Fimmtudagur 31. október 2024
Síða 20

Farsældarráð í hverjum landshluta

Mennta- og barnamálaráðherra, undirritaði í dag samninga við sjö landshlutasamtök sveitarfélaga um ráðningu verkefnisstjóra sem leiða mun undirbúning að stofnun svæðisbundins farsældarráðs í hverjum landshluta fyrir sig.

Með samningunum hafa öll sveitarfélög landsins skuldbundið sig til þess að hefja vinnu við að hrinda 5. grein laga um þjónustu í þágu farsældar barna í framkvæmd.

Markmiðið er að börn og foreldrar geti fengið aðgang að samþættri þjónustu við hæfi, án hindrana.

Samningurinn er byggður á niðurstöðum starfshóps mennta- og barnamálaráðuneytisins um samhæfða svæðaskipan í málefnum barna. Að mati starfshópsins voru mikil tækifæri fólgin í því að starfrækja farsældarráðin eftir gildandi landshlutaskiptingu sveitarfélaga enda þau vön að vinna á þeim grunni. Það er því einkar ánægjulegt að sveitarstjórnarfólk landsins hafi tekið undir þessa megintillögu hópsins.

Verkefnisstjórinn mun vinna í nánu samstarfi við forsvarsmenn innleiðingar farsældarþjónustu í sveitarfélögum landshlutans og leiða saman það fagfólk sem vinnur að málefnum barna í því skyni að undirbúa svæðisbundið farsældarráð. Samningurinn er gerður til tveggja ára.

Andlát: Sigríður Hrönn Elíasdóttir fv. sveit­ar­stjóri í Súðavík

Sig­ríður Hrönn Elías­dótt­ir, fv. sveit­ar­stjóri í Súðavík, lést 5. októ­ber sl. 65 ára að aldri, eft­ir erfiða bar­áttu við MND-sjúk­dóm­inn.

Sig­ríður fædd­ist í Reykja­vík 6. ág­úst 1959. For­eldr­ar henn­ar voru Elías Ben Sig­ur­jóns­son og Ingi­björg Ólafs­dótt­ir. Á öðru ári flutti fjöl­skylda Sig­ríðar til Súðavík­ur og þar ólst hún upp. Eft­ir grunn­skóla­nám í Súðavík og Héraðsskól­an­um að Núpi í Dýraf­irði fór Sig­ríður í Verzl­un­ar­skól­ann.

Hún var ráðin sveit­ar­stjóri í Súðavík 1990 og var í því starfi þegar snjóflóð féll á Súðavík í janú­ar 1995. Hún var að auki formaður al­manna­varna­nefnd­ar Súðavík­ur og mæddi mikið á henni á erfiðum tím­um, en 14 fór­ust í flóðinu. Sig­ríður lét af starfi sveit­ar­stjóra sum­arið 1995 en hélt áfram í hrepps­nefnd sem odd­viti þar til kjör­tíma­bil­inu lauk 1998.

Sam­hliða störf­um í hrepps­nefnd var hún m.a. svæðis­full­trúi Rauða kross­ins á Vest­fjörðum og sá þá um mót­töku flótta­fólks frá Júgó­slav­íu. Einnig vann hún í Spari­sjóði Súðavík­ur og var starfsmaður Vinnu­mála­stofn­un­ar Vest­fjarða frá 2001 til 2006, er hún flutti til Reykja­vík­ur. Var hún fjár­mála­stjóri hjá Vélsmiðju Orms og Víg­lund­ar til 2022.

Sig­ríður var alla tíð virk í starfi Sjálf­stæðis­flokks­ins, bæði á Vest­fjörðum og í Grafar­vogi eft­ir að hún flutti suður. Sig­ríður hafði mik­inn áhuga á brids, varð fyrst kvenna Íslands­meist­ari í ein­menn­ingi, árið 2002, og vann til fjölda verðlauna.

