Síða 20

Kílómetragjald tekið upp

Kílómetragjald verður tekið upp og er hugmyndin að það taki gildi um mitt þetta ár.

Það er í raun óumflýjanlegt og fyrirkomulagið verður kynnt bráðlega sagði Daði Már Kristófersson fjármála- og efnahagsmálaráðherra í viðtali við Rikisútvarpið.

Ol­íu­gjald verður fellt niður og kíló­metra­gjald kem­ur í staðinn. Sam­bæri­leg áform voru uppi hjá fyrri rík­is­stjórn en ekki tókst að klára það mál fyr­ir kosn­ing­ar. Daði segir um sann­gjarna breyt­ingu að ræða og að hún sé raun­ar óumflýj­an­leg.

Frumvarp um kílómetragjald vegna rafmagns- og tengiltvinnbíla var samþykkt á Alþingi í lok árs 2023. Nú stendur til að taka upp kílómetragjald á allan akstur.

Ekki tókst að afgreiða frumvarp um kílómetragjald á öll ökutæki á síðasta þingi en því var ætla að vega upp á móti tekjutapi ríkisins vegna rafvæðingar bílaflota landsmanna og áttu gjöldin að skila sjö milljörðum króna í ríkiskassann.

Daði segir að nýtt fyrirkomulag sé ekki ósvipað því sem áður hefur verið kynnt.

Hafró: leggja til loðnuveiðar eftir allt saman

Hafrannsóknarstofnun var rétt í þessu að senda frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kemur að stofnunin ráðleggur veiðar á 8589 tonnum af loðnu.

Meira magn af loðnu mældist fyrir norðvestan land nú í febrúar en í janúar mælingum Hafrannsóknastofnunar. Það er meginástæðan fyrir uppfærðri ráðgjöf upp á 8589 tonn.

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson, ásamt uppsjávarveiðiskipunum Polar Ammassak og Heimaey hafa verið við loðnumælingar norður af Íslandi síðan 8. febrúar (mynd 1). Ekkert var að sjá af fullorðinni loðnu á yfirferðasvæði veiðiskipanna tveggja meðan tæp 98.2 þúsund tonn mældust á Árna Friðrikssyni norðvestan við land (mynd 2).

Í janúar mældust um 180 þúsund tonn austur af landinu og saman með febrúarmælingunni vestan til er heildarmæling vetrarins um 278.20 þúsund tonn. Til samanburðar þá var stærð veiðistofnsins metinn 318 þúsund tonn síðast liðið haust. Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar byggir á samþykktri aflareglu stjórnvalda þar sem haustmæling vegur 1/3 á móti 2/3 af niðurstöðu vetrarmælinga að teknu tilliti til óvissu í matinu og til metins afráns. 

Vísindaportið: Baskasetur Íslands, hugmyndin, verkefnið og framtíðin

Í vísindaporti vikunnar verður Héðinn Birnir Ásbjörnsson, hann mun segja frá spennandi verkefni Baskaseturs á Íslandi.

Markmið Baskaseturs er að vera alþjóðleg miðstöð menningarlegra samskipta í Djúpavík í Árneshreppi. Baskasetri er ætlað að miðla sögu svæðisins og sambúð manns og náttúru, einkum strandmenningar, í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða og Albaola í Baskalandi Spánar.
Baskasetur verður í tönkum síldarverksmiðjunnar í Djúpavík. 

“Ég er alinn upp í Djúpavík í Árneshreppi á Ströndum. Framkvæmdastjóri (CEO) Hótel Djúpavíkur. Formaður Baskaseturs í Djúpavík.

Stúdent af félagsfræðabraut frá Framhaldsskólanum á Laugum (2001) Diplóma í ferðamálafræði í Dreifbýli frá Háskólanum á Hólum 2003, Diplóma í fiskeldisfræði frá Háskólanum á Hólum 2004. Háskóli Íslands Löggilding í fasteigna, fyrirtækja og skipasölu 2013.

Síðastliðin 30 ár hef ég unnið við uppbyggingu ferðaþjónustufyrirtækisins okkar í Djúpavík, leiðsögn um söguslóðir, viðhaldsvinna og önnur tilfallandi ferðatengd verkefni. Á veturnar hef ég fengist við ýmislegt tilfallandi, verið til sjós en að mestu starfað síðastliðin 10 ár sem fasteignasali á höfuðborgarsvæðinu, á Vesturlandi og Vestfjörðum.”

