
  • Dreifing yfir landið, m.t.t. til stærðar, staðsetningar, dreifbýli eða þéttbýli eða hvoru tveggja  

Áðurnefnd sveitarfélög eru öll vel á veg komin með að innleiða nýlegar lagakröfur um söfnun og aðra meðhöndlun úrgangs. Greining á kostnaði og tekjum þeirra ætti því að kasta ljósi á almenna kostnaðarþróun sveitarfélaga miðað við núgildandi kröfur. Að auki er talið að sveitarfélögin búi yfir þeim upplýsingum sem þarf til að ná fram markmiðum verkefnisins og bolmagni til að miðla þeim áfram til sambandsins og ráðgjafa þess. Jafnframt er talið að þessi hópur sveitarfélaga endurspegli vel mismunandi stöðu sveitarfélaga m.t.t. stærðar, staðsetningar, rekstrarforms í málaflokknum og annarra þátta sem horft er til.   

Verkefnið er í tveimur áföngum og ráðgert er að hefja verkefnið í janúar 2024. Samband íslenskra sveitarfélaga leiðir verkefnið með aðstoð tveggja ráðgjafa, annars vegar Pure North og hins vegar HLH ráðgjöf, sem munu vinna greiningarvinnuna og setja fram niðurstöður verkefnisins.

Niðurstöður fyrri hluta verkefnisins munu liggja fyrir í febrúar/mars og niðurstöður seinni hluta liggi fyrir í júní.

Sveitarfélögum, sem urðu ekki fyrir valinu, mun bjóðast að taka þátt í bakhópi um kostnað sveitarfélaga vegna meðhöndlunar úrgangs, sem verður starfræktur á meðan verkefninu stendur.

Mast: ekki ákveðið hvort ákvörðun lögreglustjóra verði áfrýjað

Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar.
Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar.

Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar segir að verið sé að skoða hvort stofnunin uni ákvörðun lögreglustjórans á Vestfjörðum sem ákvað að hætta rannsókn á slysasleppingu laxa úr kví Arctic Fish í Patreksfirði og fella þar með málið niður. Unnt er að áfrýja eða kæra þá ákvörðun til Ríkissaksóknara.

Hrönn segir að að krafa um úrbætur sé í raun eina verkfærið sem stofnunin hafi sjálf í sínum höndum, áfrýjun sé til skoðunar en engin ákvörðun hafi verið tekin.

Bent var á það í frétt á Bæjarins besta í gær að ekki væri í gildandi reglugerð um fiskeldi ákvæði um ljósastýringu og neðansjávareftirlit.

Landssamband veiðifélaga og íslenski náttúruverndarsjóðurinn, icelandic wildlife fund hafa tilkynnt að samtökin muni kæra ákvörðun lögreglustjóra en ekki liggur fyrir hvort þau séu aðili máls og hafi þar með kærurétt.

Matvælastofnun hefur birt skýrslu sína um slysasleppinguna í ágúst sl. Þar kemur fram að fóðrari hafi verið færður að brún kvíarinnar en ekki fjarlægður og hafi nuddast tvö göt á kvína á um tveggja metra dýpi 20×30 cm stór og að ekki hafi verið viðhaft neðansjávareftirlit við kvína frá 16. maí til og með 20. ágúst eða í 95 daga. Þá hafi kynþroski reynst vera 35% og segir í skýrslu Mast:

„Leiða má líkum að því að ljósastýring sem á að viðhafa samkvæmt skilyrðum í rekstrarleyfi hafi misfarist hjá Arctic Sea Farm á eldissvæðinu við Kvígindisdal.“

Skortur á ljósastýringu er talið alvarlegt frávik á skilyrði í rekstrarleyfi fyrirtækisins og skortur á neðansjávareftirliti sömuleiðis alvarlegt frávik á gæðastjórnun og innra eftirliti.

Slátrun upp úr kvínni lauk 8. ágúst og Arctic Fish hefur tilkynnt um breytingar á innra eftirliti.

Nýársfagnaður kiwanisklúbbsins Bása Ísafirði

Frá nýársfagnaði fyrir nokkrum árum. Mynd: bb.is

Hinn árlegi nýársfagnaður Kiwanisklúbbsins Bása á Ísafirði verður haldinn á sunnudaginn 7. janúar á Hlíf og hefst hann kl. 15:00. Í boði verða að venju girnilegar kaffiveitingar og skemmtiefni.

Nýársfagnaðurinn er árlegur og nýtur mikilla vinsælda og þegar best hefur látið hafa mætt um 120 manns en allir eldri borgarar eru velkomnir.

Patreksfjörður. 5.464 tonna afli í fyrra

Smábátar að landa í Patrekshöfn. Mynd: Patrekshöfn.

Í Patrekshöfn var landað 317 tonnum í desember sl. Togarinn Vestri BA landaði 172 tonnum. Annar afli kom á línu. Núpur BA aflaði 93 tonnum og Sindri BA og Agnar BA voru samtals með 52 tonn.

Alls barst að landi 5.464 tonn af botnfiski á árinu í 1.683 löndunum. Patrekshöfn varð aflahæst á landinu á strandveiðunum í sumar með nærri 1.000 tonn. Um 250 tonn af grásleppu komu á land í Patrekshöfn.

Í yfirliti Patrekshafnar kemur fram að Núpur BA hafi verið aflahæstur með 1.977 tonn á árinu, Patrekur BA sem var á dragnót var með 925 tonn og togarinn Vestri BA 807 tonn auk 12 tonna af rækju.