Ári eft­ir snjóflóðin greind­ist Sig­ríður með MS-sjúk­dóm­inn, náði aldrei bata en lærði að lifa með hon­um. Að mati lækna mátti rekja or­sak­ir veik­inda til mik­ils álags eft­ir snjóflóðin. Haustið 2019 veikt­ist hún á ný og greind­ist á end­an­um með MND-sjúk­dóm­inn. Eft­ir­lif­andi börn Sig­ríðar Hrann­ar og Óskars Elías­son­ar, d. 2014, eru Alda Björk og Örvar Snær. Barna­börn­in eru fimm

Vestfirðir: fjölgar um 0,9%

Ísafjörður

Íbúum á Vestfjörðum fjölgaði um 0,9% frá 1.desember sl til 1. oktober 2024. Þeir voru orðnir 7.541 en voru 7.477 fyrir 10 mánuðum. Íbúafjölgunin á landsvísu var 1,7% á sama tíma. Nemur fjölgunin á Vestfjörðum liðlega helmingnum af landsfjölguninni.

Langmest hefur fjölgað í Ísafjarðarbæ eða 73 manns og eru íbúarnir orðnir 4.008. Fjölgunin í sveitarfélaginu var 1,9% á þessum tíma sem er það sama og íbúafjölgunin á landsvísu.

Í Bolungavík hefur fjölgað um 1,3% eða um 13 manns. Þá fjölgaði um 8 manns í Kaldrananeshreppi.

Fækkun varð í þremur sveitarfélögum. Í Vesturbyggð og Súðavík um 11 manns í hvoru um sig og um mest hefur fækkað í Strandabyggð, en þar fækkaði um 14 manns.

Gallerí úthverfa: Maria Möller

Ævarandi ljós / Perpetual Light

11.10. 2024 –

Á ganginum í Neista / In Neisti shopping mall.

Föstudaginn 11. október kl. 16 opnar bandaríska listakonan Maria Möller sýningu á ganginum í Neista á Ísafirði. Sýningin ber heitið ÆVARNANDI LJÓS / PERPETUAL LIGHT  og stendur eins lengi og óskað er. Listakonan verður viðstödd opnun sýningarinnar þar sem boðið verður uppá léttar veitingar og spjall. 

Ævarandi ljós: Maria Möller með Önnsku, Sofiu, Úlfi, Möttu, Ásgeiri, Huldu, Fjölni, Írisi, Guðrúnu, Matta, Ómari, Elmu, Gunnari og Gumma.

Þegar sumrinu lýkur og veturinn nálgast kemur ókunnugur maður niður úr fjöllunum á flótta undan myrkrinu. Ísafirðingar bjóða þeim ókunnuga inn og gefa til kynna með fánum að það sé óhætt, að hér sé ljós samfélagsins til staðar.

Þessar 15 myndir spanna tvær vikur fyrir og eftir haustjafnvægur – daginn þar sem dagur og nótt eru jafn löng. Á hverjum degi var mynd tekin á þeim tíma sem sólin sest 24. september, sem er dagur haustjafndægurs á Íslandi. Í seríunni eru semafórfánar – einnig þekktir sem merkjafánar – látnir segja „ævarandi ljós“ á íslensku og ensku. Þessir fánar eru fyrst og fremst notaðir á skipum og bátum til samskipta í neyð. Hver fánastaða táknar mismunandi bókstaf í stafrófinu.

„Ævarandi ljós“ er ósk til annarra og þrá fyrir okkur sjálf. Á tímum myrkurs, bæði bókstaflega og tilfinningalega, þegar þráin er mest eftir ljósinu, hvar finnum við það þá? Hvergi nema í öðrum manneskjum í kringum okkur, í fólkinu sem mun skína ljósi sínu á okkur og vísa okkur leiðina út úr myrkrinu. – Kærar þakkir til ArtsIceland og samfélagsins á Ísafirði.

Maria Möller (Bandaríkin) er þverfagleg listakona með aðsetur í Fíladelfíu sem skilur frásögn frá staðreyndum og túlkar hvernig saga og staður geta endurspeglað innstu þrá okkar og sameiginlegar vonir. Með rætur og bakgrunn í leikhúsi og sjónrænan orðaforða í ljósmyndun, fela samstarfsverkefni hennar í sér staðbundnar innsetningar, þátttökugjörninga og samfélagsmiðaða viðburði.

