Mánudagur 2. september 2024
Síða 20

Útkall djúpt norður af Vestfjörðum

Kort af flugleiðinni

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar annaðist útkall, djúpt norður af Vestfjörðum, vegna veikinda um borð í skemmtiferðaskipi á Grænlandssundi um síðustu helgi.

Þyrlusveitin tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli laust eftir klukkan fjögu um nóttr og tók stefnuna á Ísafjörð þar sem fyllt var á eldsneytistanka þyrlunnar.

Þaðan var flogið á haf út og á sjöunda tímanum um morguninn var TF-GRO, þyrla Landhelgisgæslunnar, komin að skemmtiferðaskipinu.

Töluverður vindur var á staðnum eða um 40 hnútar sem samsvarar rúmlega tuttugu metrum á sekúndu. Þá var éljagangur og um fjögurra til fimm metra ölduhæð.

Áhöfn skemmtiferðaskipsins tók á móti tengilínu frá þyrlunni á þyrlupalli skipsins og fór sigmaður þyrlusveitarinnar um borð í skipið og undirbjó sjúklinginn fyrir hífingu um borð í þyrluna.


Vel gekk að koma manninum um borð í þyrluna og var flogið með hann til aðhlynningar á Sjúkrahúsið á Akureyri.

Ísafjarðarbær: íbúarfjöldinn kominn yfir 4.000

Suðurtangi. Mynd: Ísafjarðarbær.

Íbúar með lögheimili í Ísafjarðarbæ voru um síðustu mánaðamót orðnir 4.002 og hefur sveitarfélagið rofið 4.000 íbúa múrinn. Þetta kemur fram í nýjum töum frá Þjóðskrá Íslands sem birtar voru í morgun. Fjölgunin frá 1. desember 2023 er 67 manns sem gerir 1,7% fjölgun á þessum 8 mánuðum.

Íbúafjölgun á landinu öllu var 1,6% á sama tíma og á höfuðborgarsæðinu 1,8%.

Jarðgangaáætlun: langt í næstu jarðgöng á Vestfjörðum

Mynd úr skýrslu Vegagerðarinnar um göng milli Súðavíkur og Ísafjarðar.

Ríkisstjórnin lagði fyrir Alþingi síðasta vetur tillögu um jarðgangaáætlun til næstu 30 ára. Þar eru lagðar til tíu framkvæmdir sem hefjist á næsta ári 2025 með byrjun á Fjarðarheiðargöngum og ljúki með göngum undir Öxnadalsheiði sem verði tilbúin 2053.

Alþingi afgreiddi ekki áætlunina í vor og er búist við því að hún verði lögð fram óbreytt í haust.

Lagt er til að fjórar framkvæmdir verði staðfestar með fjárframlögum en sex jarðgöng komi síðar og er þeim raðað í tímaröð en verða ekki festar með fjárveitingum. Þær framkvæmdir verða því meira yfirlýsing um vilja en bein ákvörðun.

Auk Fjarðarheiðaganga, sem eru efst á listanum, eru það Siglufjarðargöng, ný Hvalfjarðargöng og ný gögn milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar sem lagt er til að verði ákveðnar og það í þessari röð. Siglufjarðargöngin eiga að hefjast 2028, Hvalfjarðargöngin 2030 og göngin við utanverðan Eyjafjörð hefjist 2033.

Fjórir jarðgangakostir eru lagðir til á Vestfjörðum.

Fyrst er það göng milli Ísafjarðar og Súðavíkur. Lagt er til að hefja framkvæmdir 2036 og ljúka þeim 2039. Vegagerðin leggur til tvo kosti, annars vegar stutt 2,3 km göng sem kosti 7 milljarða króna miðað við verðlag í mars 2023 og hins vegar lengri göng 6,7 km sem kosti 21,5 milljarða króna. Þessi göng eru skv. tillögu ríkisstjórnarinnar í 5. sæti í röðinni.

