Þriðjudagur 17. september 2024
Síða 200

Hærra gjald til ríkisins af laxi en þorski

Kvíar í Arnarfirði. Fiskeldið greiðir hærra gjald í ríkissjóð en greitt er af þorski.

Fiskeldisgjald af eldislaxi er á þessu ári 13,7% hærra en veiðigjald af þorski.

Fiskeldisgjaldið er á þessu ári 37,80 kr/kg af slægðum laxi og veiðigjaldið fyrir þorsk er 26,66 kr/kg af óslægðum fiski. Sé það umreiknað yfir í slægðan þorsk er veiðigjaldið 33,25 kr/kg. Það er sambærilegt við fiskeldisgjaldið af eldislaxinum 37,80 kr/kg.

Gjaldið í ríkissjóð fyrir eldislaxinn er því 4,55 kr/ kg hærra en fyrir þorskinn sem er 13,7%.

59% hærra gjald á fiskeldinu

Þá á eftir að taka tillit til þess að tvær áfangahækkanir, sem þegar hafa verið lögfestar, eiga eftir að koma til framkvæmda. Önnur hækkunin verður á næsta ári og sú seinni á árinu 2026. Þá má ætla að fiskeldisgjaldið verði orðið 52,92 kr/kg af slægðum eldislaxi miðað við þær forsendur sem gilda um útreiknings gjaldsins fyrir 2024. Veiðigjald af veiðum á villtum fiski í sjó er ákveðið samkvæmt sérstökum lögum og eru ekki í þeim nein ákvæði um frekari hækkun gjaldsins heldur er það tengt afkomu í sjávarútvegi og getur hækkað eða lækkað samkvæmt því. Fiskeldisgjaldið er algerlega ótengt afkomu í eldinu.

Því verður fiskeldisgjaldið fyrir 2026 að óbreyttum lögum 59% hærra en veiðigjald fyrir þorsk að óbreyttri afkomu í sjávarútvegi, mikilvægustu fisktegund landsmanna eða 52,92 kr/kg á móti 33,25 kr/kg. Munurinn verður þá 19,67 kr/kg.

Árneshreppur hluti af gefum íslensku séns -íslenskuvænt samfélag

Skynja má aukinn hljómgrunn fyrir því starfi sem Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag hefir innt af hendi. Í október síðastliðinn hlaut átakið til að mynda Evrópumerkið. Árið 2022 hlaut svo átakið viðurkenningu íslenskrar málnefndar.

Það er allt gott og blessað. En meira er þó um vert þó þegar aðilar ákveða að leggja átakinu lið, eða gerast beinir þátttakendur. Góðu heilli hefir fjöldi móðurmálshafa og þeirra sem kunna mjög góð skil á íslensku og leggja sit lóð á vogarskálina farið fjölgandi. Mjög jákvæð þróun. Einnig telst jákvætt þegar sveitarfélög gerast beinn aðili að átakinu. Hingað til hafa tvö sveitarfélög verið aðilar að átakinu. Súðavík og Ísafjarðarbær. 30. nóvember bættist svo Árneshreppur í hópinn þegar þátttökuaðild var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á sveitarstjónarfundi. Það verður að teljast einkar ánægjulegt.

Í októbermánuði síðasta árs var haldinn kynningarfundur á átakinu sem bar þennan ávöxt. Líklegt verður að teljast að Árneshreppur muni í kjölfarið standa að viðburðum til að auk vitund fólks fyrir máltileinkun íslensku sem annars máls þótt einnig sé óhætt að halda fram að þar séu þessi mál í fínum farvegi nú þegar. Það má samt alltaf á sig blómum bæta.

Er og vonandi að fleiri aðilar, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar, gerist aðilar að átakinu. Vert er að minnast á að sé áhugi fyrir hendi að fá átakskynningu fer best á því að senda línu á islenska(hja)uw.is. Kynning er auðsótt mál.

Þess má svo geta að 8. janúar er Þriðja rýmið í Bókasafninu á Ísafirði og 10. Janúar er hraðíslenska á Bryggjukaffi á Flateyri. Dropinn holar steininn.

Með íslenskuvænum kveðjum,

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson

Fjölnir ÍS 7

Fjölnir var smíðaður í Selby 1922 og var 123 rúmlestir að stærð, eign h.f. Fjölnis á Þingeyri.