Landsþing kvenfélagsambands Íslands á Ísafirði

Frá Akranesi þegar þar var afhent gjöf Kvenfélagasambandsins til allra kvenna.

40. landsþing Kvenfélagasambands Íslands (KÍ) verður haldið í Edinborgarhúsinu á Ísafirði dagana 11. – 13. október næstkomandi. Samband vestfirskra kvenna er gestgjafi landsþingsins. Yfirskrift landsþingsins er „Valkyrjur milli fjalls og fjöru”.

Kvenfélagskonur láta sig margvísleg málefni varða einsog sést á dagskrárliðum þingsins.

Þingsetning fer fram 11. október í Ísafjarðarkirkju kl: 18:00 og hafa aðstandendur þingsins; KÍ og Samband vestfirskra kvenna hvatt þingfulltrúa til að mæta sem flestar í þjóðbúning við þingsetninguna þar sem íslenski þjóðbúningurinn verður sérstaklega til umræðu á þinginu.

Að lokinni þingsetningu býður Samband vestfirskra kvenna þingfulltrúum í móttöku í Edinborgarhúsinu sem hefst klukkan 19.30.  Móttakan hefst á ávarpi frá bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar; Örnu Láru Jónsdóttir.  Í móttökunni mun Heilbrigðisstofnun Vestfjarða taka formlega á móti Gjöf til allra kvenna, en tenging er nú að komast við tæknibúnaðinn sem safnað var í tilefni 90 ára afmælis KÍ 2020 við Fæðingadeildina á Ísafirði.  Kristín Gréta Bjarnadóttir tekur formlega á móti gjöfinni. 

Á vinnustofu á laugardagsmorgun mun meðal annars verða sýning og erindi frá Margréti Skúladóttur formanni í Þjóðbúningafélagi Íslands og félögum hennar í Þjóðbúningafélagi Vestfjarða. En mikill áhugi er nú á íslenska þjóðbúningnum og hefur KÍ lengi hvatt til fræðslu um búninginn og hvatt til notkunar á honum.

Klukkan 14:00 á laugardag verða framsöguerindi samkvæmt yfirskrift þingsins Valkyrjur milli fjalls og fjöru.   Eftirfarandi erindi verða flutt:

  • Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu.
    • Er byggðaþróun karlamál?
  • Anna Jörundsdóttir Dropi
    • Lúxuslýsisframleiðsla í Bolungarvík
  • Dóra Hlín Gísladóttir – Kerecis
    • Nýsköpun á landsbyggðinni – Reynslusaga
  • Íris Ösp Heiðrúnardóttir listakona Netagerðinni á Ísafirði.
    • YOGER – jógaspil fyrir heimaiðkun

Á vinnustofa á sunnudagsmorgun verða tvö mál til umræðu : hvernig kvenfélögin geta veitt konum af erlendum uppruna stuðning á sínum svæðum og hvað kvenfélögin geta gert til að styðja við fólk á sínum svæðum varðandi Einsemd og einmanaleika.

225 konur af öllu landinu eru nú skráðar á þingið og er það löngu uppselt. Öll kvenfélög á landinu eiga rétt á að senda fulltrúa á landsþingið með atkvæðisrétt en þingið er opið fyrir allar kvenfélagskonur sem hafa þar málfrelsi og tillögurétt.

Kvenfélagasamband Íslands (KÍ) var stofnað árið 1930 sem sameiningar og samstarfsvettvangur kvenfélaganna í landinu.  Innan KÍ starfa 135 kvenfélög í 17 héraðs- og svæðasamböndum með um 4000 félaga.

Á landsþingum koma saman allar kynslóðir kvenna frá um 18 ára – 90 ára.