Erindið fer fram á kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða og hefst kl. 12.10. Erindinu er einnig streymt í gegnum zoom hlekk og má finna hann hér https://eu01web.zoom.us/j/69947471079

Erindið fer fram á íslensku

Ekki stuðningur við sameiningu við Strandabyggð

Þorgeir Pálsson er oddviti og sveitarstjóri í Strandabyggð.

Strandabyggð ákvað að leita eftir undirtektum Dalabyggðar og Reykhólahepps um hugsanlega sameiningu sveitarfélaganna. Í afgreiðslu sveitarstjórnar Reykhólahepps þann 12. febrúar segir að sveitarstjórnin telji forsendur til þess að ganga til formlegra sameiningaviðræðna við önnur sveitarfélög ekki sterkar, vegna verkefnastöðu sveitarfélagsins og vinnu við uppbyggingu í sveitarfélaginu og við að ná niður innviðaskuld sveitarfélagsins áður en til sameininga kemur.

Um samstarf gegnir öðru máli og „Sveitarstjórn leggur hinsvegar til að stjórnir sveitarfélaganna hittist til að ræða samstarfs fleti sveitarfélaganna.“

Sveitarstjórn Dalabyggðar tók erindið fyrir 13. febrúar og bókað var að í „ljósi óformlegra viðræðna Dalabyggðar og Húnaþings vestra sér Dalabyggð sér ekki fært að stofna til viðræðna við Strandabyggð.“

Verði stórveldi með eigin her

Fram kemur meðal annars í bréfi sem Valérie Haye, forseti Renew Europe, þingflokks frjálslyndra á þingi Evrópusambandsins, hefur sent Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar sambandsins, og António Costa, forseta leiðtogaráðs þess, að tímabært sé að sambandið verði að stórveldi (e. superpower) og komi sér enn fremur upp eigin sjálfstæðri hernaðargetu. Með öðrum orðum eigin her. Þá er kallað eftir inngöngu Íslands og Noregs í Evrópusambandið.

„Ríki Evrópusambandsins hafa forðast það of lengi að taka djarfar ákvarðanir í því skyni að gera sambandið að stórveldi sem starfar með markvissum hætti og stendur vörð um sitt eigið fullveldi,“ segir þannig í bréfi Haye. „Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ætti að leggja fram áætlun um að koma á raunverulegu varnarbandalagi með sjálfstæðri hernaðargetu sambandsins.“ Þá skuli hefja könnunarviðræður við Ísland og Noreg um inngöngu landanna í Evrópusambandið. Með öðrum orðum að við Íslendingar og Norðmenn verðum hluti af hinu fyrirhugaða evrópska stórríki.

Frá upphafi hefur lokamarkmið Evrópusambandsins og forvera þess verið að til yrði sambandsríki. Til að mynda kom fram í Schuman-yfirlýsingunni 1950, sem markar upphaf sambandsins, að fyrst yrði að koma stál- og kolaframleiðslu Evrópuríkja undir eina stjórn en lokamarkmiðið væri evrópskt sambandsríki. Síðan hefur það jafnt og þétt öðlast fleiri einkenni ríkis. Nú síðast var til að mynda talað um lokamarkmiðið í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Þýzkalands.

Vert er að geta þess að aðild að Renew Europe eiga meðal annars þingmenn á þingi Evrópusambandsins sem koma frá evrópsku samtökunum ALDE en Viðreisn á meðal annars aðild að þeim samtökum. Þá má geta þess að Evrópuhreyfingin undir forystu Jóns Steindórs Valdimarssonar, fyrrverandi þingmanns flokksins, hefur sótt um aðild að European Movement International sem stefnt hafa að því undanfarin tæp 80 ár að til yrði evrópskt sambandsríki.

Hjörtur J. Guðmundsson

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur.

Arnarlax : eigið fé 17 milljarðar króna

Arnarlax hefur birt upplýsingar um afkomu sína í fyrra. Afkoman varð mun verri en árið 2023 og greinilegt að mikill laxadauði vegna lúsafárs á árinu 2023 hafði veruleg áhrif.