Fjölnir var á leið frá Vestmannaeyjum hlaðinn fiski. Var þetta fyrsta ferð hans út á árinu, þar sem hann var nýkominn úr langri viðgerð. Ferðin hafði gengið að óskum og skipið farið að nálgast land þegar slysið vildi til, um kl. 11 að kvöldi þess 9. apríl 1945.

Breskt skip, Larids Growe(?) frá Glasgow, um 2000 tonna flutningaskip, sigldi á Fjölni framanverðan, í myrkri. Fjölnir lagðist þegar á hliðina og sökk á þrem mínútum, eftir því, sem skipverjum á Larids Growe taldist til.

Skipverjarnir á Fjölni sáu engin ljós á Larids Growe, en Fjölnir var með fullum ljósum. Skipstjóri, ásamt tveimur hásetum, var í brúnni er áreksturinn varð. Gat skipstjóri stokkið út á síðuna og komið sér í sjóinn. Annar þeirra, sem var í brúnni með skipstjóra, komst af, en hinn týndist.

Skipstjóri telur, að allir skipverjar, að einum undanskildum, hafi komist frá skipinu. Björgunarflekanum skaut upp þegar skipið var sokkið og komust fjórir skipverjanna, er voru syndir, upp á hann af eigin rammleik. Stýrimanninum, Steinþóri Benjamínssyni var bjargað upp á flekann, en hann var ósyndur. Svo var dimmt að varla sá út úr augunum, en á flekanum var ljós, svo auðvelt var að finna hann.

Breska skipið mun hafa staðnæmst eftir áreksturinn varð, því að þegar skipbrotsmennirnir fimm komu upp á flekann, sást það rétt hjá þeim, og eftir nokkra stund kom bátur frá því og tók þá um borð. Flutti skipið þá síðan til Londonderry á Íslandi. Þar fengu þeir hina bestu aðhlynningu á sjómannaheimili, m.a. ný föt, yst sem innst.

Af tíu manna áhöfn, fórust fimm. 

Af vefsíðunni legstadaleit.com

Fékk hluta úr breskri sprengju í trollið

Logi Þórðarson skoðar sprengjubrotið/ myndir: Áhöfnin á Björgu EA

Hluti úr breskri sprengju sem notuð var í seinni heimsstyrjöldinni kom í veiðarfæri ísfisktogarans Bjargar EA 7 í í fyrradag er skipið var við veiðar á Rifsbanka, norður af Melrakkasléttu. Þetta kemur fram í frétt á vef Samherja

Haft var samband við Landhelgisgæsluna sem staðfesti að brotið væri hluti af MARK XVII sprengju.

Árni Rúnar Jóhannesson skipstjóri segir að Hreinn Birkisson stýrimaður hafi orðið var við að torkennilegur hlutur væri kominn í trollið og því ákveðið að hífa inn veiðarfærin.

„Við áttuðum okkur fljótlega á því að þetta væri hluti úr sprengju og settum okkur því í samband við Landhelgisgæsluna, sem ber að gera við slíkar aðstæður. Sérfræðingar þar úrskurðuðu strax að um væri að ræða hluta af MARK XVIII sprengju sem breski herinn beitti í síðari heimsstyrjöldinni. Við sendum Landhelgisgæslunni myndir af sprengjubrotinu og nákvæma staðsetningu á því hvar það kom í veiðarfærin,“ segir Árni Rúnar.

„Það er annars ekkert grín að fá þessar gömlu sprengjur í veiðarfærin og um borð, lykilatriðið er hreyfa alls ekkert við þeim og allra síst að skila þeim aftur í hafið. Sem betur fer var þetta einungis hluti úr sprengju og engin hætta á ferðum. Við þurfum með öðrum orðum ekki að stíma í land, sem þarf að gera ef um er að ræða ósprungnar sprengjur.“

Hvalveiðibannið átt sér ekki nægi­lega skýra stoð í lög­um

Umboðsmaður Alþingis hefur lokið athugun sinni vegna kvörtunar Hvals hf. um frestun upphafs hvalveiða síðastliðið sumar og látið í ljós álit sitt vegna málsins.

Í álitinu kemur m.a. fram að reglugerð um frestun upphafs hvalveiða hafi ekki átt sér nægilega skýra stoð í lögum um hvalveiðar og að eins og atvikum var háttað hafi útgáfa og undirbúningur reglugerðarinnar ekki samrýmst kröfum um meðalhóf.