Á undanförnum árum hefur afrakstur vinnu kvenfélaganna, numið tugi milljóna á ári hverju, sem runnið hefur til hinna ýmsu menningar- og líknarmála auk annarra samfélagsverkefna.   Í skýrslu stjórnar KÍ til þingsins kemur fram að kvenfélög innan KÍ hafa gefið  165.017.547 kr. alls til samfélagsins á árunum 2021 – 2023.

Landsþing KÍ er æðsta vald sambandsins og er haldið á 3ja ára fresti, var síðast haldið í Borgarnesi 2021.

Piff hefst í dag

Piff hefst með opnunarhátíð í Ísafjarðarbíói kl. 17 í dag. Þar gefst bíógestum tækifæri til að hitta erlent kvikmyndafólk sem mætt er til Íslands til að fylgja myndum sínum eftir. Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar mun svo formlega opna hátíðina. Boðið verður upp á léttar veitingar og heimagerðar snittur. Allir eru velkomnir bæði á opnunina og sýningarnar sem eru fríar.

Opnunarmynd hátíðarinnar verður svo sýnd kl. 18 en heimildarmyndin „Afsakið meðanað ég æli“ sem fjallar um tónlistarmanninn Megas. Myndin veitir 40 ára innsýn í uppreisnarmanninn, pönkrokkaran og fólkið sem hann vann með. Að myndinni lokinni mun Ísfirðingurinn Spessi (Sigurþór Hallbjörnsson), leikstjóri myndarinnar, segja aðeins frá myndinni og svara spurningum úr sal.

Kl. 20 hefst írska hryllingsmyndin „An Taibhse“sem fjallar um lífið eftir hungursneyðina milu á Írlandi. Sagan segir frá feðginunum Éamon og Máire sem taka að sér að viðhalda afskekktu georgísku stórhýsi yfir harðan vetur. Í fyrstu virðist sú ábyrgð vera friðsæl en það breytist fljótlega í skelfingu þegar óútskýranleg fyrirbæri byrja að gerast. ´An Taibhse´ er fyrsta hryllingsmyndin sem gerð hefur verið á írski forntungu.

Að sýningum lokinni verður haldið á skemmtistaðinn Húsið þar sem tónlistarmaðurinn Gummi Hjaltason mun sjá fyrir góðri stemningu.

Dagskrá hátíðarinnar og frekari lýsingar á myndunum má finna á piff.is.

Ljósvíkingar: aðsóknin komin yfir 12.000 manns

Jódís Skúladóttir, alþm.

Aðsóknin í Reykjavík að vestfirsku kvikmyndinni Ljósvíkingar er komin yfir 12.000 manns segir Snævar Sölvi Sölvason handritshöfundur og leikstjóri.

Í fyrradag var vakin athygli á því á Alþingi að eitt inntak myndarinnar er endurgerð báta og segir Snævar það styðjast við baráttu Jóns Sigurpálssonar fyrir bátunum hér fyrir vestan.

Það var Jódís Skúladóttir alþm. sem tók málið upp og sagði hún að í myndinni væri sagður sannleikurinn um stöðu bátaarfsins. Verndun og varðveisla báta og skipa væri hluti af alþýðumenningu og atvinnusögu Íslendinga. Það væru ómetanleg menningarverðmæti í sjávarútvegi og sjósókn Íslendinga frá landnámi og allt fram á tuttugustu öld. En menningararfurinn grotanði niður í fjörum landsins vegna vanrækslu og fjárskorts og sagði Jódís hjákátlegt væriað kalla okkur menningaþjóð.

Vakti hún athygli á tillögu til þingsályktunar sem hún og sjö aðrir alþingimenn hafa flutt á Alþingi um fjármögnun varðveislu, björgunar og endurgerðar skipa- og bátaarfsins.

Þar er lagt til að fela ríkisstjórninni að móta framtíðarstefnu um fjármögnun varðveislu, björgunar og endurgerðar skipa- og bátaarfs Íslendinga.