Tekjur síðasta árs urðu 39% minni en árið áður eða liðlega 9 milljörðum króna lægri. Tekjur ársins urðu um 15 milljarðar króna og 860 m.kr. tap varð af rekstrinum. Slátrað var 11.700 tonnum í fyrra en 17.900 tonnum árið 2023.

Afkoman á síðasta ársfjórðungi 2024 varð hins vegar mun betri en nemur niðurstöðu ársins og sýndi reksturinn þá jákvæða afkomu.

Erlend verð voru góð fyrir eldisfisk Arnarlax, sérstaklega á Bandaríkjamarkaði og jókst salan þangað.

Eiginfjárstaða Arnarlax er sterk. Eigið fé er um 17 milljarðar króna og er það 57% af heildareignum.

Á þessu ári er áætlað að slátrað verði 15 þúsund tonnum af eldislaxi.

Arnarlax hefur framleiðsluleyfi fyrir 23.700 tonnum af eldislaxi í þremur fjörðum á sunnanverðum Vestfjörðum. Auk þess hefur verið sótt um leyfi fyrir 4.500 tonna eldi í Arnarfirði og unnið er að því að fá aftur leyfi fyrir 10 þúsund tonna elda á ófrjóum eldislaxi í Ísafjarðardjúpi sem Matvælastofnun gaf út en úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál felldi úr gildi.

Vegleg gjöf Lionsklúbbs Ísafjarðar til Eyrar, hjúkrunarheimilis á Ísafirði

Frá athöfninni í gær. Mynd: Lionsklúbbur Ísafjarðar.

Lionsklúbbur Ísafjarðar var stofnaður 25. júní 1967 og hefur því verið starfandi í hartnær 58 ár. Hann hefur staðið fyrir margs konar fjáröflunum þessi ár. Selt heimilisvörur, verkað harðfisk. Bleikjusala var sameiginlegt verkefni Lionsklúbba á norðanverðum Vestfjörðum. Fengu félagsmenn viðurkenningu fyrir góðan árangur af sölunni og var fjallað um hana í Chicago. Við fengum um árabil lánað skipið Guðnýju til fiskveiða og var aflanum jafnan landað í Norðurtanga. Aflaðist undantekningalaust vel undir styrkri skipstjórn Kristjáns Jónssonar. KLúbburinn naut sérstakrar velvildar Sigurðar Sveinssonar frá Góustöðum útgerðarmanns og einnig kaupanda aflans, Norðurtangans. Andvirðið rann óskipt til vistheimilsins Bræðratungu.

Siðustu 25 ár hefur aðal fjáröflun verið skötuverkun sem er, eins og allir vita, ómissandi á Þorláksmessu. Við þökkum íbúum Ísafjarðarbæjar og annars staðar fyrir að taka „Lionsskötunni“ sem og öðrum fjáröflunum okkar sérlega vel. 

Andvirðinu hefur verið varið til margvíslegra mála einkum þó til heilbrigðisstofnanna, heimilis aldraðra og þroskaheftra, Rauða krosssins og auk þess höfum við notið aðstoðar Ísafjarðarkirkju til hjálpar þeim sem veikindi eða slys hafa hrjáð.

 Auk þessa studdum við, ásamt Ísafjarðarbæ og fleirum, vini okkar Færeyinga um eina miljón þegar þeir urðu fyrir tjóni í óveðri á Suðuroy. Andvirðið var nýtt til kaupa á bifreið til  að aka eldri borgurum á hjúkrunarheimili í Vági. 

Í gær gáfu félagar í Lionsklúbbi Ísafjarðar kr. 600.000 til hjúkrunarheimilins Eyrar til kaupa á tveimur stórum sjónvarpsskjám sem kemur sér einkar vel fyrir íbúa stofnunarinnar. Auður Ólafsdóttir, hjúkrunarstjóri veitti gjöfinni móttöku og kunni Lionsklúbbi Ísafjarðar bestu þakkir fyrir þessa hugulsömu gjöf.  

Kristján Pálsson, formaður.

Vestfirskir listamenn : Daníel Ágúst Daníelsson

F. 21. maí 1902 að Hóli Önundarfirði. D. 22. nóvember 1995 í Reykjavík.

Öndvegisverk: Þýðingarverkin; Sonnettur William Shakespeare, 1989. Andalúsíuljóð arabískra skálda, 1994.

