Föstudagur 8. nóvember 2024
Síða 2

Tryggjum frelsi til handfæraveiða – eflum sjávarbyggðirnar

Eyjólfur Ármannsson, alþm.

Frá því kvótakerfið var lögfest árið 1983 hefur okkur aldrei tekist að uppfylla markmið kvótakerfisins, sem var að auka veiði. Árin fyrir lögfestingu kvótakerfisins veiddust yfirleitt um 400.000 tonn af þorski á ári og studdum mun meira, en síðan kvótakerfið tók gildi þá heyrir það til undantekninga að þorskaflinn nái yfir 200.000 tonn.

Loforðið var að með því að kvótasetja eða binda veiðarnar við ákveðið magn hverju sinni þá munum við efla fiskstofnana og þegar upp væri staðið ætti aflinn a.m.k. að hafa tvöfaldast á fimm til átta árum, hann átti a.m.k. að ná í 500.000 tonn. Hér erum við árið 2024, enn með okkar 200.000 tonn. Forsendan fyrir kvótakerfinu brást, og því ættum við að hugsa sjávarútvegskerfið okkar upp á nýtt.

Við í Flokki fólksins höfum barist fyrir því frá stofnun flokksins, að handfæraveiðar verði gerðar frjálsar. Það er ekki flóknara en það. Við verðum að bera virðingu fyrir hinum brothættu sjávarbyggðum hringinn í kringum landið sem byggja tilvist sína á nálægð við fiskimiðin og fjölbreyttum hópi strandveiðimanna. Án sjávarbyggða landsins er Ísland fátækara samfélag og án strandveiðimanna og smáútgerða þeirra sem eru ein grunnstoðum þessara byggða.

Við viljum að stjórnvöld viðurkenni það arðrán sem hefur átt sér stað í litlum sjávarplássum sem eiga mörg hver í dag í vök að verjast. Þessi litlu samfélög, sem hafa reitt sig á sjóinn öldum saman og tilvera þeirra byggist á, hafa þurft að horfa upp á að undirstöðu byggðanna hefur verið kippt undan þeim. Atvinnufrelsi íbúanna hefur verið tekið frá þeim. Það er sárara en tárum taki að þurfa að horfa upp á hvernig sérfræðingar að sunnan, sem telja sig vita allt betur en sjómenn og heimamenn, hafa með ráðgjöf sinni og reglusetningu vegið hart að áður blómlegum sjávarbyggðum.

Eitt er það sem við vitum öll. Krókaveiði strandveiðibáta mun aldrei ógna fiskistofnum og lífríkinu í kringum landið. Því skortir rök fyrir takmörkun á atvinnufrelsi íbúa sjávarbyggðanna til handfæraveiða.

Í lagi er að koma með stækkandi vélarafl og skrapa hér botninn, eyðileggja kóralana og lífríki sjávarbotns án gagnrýni sérfræðinga. En svo þegar strandveiðibátar fara í dagróður með króka og er öllu skellt í lás um mitt sumar. Furðulegt er hvernig í stjórnvöldum dettur í hug að ráðast svona að strandveiðimönnum sem flestallir búa einmitt í þessum litlu sjávarbyggðum.

Það er ósanngjarnt, það er óréttlátt, það er óskilvirkt og það er eiginlega til háborinnar skammar hvernig komið er fram við þessa atvinnugrein. Það getur vart talist þjóðhagslega hagkvæmt að á hverju einasta sumri skuli í rauninni vera slengt gjörsamlega í lás hjá atvinnugrein strandveiðisjómanna, sem óumdeilt hefur reynst mikil lyftistöng fyrir hinar brothættu sjávarbyggðir.

Gefum frjálsar handfæraveiðar. Það myndi skipta gríðarlega miklu máli og það myndi gjörbreyta starfsumhverfi og lífinu í sjárvarbyggðunum, oft litlum sjávarplássum sem eiga í vök að verjast.

Eyjólfur Ármannsson

Höfundur er þingmaður og oddviti Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi.  eyjolfur@flokkurfolksins.is

Andlát: Vilberg Vilbergsson

Villi Valli, heiðursborgari Ísafjarðarbæjar.

Látinn er Vilberg Valdal Vilbergsson, heiðursborgari Ísafjarðarbæjar. Hann var fæddur á Flateyri við Önundarfjörð 26. maí árið 1930, sonur Vilbergs Jónssonar, vélsmiðs, og Jóhönnu Steinunnar Guðmundsdóttur. Villi Valli var gæddur óvenjulegum tónlistarhæfileiku og hann var ekki nema 12 ára þegar hann lék í fyrsta sinn á harmoniku fyrir dansi á Flateyri. 

