Stjórnsýsluhúsið Ísafirði.
Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á dögunum að taka upp frístundastyrk fyrir börn í 5.–10. bekk í grunnskóla, sem eru með lögheimili í Ísafjarðarbæ.
Foreldrar eiga því að geta farið inn á Abler þegar greiða á æfingargjöld og valið að ráðstafa frístundastyrk Ísafjarðarbæjar upp í gjöldin.
Markmið styrksins er að tryggja jöfnuð, auka fjölbreytni í íþrótta-, lista- og tómstundastarfi og styðja við þroska barna og unglinga. Einnig að hvetja til meiri hreyfingar, félagslegra samskipta og hjálpa til við að koma í veg fyrir að börn og unglingar hætti í tómstundum.
Háskólasetur Vestfjarða (HV) hefur hlotið styrk frá NordForsk fyrir verkefnið „LostToClimate“, sem mun rannsaka óhjákvæmileg tjón, önnur en efnahagsleg, sem samfélög á Norðurslóðum verða fyrir vegna loftslagsbreytinga. Þetta samstarfsverkefni sameinar vísindamenn og samfélög í Finnlandi, Svíþjóð, Noregi, Íslandi, Grænlandi, Kanada og Bandaríkjunum, þar á meðal nokkur samfélög frumbyggja, til að skapa nýja þekkingu sem getur stutt við aðlögun í framtíðinni.
Matthias Kokorsch, fagstjóri meistaranámsins í Sjávarbyggðafræði, sótti um og tók við styrknum fyrir hönd HV og verður verkefnastjóri verkefnisins á Íslandi.
Ljóst er að það var mikil samkeppni en af um 200 umsóknum sem bárust NordForsk hlutu aðeins níu verkefni styrk, þar af tvö sem HV tekur þátt í. NordForsk hefur úthlutað samtals meira en 330 milljónum norskra króna til þessara 9 verkefna sem fjárfestingar í Norðurslóðum. „LostToClimate“ verkefnið mun standa yfir í 4 ár og lýkur árið 2029.
Frekari upplýsingar um LostToClimate verkefnið má finna á síðu NordForsk.
Hanna Katrín Fridriksson, atvinnuvegaráðherra og Daði Már Kristófersson, fjármálaráðherra kynntu frumvarpsdrögin.
Frumvarp ríkisstjórnarinnar um veiðigjöld hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Í frumvarpinu er mælt fyrir um breytingar sem munu auka tekjur ríkissjóðs verði frumvarpið að lögum. Áætlað er að þá muni tekjur af veiðigjaldi uppsjávartegunda hækka um 3–4 milljarða kr. árlega og veiðigjald í þorski og ýsu hækka um 5–6 milljarða kr. árlega miðað við óbreytt aflamagn. Samtals er áætluð hækkun 8 – 10 milljarðar króna á ári.
Samkvæmt töflu 15 í frumvarpsdrögunum er áætlað að innheimt veiðigjald verði 17 – 19 milljarðar króna á ári frá og með næsta ári 2026 fram til 2030. Er þetta nærri tvöföldun á innheimtu veiðigjaldi frá því sem verið hefur.
Veiðigjald þorsks verði 45,59 kr/kg – eldislax er 45,03 kr/kg
Birt er tafla um fjárhæð hvert veiðigjald á þorski og ýsu hefði verið á árunum 2023 til 2025 miðað við reglur frumvarpsins. Veiðigjald í þorski sem er 28,68 kr/kg í ár myndi vera 45,59 kr/kg ef frumvarpið væri orðið að lögum. Hækkunin er um 71%. Til samanburðar þá er fiskeldisgjaldið í ár af frjóum eldislaxi 45,03 kr/kg. Það var á síðasta ári 30,77 kr/kg og hækkað um 46% milli ára. Hækkun fiskeldisgjaldsins frá 2023 er enn meiri eða 146% en það var þá 18,33 kr/kg.
Þórunn Þórðardóttir var við rannsóknir út af Vestfjörðum og fyrir norðan land.
Þórunn Þórðardóttir HF 300, nýtt rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar, kom til hafnar í Hafnarfirði á sunnudag eftir að það lauk sínum fyrsta leiðangri.
Þórunn var hluti af verkefninu Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum. Þrjú önnur skip tóku þátt í verkefninu, togararnir Breki og Þórunn Sveinsdóttir og rannsóknaskipið Árni Friðriksson. Um borð í þessum fjórum skipum unnu 32 rannsóknamenn og um 70 áhafnarmeðlimir. Togað var á 580 stöðvum á 20-500 m dýpi umhverfis landið.
Verkefnið er mjög viðfangsmikið og eitt af stærstu verkefnum Hafrannsóknastofnunar. Gögnum sem safnað er gegna lykilhlutverki í stofnmati og veiðiráðgjöf fyrir flestar íslenskar botnfisktegundir. Gögnin eru einnig mikilvæg fyrir ýmiskonar vistfræðirannsóknir. Í verkefninu er gögnum safnað um fiska sem flokkast ekki sem nytjategundir og eru þau notuð til að skoða breytingar í tegundafjölbreytileika, m.a. með tilliti til breytinga í hitastigi sjávar.