Misjafnt er hve mikið er fjallað um listamenn enda eru þeir misjafnlega mikið fyrir athyglina þrátt fyrir að margir álíti að listamenn séu bara sjálfhverfir og tali aðeins um sjálfan sig meira segja í tveggja manna samtali. Listumfjöllun er nauðsynleg og þá ekki síst listamönnunum sjálfum og eigi síður listapparötum allra þeirra er stóla mest á listkaupendur nefnum þar helst leikhúsin, skálda- og myndlistarsenuna. Einn er þó flokkur listamanna sem verður oft utan umfjöllunar og það eru snarararnir, þeir sem færa okkur verk hinna erlendu skálda uppá okkar ilhýra. Já, við erum að tala um þá stétt sem þýðir hin erlendu verk yfir á okkar tungu. Sannlega er það mikil list. Einn úr þessum hópi er hinn vestfirski snarari, lífskúnstner og doktór Daníel Ágúst Daníelsson frá Hóli í Önundarfirði.

Frá líkamlegri til andlegrar glímu

Í upphafi er gott að kynna manninn. Í minningargrein ritaði Björn Þórhallsson um hinn listræna doktór: Daníel var líklega ekki allra manna. Hann var í meðallagi á vöxt, þess tíma. Ennið var hátt og yfirbragðið fullt af alvöru. Nefið í stærra lagi og fagurlega sveigt. Hann hló lítið hversdagslega, en bjó þo yfir dillandi hlátri sem mér er ógleymanlegur. Þegar þessi yfirlætislausi maður hló, þá hreinlega sprakk hann af hlátri og alvarlegu augun hans geisluðu um leið og munnvikin sveigðust í átt til eyrna.

Foreldrar Daníels tóku einmitt snemma sveigju frá Hóli og fluttu til Suðureyrar. Þar tók Daníel snemma þátt í félagsstarfi þorpsins og þótti sérlega liðtækur liðsmaður hjá íþróttafélaginu Stefni var meira að segja formaður félagssins um tíma. Einkum þótti Daníel sundmaður góður en þó eigi síður glímukappi hinn besti. Þrátt fyrir annir íþróttanna gaf hann sér tíma til að nema orgelleik hjá Kristjáni Þorvaldssyni kaupmanni á Súganda. Klaverspilið fylgdi honum svo áfram og út ævinina en einnig þótti hann liðtækur fiðluleikari enda greip hann ósjaldan til músíkspils á heimilinu sínu þar eftir sem hingað til. Árið 1922 er Daníel kominn suður hvar hann sest á skólabekk við Samvinnuskólann og útskrifaðst þaðan tveimur árum síðar. Á sama tíma sat hann einnig myndlistartíma hjá hinum vestfirska listamanni Guðmundi Thorsteinssyni er kallaður var Muggur og ólst upp á Bíldudal. Einsog með músíkina átti teikninginn eftir að fylgja Daníel út ævinina. Drátthæfileiki hans sést vel í teikningu hans af skáldjöfrinum William Shakespeare er birtist í Sonnettuþýðingum hans og svo má einnig geta þess að Daníel teiknaði að hluta hið listræna hús, Árgerði við Dalvík, sem hann og kona hans Dýrleif Friðriksdóttir reistu nær hann gjörðist læknir í Dalvík.

Læknir já. Daníel silgdi til Ammeríku 1925 hvar hann hóf læknanám við Kaliforníu háskóla lauk þó eigi kandídatnámi sínu þar heldur útskrifaðist frá Háskóla Íslands nokkru síðar. Fyrsta læknaembættið var fyrir vestan í hinu harðbýla Hesteyrarhéraði en veran þar var bara tvö ár. Að vestan lá leiðin norður fyrst á Siglufjörð en loks á Dalvík hvar hann læknaði allt til starfsloka 1972.

Listin að snara

Listahjarta og stengur fylgdu ávallt lækninum. Áður var minnst á músíkina og teiknilistina en mikilhæfasta verkið var að snara verkum annarra skálda yfir á íslenskuna. Meistaraverkið er án efa þýðing hans á öllum 154 sonnettum breska skáldjöfursins William Shakespeare er Bókaútgáfa Menningarsjóðs gaf út 1989. Einstaklega vönduð útgáfa hvar í upphafi bókar má sjá teikningu Daníels frá 1926 af skáldinu. Einnig er ítarlegur formáli snararans er segir m.a. um verkið: Shakespeare orti Sonnetturnar á rúmum þremur árum (1592 – 1595) flestar í London, nokkrar á ferðalögum með leikflokkum um nærliggjandi héruð en fæstar á heimili sínu í Stratford. Allar voru þær skyldu ljóð (duty sonnets) tileinkaðar og sendar lávarðinum sem var, að þeirrar tíðar hætti, verndari og velgerðamaður (patron) höfundarins.