Breikkun Breiðadalslegg Vestfjarðaganga er í næsta sæti. Það er 4,1 km að lengd og kostar 13,5 milljarða króna. Lagt er til að breikkunin verði á árunum 2038 og 2039.

Jarðgöng í Vesturbyggð um Mikladal og Hálfdán eru í 8. sæti í röðinni og verði grafin 2043 til 2046. Þetta eru tvenn göng, annars vegar 2 km um Mikladal og hins vegar 6,6 km göng um Hálfdán. Þau kosta bæði 29 milljarða króna.

Í 9. sæti og næst síðust i röðinni er lagt til að verði göng um Klettsháls 3.8 km sem kosti 14,5 milljarða króna. Þau verði grafin 2046 – 2049.

Samtals kosta jarðgöngin fjögur á Vestfjörðum um 80 milljarða króna, sé miðað við lengri göngin milli Ísafjarðar og Súðavíkur, annars um 65 milljarða króna ef miðað er við þau styttri. Lengri gögnin munu stytta vegalengdir milli byggðarlaganna um 6,1 km en styttri göngin þýða óbreytta vegalengd.

Tillaga Vegagerðarinnar sem ríkisstjórnin gerði að sinni og lagði fyrir Alþingi.

Dagurinn í dag á Act alone

Mugison í Staðarkirkju. Myndir: Act alone.

Leiklistar- og listahátíðin Act alone hófst í gær með afmælistónleikum Act alone í tilefni af tveggja áratuga tilveru hátíðarinnar. Það var sómi Vestfjarða, Mugsion, sem heillaði hátíðargesti í smekkfullri Staðarkirkju í Súgandafirði. Svo margmennt var að opnaðir voru allir gluggar guðshússins svo margir gestir hlustuðu við skjáinn að utanverðu. Í gær hófst einnig trúðanámskeið fyrir æskuna sem belgísk/franski trúðurinn Fransoise Simon stýrir.

Dagskrá Act alone heldur áfram í dag. Eitthvað fyrir alla og ókeypis á allt einnig er rétt að minna á að hægt er að fá ókeypis far með langferðabifreið Act alone sem fer á millum Ísafjarðar og Suðureyrar alla Act helgina. Dagskrá langferðabifreiðar og hátíðarinnar má sjá á www.actalone.net

Staðarkirkja var fullsetin og hlýtt var á tónleikana utandyra.

Fyrsti viðburður dagsins í dag á Act alone verður opnun á myndlistarsýningu Drífu Garðarsdóttur frá Bíldudal kl.18.01. Fimmtán mínútum síðar verður hin rómaða fiskiveisla og upphafsstef Act alone. Sem verður í þreföldum hátíðarbúning því í ár fagnar ekki bara Act alone 20 ára afmæli heldur og Tjöruhúsið sem er jafnaldri hatíðarinnar. Svo á Íslandssaga á Suðureyri 25 ára afmæli. Í tilefni alls þessa munu Íslandssaga og Tjöruhúsið leiða saman potta og pönnur svo úr verður einstök fiskiveisla. Skúli mennski stígur á stokk í félagsheimilinu kl.19.01 og klukkutíma síðar verður boðið upp á hinn vinsæla einleik Félagsskapur með sjálfum mér. Vestfirsku skáldin Ólína Þorvarðardóttir og Eiríkur Norðdahl verða með sagnastundir þar á eftir og loks líkur þessu einstaka fimmtudagskveldi með gjörningsverkinu The Route.

Þá vita margir hvar best er að vera í dag.

Ólína Þorvarðardóttir.

Dagskráin í dag.

Bíldudalur: Dalbraut 39 verði atvinnuhúsnæði

Dalbraut 39, Bíldudal.

Skipulags- og framkvæmdaráð Vesturbyggðar hefur fengið erindi frá eiganda Dalbrautar 39 á Bíldudal, sem er íbúðarhús og er óskað eftir breytingu á aðalskipulagi Vesturbyggðar. Breytingin sem óskað er eftir felur í sér breyttri landnotkun á lóðinni að Dalbraut 39 á Bíldudal.