Skoðað hefur verið í maga þorskfiska í fjöldamörg ár og metinn breytileiki í fæðu eftir svæðum og árum. Í leiðangrinum er einnig safnað sýnum vegna ýmissa annara rannsókna, t.d. á mengunarefnum í sjávarfangi og mat lagt á magn rusls á sjávarbotni.
Auk þess var botndýrum sem fást sem meðafli safnað á nokkrum stöðvum um borð í Þórunni Þórðardóttur til að fylgjast með lífmassa, fjölbreytileika og útbreiðslu botndýra við Ísland.
Einar Guðnason ÍS við bryggju á Ísafirði í gær.
Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.
Eiinar Guðnason ÍS frá Suðureyri var dreginn til lands í gær vegna bilunar. Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri Íslandssögu sagði í samtali við Bæjarins besta að bilunin sem varð hafi verið alvarleg en við athugun minni háttar. Fæðuhringur fyrir glussa á stýri bátsins bilaði og erfitt að bregðast við því út á sjó. Því varð að draga bátinn til hafnar og Gísli Jóns var fenginn til þess.
Að sögn Óðins var fljótgert að gera við og er báturinn aftur farinn á sjó.
Martha Kristín Pálmadóttir var endurkjörin formaður Sigurvonar á aðalfundi krabbameinsfélagsins á fimmtudag. Öll stjórnin var endurkjörin á fundinum og því enn skipuð Fjölni Ásbjörnssyni, Hjördísi Þráinsdóttur, Davíð Birni Kjartanssyni og Elísu Stefánsdóttur auk Mörthu. Varamenn eru Heiðrún Björnsdóttir og Ólafur Guðsteinn Kristjánsson.
Í skýrslu fráfarandi stjórnar kom fram að eitt stærsta verkefni ársins er aðstoð félagsins við innréttingu nýs lyfjabergis Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða sem ætlað er einstaklingum með krabbamein. Sigurvon hefur í samráði við starfsmenn stofnunarinnar keypt ýmsa innanstokksmuni og aðra hluti sem nýtast munu gestum herbergisins. Fyrir rúmum áratug var Sigurvon í fararbroddi í peningasöfnun til þess að hægt væri að bjóða lyfjagjöf í höfuðstað Vestfjarða, Ísafirði. Hófst þá söfnun fyrir lyfjaskáp og fjórir hjúkrunarfræðingar sóttu námskeið. Sigurvon sá einnig um að innrétta herbergið og kaupa innanstokksmuni ásamt fleiri munum. „Með tilkomu þess bauðst einstaklingum í krabbameinsmeðferð loks að fá lyfjameðferð í heimabyggð. Óneitanlega var um mikla framför að ræða sem sparar bæði tíma og peninga en ekki síst sparar orku fólks því það tekur á, bæði andlega og líkamlega, að ferðast reglulega suður til Reykjavíkur. Var því mikið hagsmunamál hjá stjórn Sigurvonar að stuðla að því að nýja herbergið væri einnig sem best búið,“ segir í skýrslunni.
Í kjölfarið urðu meðal fundargesta umræður um mikilvægi slíks herbergis og hvort ekki væri hægt að yfirfæra þjónustuna einnig yfir á börn sem þurfa lyfjameðferð. Eins og gefur skilja er það mikið álag fyrir barnafjölskyldur að þurfa að fara reglulega suður til að sækja læknismeðferð. Yrði það mikill akkur ef hægt væri að auka góða þjónustu HVest til þess að hún myndi einnig ná til barna. Var samþykkt að koma þeirri áskorun á framfæri við stofnunina.
Einnig kom fram á fundinum að starf félagsins hefur staðið straustum fótum síðustu ár, þökk sé dyggum stuðningi samfélagsins.
Fundarboðendur Jens Garðar Helgason, varaformaður og Vilhjálmur Árnason, ritari. Á milli þeirra er starfsmaður þingflokksins.
Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður flokksins forfallaðist vegna áríðandi þingstarfa.
Fram kom á opnum fundi Sjálfstæðisflokksins í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í hádeginu í gær að bæð Jens Garðar Helgason, varaformaður flokksins og Vilhjálmur Árnason, ritari flokksins styðja hugmyndir um Vatnsdalsvirkjun í Vatnsfirði.
Elías Jónatansson, Orkubússtjóri fór yfir umsókn Orkubúsins til Umhverfis- , orku- og loftalagsráðuneytisins þar sem farið er fram á að aflétta að hluta til friðunarskilmálum í Vatnsfirði svo unnt verði að taka Vatnsdalsvirkjun fyrir í rammaáætlun og láta gera umhverfismat fyrir 20 -30 MW virkjun í botni Vatnsfjarðar. Elías sagði að ef af þessu yrði myndi raforkuöryggi á Vestfjörðum aukast um 90%. Erindið er enn óafgreitt í ráðuneytinu þrátt fyrir að rúmlega eitt ár sé síðan það var sent.