Árið 1950 flutti Villi Valli til Ísafjarðar til að nema hárskera- og rakaraiðn hjá Árna Matthíassyni og varð það hans aðalstarf í yfir sextíu ár. Á Ísafirði hélt hann áfram í tónlistinni og stofnaði fjölda hljómsveita á næstu áratugum, tríó, kvartetta og stærri bönd, sem íbúar Ísafjarðarbæjar muna margir eftir. Árið 1959 tók Villi Valli við stjórn Lúðrasveitar Ísafjarðar og stjórnaði henni í níu ár, en var virkur félagi í henni lengi eftir það. Hann spilaði með Harmonikufélagi Vestfjarða um árabil. Hann gaf út tvo hljómdiska, árið 2000 „Villi Valli“ og árið 2008 „Í tímans rás“, auk þess sem hann spilaði í Saltfiskveit Villa Valla á diskinum „Ball í Tjöruhúsinu“ árið 2009. Villi Valli var einnig listmálari og eftir hann finnast mörg falleg verk í húsakynnum Vestfirðinga. Kona hans, Guðný Magnúsdóttir var en hún lést 2017.

Vorið 2018 samþykkti bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að gera Vilberg Vilbergsson að heiðursborgara Ísafjarðarbæjar.

Viðreisn: styðjum fiskeldið eindregið

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar og fyrrv. sjávarútvegsráðherra.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar sagði aðspurð í samtali við Bæjarins besta að Viðreisn styddi laxeldið í sjó endregið og teldi uppbyggingu þess mikilvæga fyrir þjóðarbúið.

Tilefnið var spurning til stjórnmálaflokkanna á fundi á Akureyri í gærkvöldi þar sem sýnd var heimildarmynd um stöðvun laxveiði í 33 ám í sumar í Noregi. Spurt var hvort flokkarnir vildu setja sólarlagsákvæði í lög um fiskeldi sem myndi banna sjókvíaeldi innan fárra ára.

Þorgerður Katrín lét það koma skýrt fram að hún styddi ekki slík áform. Benti hún m.a. á mikil og góð áhrif af uppbyggingu laxeldisins á byggðir á Vestfjörðum, sérstaklega á sunnanverðum Vestfjörðum. Sagði hún að laxeldið, bæði á sjó og á landi væru mikilvægar atvinnugreinar sem efldu þjóðarhag. Sérstaklega nefndi hún að stærri hluti af fiskeldisgjaldinu ætti að renna heim í hérað til þess að mæta uppbyggingu sveitarfélaganna.

Hins vegar áréttaði hún að fyrirtækin sem stunduðu laxeldið yrðu að sýna samfélagslega ábyrgð og að umhverfismál og dýravelferð væru mikilvæg atriði og að Viðreisn gerði kröfur um að atvinnugreinin legði sig fram í þeim efnum.

Héraðssamband Strandamanna 80 ára

Héraðssamband Strandamanna fagnar 80 ára afmæli í ár en það var stofnað þann 19. nóvember 1944.

Í tilefni þessa merka áfanga er félögum í íþróttafélögum sambandsins, íbúum sveitarfélaga á Ströndum og öðrum velunnurum boðið í afmælisveislu í Félagsheimilinu á Hólmavík, sunnudaginn 17. nóvember kl 14.

Boðið verður upp á glæsilegt kaffihlaðborð eins og Strandamenn eru þekktir fyrir.

Jónas Guðmundsson GK 275 áður Flosi ÍS 15

Jónas Guðmundsson GK 275 kemur hér að landi í Sandgerði í febrúarmánuðið árið 2004. Báturinn var gerur út af J&G ehf. og með heimahöfn í Garði.

Í dag heitir báturinn Óskasteinn ÍS 16 en frá því að hann bar nafnið Jónas Guðmundsson og til dagsins í dag hefur hann borið nöfnin Fagurey HU 9 og Fagurey HF 21, Ígull HF 21, Ýmir BA 32 Ýmir ÁR 16 og Óskasteinn ÍS 16.

Báturinn hét upphaflega Flosi ÍS 15 og er 29 brl. að stærð. Flosi var smíðaður í Bátasmiðjunni Vör h/f á Akureyri árið 1977. Báturinn, sem smíðaður var fyrir Græði h/f og Jón Egilsson skipstjóra í Bolungarvík, hafði smíðanúmer nr. 9 hjá Vör.

Árið 1983 var báturinn seldur til Reykjavíkur og fékk nafnið Sæljón RE 19 sem hann bar næstu 17-18 árin. Eigandi Guðmundur Gunnarsson skipstjóri og útgerðarmaður.

Árið 2001 fékk útgerðin nýtt Sæljón RE 19 sem smíðað var í Kína og fékk báturinn þá nafnið Sæljón II RE 119 í stuttan tíma en var síðan keyptur til Hafnar í Hafnarfirði haustið 2001. Þar fékk hann nafnið Jón Aðal SF 63.

Það var svo haustið 2002 sem hann fék nafnið Jónas Guðmundsson GK 275. Skráður fljótlega í Ólafsvík með SH 317 en varð aftur GK 275 haustið 2003.