Í Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2018-2035 er húsið á skipulögðu íbúðarsvæði og er óskað eftir að lóðin verði skilgreind sem verslunar- og þjónustusvæði. Ósk um breytingu er í tengslum við áform umsækjenda um umsókn um rekstrarleyfi fyrir gistiheimili sem rekið er lengur en 90 daga á ári.

Skipulags- og framkvæmdaráðið leggur til við bæjarstjórn að farið verði í breytingu á aðalskipulagi Vesturbyggðar þar sem gerð verði breyting á aðalskipulaginu og skilgreiningu verði breytt í verslunar- og þjónustusvæði fyrir lóðina að Dalbraut 39. Skipulags- og framkvæmdaráð telur að breytingin sé þess eðlis að hún geti talist óveruleg og málsmeðferð verði skv. því.

Skipulags- og framkvæmdaráðið hefur þó áhyggjur af fjölda bílastæða við húsið. Skipulagsfulltrúa var falið að kalla eftir umsögnum frá lóðarhöfum Dalbrautar 34, 35, 42 og Sælundi 1.

Bolungavík: í góðum höndum

Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir er formaður bæjarráðs Bolungavíkurkaupstaðar.

Fundur bæjarráðs Bolungavíkurkaupstaðar í síðustu viku var merkilegur fyrir þær sakir að allir fundarmenn voru konur. Starfandi bæjarstjóri í sumarleyfi Jóns Páls Hreinssonar er Katrín Pálsdóttir. Auk hennar sátu fundinn bæjarráðsmennirnir Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir, formaður bæjarráðs, Ástrós Þóra Valsdóttir og Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir.

Katrín Pálsdóttir var innt eftir því hvort þetta væri ekki einsdæmi. Hún vildi ekki alveg fullyrða það en taldi svo vera. Katrin sagði að fundurinn hefði gengið vel. „Bærinn er í góðum höndum.“

Þar var hún ekki síður að vísa til þess að aðalumræðuefnið á fundinum hefði verið rætt um undirbúning að fjárhagsáætlunargerð fyrir næsta ár og farið yfir forsendur og spár Hagstofunnar um þróun efnahagsmála. „Bærinn er vel staddur fjárhagslega og gott útlit fyrir næsta ár.“

Vestri: jafntefli og góður leikur heimamanna

Vestfirðingar styðja vel við lið sitt og stúkan var þéttsetin í gær.

Karlalið Vestra tók í gær á móti ÍA frá Akranesi í Bestu deildinni á Kerecis vellinum á Torfnesi á Ísafirði.

Góð mæting var á leikinn og fengu heimamenn sterkan stuðning úr stúkunni.

Fyrri hálfleikur var frekar lokaður og fátt um færi. Liðin spiluðu varfærnislega og jafnræði var með liðunum. Annað var upp á teningnum, einkum frá heimamönnum. Vestri sýndi mjög góðan leik og stjórnuðu leiknum mikið til. Hvort lið gerði eitt mark sem var dæmt af, sérstaklega var umdeilanlegt hvort rangstaða hafi verið þegar Vestri skoraði.

Þá átti Vestri skot í stöng þegar Vladimir Tufegdzic lék á markvörðinn og skaut svo í stöngina og a.m.k. þrjú dauðafæri til viðbótar. Tvisvar varði varnarmaður ÍA boltann áður en hann fór yfir marklínuna og tvisvar varði markmaður ÍA glæsilega skot Vestramanna.

Tvímælalaust hefði verið sanngjarnt að Vestri hefði unnið leikinn, en til þess þarf að skora. Engu að síður sýndi Vestri góðan leik og gerði Skagamönnum, sem eru í 6. sæti deildarinnar með 25 stig erfitt fyrir.

Davíð Smári Lamunde, þjálfari Vestra var ánægður með liðið og sagði það hafa heilt yfir verið stórkostlegt.