Hvalárvirkjun: vonast til þess að framkvæmdir geti hafist 2026

Ásbjörn Blöndal.

Ásbjörn Blöndal, framkvæmdastjóri þróunar- og auðlindasviðs HS Orku segir aðspurður um framvindu virkjunaráforma Hvalárvirkjunar að næstu tvö ár muni einkennast af skipulagsmálum og umhverfismatsmálum fyrir tengingu Landsnets. Auk þess sé vinna hafin í samræmi við alþjóðlegan sjálfbærnistaðal sem metur Hvalárverkefnið á viðtækari hátt en gert er í hefðbundnu umhverfismati. Ásbjörn segir að væntingar standi til þess að leyfi fyrir framkvæmdir geti legið fyrir á árinu 2026 og í kjölfarið fari um þrjú og hálft ár í framkvæmdir við virkjun og tengilögn Landsnets.

Miðað við þessi svör gæti virkjunin tekið til starfa árið 2030.

VesturVerk hélt í fyrra áfram rannsóknum á vatnasviðum sem virkjunarkostir fyrirtækisins koma til með að nýta. Samhliða rannsóknum hefur fyrirtækið unnið markvisst að því að minnka óvissu vegna eignarhaldsmála og þjóðlendukrafna ríkisins á svæðinu.

Náttúrufræðistofnun Íslands sendi tillögur til þáverandi umhverfisráðherra fyrir um tveimur árum um friðum fossa í ám sem virkja á vegna Hvalárvirkjunar. Ásbjörn segir að ákvörðun Alþingis um að Hvalárvirkjun verði áfram í nýtingarflokki hafi ýtt þeim tillögum út af borðinu. Eftir standi að ríkið hefur gert kröfur um þjóðlendu á hluta virkjunarsvæðisins og búist er við því að Óbyggðanefnd úrskurði í vor um kröfuna og þar með eignarhaldið á vatnsréttindunum.

Samstarf milli VesturVerks og Landsnets er þegar hafið þar sem framkvæmdir beggja þurfa að fara fram samhliða og mikilvægt að samræma allan undirbúning. Landsnet hefur ákveðið að tengivirki verði reist í Miðdal á Steingrímsfjarðarheiði og framundan er gerð umhverfismats fyrir það og línulagnir frá Hvalárvirkjun. Þá eru einnig hafnar viðræður við Vegagerðina sem er veghaldari í Árneshreppi og mikilvægt að upplýsa um virkjunaráformin og undirbúa þau verkefni sem nauðsynleg eru til að þungaflutningar geti farið fram um aðalveg hreppsins.

Fiskeldisgjaldið hækkar um 106%

Háafell er eina fyrirtækið sem fengið hefur leyfi til eldis á frjóum laxi í Ísafjarðardjúpi. Eldiskvíar Háafells utan Skötufjarðar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fiskistofa hefur birt auglýsingu um endurreiknaða fjárhæð fiskeldisgjalds fyrir 2024. Alþingi ákvað fyrir jól að hækka gjaldið úr 3,5% í 4,3% af viðmiðunarverði á alþjóðlegum mörkuðum. Er það hækkun um 23% eins greint var frá á Bæjarins besta í fyrradag.

Fiskeldisgjaldið á þessu ári verður 37,80 kr/kg af slægðum eldislaxi og helmingur þess fyrir regnbogasilung. Gjaldið var í fyrra 18,33 kr/kg og er hækkunin hvorki meira né minna en 106%.

þetta er nærri fimm sinnum meiri hækkun en nemur breytingunni á álagningarprósentunni úr 3,5% í 4,3%.

Skýringa á þessu er einkum að finna í tveimur atriðum. Annars vegar er fiskeldisgjaldið innleitt á 7 árum og hækkar á hverju ári um 1/7 frá 2020 til 2026 þar til fullu gjaldi er náð. Hækkunin vegna þessa leiðir sjálfkrafa til 25% hærra gjalds í ár en í fyrra. Hins vegar þá var breytt viðmiðunarverðinu sem gjaldið leggst á. Áður var miðað við meðaltalsmarkaðsverð á eldislaxi mánaðanna ágúst – október en nú er miðað við ársmeðaltalið. Verðið var lægst á haustin svo ársmeðaltalið verður hærra og Arctic Fish áætlar að þessi breyting hafi hækkað fiskeldisgjaldið um 26%.

Þá hefur verð á eldislaxi heldur hækkað á erlendum mörkuðum mælt í evrum, sem hækkar fiskeldisgjaldið. Breytingar á gengi evru og ísl krónunnar hafa áhrif en þau eru lítil að þessu sinni.

700 m.kr. út af svæðinu

Vestfirsku laxeldisfyrirtækin munu greiða liðlega 1 milljarð króna í fiskeldisgjald á árinu miðað við framleiðsluáætlanir þeirra. Af þeirri fjárhæð fer þriðjungur í Fiskeldissjóð sem úthlutar til sveitarfélaga þar sem fiskeldið er stundað til ýmissa verkefna. Sveitarfélögin á Vestfjörðum geta vænst þess að fá um 300 m.kr. út sjóðnum. Niðurstaðan verður því að 700 milljónir króna renna í ríkissjóð frá fiskeldi á Vestfjörðum.

Nýjustu fréttir