Umboðsmaður beinir ekki sérstökum tilmælum til ráðuneytisins um úrbætur. Hann beinir því hins vegar til ráðuneytisins að hafa þau sjónarmið sem fram koma í álitinu í huga til framtíðar.

Teitur Björn Einarsson alþingismaður segir í viðtali við Ríkisútvarpið að þetta sé mjög alvarlegt brot hjá ráðherra. „Það er alvarlegt þegar brotið er með jafn skýrum hætti gegn grundvallarmannréttindum og ráðherra veldur tjóni hjá fjölda fólks sem stundaði þessa atvinnu.“ Hann segir ekki loku fyrir það skotið að þetta baki ríkinu skaðabótaábyrgð. „Það eitt og sér setur málið í alvarlegan búning.“

Teitur segist vænta þess að fljótlega komi þingflokkur Sjálfstæðisflokksins saman til að ræða þetta mál. Hann segir ráðherra verða að gera upp við sig hvort hann segi af sér eða ekki. „Það er ekki endilega það sem er undir hér heldur traust og trúverðugleiki ráðherra til að fara með þau málefni sem ríkisstjórnin hefur komið sér saman um.“ Hann hafi þó sagt það frá upphafi að framganga ráðherra í þessu máli væri mikill álitshnekkur fyrir hana.

Svandís Svarsdóttir matvælaráðherra segir á facebooksíðu sinni : „Ég tek þessa niðurstöðu umboðsmanns alvarlega og þrátt fyrir að umboðsmaður beini ekki sérstökum tilmælum til mín þá hyggst ég beita mér fyrir breytingum þannig að þessi úreltu lög séu færð til nútímans.“

Nýskráningar fólksbíla árið 2023 voru 17.549

Nýskráningar fólksbíla árið 2023 reyndust 5,1% meiri en árið 2022.

Nýskráningar voru alls 17.549 árið 2023 en voru 16.690 árið þar á undan að því er fram kemur í tölum frá Bilgreinasambandinu.

Rúmlega helmingur nýskráninga var í rafbílum. Alls 8.784 bílar sem nemur 50,1% hlutdeild á markaðnum. Hybrid-bílar voru í öðru sæti, alls 2.891 bílar og 16,5% hlutdeild. Í þriðja sæti koma dísilbílar, alls 2.280 bílar. Nýskráningar í bensínbílum voru 1.834 og í tengilvinnbílum 1.756.

Nýskráningar voru flestar í Tesla þegar sala á einstökum bílategundum eru skoðaðar. Tesla seldist alls í 3.547 eintökum og Toyota kemur í öðru sæti með 3.001 bíla og Kia er í þriðja sæti með alls 1.959 bíla.

Bílar til almennra notkunar námu alls 59,6% í heildarnýskráningum fólksbifreiða og til ökutækjaleiga 39,7%.

Veiðigjaldið af þorski 26,66 kr/kg

Veiðigjald fyrir 2024 fyrir þorsk er 26,66 kr/ kg af óslægðum fiski samkvæmt svörum Matvælaráðuneytisins. Það hækkar frá síðasta ári þegar það var 19,17 kr/kg. Hækkunin er 39%. Fyrir ýsu er gjaldið 22,28 kr/kr en var 19,82 kr/kg. Hækkunin er 12,4%. Ráðuneytið segir að veiðigjöldin fyrir yfirstandandi ár hafi verið auglýst 30. nóv. sl.

Súðavík: sterkur fjárhagur, framkvæmdir og stöðug íbúabyggð

Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri í Súðavík segir í áramótakveðju á vef sveitarfélagsins að ýmislegt sé á góðum vegi í sveitarfélaginu. „Hér eru framkvæmdir og nokkuð stöðug íbúabyggð, fjárhagur sveitarfélagsins sterkur í samanburði á landsvísu. Framkvæmdum við Langeyri miðar vel og verður næsta ár komandi nokkur vendipunktur varðandi útlit og ásýnd. Upphafið að nýjum hafnarframkvæmdum sem gefa góða möguleika á atvinnusköpun okkur öllum til heilla. Flest hefur fallið með okkur þó auðvitað megi alltaf gera betur og gera meiri kröfur til okkar sjálfra. Og það er fæst vegna utanaðkomandi aðstoðar.“

Þá sé langt komið með að tengja allt í ljósleiðara í sveitarfélaginu og fyrstu áföngum að ljúka með tengingu þrífasa rafmagns.  