Fram kemur í greinargerð með tillögunni að árið 2022 hafi fornminjasjóður veitt fjóra styrki til vegna uppgerðar skipa og báta, voru það verkefnin Endurbyggjum Bryndísi, 2,5 millj. kr., Viðgerð og uppgerð Sumarliða, 1,67 millj. kr., Vigurbreiður, 1,35 millj. kr., og Eljan frá Nesi, 900.000 kr. Samtals er fjárhæðin um 6,4 m.kr. af 66,8 m.kr. úthlutuðum styrkjum það ár.

Frá frumsýningu Ljósvíkinga á Ísafirði.

Strandabyggð – Samþykkt hegðun

Merkileg uppákoma varð á sveitarstjórnarfundi 1369 í Strandabyggð sem haldinn var þriðjudaginn 8. október sl.  Undir fyrsta dagskrárlið var til afgreiðslu vantrauststillaga sem Matthías Lýðsson fyrsti maður á A lista lagði fram gegn Þorgeiri Pálssyni fyrsta manni á T lista, oddvita og sveitarstjóra í Strandabyggð. Vantrauststillöguna lagði Matthías fram eftir að Þorgeir Pálsson ítrekaði ásakanir sínar á hendur Jóni Jónssyni í bb.is á dögunum, en KPMG hafði þá skilað minnisblaði sem innihélt niðurstöðu úr yfirferð/rannsókn sem hreinsaði Jón af öllum þeim ásökunum sem Þorgeir hafði borið á hann. Þorgeir tók sem sagt ekki mark á niðurstöðum KPMG og hélt uppteknum hætti.

Engin umræða skapaðist um vantrauststillöguna á fundinum. Þess í stað lögðu tveir sveitarstjórnarmenn T lista fram eftirfarandi bókun: „Vegna hótana sem okkur hafa borist í kjölfar þessarar vantrauststillögu þá höfum við leitað meðal annars til lögfræðings sveitarfélagsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna réttarstöðu okkar í því sambandi. Það er ólíðandi að bakland A lista skuli leyfa sér svona framkomu við kjörna fulltrúa. Svona hegðun hefur mikil áhrif á okkar fjölskyldu og vini í ljósi þess í hversu litlu samfélagi við búum. Af þeim sökum mun ég Óskar Hafsteinn Halldórsson á næstu dögum biðjast lausnar undan mínum störfum í sveitarstjórn því ég get ekki tekið áhættuna á því hvernig verður komið fram við mína nánustu í framhaldi þess ef ég sit áfram í sveitarstjórn.”  Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir 2. maður á T lista skrifar undir bókunina ásamt Óskari Hafsteini Halldórssyni 3. manni á T lista. Ekki kemur fram um hverskonar hótanir sé að ræða né heldur um hvern/hverja er að ræða. Bara vísað til þess að aðilar úr “baklandi” A lista (hvernig er það svo skilgreint) hafi haft í hótunum við sveitarstjórnarmenn T lista. Á upptökum af fundinum sést að þeim er mikið niðri fyrir vegna þessa og er það alveg skiljanlegt, enginn vill verða fyrir hótunum (hvað þá lygum og röngum ásökunum eins og Jón hefur orðið fyrir). Sveitarstjórnarmenn A lista tóku undir með þeim sem lögðu bókunina fram að svona framkoma  væri ekki í lagi.

Svo hélt dagskrárliðurinn áfram, Þorgeir lagði fram sérbókun um eigið ágæta framferði og síðan var vantrauststillagan borin undir atkvæði. Skemmst er frá því að segja að tillagan var felld með 3 atkvæðum T lista á móti 2 atkvæðum A lista.

Af afgreiðslu þessa dagskrárliðar má draga tvær ályktanir. Annarsvegar að sveitarstjórnarmönnum öllum finnist ekki í lagi að kjörnum fulltrúum sé hótað og ég held að allir geti tekið undir það. Hinsvegar eru þarna skýr skilaboð frá sveitarstjórnarmönnum T lista að kjörinn fulltrúi, oddviti og sveitarstjóri getur borið fram lygar og rangar ásakanir á íbúa sveitarfélagsins án nokkurra afleiðinga. Þar höfum við það.