Af vefsíðunni skipamyndir.com

Dreifnám í húsasmíði og múraraiðn hjá Menntaskólanum

Á vorönn 2025 er stefnt að því að bjóða upp á tvær nýjar námsgreinar í lotubundnu dreifnámi hjá Menntaskólanum á Ísafirði.

Um er að ræða húsasmíði annars vegar og múraraiðn hins vegar, hvoru tveggja með fyrirvara um næga þátttöku.

Námið verður kennt í staðbundnum helgarlotum og fjarnámi þess á milli.

Nemendur sem náð hafa 23 ára aldri og eru með 3 ára starfsreynslu í viðkomandi grein geta farið í raunfærnimat.

Bíldudalsvegur: Tveggja tonna ásþungi

Frá Bíldudalsvegi. Mynd: Fréttablaðið.

Vegagerðin hefur tilkynnt um tveggja tonna ásþungi sem tekur í gildi kl 14:00 í dag miðvikudaginn á Bíldudalsvegi 63 frá Bíldudalsflugvelli að Helluskarði.

Reykhólabúðin opnar á ný

Reykholabúðin

Þann 4. nóvember var Reykhólabúðin opnuð á ný, en hún hafði ekki verið opin í rúmt ár.

Árný Huld Haraldsdóttir rekur nú Búðina og verslunin verður opin alla virka daga milli klukkan 16:00 og 19:00 og veitingasalan alla virka daga í hádeginu, frá kl. 11:30 til 13:30.

Síðast ráku verslunina Helga Guðmundsdóttir og Arnþór Sigurðsson, sem voru búin að vera með hana í tæplega tvö og hálft ár.

Ísafjarðarbær: hafnarsjóður ber uppi bætta afkomu

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur afgreitt fjárhagsáætlun fyrir næsta árs til seinni umræðu og fer hún fram í næsta mánuði. Heildarniðurstaða af rekstri sveitarfélagsins batnar milli ára samkvæmt áætluninni og verður afgangur 820 m.kr. en var 452 m.kr. í fjárhagsáætlun yfirstandandi árs 2024.

Tekjur eru áætlaðar verða 8,3 milljarðar króna á næsta ári. Útsvar er stærsti tekjuliðurinn 3,3 milljarðar króna og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga 2,2 milljarðar króna. Þjónustutekjur eru taldar verða 1,5 milljarður króna og hækka um fjórðung milli ára. Fasteignaskattar skila 669 m.kr. á næsta ári.

Rekstrargjöldin verða 7,3 milljarðar króna á næsta ári. Launakostnaður er langstærsti liðurinn og verður 4 milljarðar króna. Næststærsti liðurinn eru þjónustukaup og verður 1.268 m.kr. Fjármagnskostnaður er áætlaður 314 m.kr. á næsta ári en 75 m.kr. eru ætlaðar tekjur af sölu eigna.

Tekjur B hluta stofnana verða 1,5 milljarðar króna og þar eru tekjur hafnasjóðs langmestar eða nærri 1.066 m.kr. Athygli vekur að afgangur af rekstri hafnanna er nærri helmingur teknanna og eru áætlaðar verða 491 m.kr. Tekjur af komu skemmtiferðaskipa er uppistaðan í þessar bættu afkomu hafnanna og þar með Ísafjarðarbæjar á síðustu árum.

Yfirlit úr greinargerð með fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar 2025.

Samfylking: vill ekki banna laxeldi í sjó

Logi Einarsson. Mynd: mbl.is / Kristinn

Í gær var frumsýnd á Akureyri myndin Árnar þagna sem fjallar um stöðvun laxveiði í 33 ám í Noregi í sumar. Samtök um náttúrvernd á Norðurlandi fékk fulltrúa stjórnmálaflokkanna til umræðna að lokinni sýningu.

Þar voru þeir spurðir um stuðning við þá tillögu að setja sólarlagsákvæði í gildandi lög um fiskeldi þannig að það laxeldi í sjó yrði bannað innan nokkurra ára.

Logi Einarsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar og oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi sagði

að „ef ég sæi enga þróun fyrir mér varðandi tækninýjungar í greininni þá gæti svarið verið já. En þar sem ég gerði ráð fyrir að að mjög margt mundi gerast á því sviði á næstu árum, væri svarið nei.“

Getum ekki stutt lokun

Í svari við fyrirspurn Bæjarins besta bætti Logi við:

„Sjókvíaeldi er risastór atvinnugrein. Hún veltir tugum milljarða, þetta eru hundruð starfa. Það hefur verið mikil lyftistöng fyrir Vestfirði og Austfirði og gert mikið fyrir brothættar byggðir. Við getum ekki stutt þá afdráttarlausu kröfu að sjókvíaeldinu verði bara lokað.

Það þarf að herða á kröfunum sem eru gerðar til fyrirtækjanna. Stórauka eftirlit og þyngja viðurlög. Framtíðarþróun og verðmætasköpun í greininni byggi á skýrum kröfum um sjálfbæra nýtingu með áherslu á traust eftirlit, vöktun og rannsóknir.“

Nýjustu fréttir