Þá víkur Bragi að samgöngumálum og segir að Súðavíkurhlíðin hafi minnt á sig og „gerði jólahald hér með öðru sniði rétt um aðfangadag og jóladag. En á sama tíma er verið að vinna verðmætt efni úr hlíðinni til uppbyggingar á athafnasvæði við Langeyri. Vonandi verður það táknrænt varðandi þennan veg. Súðavíkurhöfn hefur gengið í gegnum nokkra endurnýjun með bættri aðstöðu og nokkuð tíð umferð hefur verið stærri skipa þar um með uppskipun á laxafóðri og búnaði til fiskeldis. En vonandi berum við gæfu til þess að landa þar um fiski til frambúðar.“

Helst séu  blikur og kólguský á lofti „sem verða ekki síst til á Alþingi í garð sveitarfélags af þeirri stærðargráðu sem við byggjum“ segir sveitarstjórinn og á þar við þá miklu áherslu sem stjórnvöld leggja á að sveitarfélög með færri íbúa en 1.000 sameinist öðrum og sendir þeim þessa pillu:

„Og á sama tíma er verið að endurskipa innan Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga þar sem við ásamt nokkrum öðrum teljumst hafa notið ofjöfnunar framlaga úr sjóðnum. Þetta er kaldhæðnislegt meðan á sama tíma er verið að loka síðustu opinberu stofnunum sem hér hafa verið s.s. póstþjónustu. Er það sveitarstjóra umhugsunarefni til hvers Jöfnunarsjóður er í raun ef ekki til þess að mæta slíku. Hér er ekki kvóti í neinu formi sem varðar sjávarútveg og trauðla hefur gengið að nýta þann byggðakvóta sem Súðavík er markaður.“

  

Tálknafjörður: 2.607 tonn af bolfiski á síðasta ári

Ta´lknafjarðarhöfn síðastliðið sumar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í síðasta mánuði bárust 192 tonn af afla á land í Tálknafjarðarhöfn. Línubáturinn Indriði Kristins BA var með 154 tonn og Sæli BA , sem einnig var á línuveiðum landaði 37 tonnum. Þriðji báturinn sem landaði í desember var Garri BA sem var á handfærum. Hann landaði 447 kg.

Á árinu 2023 varð heildaraflinn 2.607 tonn sem landað var í Tálknafjarðarhöfn.

Strandveiðiaflinn var um 400 tonn á síðasta sumri, sem gerði Tálknafjörð að 9. hæstu löndunarhöfninni á landinu.

Einn netabátur var á veiðum Birta BA og landaði hann 21 tonni af bolfiski.

Að öðru leyti voru það línubátar sem komu með afla að landi. Það voru Indriði Kristins BA og Sæli BA sem báru uppi línuaflann, sem losaði 2000 tonn.

Arctic Fish: hefur brugðist við athugasemdum Mast

Kvíar í Dýrafirði. Mynd: Arctic Fish.

Arctic Fish bregðst við eftirlitsskýrslu Matvælastofnunar um strok laxa úr kví í Patreksfirði í ágúst með því að segja að fyrirtækið taki athugasemdum Mast alvarlega og frá því að strokið átti sér stað í ágúst, hafi Arctic Fish lagt í mikla vinnu við að endurskoða vinnulag með það að markmiði að lágmarka áhættu á stroki.

Í skýrslu Mast er gerð grein fyrir tveimur alvarlegum frávikum í eldi félagsins.Annars vegar vegna ljósastýringa og hinsvegar vegna eftirlits.

Annars hefur Arctic Fish ákveðið að hætta að nota þá tegund af fóðurdreifurum sem ollu gatinu.“ Við erum að innleiða nýtt rafrænt gæðakerfi og viðhaldskerfi sem bætir vinnubrögð. Aukin áhersla verður á þjálfun starfsfólks og farið hefur verið yfir framkvæmd ljósastýringa.“

Hins vegar hefur verið búið til nýtt starf í fyrirtækinu, starf framkvæmdastjóra eldis og í það starf var ráðinn John Gunnar Grindskar sem hefur áratuga reynslu úr fiskeldi hjá móðurfyrirtæki Arctic Fish í Noregi.

Nýjustu fréttir