Fimm árum síðar, 1995, kom síðan út snörun Daníels á Andalúsíuljóðum Arabískra skálda.  Hér er eigi síður á ferðinni stórmerkilegt rit sem mikill fengur var og er fyrir okkur til að opna heim heimsbókmenntanna fyrir hinni Íslensku þjóð var sannlega erindi Daníels. Í þrjár aldir, 10 – 12 öld, má segja að Arabíuskáldin hafi átt ljóðasenuna í Spánarlandi. Athygli vekur að skáld þessi voru flest í hæðstu embættum allt frá vesírum til konunga. Yrkisefnið víðfermt allt frá ástum til bardaga og lofsöngva tileiknaði náttúrunni. Allt frá því þau voru sett á blað hafa þau gefið trúabúrdum heims sem skáldum á borð við Federico Carcia Lorca andagiftina en eitt af hans síðustu ljóðaverkum var einmitt undir merkjum  arabísk skáldskapar.

Eiginkona Daníels var Dýrleif Friðriksdóttir ljósmóðir og eignuðust þau þrjú börn en fyrir átti Daníel einn son. Barnabörnin urðu svo fjöldamörg og má þar nefna alnafna hins listelska læknis, Daníel Ágúst Haraldsson söngvari hinnar geðþekku hljómsveitar Ný dönsk og GusGus. Víst hefur hann fengist talsvert við textann einsog afi sinn og er m.a. texta höfundur slagara á borð við Alelda og Hunang.

Höfundur: Elfar Logi Hannesson, blekbóndi og leikhúsmaður Dýrafirði

Aðal heimildir: Morgunblaðið 1. 12. 1995. Sonnettur William Shakespeare, Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1989. Andalúsíuljóð Arabískra skálda, Mál og menning 1994.

Árgerði við Dalvík.

Hvað er malbik og hvað er klæðning?

Malbik er blanda af steinefni, biki og stundum öðrum efnum. Þyngdarhlutföllin er 94-95 % steinefni og um 5-6 % bik.

Malbik er blandað á blöndunarstöðum. Steinefnið er þurrkað við um 150-160°C hita og heitu og þunnfljótandi bikinu hrært saman við ásamt aukaefnum. Blandan er flutt heit og lögð í um 35-55 mm þykku lagi með sérstakri útlagningarvél. Síðan er valtað yfir þar til tilskilinni þjöppun er náð. Vegir með malbiki þola mun meiri og þyngri umferð en vegir með klæðingu en hins vegar er malbik fimm sinnum dýrara en klæðing eins og kemur fram hér að framan. 

Klæðing er bundið slitlag sem er mun ódýrara en malbik. Það er fljótlegt í útlögn og ekki þarf blöndunarstöð. ​Við útlögn er steinefni dreift ofan á bindiefnið​, sem er þynnt bik með leysiefni, vatni og lífolíu.

Eftir að klæðing er lögð á veg er sópað yfir eftir ákveðinn tíma. Klæðing þolir allt að  2-3 þúsund bíla ÁDU (umferð á sólarhring) og er hagkvæmt þegar vel tekst til.  Klæðing er síður hentug við þegar umferðarþungi er meiri, sér í lagi ef þungaumferð er mikil. 

Ísland fjórtánda mesta fiskveiðiþjóðin árið 2022

Sjávarafli allra ríkja heimsins var tæplega 81 milljón tonn árið 2022 samkvæmt Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) sem er örlítill samdráttur frá fyrra ári.

Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands

Mest var veitt af perúansjósu, alaskaufsa og randatúnfisk en á meðal tíu mest veiddu tegunda voru síld, makríll og þorskur sem eru þekktar tegundir á Íslandsmiðum.

Aflamestu ríki heims voru Kína, Indónesía og Perú en Ísland er í fjórtánda sæti yfir aflahæstu ríki ársins.

Nýjustu fréttir