Bæði Jens Garðar og Vilhjálmur voru fylgjandi því að verða við erindinu. Fram kom einnig hjá Jens Garðari að hann er almennt mjög gagnrýninn á rammaáætlunina sem tæki til þess að ákvarða virkjunarkosti og kvað hana ónýtt tól sem tæki alltof mörg ár.
Jens Garðar Helgason, varaformaður ræddi töluvert um orkumálin og taldi mikla þörf á frekari virkjunum. Nefndi hann að Landsvirkjun teldi þörf á 5.000 GWh fram til 2030 til viðbótar við núverandi orkuframleiðslu en í nýlegri tillögu stjórnvalda væri aðeins lagðir til nýir orkukostir upp á um 1.800 GWh. Vandinn væri einkum í því að regluverkið væri of viðamikið sem þýddi að það tæki 15 – 20 ár að koma virkjunarkosti til framkvæmda, vandinn væri að verulegu leyti heimatilbúinn.
Fundurinn var vel sóttur. Í framsöguerindum varaformanns og ritara var vikið að ýmsum málum svo sem áætlunarflugi til Ísafjarðar og var ekki talinn vafi á því að það yrði áfram heldur fremur spurning um hvernig.
Spurt var um nýtt kílómetragjald á bifreiðar og kom fram að Sjálfstæðisflokkurinn er heldur andvígur því og telur að um verði að ræða auknar álögur á landsmenn.
Á fundinum kom einnig fram andstaða við hækkun veiðigjalda í sjávarútvegi og sagði Jens Garðar að ríkisstjórnin hygðist hækka álögur á ferðaþjónustu og tvöfalda veiðigjaldið. Þá var rætt um innviðagjald á skemmtiferðaskip og breytingar á strandveiðkerfinu sem tryggja eiga 48 daga sókn hvers báts og komu fram áhyggjur af þessum áformum.
Boðið var upp á súpu og brauð á hádegisfundi Sjálfstæðisflokksins í Edinborgarhúsinu á Ísafirði.
Að lesa leikrit er góð skemmtun hvað þá í góðra vina hópi. Verkefnið Gefum íslensku séns býður nú öllum er áhuga hafa að mæta til leiklestrar í Fræðslumiðstöðinni Ísafirði. Leiklesið verður leikritið Skjaldhamrar eftir Jónas Árnason. Leikritið hefur sterka vestfirska tengingu þó frjálslega sé farið með efnið. Leikurinn gerist í seinni heimstyrjöldinni hvar Bretar leita að þýskum njósnara sem talin er dyljast á Vestfjörðum. Leitin berst að Skjaldhamravita fyrir vestan hvar Kormákur vitavörður gætir vita og bús. Það verður heldur betur uppi fótur og fit nær Bretarnir mæta á þennan afskekkta stað. Bresku sendiboðarnir falla hins vegar bæði fyrir vitaverðinum og hinu heillandi vestfirska landslagi og til að gera langa sögu stutta má segja að hvort tveggja leggur bara breska heimsveldið einsog það leggur sig. Leiklesturinn verður í Fræðslumiðstöðunni Suðugötu 12, Ísafirði
Leiklestrinum verður skipt niður á tvö kveld eða sem hér segir:
Þriðjudaginn 1. apríl kl.19.30 – 21.30
Fimmtudaginn 3. apríl kl.19.30 – 21.30.
Aðgangur er ókeypis og öllum opin.
Allir sem vilja fá tækifæri til að lesa og svo má líka bara mæta til að hlusta.
Frá Djúpvegi 61, Hestur í Hestfirði fyrr í þessum mánuði.
Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.
Þeim sérstöku ásþungatakmörkunum sem hafa verið í gildi á Djúpvegi 61, frá Vestfjarðavegi 60 við Þröskulda til Súðavíkur var aflétt kl. 8:00 í morgun þriðjudaginn 25. mars. 2025.
Matvælastofnun hefur tekið ákvörðun um útgáfu á breyttu leyfi Ís 47 ehf. til sjókvíaeldis í Önundarfirði. Breytingin heimilar eldi á 1.000 tonna lífmassa af regnbogasilungi og frjóum laxi í Önundarfirði en heimild til eldis á þorski er felld úr leyfinu samhliða breytingunni. Hámarkslífmassi verður óbreyttur, en eldisskilyrði breytast í samræmi við tilkomu frjós lax í rekstrarleyfið. Breytingin felur einnig í sér færslu svæðis frá Ingjaldssandi yfir á Hundsá, þannig að áfram eru einungis tvö eldissvæði í leyfinu.
Breytingin á rekstrarleyfinu tekur þegar gildi, en gildistími leyfisins helst óbreyttur gildir til 8. janúar 2037.
Heimilt er að kæra ákvörðun Matvælastofnunar um útgáfu á breyttu rekstrarleyfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og er kærufrestur einn mánuður frá birtingu auglýsingar Mast, sem var 24.3. 2025.