Andrea K Jónsdóttir, athafnakona

Landsmönnum fjölgaði um 2.230 á öðrum ársfjórðungi

Samtals bjuggu 386.970 manns á Íslandi í lok annars ársfjórðungs 2024. Þar af 198.360 karlar, 188.420 konur og kynsegin/annað voru 180. Landsmönnum fjölgaði um 2.230 á ársfjórðungnum.

Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 246.770 manns en 140.200 á landsbyggðinni.

Erlendir ríkisborgarar voru 65.870 eða 17,0% af heildarmannfjöldanum.

Aðferð við mat á mannfjölda var endurskoðuð í mars 2024 og hafa tímaraðir nú verið uppfærðar frá og með árinu 2011.

Á öðrum ársfjórðungi fæddust 1.090 börn en 640 einstaklingar létust. Á sama tíma fluttust 1.780 einstaklingar til landsins umfram brottflutta og skiptist það jafnt á milli karla og kvenna (890). Aðfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 180 umfram brottflutta en aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 1.600 fleiri en þeir sem fluttust frá landinu.

Hagstofa Íslands hefur endurbætt aðferð sína við útreikninga á mannfjölda. Hingað til hefur íbúafjöldi eingöngu byggt á skráningu lögheimilis í þjóðskrá. Ný aðferð byggir á breiðari grunni opinberra gagna, skattagögnum og nemendagögnum auk þjóðskrár.

Þingmenn á fundi  í Edinborgarhúsinu

Þingmannafundur Norðvesturkjördæmis var haldinn í Edinborgarhúsinu fimmtudaginn 3. október. Þingmenn kjördæmisins Bergþór Ólason, Bjarni Jónsson, Eyjólfur Ármannsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson og Teitur Björn Einarsson voru þangað mættir til fundar með sveitarstjórnarfólki á Vestfjörðum.

Á fundinum var mikill þungi lagður á þau helstu mál sem þurfa að vera ofarlega í huga í störfum þingmanna kjördæmisins. Öryggismál á vegum og í jarðgöngum, forgagnsröðun og áætlanagerð í jarðgangnamálum, sem og vegagerð á Dynjandisheiði, Gufudalssveit og Strandavegi var allt tekið fyrir.

Þá var á svipuðum nótum rædd vetrarþjónusta Vegagerðarinnar á Vestfjörðum og hvernig stuttur opnunartími Vestfjarða hamlar uppbyggingu atvinnulífs og samfélaga.

Vakin var athygli á því enn á ný á því að einu auðlindagjöldin sem þjóðin hefur innheimt eru af sjávarauðlindinni, veiðigjöld og gjaldtaka af fiskeldi. Þetta þýðir að atvinnulíf og samfélög á Vestfjörðum greiða hátt hlutfall slíkra gjalda ef borið er saman við aðra landshluta vegna samsetningar atvinnulífs.

Nokkur umræða var um orkumál á fundinum. Athygli var vakin á að nokkrir möguleikar eru í vinnslu og mikilvægt er að fylgja þeim öllum eftir: Hvalá, Austurgil, Skúfnavötn, Hvanneyrardalur/Tröllárvirkjun, Kvíslártunguvirkjun og Vatnsdalsvirkjun. Tvöföldun Vesturlínu er jafnframt gríðarlega mikilvæg og þarf að hefja vinnu við þá áfanga sem nýtast strax svo sem tvöföldun línu frá Mjólká í Kollafjörð.

Óstaðbundin störf eru ekki að reynast vel á Vestfjörðum og oft svo að störf hafa frekar verið flutt af svæðinu en til þess. Rætt var um mikilvægi þess að efla starfsstöðvar stofnana á svæðinu þar sem niðurskurður hefur yfirleitt mest áhrif á starfsemi stofnana sem eru lengra frá höfuðborgarsvæðinu.

Niðurskurður er í framlögum til Náttúrustofa á sama tíma og krafa um auknar rannsóknir og að störf við eftirlit til dæmis í fiskeldi verði staðbundin á þeim svæðum þar sem eldið er stundað.

Nýjustu fréttir