Eftir leikinn er Vestri í 11. sæti deildarinnar með 13 stig, en Fylkir er í neðsta sæti með 12 stig. Fyrir ofan þau eru HK með 14 stig og KR með 15 stig og eigast þau við í kvöld.

Arctic Fish er einn helsti styrktaraðili Vestra og bauð áhorfendum upp á grillaðan eldislax. Hér er Stein Ove Tveiten, forstjóri Arctic Fish að sjálfsögðu í Vestratreyju.

Vestri í einni af mörgum sóknum sínum í síðari hálfleik.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Kaldalón: viðgerð lokið og vegurinn fær

Veiðileysukleif.

Vegagerðin á Hólmavík hefur lokið viðgerð á veginum um Kaldalón sem lokaðist við ána Mórillu um helgina. Gunnar Númi Hjartarson, yfirverkstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta minna tjón hefði orðið á veginum nú en varð í fyrra. Skemmdirnar urðu einkum við varnargarð sem við ána. Gunnar sagði að ætlunin væri að gera frekari lagfæringar í haust þegar minna vatn væri í ánni.

Þá er vegurinn norður í Árneshrepp opinn öllum bílum og viðgerð á veginum í Veiðileysukleif og í Reykjafirði væri lokið að sinni. Fært er öllum bílum , líka þeim sem eru með aftanívagn.

Þegar þornað hefur verður vegurinnn skemmdir urðu heflaður og sett möl í hann.

Gunnar Númi Hjartason.

Harmonika á Byggðasafni Vestfjarða

Hvít 5 raða hnappaharmonika af gerðinni HERFELD & COMP., 100 nótur í diskant og 120 í bassa, 5 kóra og 1 skipting. Framleidd í Þýskalandi.

Mjög fallegt hljóðfæri og mikið skreytt.  Mikið uppgerð, en ekki spilhæf.

Daníel Rögnvaldsson lék á þessa harmoniku á dansleikjum á Ísafirði og nágrenni árum saman. Daníel var þekktur og vinsæll harmonikuleikari hér við Ísafjarðardjúp.

Harmonikan er gefin af afkomendum Daníels Rögnvaldssonar í minningu feðganna Daníels Rögnvaldssonar og Hauks Daníelssonar.

Af sarpur.is

Sauðfjársetrið vantar safnstjóra

Auglýst er eftir safnstjóra á Sauðfjársetur á Ströndum sem er staðsett í félagsheimilinu Sævangi, 12 km sunnan við Hólmavík.

Sauðfjársetrið er eitt minnsta viðurkennda safn landsins, en vel þekkt fyrir öflugt starf, góð tengsl við samfélagið, fjölbreytt viðburðahald og margvísleg menningarverkefni.

Safnið var í apríl á þessu ári  tilnefnt til Íslensku safnaverðlaunanna 2024 fyrir samfélagslega nálgun í safnastarfi. Einnig voru tilnefnd Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Gerðarsafn og Þjóðminjasafn Íslands.

Safnið er sjálfseignarstofnun með þriggja manna stjórn og starfar safnstjóri í umboði stjórnar.

Í Sævangi er fastasýning safnsins, sérsýningar, kaffistofa með margvíslegum veitingum og minjagripabúð. Sauðfjársetrið er í senn safn, ferðaþjónustuaðili og mikilvæg menningarmiðstöð á Ströndum.

Óskað er eftir glaðværum dugnaðarforki með leiðtogahæfileika og mikla þjónustulund. Mikilvægt er að viðkomandi sé lausnamiðaður og viljugur til að ganga í öll verk, eftir því sem þörf krefur.

Safnstjóri Sauðfjársetursins er allt í öllu í starfi safnsins, eini starfsmaðurinn yfir vetrartímann, en viðbótar starfsfólk er ráðið í gestamóttöku yfir sumarið og afmörkuð verkefni ef fjármögnun þeirra leyfir. Safnstjórinn þarf að eiga auðvelt með að fá annað fólk í lið með sér, til að halda uppi stemmningunni.

Nýjustu fréttir